Færsluflokkur: Lífstíll
24.10.2007 | 09:01
Rusl eða ekki rusl?
Nú verð ég að fara út og grandskoða ,,ruslið" sem fór út í gær! Ekki spurning. Ég var í skápatiltekt og það fóru fleiri pokar af ,,drasli" út úr húsi sem fara síðan til góðgerðafélaga. Fékk þvílíkan bakþanka þegar ég las um málverkið sem fannst fyrir tilviljun á götu úti. Gæti hugsast að ég hafi hent uppáhalds hálsbindum míns elskulega? Úps, eins gott að hann komist ekki í pokaskjattana, þá er ég í vondum málum.
Minn elskulegi er einn af þeim sem heldur því fram að allir hlutir komi að góðum notum einhvern tíma seinna á lífsleiðinni og er með hálfgerða söfnunaráráttu en ég aftur á móti held ekki mikið í gamalt ,,drasl" og gef óspart úr skápunum. Almáttugur minn, eins gott að pæla ekki mikið í hverju ég hef fargað um ævina af okkar veraldlega drasli.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 16:34
Föstudagsþankar hvutta - æ mig auman
Ég heyrði á tal fóstru minnar um daginn þar sem hún ræddi þá hugmynd að best væri að láta vana mig. MIG, þennan eðalhund sem hef verið þvílíkt góður undanfarna mánuði og ekki látið mig hverfa síðan óþvera karlinn hér í hverfinu lokaði mig inni heila nótt í þrumuveðri. Mér finnst hún rosalega harðbrjósta, ég á þetta engan veginn skilið. Bara kíkt öðru hvoru á tíkurnar hér í sveitinni á undanörnum árum og aðeins einu sinni átt afkvæmi, en við það vil ég nú ekki kannast og hef megnustu andúð á þeim undanvillingum. Læt bara sem ég hafi aldrei komið þar nærri.
En það er víst engu tauti við hana fóstru mína komandi svo ætli ég verði ekki að gangast undir þessa hræðilegu aðgerð í janúar. Fóstri minn er nú reyndar ekki á sama máli og finnst þetta óþarfa vesen en ,,yfirvaldið" ræður víst hér á heimilinu. Æ mig auman, ég kvíði svo hræðilega fyrir þessu. Hef líka heyrt að hvuttar eins og ég verði bara þunglyndir eftir svona meðferð. En hvað verður maður ekki að sætta sig við í henni verslu?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hehehe.. hér er búið að ríkja stríðsástand undanfarnar klukkustundir og hún fóstra mín var alveg að missa það! Og það er allt mér að þakka eða kenna. Ég þefaði uppi Lilla Klifurmús undir borðstofuskápnum á meðan fóstra mín og fóstri ásamt afa Gunna hámuðu í sig kvöldmatinn. Það er vitað mál að hér þarf enga ketti því ég get þefað uppi Lilla hvar sem hann er og allt hans hyski og það veit hún fóstra mín vel.
Þar sem ég lá og nagaði mitt kvöldbein fann ég lykt sem ég vissi að átti engan vegin heima hér í húsinu og fóstra mín sá að eitthvað var í gangi undir borðstofuskápnum. Kallaði strax til fóstra minn og hann lýsti með vasaljósi undir skápinn en sá auðvitað ekki neitt því Lilli var svo klár að skríða upp bakvið skápinn. Loks tókst fóstra mínum að ná honum undan en þá vildi ekki betur til en svo að hann skaust inn í eldhús og fóstra mín forðaði sér út á veröndina með hljóðum.
En Lilli hefur góðan smekk og faldi sig innan um Gestgjafana sem eru í uppáhaldsborði fóstru minnar. Hún heimtaði að borðinu væri snarlega rennt út og henni afhent Gestgjafinn, sem telur margra ára safn. Borðið sem er á hjólum fór út og fóstri minn selflutti árgangana í hendur fóstru minni sem allt í einu hljóðaði upp yfir sig og viti menn, Lilli hafði skriðið inn í uppáhalds uppskriftamöppuna hennar og auðvitað slapp hann aftur inn í eldhúsið. Fóstri minn var sem sagt alveg skíthræddur við Lilla ekki síður en fóstra mín.
Eftir langa mæðu og eltingaleik tókst fóstra mínum að koma honum út og nú er aumingja Lilli einhvers staðar úti í kuldanum, ja nema hann hafi leitað í Listasetrið því hann hefur víst gert sig heimakominn þar líka en er svo klár að hann nagar bara ostinn úr gildrunum sem fyrir hann hafa verið lagðar. Nú er fóstri minn búin að setja þessa líka forláta Freschezza skinku í gildruna svo á morgun verður sjálfsagt minningarathöfn fyrir Lilla Klifurmús og hans hyski.
Ég prinsinn fékk þvílíkt klapp og smá kjötbita að launum og er mjög upp með mér af afrekum kvöldsins. Nú er ég aftur orðinn númer eitt á heimilinu. Æ ég vona samt að ég þurfi ekki að eltast við Lilla aftur og hans kumpána, ég er nú enginn köttur en mér finnst samt gaman að leika mér að þeim, en bara úti. Var satt að segja sjálfur hálf smeykur við aðskotadýrið. En hafið það samt ekki eftir mér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2007 | 21:26
Síðbúnir föstudagsþankar hvutta.
Þar sem ég kann ekki að kveikja á tölvunni sjálfur og fóstra mín ekki verið viðlátin til að hjálpa mér koma þankar mínir í seinna lagi. Það er líka allt þessum strákpatta að kenna. Hann er núna hér í heimsókn og það snýst allt um hann og ég er gjörsamlega einn og yfirgefinn. Það er varla að þau muni eftir því að gefa mér að borða og ég verð bara að segja það, ég er rosalega fúll á móti.
Fóstra mín skammar mig endalaust allan daginn ef ég gef frá mér smá bofs. Ég er nú samt að reyna að vera rosalega góður en skil ekki hvað er svona merkilegt með þennan pjakk sem bara segir baba, bö, mama, ehe. Síðan fæ ég ekki að koma nálægt dótinu sem fóstra mín segir að hann eigi. Þetta lítur ekkert mikið öðruvísi út en mitt dót svo af hverju má ég ekki líka leika mér að þessu?
OK, hann er jú feikna mikið krútt, verð nú að viðurkenna það og svo fann ég það út að hann á það til að missa fullt af mat á gólfið og það er bara gott mál fyrir hund eins og mig.
En í dag var rosalega gaman, komu hingað margir gestir og allir vildu klappa mér og ég fékk fullt af kampavíni svo ég er bara nokkuð hress eftir allt saman. Meira seinna. Ciao.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 08:28
Föstudagsþankar hvutta - ,,eldhústækið"
Jæja, hún fóstra mín skrapp aðeins frá og þá ætla ég að stelast í tölvuna. Mér varð á í messunni seinasta föstudag, ég gleymdi að kynna mig. Ég heiti Erró og er eðalhundur af Golden Retriever kyni og afskaplega gáfaður og flottasti gæinn í bænum.
Hún fóstra mín er með tölvuna í eldhúsinu og stundum heyri ég hljóð sem fara virkilega í mína fínu taugar. Það er þegar þau fóstri minn og fóstra eru að tala á þetta Skyp við Juniorinn. Það pirrar mig rosalega, hann sem ekki einu sinni kann að tala. Þarna geta þau setið lon og don og bablað einhverja vitleysu og strákurinn er bara eins árs og skilur ekki bofs. Ég er þó að verða átta ára og það er ekki dúllað svona við mig!
Ég er margsinnis búinn að vekja athygli á þessu við þau, með væli, gelti og jafnvel smá urri en þau bara virða mig ekki viðlits og segja mér bara að hafa hægt um mig. Svo á þessi strákpatti líka afmæli í dag. Fuss, gaman að vita hvort þau muna eftir mínu afmæli næst. Jæja ég verð víst að viðurkenna að ég er dálítið abbó útí strákinn en þau gætu nú alveg tekið aðeins meira tillit til mín eða hvað finnst ykkur?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 08:13
Þokan lúffaði fyrir Birni Bjarnasyni.
Dómsmálaráðherrann okkar er hér í stuttri heimsókn og þar sem mér var litið út í morgunsárið sá ég hvar Björn var að gera sínar æfingar á pallinum umvafinn morgunþoku. Mér hefur skilist að þessar hreyfingar eigi að hreinsa líkama og sál og viti menn, orkustreymið var þvílíkt að sólin braust út úr þokunni eins og hendi væri veifað og baðaði ráðherrann haustgeislum sólar. Skemmtilegt ha?
Ráðherrann ætlar að dvelja hér í nokkra daga, sækja fundi og njóta kyrrðarinnar hér í sveitinni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
...en samt ekki alveg svo slæmt. Svo er ekki að sakast við neinn nema mig sjálfa þar sem ég ákvað að skrokkræfillinn hefði þörf á að fara í nudd og að sjálfsögðu valdi ég Thai-nudd. Á móti mér tók Nan, alveg eins og Nan-brauð, lítil sæt budda sem brosti útundir eyru og bauð mig velkomna á Sabai. Veit ekki af hverju mér datt Nan-brauð í hug því það hnoð sem á eftir kom átti ekkert sameiginlegt við brauðhnoð, þvílíkur andsk. tortúr.
Þarna lá þessi litla dúlla hálf ofan á mér og lét hné og olnboga djöflast á mínum fína skrokki. Ég reyndi eins og ég gat að harka af mér en langaði mikið til að öskra á hana að hætta. Allt í einu segir hún: Oh many stones madam" Ég þóttist vita það, en gat bara stunið Yehh. Hvað hélt manneskjan, að ég væri að koma þarna að gamni mínu? Ég vissi alveg að ég væri öll í hnút og meira að segja mörgum rembihnútum!
Þar sem ég var búin að liggja þarna á píningarbekknum í hálf tíma eða svo og reyna alla þá öndunar og afslöppunartækni sem ég kunni segir buddan: ,,You OK madam?" Nei, andsk. ég var ekkert OK, en gat ekki komið upp orði, stundi bara aftur: ,, Yehhh!"
Eftir klukkustundar hnoð og píningu var ég loksins laus úr prísundinni og hét þess að fara aldrei aftur í nudd, en viti menn þar sem ég stend fyrir framan afgreiðsluborðið og drekk Green Tea segir buddan: ,, Next time madam? Next week, hum? og brosir til mín þessu líka sæta brosi og áður en ég veit af er ég búin að panta mér annan tíma að viku, bugta mig og beygi að hætti Thailendinga og kveð með frosið bros á vörum. Fatta ekkert fyrr en ég er komin út á götu, hvaða fífl er ég eiginlega, það er ekki í lagi með mig!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 11:10
Hefði átt að bjóða í leðjuslagspartý.....
...í staðin fyrir að pirrast útí alla þessa drullu sem enn er verið að þrífa af veröndinni og sést varla högg á. Þetta hefði verið rosalegt partý, allir að velta sér uppúr drullunni og ég um leið losnað við helling af skít sem núna er verið að skófla uppí hjólbörur. Já maður er stundum gáfaður eftir á.
Ojæja, ætli vinir mínir hefðu mætt á svæðið, ég býst nú ekki við því og dálagleg saga til næsta bæjar,,Nú eru þau alveg búin að missa það!" hefði fólk sagt og ranghvolft augunum í hneykslan.
En allt tekur þetta enda og ég býst við að hreinsun verði lokið á morgun. Ég verð bara að halda KJ á meðan og vona að við fáum ekki úrhelli í kvöld, en spáin er STORMUR og þá býð ég ekki upp á afleiðingarnar. Þrátt fyrir að við séum búin að gera ráðstafanir þá þarf miklu meira til, því við erum búin að komast að því að öll þessi drulla kom ekki frá lóðinni okkar heldur frá akrinum hér fyrir ofan. Nú bíðum við eftir höfðingjunum frá Sterberg til að græja þetta með okkur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2007 | 10:21
Ó borg mín borg...
Rusl, glerbrot, sígarettustubbar, tyggjóklessur, rónar og betlarar auðkenna nú miðborg Reykjavíkur. Er það þetta sem við erum svo hreykin af að sýna útlendingum? Hvar er þjóðarstoltið núna? Við erum að hrósa okkur fyrir að halda í gamla menningu, byggingar og tunguna en hvað með hreinlætið? Eru Reykvíkingar enn svo miklir barbarar að þeir eru enn hugarfarslega séð í moldarkofunum og henda úr koppum sínum í göturæsið?
Ég varð virkilega miður mín og í hálfgerðu kúltúrsjokki þegar ég gekk árla dags um miðborgina. Landinn var enn í fastasvefni eftir helgarsukkið og ég gekk þarna meðal árrisula útlendinga og gat varla þverfótað mig í gegn um glerbrotin og draslið á götunum. Nokkrir Pólverjar sátu og drukku kaffi við Arnarhól, áttu auðsjáanlega að vera að þrífa göturnar eftir nóttina en eins og þeim er einum lagið var þetta gert með hangandi hendi og miklu skemmtilegra að sitja þarna og rabba um daginn og veginn.
Síðdegis sama dag lá leið mín enn og aftur niðrí miðbæ. Í Austurstrætinu sátu tveir útigangsmenn á gangstéttinni og höfðu breitt fyrir framan sig úlpurnar og þangað var kastað til þeirra smápeningum. Fyrir mér var þetta algjörlega ný sýn. Ég man aldrei eftir því að hafa séð betlara í Reykjavík fyrr. Mér datt í hug að segja þeim að fá sér vinnu en hætti við á síðustu stundu, þar sem ég hafði heyrt að ráðist væri á fólk jafnvel um hábjartan dag. Enga sá ég lögregluna enda held ég að þeir skipti sér ekki af svona lítilræði. Alt of mikið vesen fyrir þá háu herra.
Þar sem ég stóð fyrir utan Landsbankann veittust að mér tveir menn og réttu út höndina og spurðu: ,,Can you spare a dime"? Þarna vantaði ekkert upp á málakunnáttuna. Þeir héldu örugglega að ég væri útlendingur. Ég svaraði þá: ,, farðu og fáðu þér vinnu"! Þarna við hliðina á mér stóð öryggisvörður bankans og glotti út í annað. Mér leið ekki vel þar sem ég hélt áfram út Austurstrætið sem ein af dætrum þess.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2007 | 12:33
Nýi Weberinn fallinn í annað sætið á leikfangalista míns elskulega.
Eins og flestallir eiginmenn á minn elskulegi sína uppáhaldsdótabúð. Ég held að númer eitt hjá honum sé heljarstór byggingavöruverslun hér í nágrenninu en í öðru sæti er það Electric World. Nýi Weberinn sem var keyptur snemma vors er nú kominn í annað sæti uppáhaldsleikfanga. Þess í stað er forláta djúsvél í þvílíku uppáhaldi og ef maður gæti orðið afbrýðisamur út í djúsgerðavél, þá held ég bara að það sé hægt.
Nú bruggar minn handa gestum og gangandi þessa líka forláta drykki sem auðvitað eru sælgæti að hans mati og allir eiga að umma yfir og sleikja út um. Ég get nú ekki sagt að mér líki öll þessi seyði hans en verð samt að viðurkenna að sum geta bara verið þrælgóð og svo er auðvitað hollusta í þessu öllu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)