Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ef það flæðir ekki út úr ísskápnum þá er ,,ekkert" til!

Krakkarnir okkar, sem eru nú komin á fertugsaldur segja oft og iðulega þegar þau koma í heimsókn og opna ísskápinn að það sé bara ,,ekkert til" þrátt fyrir að kælirinn sé fullur af hollustufæðu.  ,,Ekkert til" þá meina þau ís í frysti, súkkulaði kex í kexskúffunni eða nammi í nammiskúffunni eins og þegar þau voru að alast upp.  Í dag inniheldur kexskúffan hrökkbrauð og hafrakex, í nammiskúffunni er í mesta lagi tyggjó og ís er keyptur örsjaldan.

 Þar sem minn elskulegi er rosalegur morgunhani og fer í vinnu klukkan sjö, á meðan ég sef á mínum kodda, höfum við þann háttinn á að við tölum saman í síma þegar ég er búin með mína fjóra kaffibolla, alls ekki fyrr! Ég var svona í sakleysi mínu að segja honum hvað væri á dagsskrá hjá mér þennan daginn þá dettur út úr honum:,, Ja, þú verður nú að fara í búðina, það er ekkert til" Mér nærri svelgdist á kaffinu, ,,hvað meinarðu ekkert til, það er nóg til".  Og þar sem ég veit að hann borðar aldrei morgunmat, heldur fær sér einn bolla af te þá datt mér í hug að e.t.v. væri ekki til te.  Ég vissi nú að það fæddi ekki beint úr ísskápnum þar sem óvanalega mikill gestagangur hafði verið hér undanfarið og dálítið saxast á birgðirnar.  

Að sjálfsögðu hafði ég ætlað mér að gera stórinnkaup um daginn og gerði það líka.  Kom klyfjuð heim svo nú þarf enginn að kvarta yfir því að það sé ,,ekkert til"  ja nema það að ég sleppti því alveg að kaupa súkkulaðikex og nammi. 

 

     


Madam Marléne sárt saknað - Argentínskar ískaldar ,,bakaðar kartöflur"!

Eins og margir aðrir eigum við okkar uppáhalds veitingastaði hér í borginni.  Einn af þeim var Bistro de Marléne sem rekinn var til margra ára af belgískri vinkonu okkar. Staðurinn var lítill og kósý með frábært eldhús og þjónustu. Þarna var alltaf hægt að setjast niður og rabba saman í rólegheitum, ekkert stress og fáir ferðamenn.  

Fyrst í stað var þessi veitingastaður í Prag 2 en fyrir tveimur árum færði Madam Marléne sig upp í Prag 6 þar sem hún keypti hótel með öðrum.  Ég held að það hafi verið hennar stærstu mistök.  Við sem vorum fastagestir fylgdum henni í byrjun en margir gáfust upp, þrátt fyrir að eldhúsið væri það sama og sama staffið með henni.  Ég held að staðsetningin hafi spilað þar mikið inní.

Um daginn ætluðum við að fá okkur síðbúinn kvöldverð með vinum okkar frá Vínarborg hjá Marléne.  Ókunnugur þjónn tók á móti okkur en að öðru leiti hafði staðurinn ekkert breyst.  Við settumst niður og spurðum eftir eigandanum, æ,æ, þá er okkur sagt að hún væri búin að selja staðinn og þetta sé orðið Argentínskt steikhús!  Við, ég og minn elskulegi fengum eiginlega hálfgert sjokk, en ákváðum þar sem langt var liðið á kvöldið að panta okkur eitthvað að borða.  Annan eins óþverra höfum við ekki fengið hér í borginni langa lengi. Við frúrnar fengum hálfkaldan rétt sem var innbakaður í eitthvað brauðgums, engin sósa og ekki veit ég hvað var í þessu gumsi, vil ekki einu sinni hugsa svo langt.  Herramennirnir pöntuðu sér steik og hún kom blue og ekki einu sinni volg að innan.  Með þessu voru bornar þær stærstu ,,bökuðu kartöflur" sem ég hef séð, en beint úr ísskápnum hálfsoðnar!  Er ekki að djóka, þetta var með eindæmum. Það er alveg öruggt mál að þangað förum við ekki aftur.  Ég vona bara að vinkona mín sé ekki hætt í bransanum, hafi bara flutt sig um set.  Það á eftir að koma í ljós fljótlega.         

 


Varhugaverður orkudrykkur, minn elskulegi fór í vímu.

Hér um daginn var einhver að blogga um Zero Cola og þá datt mér allt í einu í hug ferð okkar hjóna hér á vordögum.  Við voru á leið til Vínar og  fljótlega eftir að við lögðum af stað byrjaði minn elskulegi að syngja hástöfum.  Hann stendur nefnilega í þeirri meiningu að hann hafi fundið hinn rétta tón og sönggleði hans getur stundum farið útí öfgar.  Í byrjun ferðarinnar reyndi ég að taka undir og raula með því ég vildi nú ekki vera leiðinleg.  Þetta átti nú einu sinni að vera skemmtiferð.

Eftir að hafa hlustað á hann fara allan skalann, þess á milli að hlusta á alla Mortensana á geisladiskunum var ég eiginlega alveg búin að fá nóg.  Bað hann vinsamlegast að hætta þessu rauli og hvíla raddböndin.  Hann bara espist upp við þessa bón mína og nú var virkilega tekið á því og taugakerfið í minni komið á dampinn.  Þá allt í einu tek ég eftir því að hann hefur verið að súpa á einhverri forljótri flösku alla leiðina.  Ég spyr hvað hann sé eiginlega að drekka og svarið var Black Cola.  Ég hafði aldrei séð þennan drykk fyrr og spyr hvað þetta sé eiginlega og fékk að vita að þetta væri nýr orkudrykkur frá Coca Cola.  Þarna kom skýringin á háttarlagi míns elskulega.  Hann var sem sagt í vímu kallinn.

Hann róaðist ekki fyrr en seint um kvöldið eftir góða máltíð, en þá tók hann uppá því að stilla sér við píanóið þar sem húsráðandi spilaði fyrir okkur ljúfa tóna og komst í þvílíkt róandi hugarástand að annað eins hef ég ekki séð í langan tíma.

Ég vara ykkur við þessum drykk ef hann fæst á Íslandi, reynið ekki að dreypa á honum nema eftir læknisráði.   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband