Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ojbara!

Nú svelgdist mér á kaffinu mínu.  Ógeðslegt að fá þetta uppí sig.Sick  En þegar talað er um jólabjór eða jólaöl sem alltaf var keypt í kútum hjá Ölgerðinni í gamla daga á æskuheimili mínu langar mig að segja ykkur hvernig við hér sem ekki getum nálgast Malt og Egils appelsín bruggum okkar eigið jólaöl.

Við blöndum saman Fanta og dökkum bjór og útkoman frábært drykkur og engin aukakvikindi.Joyful


mbl.is Fann skordýr í jólabjórnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðan á að set´í þetta aðeins bara kíló pipar

Þessar laglínur eru búnar að klingja í höfðinu á mér í morgun á meðan ég flatti piparkökudeigið,, út á fjööööl!"  Varð hugsað til áranna þegar krakkarnir og ég skemmtum okkur við piparkökuskreytingar. Þvílíkt sullumsull.  Jólaög sungin fullum hálsi um Gunnu á nýju skónum og Jólasveininn sem kyssti mömmu.  

Ég erfði þetta líka forláta rúllukefli frá mömmu minni sem auðvelt var að rúlla yfir deigið og útkoman: jólasveinar, jólatré, bjöllur, stjörnur og mánar. (hvað ætli hafi orðið um það kefli?)  Allt var þetta síðan skreytt með gulum, rauðum, grænum og hvítum glassúr og allir kepptust við að láta listræna hæfileika sína framkallast sem best á kökunum.  Oft var rifist um þegar sagt var: ,, þessa gerði ég"  þá heyrðist: ,, nei ég gerði þessa" 

Dýrmætar minningar og skemmtilegar. 


Mikið má þakka barnalánið

Tárin leituðu ósjálfrátt í augnkrókana þar sem ég sat við matarborðið á laugardaginn og horfði á fallegu fjölskylduna mína samankomna.  Barnabörnin okkar tvö Elma Lind, sem var að koma í fyrsta skipti í heimsókn til afa og ömmu, Þórir Ingi alla leið frá Íslandi, börnin okkar tvö og tengdabörn.  Amma Sóley frá Grenivík og Ingunn frænka.  Mikið fannst mér við vera rík!

Þar sem þakkargjörðarhátíðin var senn á enda fór vel á því að þakka fyrir barnalánið og þá blessun sem fylgir velgengni í lífi og starfi.  Afinn stóð sig að sjálfsögðu vel í eldhúsinu og kalkúninn rann ljúffenglega niður með tilheyrandi stuffing og gúmmelaði.  Kærkomin stund með fjölskyldunni.


Okkur gleymist stundum að þakka.

,,Við lifum í landi þar sem að minnsta kosti mataráhyggjurnar eru ekta, þar sem flestir álíta að ekkert skifti máli nema þær"  segir í Strompleik Laxness. Mikill sannleikur í þessum orðum  því heimurinn hefur lítið breyst, því miður.

 Þakkargjörðarhátíðin finnst mér vera fallegur siður.  Að fylgjast með hvernig fjölskyldur reyna eftir fremsta megni að sameinast á einum stað þrátt fyrir að haf og lönd skilji að alla jafna.  Við sem eigum nóg að bíta og brenna, heilbrigði og góða fjölskyldu meigum þakka fyrir það af heilum hug.  Það eru ekki allir svo lánsamir því miður. 

Um helgina ætlar hópur vina okkar frá Ameríku að sameinast á veitingastaðnum okkar og halda hátíðlega uppá daginn.  Sumir eru svo heppnir að fá hluta af fjölskyldunni yfir hafið og þannig er það einmitt líka hér í okkar litlu fjölskyldu.  Í kvöld koma þau fljúgandi yfir hafið dóttir okkar og fjölskylda og fyrir það erum við þakklát.

 


mbl.is Fátækum ekki boðið upp á kalkún í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað öðruvísi...

..og eiga leið um Frönsku-Sviss Þýskalands verða að heimsækja Pflaums Posthotel í Pegnitz. Algjör ævintýraheimur fyrir þá sem hafa áhuga á innanhúsaarkitektúr,  og ekki verða matgæðingar sviknir þar sem eldhúsið er frábært. 

PPP hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan 1707.  Listamaðurinn og innanhúsaarkitektinn Andreas Pflaum rekur það í dag ásamt bróður sínum sem er listakokkur. Fyrir 30 árum var hótelið endurbætt og fjölskyldan keypti tvö hús við hliðina sem voru samtengd því gamla. 

 Dirk Obliers innanhúsaarkitekt aðstoðaði vin sinn Andreas Pflaum við að innrétta hótelið á sínum tíma og þar hafa þeir vinir farið á meistaralegt flug.  Ekkert herbergi er eins hannað og hvert skúmaskot er nýtt til hins ýtrasta.  Sumum gæti þótt nóg um t.d. er bókaherbergið þakið bókum frá gólfi til lofts og þvílíkt og annað eins bókasafn!  Allt á rúi og stúi, mig langaði rosalega til að fara og laga aðeins til þarna inni.Whistling  Mikið er um ranghala í húsinu og minnir dálítið á völundarhús þar sem lýsing og speglar villa manni sýn.  Listaverkin eru eins og frosin ofan í gólfin, skúlptúrar og gínur klæddar furðufötum gera andrúmsloftið mjög óvenjulegt og jafnvel dálítið spúkí.

En sjón er sögu ríkari.  Ekki láta þetta fara fram hjá ykkur ef þið eruð á leið um þetta svæði!  Læt hér fylgja slóðina Info@ppp,com eða www.ppp.com

  


Viðskiptavinir vinsamlegast klæðist kuldagalla....

..ef þið ætlið ekki að forkelast við innkaupin.  Hahaha.. ég sé fyrir mér alla viðskiptavini Bónus hálfa ofaní frystikistunum kafandi eftir kjúllunum góðu sem eiga að leynast þarna einhvers staðar.  Allir dúðaðir upp fyrir haus í dúnúlpur og 66°norður. Fyrirsögn blaðanna.  Kona með 1 stigs kalsár eftir að hafa verslað í Bónus. Wink  Svei mér þá ég held ég sé bara fegin að búa ekki á þessu landi.Errm
mbl.is Bónus gerir athugasemd við frétt Sjónvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í góðum félgsskap um helgina í Vínarborg

Íslenskt lambakjöt og aðrar kræsingar umvafið haustþema og ,,Halló-Vín" skapaði skemmtilegt andrúmsloft á heimili sendiherrahjónanna okkar í Vínarborg um helgina.  Við nutum félagsskapar vina okkar og sátum í góðu yfirlæti langt fram eftir nóttu eins og sannir Íslendingar. Hlökkum til að mæta í ,,Frost og funa"  eftir áramót hjá Steinunni og Magnúsi. 

Við, ég og minn elskulegi nutum þess síðan að ganga um götur borgarinnar á laugardeginum.  Um kvöldið var snætt á Grand Hotel og farið yfir í Japanska menningu og matargerðarlist. Okkur fannst held ég öllum dálítið farið yfir strikið í ,,skömmtunardeildinni"  svona blanda af Austurríki og Japan.  

Eftir að hafa snætt morgunverð héldum við heim á leið til Prag og vorum mætt í kveðjuboð hjá Canada vinum okkar sem eru nú að flytja héðan eftir margra ára búsetu.  Það lentum við í Ítölskum kvöldverði og alþjóða félagsskap.  Sem sagt mikil fjölbreytni þessa helgi og skemmtun.

   

  


Misskilningur barþjóns vakti kátínu ferðafélaga

Fékk áðan póst frá vini mínum sem var með okkur á ferðalagi um helgina og sagðist hafa fengið hálfgert fráhvarfseinkenni í morgun þar sem hann hafði sofnað edrú í gærkvöldi eftir sukk síðustu daga.  Sagt auðvitað meira í gamni en alvöru. 

Ég mundi þá eftir skemmtilegu atviki sem gerðist síðasta kvöldið okkar í Würzburg.  Vinkona mín bað barþjóninn um vatnsflösku en hann skildi ekki betur en að hún væri að biðja um Vodka flösku og auðvitað var svarið ,,Við seljum ekki í heilum flöskum, bara í glösum".  OK, hún bað þá um glas og viti menn, þjónninn setur glas á barborðið og kemur síðan með Vodka flösku og  byrjar að hella glasið fullt. Sem betur fer gat hún stoppað þetta í tíma enda ef hún hefði fengið sér gúlsopa af þessum Guðaveigum hefði aumingja strákurinn fengið vodka gusuna yfir sig beint úr munni gestsins.

Við göntuðumst með þetta félagarnir þar sem hópurinn er hóvær í drykkju og engir berserkir með í  för.     


Ekkert sjálfsagðara frú mín góð, en þú verður að borga 1.200.- fyrir egg-fried rice.

Þetta sagði stimamjúki eigandinn að Kínamúrnum við mig þegar ég og minn elskulegi ætluðum að fá okkur smá snarl þegar við vorum heima síðast.  Við vorum líka forvitin að sjá hvernig þeir hefðu breytt gamla góða Naustinu.  Ég gapti af forundran og hváði framan í Kínverjann sem bliknaði ekki einu sinni heldur hélt þessu frosna smeðjulega brosi sínu. Við höfðum pantað okkur tvo rétti þar sem hrísgrjón fylgdu með.  Mig langaði í steikt hrísgrjón með eggi og spurði hvort ekki væri hægt að fá annan réttinn þannig. Jú,jú en ég varð að borga 1.200.- fyrir herlegheitin.  Ég afþakkaði pent og trúði varla því sem ég hafði heyrt.  Hvað kosta eiginlega eggin á Íslandi?  Er ekki í lagi með þetta lið þarna heima.  Maturinn kom eftir nokkra bið og var óætur.  Ég hef aldrei fengið jafn vondan ,,Kína-mat" á ævinni.  Þetta var eins og á römmustu búllu í China Town.  OJ bara!

Ég las grein um daginn þar sem Steingrímur Sigurgeirsson skrifaði umsögn um staðinn.  Við erum held ég sammála alla vega í stórum dráttum.  Það sem áður var sögufrægur staður skartar plastþyljum innandyra og Kínaprjáli, OK, það eru engir drekar, ja jú nema utandyra.  Þvílík smekkleysa!

Þetta atvik kom upp í huga minn um daginn þegar við hjónin brugðum okkur af bæ og fórum á einn besta Tælenska veitingastað borgarinnar.  Við ákváðum að hafa þetta reglulega huggulegt kvöld.  Byrjað var á því að fá sér glas af freyðivíni, síðan kom 8 rétta máltíð, hver rétturinn öðrum betri, rauðvínsglas og vatn.  Þetta kostaði sömu upphæð og ógeðið á Kínamúrnum.  Nota bene ég fékk egg-fried rice og borgaði 240.- krónur íslenskar fyrir það aukalega! 

 


Mykjufýla er ekki kræsandi þegar sest skal að snæðingi.

Eftir veðurhaminn í nótt sem leið, þar sem Erró okkar hálf trylltist af hræðslu, enda gekk mikið á í háloftunum, bjóst ég svona hálfpartinn við því að fýlan frá kúamykjunni sem borin hefur verið hér á akrana myndi aðeins minnka eftir úrhellið en því miður var mér ekki að ósk minni og  nú er verið að plægja þennan skít ofan í jörðina svo flugnagerið hefur aukist til muna.

Í morgun fannst mér svo svalt og gott úti ekki nema 27° að ég opnaði allar gáttir, en það hefði ég átt að láta ógert.  Hér fylltist allt af skítaflugum og nú geng ég um eins og meindýraeyðir og úða eiturgufum um allt hús á þessi úrþvætti, hvar sem ég næ í þær.  Á Íslandi væru þetta kallaðar húsflugur og ég man að þegar ég var lítil þá átti mamma mín alltaf eina svona vinkonu í eldhúsinu.  Ég kæri mig nú helst ekki um svona vinskap hér.

Ekki er heldur geðslegt að finnast maður sitja í miðjum mykjuhaug þegar kvöldmaturinn er snæddur því auðvitað viljum við helst sitja úti á veröndinni á slíkum sumarkvöldum þegar lofthitinn fer minnkandi eftir hitasvækju dagsins.  En svona er nú að búa uppí sveit. OK halda áfram í Pollýönnuleiknum, má vera glöð að þetta gengur yfir á einni viku.        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband