Færsluflokkur: Matur og drykkur
1.2.2008 | 11:32
Að þreyja Þorra
Nú þegar fimbulkuldi herjar á landsmenn og allir kvarta yfir kulda, snjóþunga, bílum sem festast, bílum sem fara ekki í gang, hallærislegum kuldaúlpum sem sumir klæðast til að verjast frosthörku vetrarins (hef ekkert á móti úlpum) sit ég hér og pæli í Þorranum.
Þennan mánuð sem fólk hér áður fyrr (og við þurfum ekki að fara svo langt aftur í tímann) varð að þreyja í köldum húsakynnum. Matarlítil heimili sem ekkert áttu eftir nema nokkra súra bita ofaní tunnu eða skreið undir húshjalli. Lapti nær dauðan úr skel og kúrði saman í fleti undir súð með hor í nös nær dauða en lífi og beið þess aðeins að sólin færi að bræða héluna á rúðunni svo birt gæti til í mannssálinni.
Í dag sitjum við hér í alsnægt en erum síkvartandi. Þolum ekki þetta eða hitt, erum pirruð ef allt gengur ekki eins og smurt. Dálítið mótlæti og allt bara hrynur í kringum okkur. Svo það fari ekki neitt á milli mála er ég að tala um smámuni, veraldlega hluti og annað sem í raun skiptir engu máli. Við tökumst alltaf á við stóru vandamálin og björgum þeim yfirleitt sjálf vegna þess að við erum ótrúlega gautseig í eðli okkar.
Í dag situr þessi alsnægta þjóð og hámar í sig sama trosið og forfeður okkar létu ofan í sig og man ekki einu sinni eftir því að þakka Guðunum fyrir hvað þá heldur Sr. Halldóri Gröndal en hann endurvakti þennan gamla góða sið hér fyrir þrjátíu árum eða svo þegar hann réði ríkjum í gamla góða Naustinu sem nú er búið að eyðileggja (svo er fólk að tala um húsfriðun)
Ég persónulega læt ekki ,,ónýtan" mat inn fyrir mínar varir en ég hef svo sem ekkert á móti þessum góða sið. Mér finnst brosandi kjammar og bleikir hrútspungar ekkert sérstaklega girnilegir á diski að ég tali nú ekki um hákarlinn, þann hlandfisk. En sitt sýnist hverjum og verði þeim bara að góðu sem fóðra sig á þessu gumsi.
Nú þegar leið okkar hjóna liggur fljótlega til lands ís og elda hlökkum við svo sannarlega til að takast á við veðurguðina. Einnig ætlum við að blóta Þorra með góðum vinum. Því er komið hér með á framfæri, þið sem ætlið að bjóða okkur í mat, eitt svona trogpartý er alveg nóg en okkur þykir soðningin mjög góð með íslensku sméri.
Lifið heil og góða helgi.
24.1.2008 | 00:09
Í mat hjá Gordon F..Ramsay eftir móttöku í Senatinu
Veit ekkert eins leiðinlegt en að standa upp á endann í háhæluðum skóm, tvístígandi af óþreyju og vera nauðbeygð til þess að hlusta á ræður sem engan endi ætla að taka. En það var einmitt það sem ég gerði í kvöld þar sem við vorum stödd í boði Tékkneska Senatsins.
Á meðan ég hlustaði á forseta Tékkneska Senatsins, Swartzenberg Utanríkisráðherra, Sendiherra Páfa og ,,Prins Valdstein", (auðvitað ekki prinsinn sjálfan því hann var uppi á 17. öld) gat ég látið hugann reika aftur til miðalda því við vorum stödd í reiðhöll Valdsteinanna sem búið er að gera upp sem minjasafn og var þetta boð í tilefni opnunar safnsins. Engin orð um það meir. Sjón er sögu ríkari þið sem eigið leið hingað til Prag.
Þegar ræðuhöldum lauk og við búin að heilsa til hægri og vinstri gengum við út í kvöldið og ákváðum að fara á Royal Hilton og snæða hjá heimsfræga kokkinum Gordon F..... Ramsay. Það er nýbúið að opna hótelið og veitingastaðurinn kennir sig við þennan fræga meistara matargerðarlistar. Höfðinginn sjálfur er hér staddur í borginni og að sjálfsögðu spurðum við hvort hann væri á svæðinu en því miður var hann ný farinn. F...ræðuhöldin... annars hefðum við ef til vill fengið að heilsa upp á goðið. En við vorum ekki svikin af matnum. Hreint út sinfóníubragð af hverjum rétti. Algjör snilld!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2008 | 11:26
Not possible, big problem
Vaknaði, skrúfaði frá sturtunni, ekkert vatn! Niður í eldhús, ekkert vatn! það þýddi ekkert kaffi! Og þá er ég í djúpum skít því ég get ekki vaknað fyrr en eftir tvo til þrjá bolla. Hringi í minn elskulega. Verður að redda þessu í hvelli , ekki seinna en núna! Slakaðu á, viðgerðamaður á leiðinni. Opna tölvuna, hjúkket það er þó alla vega rafmagn á bænum.
Ekkert vatn nema sódavatn til og kaffi lagar maður ekki með sódavatni. Gaf hundinum smá vatn í skálina, hann hnusar, fussumsvei drekk ekki sódavatn. Nei en þú getur drukkið úr drullupollunum! Andsk. sérviska er þetta! OK þá færðu bara ekkert vatn.
Bíða eftir viðgerðarmanni kemst þess vegna ekki útí vegasjoppu að kaupa venjulegt vatn. Loksins kemur hann og þá fæ ég þetta bölvaða máltæki Tékkanna: ,,Madam, not possible, big problem" Arrrgg.. ,,kem eftir tvo tíma aftur" Fer út, keyri í sjoppuna hef aldrei komið þar áður, lá við að ég sneri við í dyrunum og keyrði 12 km á næstu Shell stöð. Lyktin, maturinn í borðinu og súrefnisleysið, lá við öngviti og hefði getað ælt Lét mig hafa það, var að fá mjög slæm fráhvarfseinkenni af kaffileysi.
Kem heim, gef hundspottinu rándýrt flöskuvatn, helli uppá kaffi. Bíð með óþreyju eftir að kannan fyllist. Skrepp frá, kem aftur. Shit, allt kaffið flæðandi útum borð og gólf. Nýbúin að kaupa þessa forláta AEG kaffikönnu sem virkar ekki jack! Er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem þetta skeður. AEG er sjálfsagt bara þvottavélafyrirtæki. Önnur tilraun tekst með því að standa yfir græjunni og góna.
Búin að þrífa gólfið með Perrier. Kaffið bragðast illa. Verð að komast út úr húsi en get það ekki er enn að bíða eftir viðgerðamanninum þessum með öll problemin.
10.1.2008 | 10:34
Erum ekki komin með ,,útibú" á Íslandi
Þar sem borðapöntunum hefur rignt yfir okkur og vegna fjölda fyrirspurna frá vinum og vandamönnum um hvort við, ég og minn elskulegi værum búin að opna,, útibú" í höfuðborginni við sundin blá, viljum við til leiðrétta allan misskilning láta ykkur vita að svo er ekki.
Restaurant Reykjavík - Praha er enn á sínum stað eftir sautján ár og litlar líkur á því að útibú verði opnað á næstunni. Útvarpsauglýsingin frá Restaurant Reykjavík er væntanlega frá Café Reykjavík í Vesturgötunni. Dálítil önnur ella. En þið eruð öll velkomin hvenær sem er hingað til Prag en því miður erum við ekki með Þorramat á boðstólum en við munum taka á móti ykkur með bros á vör.
29.12.2007 | 11:51
Naglasúpan endalausa.
,,Ertu svöng?" spyr minn elskulegi í gærkvöldi og ég svara ,,nei, plís ekki meiri mat!" En fyrr en varir er komin kalkúnsamloka á disk með bacon og majó og auðvitað er þessu skóflað í sig með góðri lyst enda getur minn búið til veislumat eins og kerlingin sem notaði naglann í ævintýrinu góða.
Við höfum svo sem farið í skógargöngu með hundinn til að létta aðeins á okkur en þegar heim er komið er bara farið í það að laga heitt súkkulaði með Marshmallow! Hreint út sagt ógeðslegt! En mikið rosalega er það samt gott!
Sem betur fer held ég að allir afgangar séu á þrotum. Hangikjötið var notað kalt með uppstúf og grænum Ora, rjúpurnar fóru í tartalettur og svo síðast en ekki síst kalkúninn góði. Í gær tók ég mig til og henti öllu úr báðum ísskápunum sem ekki var nógu gott í hundskjaft. En ég tímdi ekki að farga restinni af kalkúninum sem auðvitað kom sér vel í gærkvöldi.
Var að hugsa um að henda öllu sælgæti sem fyrirfinnst hér í húsinu í poka og gefa hússtýrunni á morgun. Þá loksins verð ég ánægð, ekkert gúmmelaði lengur til!
23.12.2007 | 11:18
Skata, hangikjöt, rauðkál og jólakveðjur útvarpsins á Þorláksmessu
Hér hefur aldrei fengist leyfi til að elda skötu á heimilinu á Þorláksmessu enda borða ég ekki ónýtan mat! En minn elskulegi verður að fá þetta ómeti svo Skatan er komin hingað fljúgandi yfir hafið og staffið okkar og gestir verða bara að láta sig hafa það að þola ammoníaklyktina eina ferðina enn.
Þeir íslendingar sem borða Skötu og eru hér í borginni yfir hátíðarnar koma alltaf saman á Rest. Reykjavík og gæða sér á þessum þjóðlega rétti með tilheyrandi ummi og jammli. Við hin sem ekki borðum Skötu fáum okkur sjálfsagt í ár af jólahlaðborðinu okkar. Ef satt skal segja er ekki ýkja mikið um gesti á Reykjavík á Þorláksmessu þeir hrökklast í burtu um leið og lyktin fer að berast inn í salinn og út á götuna
Það er kominn mikill hátíðarblær hér yfir heimilinu. Rauðkálið soðið, grunnurinn af rjúpusósunni mallar í potti og hangikjötið komið yfir og húsið ylmar af Þorláksmessulykt, alveg eins og það á að vera. Nú bíð ég bara eftir að jóakveðjurnar byrji í útvarpinu, Guði sé lof fyrir netið, og á meðan ég hlusta á þær sný ég mér að því að laga eftirréttinn.
Núna á eftir rennum við í bæinn og hittum vini og kunningja í hundrað turna borginni okkar og röltum út á Stare Mesto en þar er jólamarkaður og meiri háttar jólalegt. Man ekki eftir að hafa séð eins smekklegar jólaskreytingar ein og í ár.
17.12.2007 | 16:50
Norðlenska hráa hangikjötið þótti lostæti
Í gær héldum við ,,Opið Jólahús" hér heima í sveitinni fyrir vini og kunningja. Um förutíu manns komu og dönsuðu inn jólin með okkur. Það myndast alltaf dálítil stemmning þegar minn elskulegi kemur með hangilærið og sker smá flís handa hverjum og einum að smakka.
Jólaglöggið, sem við lögum á ,,okkar vísu" með Grandi og koníaki rann ljúflega niður og fólk var farið að taka undir jólalögin sem hljómuðu hér um allt hús. Hver með sínu nefi að sjálfsögðu.
Möndluleikurinn vekur líka mikla lukku og að þessu sinni var sá heppni frá Englandi og fékk að sjálfsögðu möndlugjöf.
Virkileg jólastemmning hér í sveitinni og þúsundir jólaljósa hér í garðinum gerði þetta ævintýralegt fyrir marga sem skilja ekki hvernig við förum að því að setja allar þessar seríur upp fyrir hver jól. Það var kátt fólk sem hélt útí stjörnubjarta vetrarnóttina með yl í sálu og sinni eftir skemmtilega samverustund á aðventu.
15.12.2007 | 09:05
Engin rauð, gul og græn terta á borðum í dag.
Ja hérna það eru 33 ár síðan frumburðurinn okkar fæddist. Það segir mér líka að við eldumst sjálf ótrúlega hratt, eiginlega alltof hratt.
Elsku Egill minn til hamingju með daginn, við kíkjum á þig seinna í dag en því miður gafst enginn tími til að baka köku, þessa rauðu, gulu og grænu með hvíta dýsæta kreminu sem þér finnst svo góð. Lofa að redda því í næstu viku þegar jólaboðunum fer að linna.
11.12.2007 | 20:04
Laufabrauðið ,,næstum" eins og hjá Leifi Breiðfjörð!
Við erum algjörir snillingar í þessari fjölskyldu og listavelgerðar laufabrauðskökur eru nú á borðum á þremur heimilum hér í Prag. Hrein listaverk.
Jafnvel vinur okkar Leifur Breiðfjörð, sem er algjör snillingur í útskurði á laufabrauði hefði gefið okkur alla vega 5 í einkunn. Annars fer nú enginn í sporin hans Leifs því hann sker aðeins út erótískar kökur. Alveg satt, þær eru geymdar frá ári til árs uppá skáp heima hjá honum og sýndar við hátíðleg tækifæri.
Ég hafði nú aldrei komið nálægt laufabrauðsbakstri fyrr en Bríet tengdadóttir kom í fjölskylduna og með henni þessi skemmtilegi norðlenski siður. Síðan er þetta hefð hér að baka saman og skera út kökur fyrir hver jól. Að þessu sinni vorum við heima hjá systur Bríetar, Ingunni sem tók á móti okkur á sínu litla jólalega heimili.Við skárum út ég, Egill, Bríet og Ingunn en minn elskulegi stóð í ströngu við að mynda okkur í bak og fyrir Ekki alveg hans deild, svona dútl. En hann steikti síðan allar kökurnar af sinni einstöku snilld og Egill pressaði síðan af fullum krafti.
Litla prinsessan hún Elma Lind var með tímasetninguna á hreinu og svaf eins og og vaknaði ekki fyrr en allt var yfirstaðið svo þá gátum við gefið henni allan okkar tíma, bráðgáfuð þessi stelpa.
Frábær fjölskyldudagur!
9.12.2007 | 16:16
Sunnudagur annar í aðventu
Í tilefni afmælis Bríetar tengdadóttur okkar var snætt á Four Season í hádeginu og litla prinsessan okkar hún Elma Lind í fyrsta skipti úti á veitingastað. Ekki seinna vænna að venja barnið við, enda orðin sex vikna gömul.
Afmælisbarnið fékk þetta líka forláta kaffi, heilar tvær matskeiðar neðan í bolla, hnausþykkt, ræktað úr úrgangi katta sem ala aldur sinn á kaffiekrum, að mér skildist og auðvitað verðið eftir því. Datt í hug að spyrja hvort gullmoli leyndist í botninum.
Ég og minn elskulegi ætlum að hafa það huggulegt hér það sem eftir er dagsins og kveikja á Betlehemskerti aðventukransins og njóta þess að vera saman.