Að þreyja Þorra

Nú þegar fimbulkuldi herjar á landsmenn og allir kvarta yfir kulda, snjóþunga, bílum sem festast, bílum sem fara ekki í gang, hallærislegum kuldaúlpum sem sumir klæðast til að verjast frosthörku vetrarins (hef ekkert á móti úlpum) sit ég hér og pæli í Þorranum. 

 Þennan mánuð sem fólk hér áður fyrr (og við þurfum ekki að fara svo langt aftur í tímann) varð að þreyja í köldum húsakynnum.  Matarlítil heimili sem ekkert áttu eftir nema nokkra súra bita ofaní tunnu eða skreið undir húshjalli.  Lapti nær dauðan úr skel og kúrði saman í fleti undir súð með hor í nös nær dauða en lífi og beið þess aðeins að sólin færi að bræða héluna á rúðunni svo birt gæti til í mannssálinni.

Í dag sitjum við hér í alsnægt en erum síkvartandi.  Þolum ekki þetta eða hitt, erum pirruð ef allt gengur ekki eins og smurt.  Dálítið mótlæti og allt bara hrynur í kringum okkur. Svo það fari ekki neitt á milli mála er ég að tala um smámuni, veraldlega hluti og annað sem í raun skiptir engu máli.  Við tökumst alltaf á við stóru vandamálin og björgum þeim yfirleitt sjálf vegna þess að við erum ótrúlega gautseig í eðli okkar. 

Í dag situr þessi alsnægta þjóð og hámar í sig sama trosið og forfeður okkar létu ofan í sig og man ekki einu sinni eftir því að þakka Guðunum fyrir hvað þá heldur Sr. Halldóri Gröndal en hann endurvakti þennan gamla góða sið hér fyrir þrjátíu árum eða svo þegar hann réði ríkjum í gamla góða Naustinu sem nú er búið að eyðileggja (svo er fólk að tala um húsfriðun) 

 Ég persónulega læt ekki ,,ónýtan" mat inn fyrir mínar varir en ég hef svo sem ekkert á móti þessum góða sið.  Mér finnst brosandi kjammar og bleikir hrútspungar ekkert sérstaklega girnilegir á diski að ég tali nú ekki um hákarlinn, þann hlandfisk. En sitt sýnist hverjum og verði þeim bara að góðu sem fóðra sig á þessu gumsi. 

Nú þegar leið okkar hjóna liggur fljótlega til lands ís og elda hlökkum við svo sannarlega til að takast á við veðurguðina.  Einnig ætlum við að blóta Þorra með góðum vinum.  Því er komið hér með á framfæri, þið sem ætlið að bjóða okkur í mat, eitt svona trogpartý er alveg nóg en okkur þykir soðningin mjög góð með íslensku sméri. 

Lifið heil og góða helgi.

   

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ía!

Rakst fyrir tilviljun á bloggið þitt. Gaman að lesa það og frétta þannig af þér. Hvað eru nú orðin mörg ár síðan við gengum um Þórsmörkina og sungum um hana ömmu sem datt í það, fór á ball og lenti á séns? Æ, ég ætla ekkert að reikna það út. Hafið það sem best. Bið að heilsa Þóri.

Gunna Þorsteins.

Guðrún Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 13:11

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góður pistill hjá þér Ía mín, ég er einmitt svo leið á þessum barlóm í fólki.  Geta menn ekki bara glaðst yfir hverri árstíð fyrir sig, mér finnst stundum að fréttafólk hafi fundið upp þennan barlóm, talandi um að vorið sé í nánd í febrúar, eða þá að það sé langt undan þegar kominn er   maí, þ.e.a.s. ef hann blæs í sólarhring, svo skín sólin skakkt á rassinn á sumum og þá fer liðið í fílu,  hvernig væri bara að vera glaður, borða góðan mat því nóg er til og þarf ekki að kosta mikið. Góða ferð heim á Frón og ég vona að þið skemmtið ykkur vel.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.2.2008 kl. 13:36

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Gunna mín en gaman að þú skildir villast inn hér.  Erum að fara að blóta Þorra með  gamla góða Coinu, næstum öllum strákunum þ.e.a.s. við sem höldum enn hópinn. 

Ásdís:Takk fyrir innlitið. Já djöfuls barlómur í öllum útaf smámunum

Ía Jóhannsdóttir, 1.2.2008 kl. 13:50

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Frábær pistill mín kæra, eins og allt sem kemur frá þér.
Vonandi fáið þið frábæra Íslandsför skemmtið ykkur vel.
                        Kveðja og góða helgi.
                                 Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.2.2008 kl. 18:05

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það sem ég sakna allra mest á Íslandi er Þorramatur...
Ég borða allt.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.2.2008 kl. 23:00

6 identicon

Bið æðislega vel að heilsa Gamla Kompaníinu.

Gunna Þorsteins.

Guðrún Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 15:12

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þetta er svo sannarlega umhugsunarvert Ía. Bara að setja sig í þessi spor er nóg til að maður fyllist þakklæti fyrir hlýju húsakynnin og annan mat en súrmat

Jóna Á. Gísladóttir, 3.2.2008 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband