26.4.2010 | 20:16
Sorglegt að almenningur beri ekki meiri virðingu fyrir Guðshúsunum okkar en raun ber vitni.
Þegar ég var krakki, eins einkennilegt og það hljómar þá sótti ég mikið í kirkjugarða og spókaði mig á milli leiða. Ég heimsótti líka í hvert skipti sem gafst gamlar sveitakirkjur ekki endilega til að biðja heldur bara mér leið yfirleitt svo vel innan um gamlan viðinn sem mér fannst lykta svo vel eftir jafnvel aldir. Ég var ekkert sérstaklega trúuð en átti mína barnatrú og það nægði.
Nú er svo komið að það er varla hægt að fara inn í kirkjur í dag nema með sérstöku leyfi eða þá þú sért að vel upplýst að þú vitir hvar lykil er að finna, upp undir rjáfri eða undir lausri fjöl.
Ég er búin að furða mig á þessu lengi og get illa sætt mig við að kirkjan geti ekki opnað dyr sínar fyrir Pétri og Páli vegna hræðslu við að kirkjumunum verði stolið. Sorgleg staðreynd.
En ég var heppin að eiga góða að og á sunnudaginn stóðu kirkjudyr mér opnar en að sjálfsögðu fyrir tilstilli góðs prests sem lét eftir beiðni minni um að fá að eyða hálftíma ein í lítilli sveitakirkju hér rétt við borgarmörkin.
Ég sendi prestinum mínar bestu þakkir og veit að ég er velkomin aftur ef ég finn aftur þessa þörf. Ég þakka þér kæra vinkona.
Eftir hljóðláta stund heimsótti ég leiði skáldsins sem skrifaði um hið ljósa man og þakkaði fyrir allt sem hann gaf okkur í lifanda lífi og var það nú ekki svo lítið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál og siðferði, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 20:18 | Facebook
Athugasemdir
Já, það er afskaplega sorglegt að nokkrum skuli detta í hug að stela úr kirkjum eða skemma þær, sammála þér með friðsældina í gömlu trékirkjunum, þær eru margar kirkjurnar á landsbyggðinni sem ég hef sest inní bara til að slaka á, barnstrúin mín hefur dugað mér hingað til og er ég laus við allar öfgar, það finnst mér best. Hafðu það sem best kæra vinkona.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.4.2010 kl. 21:05
Mér finnst eðlilegt að líða vel í kirkjum og kirkjugörðum... enda góðir staðir hvort sem maður er eitthvað trúaður eða ekkiMér finnst líka fúlt að geta ekki gengið inn í hvaða kirkju sem er... það er svo yndislegt að koma inn í gömlu kirkjurnar... þær hafa eitthvað svo gott við sig
Láttu þér líða vel elskuleg
Jónína Dúadóttir, 27.4.2010 kl. 07:30
Kirkjugarðar segja manni líka svo mikla sögu.
Eitthvað það besta sem ég geri er að reika um kirkjugarðinn við Suðurgötuna.
Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2010 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.