6.5.2007 | 16:35
Stjórnmál eiga ekki upp á pallborðið hjá mér
Ætli það sé til ópólitískari kona en ég? Fyrir mér eru stjórnmál eintómt argaþras. Ég kemst nú samt ekki hjá því að fylgjast með þar sem minn elskulegi hefur mjög gaman af að ræða pólitík, hvort sem það er heimspólitíkin eða annað. Nú standa fyrir dyrum kosningar heima og frambjóðendur á síðasta snúning að smala saman atkvæðum og lofa upp í lófa sér.
Þegar ég fór að hafa dálítið vit sem krakki var ég send af föður mínum til að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kosningum. Ég man að mér fannst þetta mjög spennandi og hafði ekkert á móti því að gefa vinnu mína einn dag. Það var líka ekki á hverjum degi sem maður fékk að keyra í leigubíl út og suður endurgjaldslaust. Veitingarnar voru heldur ekki af verri endanum, það var boðið upp á ótakmarkað sælgæti og danskt smurbrauð sem var ekki á boðstólum heima hjá okkur nema á tillidögum. Þrátt fyrir að taka þátt í þessu í nokkur ár vakti það engan pólitískan áhuga hjá mér.
Ég verð að viðurkenna að ég er svo fegin að þurfa ekki að kjósa núna þar sem við hjónin sórum okkur ekki inn á kjörskrá. Ég veit að vinir okkar eru ekki alveg jafn hrifnir þar sem margir þeirra eru í framboði. Ég sendi þeim öllum baráttukveðjur og óska þeim góðs gengis í komandi kosningum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.