Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Til hamingju með nýja starfið.

Ég verð nú að viðurkenna það að fréttin um nýja embættið hans Davíðs kom mér virkilega á óvart.  Ég bjóst ekki einu sinni við því að það hvarflaði að honum að hugleiða þetta gylliboð hvað þá að taka því.

En svona er maður jú vitlaus.  Hann hlýtur að sjá eitthvað bitastætt í þessu verkefni sem við hin sjáum ekki. 

Ég hefði nú frekar búist við því að hann kæmi hingað í kotið hjá mér þ.e. Listasetrið okkar og léti renna úr pennanum sínum og njóta þess bara að vera frjáls og óháður heldur en koma sér fyrir í Moggahöllinni innan um ómanneskjulegt gler og stál.  Hér eru þó allir innviðir úr óskviknu aldargömlu timbri og ekki langt að sækja innblástur í nátturuna og klettana hér í sveitinni.

En segir maður ekki bara til hamingju og gangi þér allt í haginn í nýju starfi Davíð.

Dálítið skondið allt þetta drama sem er í gangi þarna heima núna.  

Og eins og skáldið sagði:  Það á að minnsta kosti að leyfa hvurjum og einum að lifa eins og hann sjálfur vill meðan hann aftrar ekki öðrum frá því að lifa eins og þeir vilja.

Og nú er ég alveg hætt að vera hissa!!!! 

   


mbl.is „Fortíðin til framdráttar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja? Það við gera, mín þjóð.

Skiljanlega kippist fólk til við að heyra skothvelli nálægt byggð. En stendur ekki veiðitíminn yfir núna og þá fara skotglaðir á stúfana og leika sér í byssu og bófahasar.

Ekki það að ég sé að mæla með því að drita á blessað fiðurféð nálægt byggð og raska þar með ró manna um óttubil, nei aldeilis ekki.  Halda sig alla vega fyrir ofan snjólínu hvar sem hún er nú sögð vera þessa dagana.

Þetta minnir mig á atvik sem gerðist hér sl. sunnudag.  Við, ég og minn elskulegi sátum í hádeginu úti á veitingastað í einni fjölförnustu götu Pragborgar með góðum vinum frá Íslandi. 

Þar sem við sátum þarna og rifjuðum upp skemmtilegan tíma saman sl. sumars kom maður gangandi að borðinu okkar og heilsaði.  Við kyntum manninn fyrir gestum okkar og hann fór að spyrja frétta frá Íslandi.  Hafði verið búsettur heima í nokkur ár og spilað m.a. með Ísl. Sinfóníunni.

Umræðan snerist brátt að ástandinu og ,,útlendingurinn" sagði okkur ekki farir sínar sléttar.  Hafði tapað peningum þarna heima og var skiljanlega mjög heitt í hamsi eins og við gætum bara leyst þessi mál hans þarna á gangstéttinni í miðri Evrópu.

Eftir að hafa hlustað á langa og ítarlega sögu hans segir hann:  Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja?

Við urðum hálf hvumsa, var maðurinn að djóka eða hvað? 

Nei honum var fúlasta alvara og þegar ég sagði:  Já þú meinar það, bara fá okkur byssur og skjóta þá alla á færi?

Hann horfði á mig með þessum svörtu augum og sagði:  Já það við gera, mín þjóð, bara finna einhverja sem hafa þetta að atvinnu og borga þeim slikk fyrir að skjóta þá. Ekkert vesen.  Minnsta mál í heimi. Bara svona eitt púff og þið laus við alla vitleysingana.  Svo auðvelt að finna svona atvinnumorðingja. 

Ég beið eftir því að hann segði: ,, Ég skal hjálpa ykkur með þetta".´

Ef satt skal segja varð mér svo um að ég stóð upp og fór inn á salernið.  Þegar ég kom út aftur var hann að kveðja og við sátum eftir hálf viðutan og hugsandi öll saman. 

Manninum hafði verið fúlasta alvara!

 


mbl.is Skothvellir í Salahverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárt!

Hvernig getur konan látið annað eins út úr sér!

Mig verkjar í brjóstið eftir að hafa lesið þessa frétt! 

Hvílítkt blygðunarleysi hjá Margréti Tryggvadóttur!

Þráinn minn okkur tekur þetta sárt og sendum þér baráttukveðjur héðan frá Stjörnusteini.

 


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurbyggjum Valhöll á Þingvöllum.

Eigum við svo ekki að hittast einhvern dagin á Þingvöllum og fá okkur snarl saman á Valhöll? 

Þetta sagði einn góður vinur okkar þegar við hittumst heima í sumar og við tókum vel undir þessa tillögu. Okkur hafði líka dottið í hug að taka gamla settið þ.e. móður mína og tengdaföður í Þingvallasilung að Valhöll einn daginn á meðan við værum á landinu.

Það var alltaf svo hátíðlegt að heimsækja þjóðgarðinn.  Alveg sama í hvernig veðri þú komst það ríkti alltaf einhver dulmögnuð stemmning á svæðinu.

Nokkrum dögum eftir að við komum heim brann Valhöll.

30. júlí keyrðum við hjónin austur á Þingvöll og svona var umhorfs þá.

Sumar 2009 á Íslandi 075

Þarna stóð Valhöll eitt sinn.  Þegar myndin er tekin er verið að tyrfa yfir reitinn.

Ég og sjálfsagt fleiri eigum góðar og ljúfar minningar frá þessum stað alveg síðan við vorum börn. 

Nú er búið að skipa í nýja Þingvallanefnd sem á að sjá um þjóðgarðinn og alla framkvæmd á svæðinu. 

 Ég vona af heilhug að sú nefnd sjái til þess að endurbyggt verði þarna fallegt hótel sem gæti jafnvel þjónað sem lítið snoturt ráðstefnuhótel.  Listamenn þjóðarinnar gætu fengið að sýna verk sýn, jafnvel hver og einn fengið eitt herbergi til þess að skreyta með list sinni.

Garðskáli með Flóru Íslands væri líka augnayndi þar sem hægt væri að sitja með góðan kaffisopa.

Að við almenningur gætum aftur heimsótt Valhöll og gert okkur glaðan dag eins og fyrr. 

Þjóðgarðurinn er fyrir almenning og þar á okkur að líða vel. 

 Það nægir ekki að hafa vegasjoppu og upplýsingaborð!

Ég bíð þess að geta aftur komið að Valhöll í nýrri og betri mynd og fengið mér silung úr Þingvallavatni.    

  


Þráinn stóð við sín loforð og er það vel!

Hafa þessir þremenningar ekkert betra að gera heldur en karpa yfir kaffibolla um hvort Þráinn sitji áfram eður ei.  Þið sem ætluðu að gera hrossakaupin á ,,Eyrinni"  hættið þessum bjánaskap og farið að vinna eða er Alþingi of stór vinnustaður fyrir ykkur?  Hvernig væri þá að þið fengjuð ykkar varamenn til að setjast í sætin ykkar og þið færuð heim og hugsið ykkar gang.

Þráinn gerði ekkert annað en að standa við gefin loforð! Stend með þér Þráinn!


mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum sterk þjóð og frábær! Stöndum af okkur alla storma!

Það fór ekki fram hjá okkur á ferð okkar um landið sl mánuð að það vantaði mikið upp á gamla góða baráttuviljann hjá mörgum. 

Þrátt fyrir sól og sumaryl fannst mér eins og dimm ský lægju yfir mönnum og málleysingjum. Fólk skiptist í hópa sumir töluðu ekkert um ástandið hvort það var af því þeir höfðu gefist upp eða vildu njóta þess að vera til örlítið lengur veit ég ekki en það voru líka aðrir sem töluðu út i eitt um þetta hryllingsástand. Skömmuðust og rögnuðu yfir öllu en voru ekki með neina lausn á takteinum.  Dapurlegt.

 Þegar við vorum heima í nóvember í fyrra var viðkvæðið hjá flestum: ,, Hva þetta reddast" eða ,,þetta er nú ekki svo svart"  Enda hvernig var hægt að trúa því að nokkrir einstaklingar gætu verið það siðblindir og geggjaðir að þeir gætu komið heilli þjóð á heljarþröm?

Því miður gerðist þetta og það virkilega tók á að horfa upp á allar breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á ekki lengri tíma.  Verslanir sem áður gengu feiknavel var búið að loka eða hálf tómar hillur blöstu við manni þegar maður kom inn og afgreiðslustúlkan stóð örvæntingafull bak við borðið með hangandi hendi því það var ekkert til að selja lengur og engin tilgangur með því að halda þessu áfram.  Þetta næstum stóð skrifað skýrum stöfum á enninu.

Túristabúðir, veitingastaðir og annað sem laðar að ferðamenn voru yfirfull af kátum ferðamönnum í BIÐRÖÐUM og þreyttu starfsfólki sem fékk varla matarpásu vegna þess að það var svo geðveikt að gera.  Ég þori engu að spá um framhaldið á þessu en mikið asskoti mega Íslendingar vara sig ef þeir hætla að halda uppi ferðabransanum.  Verðlagið er ekki í samræmi við gæði og sum staðar er maður bara einfaldlega tekinn harkalega i nefið. 

Það fer ekkert á milli mála að þetta ástand gengur jafnt yfir alla, ríka sem fátæka, börn og  gamalmenni.  Nú þegar haustið nálgast með sínum dimmu dögum, verðlag hækkar og útivistartíminn styttist þá bið ég fyrir þjóð minni. 

 

 

 


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ mín elskulega þjóð ætlið þið aldrei að læra af reynslunni.

Er þetta ekki alveg eftir öllu öðru á Íslandi.  Nú ætla allir að græða á ferðamönum bæði bílaleigur og hótelin.  Satt best að segja eru Íslendingar grunnhyggin þjóð.  Um leið og einhver sér að hægt er að græða á einhverju er verðið sprengt upp úr öllu valdi og hvað gerist þá.  Jú asnarnir ykkar ferðamenn hætta að koma til landsins.

Við litla fjölskyldan erum á leið heim og vinafólk Egils og Bríetar, útlendingar, eru núna að spóka sig með börnin ásamt þeim fyrir norðan.  Áður en þau lögðu land undir fót fóru þau að huga að bílaleigubíl fyrir sjö manns.  Hvað haldið þið að slíkur bíll hafi kostað í eina viku.  yfir  500.000.- kall!  Já sæll, Agli datt í hug að kaupa bíl það yrði örugglega ódýrara. Henda honum bara síðan eftir notkun.  Hótelherbergin á góðum hótelum í henni Reykjavík voru á uppsprengdu verði og sum jafnvel með tvö verð Euro og Krónu.  Nú á sko að græða á útlendingunum. 

 Fífl, vitið þið ekki að fjögra til fimm stjörnu hótel sem voru á bilinu 180 - 260 Euro í fyrra hafa lækkað um helming í Evrópu en þið sauðirnir hækkið eins og fífl.   Og hver verður árangurinn, jú kæru landar þið missið þetta eina sem hefur haldið ykkur á floti undanfarna mánuði, túrismann.  Fólk hættir að koma og þetta er því miður þegar farið að spyrjast út hér.

Ballið er líka að verða búið hjá veitingamönnum, hóteleigendum og öllum öðrum sem hafa sett allt sitt traust á ferðamanninn hingað til. Þetta er allt keðjuverkandi ef þið hafið ekki skilið það enn og ef engin eru túrhestarnir þá fara veitingahúsin og Rammagerðin eða hvað þetta heitir í dag sem selur lopapeysur og aska að taka upp á því að væla aftur. 

 Þetta minnir mig á þegar þið mín elskulega þjóð fóruð að senda hingað til Tékklands lambakjötið og það seldist eins og heitar lummur. Hvað gerðu þið þá , jú asnarnir ykkar þið hækkuðuð kílóaverðið um einhver cent og um leið hætti Tékkland að versla við ykkur og sneri sér til Nýja Sjálands.

Eins þegar þið senduð okkur útrunna niðursuðuvöru og voruð rosalega hissa á að við fengjum þetta ekki samþykkt af heilbrigðiskerfinu og spurðu í forundran:  Hva er þetta ekki austantjalds land!  Svo kom lausnin frá ykkur:  ,,Setjið bara nýjan miða yfir dagsetninguna þá fattar engin neitt!   Við vorum heiðarlegri en svo að fara eftir ykkar ráðum.  Nú fer maður að skilja hvernig sumir urðu svona oheyrilega ríkir á svindli og svínaríi.  

Annað sem mér dettur í hug þar sem ég er byrjuð að agnúast út í landann er þegar við fengum sendan heitreyktan Silung frá Íslandi. Okkur fannst hann svo góður og vel verkaður að við pöntuðum heilan gám en hvað gerðist.  Jú fiskurinn kom hingað óhreinsaður og hrikalega vondur, við kvörtuðum og svarið var:  ,, Já ég veit, en þú pantaðir svo mikið magn að við höfðum ekki mannskap til að hreinsa fiskinn"

Finnst ykkur eitthvað skrítið að við hættum að versla við ykkur kæru landar! 

Í guðana bænum farið nú að hugsa aðeins.  Þessi græðgi gerir ykkur að athlægi út um allan heim.  Það er betra að selja ódýrt, gott og í magni en lítið, vont og taka fólk í nefið.  Það græðir engin á því að verða að aurum api!

Ég ætla nú samt heim og hjálpa til við gjaldeyrissjóðinn.  Setja nokkrar Euro inn í kassann af því mér þykir svo undurvænt um ykkur öll bjánarnir ykkar. 

  


mbl.is Verðgjá á milli innlendra og erlendra ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiherrarnir og Konsúllinn tóku lagið í restina við mikinn fögnuð gesta.

Ég stóð undir sturtunni og grét óstöðvandi tárum.  Það er þá svona að upplifa það að missa hárið.  Ég skrúfaði fyrir vatnið og eins og venjulega byrjaði á því að þurrka hárið í von um að það versta væri farið niður um holræsið en það tók verra við þegar ég tók burstann og renndi honum létt yfir hársvörðinn.  Þetta var sárt, þetta var hrikalega sárt og skar í hjartað, ég var svo óviðbúin og ég hugsaði líka: Ekki í dag, í dag þarf ég að standa mína plikt.

Á eftir kom helvítis, djöfulsins, andskotinn og ég settist fram í sjónvarpsherbergi og tárin runnu í stríðum straumi án þess að nokkuð hljóð kæmi frá mér.  Ég sagði:  Ég fer ekkert í dag, þetta bara gengur ekki upp.  Svo er ég farin heim strax við fyrsta tækifæri.  Hér á ég enga vini, ég hef engan til að tala við og ég hélt áfram að gráta. 

Þetta var svona ,,aumingja ég" móment.  Stóð stutt yfir.

Mér varð allt í einu minnistætt saga sem fyrrverandi sendiherra Tékklands og minn lærifaðir Einar Benediktson sagði mér fyrir hart nær sextán árum.  Hann sagði mér sögu af konu sem var að gefast upp þar sem hún stóð í fjörutíu stíga hita við móttöku og eiginmaðurinn þá sendiherra sagði: ,, Stattu kerling! " og hún stóð sína plikt. Eins ákvað ég í dag að standa mína plikt og sagði við sjálfa mig :  ,,Stattu kerling"  og það virkaði. 

Ég stóð upp og fór inn í fataherbergi og gróf upp eitthvað sem ég gæti verið í og hatt á hausinn.  Vildi ekki lenda í því að verða sköllótt í miðri veislu svo þetta gróf ég fram. Klar í bátana!4. júní 2009 001

Um eitt þúsund manns komu í boðið okkar í kvöld.  Þetta er í annað skipti sem við höldum átta landa sameiginlega þjóðhátíð.  Þ.e.a.s. Noregur, Sviðþjóð, Danmörk, Ísland, Finnland, Eistland, Lettland og Litháen. 

Þarna sést í minn elskulega þar sem hann stendur í ströngu í móttökudeildinni.4. júní 2009 010

Boðið var hrikalega vel heppnað og endaði með því að við þjóðirnar átta, sem stöndum alltaf með pálmann í höndunum hér í Prag, sungum saman Oleioleioleiolie!!  við mikla hrifningu gesta.   

Enging minnimáttarkennd hjá þessum sendiherrum skal ég segja ykkur og hvort þetta er eftir prodokolsrteglum það verður bara hver að dæma fyrir sig.  Við alla vega nutum þess að standa saman sem ein þjóð í kvöld.

Flottasta móttaka ever!!!!!!!!!!!!!  

 

 


Eru þið alveg að missa það þarna uppi á ísaköldu landi!

Vá bara það að detta niður á hugmyndina er eitt og sér túskildings virði en það að framkvæma þennan gjörning hlýtur að hafa kostað blood, sweat and tears.  Hugsið ykkur úthaldið hjá listamanninum.  Að standa í þessu í öllum veðrum (geri sterklega ráð fyrir að þetta hafi verið framið á Íslandi)  berjast á móti storminum í grenjandi rigningu bara til þess eins að bera grjót í haug, já og gangsstéttahellur eða eru þetta ekki hellur þarna efst?

Mér finnst hann alveg hafa átt skilið að fá annan túskilding fyrir það að hálf drepa sig á þessum burði en að kaupa  ljósmynd af fyrirbærinu fyrir 10 millur, Já sæll, er ekki alveg allt í lagi þarna heima!!!!

Láttu nú ekki svona Ía mín segja sumir núna, þetta er list! 

Sér er nú hver helvítis listin urra ég bara á móti!

  Alveg skítsama hvað ykkur finnst, þið megið kalla þetta list ég hef bara ekki geð í mér að meðtaka þetta núna. 

Á meðan leikskólagjöld hækka, bensín, olía, sígó og bjór sko ég meina allt þetta allra nauðsynlegasta sem almenningur þarf á að halda til að geta lifað þarna uppi á klakanum þá er verið að kaupa ljósmynd af gjörning! 

Ástæðan jú okkur vantaði svona í safnið!  Áttum enga svona mynd fyrir!  

Segið mér hver hefur gaman af því að skoða svona myndir og hvar í ósköpunum á hún svo að hanga?   Spyrjið eftir henni aftur eftir u.þ.b. hálft ár, þá verður svarið:  ,,Ha jú ég man eftir henni ætli henni hafi ekki verið komið fyrir hér niðri í geymslu". 

Og þar kemur hún til með að liggja um ókomin ár! 

Hér urra ég á eftir efninu!  Djöf..... það sem veröldin er klikkuð á köflum! 

 


mbl.is Dýrasta verkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið bara smart casual og byrjið að vinna!!!!!!!!!!

Jahá maður bara krullast allur upp eftir að lesa nýjustu fréttir frá hinu stóra Alþingi.

Þar sem þingheimur sat á skólabekk í dag og kynntust reglum pródakolsins vona ég að allir þeir nýliðar sem sátu þarna,  eru það ekki yfir tuttugu manns, hafi tekið vel eftir. Þetta er auðvitað alveg nauðsynlegt í byrjun þings að kynna lög og reglur Pródakols og fara eftir þeim líka.

Sko nú tala ég grínlaust og af reynslu.

Með hálstau eður ei, elskurnar mínar okkur gæti ekki verið meir sama það eina sem við biðjum um er að þið byrjið að VINNA!  Og verið bara snyrtilega til fara og farið í sturtu áður en þið mætið í vinnuna svo þið lyktið ekki af erfiði gærdagsins.

Bendi ykkur á að það er líka til eitt outfit sem heitir Smart Casual.

Annars hafa fréttir frá okkar nýja Alþingi aðeins truflað mig.  Skal viðurkenna að ég hef nú ekki lesið allar frá a til z en sá í morgun hvað Jóhanna okkar stóð með sínu fólki í norðangarra og barðist gegn vindinum, var ekki fyrirsögnin einhvernvegin þannig.

Fyrirgefið hvern andsk......var hún að þvælast norður og halda fyrsta þingfund á Akureyri?  Var verið að mála þingsali? Veit að það var verið að skipta um einhverja rúðu sem tók óratíma að panta, Yeh right!  

 Og ég segi nú bara eins og hún tengdamóðir mín sagði oft: Ja hérna, og eitthvað hefur það kostað!!!!!    Ekki málningin eða rúðan heldur ferðir fyrir hersinguna norður í garrann.

Æ mér r svo sem alveg sama svo framalega sem þau hafa verið að vinna en ekki verið í einhverri sportreisu!

Svo ég haldi aðeins áfram þá setti að mér svona kjánahroll þar sem ég horfði á viðtal við einhverja Guðfríði Lilju þingkonu, held hún sé frá VG, þar sem hún sagði að þingmenn hefðu verið að læra margt gagnlegt í dag þ.á.m. að klæðast FÍNUM FÖTUM.  JÁ SÆLL!!!!!!   Fínum fötum. Hehehehe...

Elskurnar minar komið bara fram eins og ykkur líður best en snyrtileg svo bara þannig að þið verðið okkur ekki til háborinnar skammar en landi og þjóð til sóma. 

Berið virðingu fyrir embætti ykkar og stöðu, það er það eina sem við biðjum um með eða án hálstaus.

Og bara svona til að þið krullist öll aðeins upp og fáið smá fiðring í mjóhrygginn þá finnst mér alltaf karlmenn frekar sexy með Breskan Lord klút um hálsinn. Eitthvað svo traustvekjandi. 

Einhver hvíslaði því að mér um daginn að þetta væri að verða inn aftur. 

Og aldrei lýgur almannarómur! 

 

 

 


mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband