Mamma þú verður að snúa messunni við!

Allt frá því ég var barn var sest niður klukkan sex, fjölskyldan og móðuramma mín og hlustað á messuna í útvarpinu og þessum sið hef ég haldið.  Ég varð mér út um kassettu hjá Ríkisútvarpinu með jólamessunni eftir að ég fór að halda jól hér og hún var spiluð alla vega í fimm ef ekki sex ár.  Það var dálítið fyndið með þessa spólu það varð að snúa henni við í tækinu þegar messan var hálfnuð og stundum gall í krökkunum: ,, mamma þú verður að snúa messunni við" 

Ég man í gamla daga þegar amma mín sussaði á okkur systkinin.  Við skildum sitja prúð og hljóð og hlusta á ritninguna og syngja alla sálmana á meðan mamma mín var yfirleitt að sýsla eitthvað í eldhúsinu en alltaf kom hún inn í stofu til að syngja með okkur Heims um ból, helg eru jól.

En talandi um messuna okkar hér í Prag þá nefndi ég þetta einhvern tíma við vinkonu mín og sagði að við værum eiginlega alveg búin að fá nóg af því að snúa alltaf jólamessunni svo hún  sendi  mér, fyrir nokkuð mörgum árum, jólamessuna á CD.  Þvílíkur munur, nú þurfti ekki að snúa við messunni og falleg ritning og sálmar komu óhindruð úr geislaspilaranum. 

 En ef satt skal segja þá held ég að öll fjölskyldan sé farin að kunna jólaerindi Dómkirkjuprests upp á sína tíu fingur svo nú er kominn tími til að endurnýja messuna á þessu heimili. Mér datt í hug á aðfangadag að seinka jólunum hér um eina klukkustund og hlusta á messuna í beinni á netinu en æ ég vissi að það myndi ekki falla í góðan jarðveg hjá heimilisfólkinu svo og að það er ekki alveg að gera sig þetta net stundum, og hlusta á messuna í ,,stakadó" úps, held bara að það geri sig ekki. 

Svo nú ætla ég að gera mér ferð upp í útvarp og fá nýja jólamessu fyrir næsta ár, veit ekki hvort þetta liggur léttilega fyrir almenning, alla vega var það ekki þannig í gamla daga þegar ég fékk kassettuna góðu.  Þá varð ég að fara bakdyra megin og grenja þetta út. En þar sem ég þekkti vel til hjá þeirri stofnun var þetta ekki mikið mál fyrir mig en ég man að fólk sem bjó þá líka erlendis skildi ekki hvernig þetta var hægt.  Ég held samt í dag að þetta sé ekki mikið mál, ætla alla vega að kíkja á gamla liðið þarna hjá RUV. og e.t.v. man einhver eftir mér. Svo er nú hann ,,litli" bróðir minn þarna  og hann reddar þessu örugglega snarlega ef ég þekki hann rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held nú það að ég geti reddað messu handa þér. Það ætti auðvitað að vera komin út "interaktív" messa frá Biskupsstofu, þar sem maður gæti skipt út prestinum að villd eftir stemmingu. Leggjum þetta fyrir Kalla. Gaman að rifja upp með þér jólahaldið í Hólmgarði 15,

ég var búinn að gleyma þessu.

Litli bróðir (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 12:20

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já þú segir nokkuð, gerum það, tölum við Kalla.  Egill maður gleymir ekki svona löguðu til ykkar allra.

Ía Jóhannsdóttir, 26.12.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband