Fagurt er rökkrið

Nú þegar húmar að kvöldi fara álfar og annað huldufólk að huga að búflutningum og gott ef ekki heyrist hér úti fyrir klingja í sleðabjöllum og reiðtygjum þessa góða fólks. Lítil von er nú á því að hér verði stjörnubjört nótt og tunglskin og ekki séns að norðurljósin dansi hér um háloftin í miðri Evrópu. 

Mikið hvað þjóðtrúin fylgir manni hvert á land sem er.  Hér að Stjörnusteini höfum við engan álfahólinn eða álagastein á landareigninni en klettarnir hér í grennd tala sínu máli og engin spurning að þar fyrirfinnst undurfrítt fólk í glitklæðum með kórónur á höfði og veldissprota í hönd.

Mér hefur alltaf fundist Þrettándinn dulúðlegur og held alltaf dálítið uppá hann fremur öðrum dögum dagatalsins. Ef til vill af því að þá finnst mér nýja árið endanlega gengið í garð. Ég reyni að brenna út öllum kertum frá jólum og áramótum sem fyrirfinnast í húsinu og læt ljósin loga þar til nýr dagur rís og geri enga undantekningu á því í kvöld og ekki veitir nú af að lýsa blessuðu fólkinu veginn til nýrra heimkynna þar sem myrkrið kemur til með að verða ansi svart í nótt þar sem hvorki verður tungl- eða stjörnubjört Þrettándanótt.     

 

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband