14.3.2008 | 12:15
Alltof velviljaðir viðskiptavinir.
Hér á borðstofuskápnum trónir eitt það stærsta páskaegg sem ég hef augum litið og æpir á mig: Éttu mig, éttu mig!!!! Velviljaðir viðskiptavinir færðu okkur hjónum þetta ferlíki í gær svona til að þakka okkur fyrir að vera til.
Að sjálfsögðu er ég afskaplega þakklát fyrir hugulsemina en.... var þetta nú nauðsynlegt? Fjörutíu sentímetra súkkulaði egg með hangandi þremur smærri eggjum utaná, plús það er svona 20 sm. míni-egg falið inn í því stærra síðan allskonar gúmmelaði skreytingar hingað og þangað með kveðju
,,Happy Easter"
Var ekki bara hægt að færa okkur nokkrar túlípanadruslur? Nei nú er ég virkilega vanþakklát. Hvernig get ég látið, kona á mínum aldri? En samt verður mér bara flökurt við tilhugsunina eina saman að þurfa að torga öllu þessu súkkulaði.
Nú ætla ég að koma mér út úr húsi áður en ég ræðst á þetta skrímsli og reyna að hugsa hvernig ég get komið þessu í lóg. E.t.v. finn ég hér einhvern páskabasar sem ég get gefið þetta til styrktar góðu málefni, eða krakka hér í hverfinu sem vilja torga þessu með ánægju.
En málið er bara það að minn elskulegi er súkkulaðifíkill og þ.a.l. fæ ég skömm í hattinn ef ég svo mikið sem hugsa um að fjarlægja þetta úr húsinu. og þá er ég í vondum málum, trallallallalla
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:20 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki sniðugt að gefast bara upp fyrir súkkulaðilöngunni og einhenda sér í átið á egginu?
Gleðilega páska frú mín góð.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.3.2008 kl. 12:20
Ég finn fyrir smá öfund
Gunnar Helgi Eysteinsson, 14.3.2008 kl. 17:10
Ég væri nú ekki í vandræðum með að leysa þennan vanda,- STRAX. - Því svona ferlíki gerir ekkert annað en að bjóða hættunni heim, þau fjölga sér svo fljótt. Eins og þú lýsir svo vel.
- Sko, þú ferð svona að: Þú byrjar á að ná þér í hamar, svona, til halds og trausts, síðan tekurðu fram hreinan dúk, sem þú leggur á gólfið, og sléttar vel úr,- Næst, tekurðu nokkrar, djúpar öndunaræfingar, til að hreinsa andrúmsloftið, og róa hugann,- því nú skiptir sköpum, að ekkert fari úrskeiðis. - Jæja.- Þá skaltu læðast hljóðlega að, "páskaeggjaferlíkinu", og áður, en, nokkur getur, komið því til varnar, skaltu snögglega, taka það, milli handa þér, - halda því fast, yfir dúknum, kreista það illilega, glotta. - og henda því svo af öllu afli, hátt upp í loft, og láta það falla, í frjálsu falli og skellast í gólfið, næst verðurðu að hafa snör handtök, grípa hamarinn og mylja það, mélinu smærra, egg fyrir egg, sé það þegar búið að fjölga sér mylurðu litlu eggjaungana líka. Mundu að mylja það svo smátt, sem smekk þínum finnst hæfilegt, og sem dugir, til að hjálpa þér, að láta það hverfa, á einu andartaki ofaní magann minn ....... ég er nefnilega súkkulaðifíkill. - Og, Þegar maginn er orðinn mettur, pakkarðu dúknum saman með afgöngunum í, og geymir handa þínum elskulega til betri tíma.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 14.3.2008 kl. 17:38
Jenný er búin að pæla í allan dag. Ef ég skófla þessu í mig með mínum elskulega kemur það til með að hafa hræðilegar afleiðingar plús það að ég er per se ekkert sérlega hrifin af súkkulaði nema NÓA SIRIUS
Ía Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 22:44
OK Jenný ég var ekki alveg búin að buna hér útúr mér. Afleiðingarnar verða hræðilegar, þú færð unglingabólur, situr á setunni með niðurgang og síðan koma fráhvarfseinkennin sem koma til með að standa fram í apríl. Og halló, ég hleyp ekki út í sjoppu héðan, það eru heilir 20 km. í næsta súkkulaðistykki. Nei, asskotinn ég læt þetta bar standa þarna eins og hvert annað stofustáss þar til það bráðnar í vorsólinni.
Takk fyrir innlitið var farin að halda að ég væri ,,úti" eins og Dúa sagði svo oft. Mikið sakna ég hennar héðan af blogginu. Góða helgi Jenný mín.
Ía Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 22:55
Gunnar verð að taka mynd af þessu fyrir þig. Þú verður frægur um allan heim ef þú leikur þetta eftir, ja alla vega í Sverge. Reyni að koma þessu inn fyrir páska. Annars fannst mér þín egg miklu flottari, verð bara að segja það.
Ía Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 22:59
Lilja djöf... Þú bara hrellir mig núna. Mér finnst ég vera með Litlu hryllingsbúðina lifandi komna í boðstofunni. Verð samt að fara niður og slökkva ljósin en allir góðir vættir veri með mér.
Ía Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 23:04
Ég hata páskaegg (fílustrumpur) af því ég fæ ekkert nema að kaupa það sjálf. Knús til þín mín kæra.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.3.2008 kl. 23:34
Hehehhe Ásdís þetta er fyrsta páskaeggið sem ég hef fengið síðan ég fermdist en það var það siður í minni fjölskyldu, eftir fermingu engin páskaegg.
Ía Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 23:46
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.3.2008 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.