6.5.2008 | 13:18
Lítill pistill um umferðamenninguna í Hamingjulandinu
Það er víst ekki bara heima í Hamingjulandinu sem eitthvað er ábótavant í umferðinni. Þegar við heimsóttum landið okkar um daginn vorum við dálítið að pæla í umferðamenningunni og komumst að því að við erum mjög sjálfstæð þjóð sem setjum okkur eigin reglur og látum ekki skipa okkur fyrir að fara eftir lögum ef við komumst hjá því.
Takið eftir, nú segi ég við því við vorum sjálfsagt engin undantekning frá reglunni þegar við bjuggum heima. En það er nú þannig að um leið og við stígum fæti inn í bíl á fósturjörðinni byrjum við á því að fylgjast mjög grannt með hraðamælinum. Viljum nú ekki láta taka okkur í landhelgi svona fyrsta daginn.
Það sem við tókum strax eftir er að landar okkar vita ekki að það eru stefnuljós á bílnum og svona stöng sem þú ýtir varlega upp eða niður eftir því sem við á. Ef til vill veit fólk þetta, er bara að spara rafmagnið, hvað veit ég. Eða því finnst þetta algjör aðskotahlutur sem þjóni engum tilgangi svo best bara að hunsa þessa litlu stöng við stýrið hvort sem skipt er um akrein, innáakstur eða beygt sé inn í aðrar götur.
Innáakstur er stórvandamál, maður verður að sæta lagi til að komast inn á aðalbrautir. Enginn gefur séns, allir eru svo sjálfstæðir í sínum bíl að þeir hafa ekki hugmynd um að fleiri séu á ferli og vilji komast leiðar sinnar. Sem sagt allir ,,Palli einn í heiminum"
Rosalega mega landar mínir vera fegnir að umferðaljósin eru sægstyllt eða eru allir litblindir? Gulur litur er örugglega ekki til í heilabúi margra. Grænt er grænt, gult er grænt og rautt er appelsínugult. Og drífa sig svo yfir gatnamótin og gefa hressilega í með ískri í dekkjum. Flott maður!
Framúrakstur á hægri akrein er bara hrein snilld! Koma svo, kitla pinnann, sjá hvað kerran drífur.
Svo fannst okkur alveg með einsdæmum allir jeppaeigendurnir á 15 milljóna tækjunum sem tíma örugglega ekki að láta fjarstýringu á farsímann í bílnum, allir með Prada síma við eyrað og keyrandi eins og kóngar í ríki sínu. Flott skal það vera maður!
Á meðan dvöl okkar stóð vorum við vitni að tveimur bílveltum á Reykjavíkursvæðinu, sem betur fer urðu engin stórslys.
Þar sem ég var að koma keyrandi frá Keflavík einn morguninn um ellefu leitið beygði sendiferðabíll fyrir mig inn á veginn við afleggjarann frá Keflavík. Ég hugsaði með mér jæja greyið hann er sjálfsagt að flýta sér. Mér lá ekkert á og keyrði á löglegum hraða á eftir kauða. Allt í einu hægir bíllinn á sér og tekur að rása á veginum. Ég hugsa með mér, ætli það sé eitthvað að og hægi á mér um leið. Sé ég þá hvað bílstjórinn hallar sér yfir í framsætið og sé ég ekki betur en hann taki upp síma. Þarna keyrum við á 50 km hraða en löglegur hraði var þarna 90km.
Bannað var að keyra fram úr svo ég held mig í mátulegri fjarlægð á eftir bílnum. Eftir nokkra stund hallar bílstjórinn sér aftur til hægri og nú sé ég að hann heldur á flösku í hendinni. Bíllinn rásar og auðséð að maðurinn er að bögglast við að skrúfa tappann af, síðan leggur hann flöskuna frá sér og tekur upp eitthvað sem líktist brauði eða hvað veit ég. Þarna var hann bara að borða hádegissnarlið sitt hinn rólegasti og algjörlega einn í heiminum.
Ef ég hefði verið stressaður bílstjóri hefði ég verið búin að blikka ljósum, blása í lúðra eða hvað veit ég en ég var orðin dálítið forvitin um framvindu mála svo ég bara lullaði þarna á eftir. Þegar við komum síðan að vegaframkvæmdunum við Vatnsleysu/Voga og ,,aumingjaskiltið" sem varla sést sýnir 50 km hraðatakmörkun, haldið ekki að kauði gefi í og snarar örugglega hraðamælinum upp í 90 ja alla vega sá ég hann ekki aftur. Sem sagt matartíminn var búinn og nú bara að drífa sig í vinnuna.
Er þetta hægt, ég bara spyr?
Annars er bara hér allt í góðu og fínt veður.
Sektaðir fyrir að keyra of hægt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Vefurinn, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Facebook
Athugasemdir
Veistu að þessi einkabissness Íslendinga í umferðinni er dálítið lýsandi fyrir þjóðina á öðrum sviðum líka. Hér er ég og fjandinn hafi afganginn. Eða á engelsku :Each to his own.
Knús í landið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.5.2008 kl. 13:46
"Glöggt er gestsaugað"! Þetta var frábær frásögn og svona er þetta, algjör martröð á álagstímum t.d. Yfirvaldið er víst eitthvað að "skoða" stefnuljósanotkun þessa dagana, en það verður sjálfsagt bara ein "rispan" sem gleymist fljótt.
Sigrún Jónsdóttir, 6.5.2008 kl. 15:17
Ég er nú nokkuð sammála flestu þessu, en það er auðvelt að gagnrýna svona litla og unga þjóð eins og okkur... við erum enn blaut bakvið eyrun í þessum málum líkt og mörgum öðrum... ég vil hins vegar meina að ég sé stórborgari í umferðinni og er alltaf að reyna að segja öðrum til þegar ég er farþegi :) líkt og að halda sig frá vinstri (vinstrustu) akreininni og hleypa inná akrein og taka hlutum í umferðinni ekki persónulega eins og margir virðast gera... ég hef séð umferðina í Reykjavík breytast þó nokkuð og margir eru farnir að skilja hvernig þetta á að virka allt saman en þó ekki allir.
Þór (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 15:34
Þetta er alveg mögnuð lýsing hjá þér á ástandinu hér á landi. Við hjónin gerðum okkur ekki grein fyrir þessu fyrr en við vorum búin að keyra hér um árið um 7 Evrópulönd og yfir 7.000 kílóm. og komum svo heim á landið bláa, við erum búin að vera í sjokki siðan og ekki lagaðist það eftir að við fluttum á Selfoss og hættum að vera daglegir þátttakendur í geðveikinni í bænum. Guð hjálpi þessu snarbilaða liði sem keyrir eins og það sé aleitt í heiminum, ekki get ég hjálpað þeim, held mig bara fjarri. Kær kveðja til þín Ía mín. og stefnuljós, er það ekki bara eitthvað til að hengja ruslapokann á???
Ásdís Sigurðardóttir, 6.5.2008 kl. 16:59
Takk fyrir innlitin er í bölvuðu veseni með að senda koment.
Ía Jóhannsdóttir, 6.5.2008 kl. 18:33
Hefur einhver þetta sama vandamál eða er þetta bara tölvudruslan mín að gefa sig?
Ía Jóhannsdóttir, 6.5.2008 kl. 18:34
Við Íslendingar erum algjör fífl í umferðinni!! Ég komst sko að því þegar við fjölskyldan keyrðum Evrópu hægri vinstri síðasta sumar.
Við höldum alltaf að við séum bara ein í heiminum eins og þú segir! Til dæmis þá þoli ég ekki þegar fólk er í sunnudagsbíltúrnum á 50 á vinstri akrein í Ártúnsbrekkunni!
Annars er gaman að lesa bloggið þitt Ía mín :) Bið að heilsa kónginum Erró!
Ragga frænka (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 00:03
Ía mín það hafa komið error síður er maður sendir komment svo vertu bara róleg.
það er þetta með elsku ég í umferðinni, hér fyrir norðan hjá mér er maður orðin afar umburðarlyndur, en manni finnst einhvernvegin að maður eigi heimtingu á góðri umferðar menningu og tillitsemi á stór Reykjavíkursvæðinu, en segin saga um leið og maður kemur inn fyrir borgarmörkin er maður orðin arfavitlaus út í allt og alla, tek undir allt sem þú segir Ía mín.
Kveðja Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.5.2008 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.