Algjörlega á röngum forsendum

Skondinn misskilningur kom upp hjá okkur hjónum um daginn þegar við heimsóttum hafnarborgina Hamborg.  Snemma morguns héldum við á vit ævintýra og byrjuðum á því að fara í skoðunarferð.   Leiðsögumaður bablaði á þýsku í hátalara sem lítið sem ekkert heyrðist úr nema skruðningar en ef eitthvað komst til skila þá var það á óskiljanlegri mállýsku, svo það litla sem við heyrðum fór eiginlega inn um annað og út um hitt.

Þegar bíllinn kom niður að höfninni ákváðum við að fara úr bílnum og ganga úr okkur allt gjammið sem eiginlega var farið að fara í okkar fínu taugar, anda að okkur fersku sjávarloftinu og láta goluna leika við vanga. 

Þar sem minn elskulegi hafði komið oftsinnis til Hamborgar á sínum uppvaxtarárum með fraktskipum barst talið að öllum þessum flota sem lá í höfninni.  Fjöldinn allur af túristafleyjum sigldu fram og til baka í misjafnlegu ásigkomulagi.  Ég gjóa augunum að mínum og sé eitthvað sem glampar svo ég spyr:  Eigum við að fara í siglingu með einhverjum bátnum um höfnina? 

 Hann svarar: Jú við gætum svo sem alveg gert það. 

Síðan koma smá vangaveltur um hvaða bátur yrði fyrir valinu.  Mér leist best á gamlan fljótabát sem ég í fáfræði minni hélt að væri orginal af Missisippy og við kaupum miða og stökkvum um borð rétt áður en landgangurinn var leystur frá.  Við komum okkur fyrir sólarmegin, (ég er svo lítill sjómaður að ég veit aldrei hvað er stjórnborði eða bakborði) og báturinn veltir letilega frá bryggju.

Voða kósí  allt saman.  Eftir svona hálftíma siglingu er mér farið að leiðast þófið.  Andskotinn við sáum varla neitt annað en gámaskip og aftur gámaskip og krana sem tjónuðu þarna eins og risahrammar yfir hræðilegum skrokkum skipanna.  Allt í einu rek ég augun í gám  og æpi upp:  Nei sjáðu SAMSKIP!!!!  Vá.....  einn einmanna gámur innan um öll hin stórveldin og hvað þetta gladdi mig, ég sá allt í einu eitthvað sem ég kannaðist við.  Fyrir mér var ferðinni bjargað, og ég hélt enn í sakleysi mínu að minn væri alsæll þarna innan um gáma og tröllaskip.

Loksins, loksins komum við í land og ég var fyrst frá borði, sver það.  Spyr síðan alveg bláeyg og ljóshærð:  Jæja hvernig fannst þér?

Svarað svona með algjöru áhugaleysi:  Veit ekki, fannst þér gaman?

Ég: Nei það veit hamingjan, næst getur þú farið einn.

Hann: Nú ég hélt að þig langaði svo mikið til að fara í svona siglingu?

Ég:  Ha ertu ekki að grínast, ég var að gera þetta fyrir þig!

Síðan tókumst við í hendur og leiddumst hlægjandi eftir bryggjunni. 

Stundum getur misskilningur orðið til þess að tengja okkur betur saman, og er það vel.  Love Boat 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.6.2008 kl. 22:11

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

ooog

Sigrún Jónsdóttir, 12.6.2008 kl. 23:50

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Virkilega falleg færsla.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.6.2008 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband