30.6.2008 | 07:57
Eins og naut í flagi og með allt á hornum sér.
Mér gæti nú ekki staðið meir á sama hvort dansað hefði verið í Þýsklandi eða á Spáni í gærkvöldi eða bumbur slegnar þar sem áhugi minn og skilningur á þessari íþrótt er í lágmarki. En til þess að vera kurteis óska ég Spánverjum auðvitað til hamingju.
Þegar maður á elskulegan eiginmann sem hefur mjög gaman af að horfa á þessa stráka sparka tuðru og veltast um í hvaða veðri sem er á vellinum þá kemst maður jú ekki hjá því að fylgjast með svona uppákomum með öðru eyranu.
Ég kom heim í gærkvöldi rétt fyrir leikinn og þá var minn farinn að tvístíga hér og ég sá strax að mikil eftirvænting var í gangi. Bara rétt eins og þegar nautið bíður þess að vera hleypt út úr stíunni og inn á leikvanginn. Barátta upp á líf eða dauða þar til annar liggur í valnum.
Þar sem við getum einungis náð í enskar stöðvar hér að Stjörnusteini ætlaði hann yfir í Leifsbúð en þar er/var hægt að ná þýskum og tékkneskum stöðvum. Halldór ábúandi í Leifsbúð hafði brunað til Vínar til þess að vera viðstaðddur leikinn svona í nærmynd, sem sagt af stórum skjá við Stephans Dom eða eitthvað í þá áttina. Minn ætlaði þá bara að sitja þarna aleinn og skemmta sér, enda var hann búinn að keyra tvisvar sama daginn til Prag og nennti ekki að keyra 100 km fram og til baka í þriðja sinn.
Korter fyrir leik heldur hann yfir í Leifsbúð og segir um leið: Þú kemur nú og kíkir á mig, er það ekki?
- Ég humma eitthvað svona til að vera nú ekki alveg óþolandi eiginkona.
Eftir u.þ.b. hálftíma birtist minn í eldhúsdyrunum eins og naut í flagi
- Hva er strax kominn hálfleikur spyr ég
-Nei ég næ ekki neinni stöð!!!! Það stóðu glæringar út frá honum ég get svo sem svarið það!
- Nú segi ég algjörlega áhugalaus
Hann fer upp í bókaherbergið og sest við tölvu og sjónvarp en kemur niður eftir stutta stund.
-Þetta er algjörlega ótækt, eina sem ég get fengið er í gegn um útvarp og á ensku.
-Humm, segi ég með sama áhugaleysinu.
Hann ríkur aftur út í Leifsbúð, vill auðsjáanlega ekki gefast upp í hálfleik. Kemur aftur og nú voru glæringarnar eins og logandi eldhaf í kringum hann.
Til þess að taka aðeins þátt í þessari eymd spyr ég hvort sjónvarpið virki ekki enn?
-Nei, frussaði hann út úr sér, gerfihnattamóttakarinn hefur örugglega skemmst í fárviðrinu um daginn.
- Heyrðu þú þarft nú ekki að vera svona fúll við mig, ekki stjórna ég veðurguðunum.
Ekkert svar. Fer aftur upp á loft og þegar ég heyri að slökt hefur verið á útvarpinu fer ég upp og ætla nú að reyna að vera elskuleg og meðvirk eiginkona og spyr: Hvernig fór leikurinn? Hverjir unnu?
-Spánn! Velti sér síðan yfir á hliðina í rúminu og var í fýlu.
Þar sem hann fór snemma til vinnu eða langt fyrir kristilegan fótaferðatíma veit ég ekki hvort hann er búinn að ná sér. Gæti trúað því að nú væri hann staddur í verlsun sem selur móttakara fyrir allar stöðvar heims.
-
Dansað á götum úti á Spáni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Íþróttir, Lífstíll, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 08:03 | Facebook
Athugasemdir
Mér skilst að þetta sé meiriháttar áfall, þ.e. að missa af leiknum fyrir þá sem hafa áhuga. Hahahaha, þessir karlar sko.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.6.2008 kl. 08:56
Já heldurðu að hann þurfi e.t.v. áfallahjálp Jenný?
Ía Jóhannsdóttir, 30.6.2008 kl. 09:03
, úbbs. Frábær frásögn, ég sé ástandið í anda.
Sigrún Jónsdóttir, 30.6.2008 kl. 09:44
ææ aumingja kallinn. Skil vel að þetta hafi verið svakalega frústrerandi fyrir hann. En ég segi eins og þú; lágmarksáhugi á íþróttinni að minni hálfu.
Jóna Á. Gísladóttir, 30.6.2008 kl. 10:31
Í þínum sporum mundi ég vera extra góð við hann í dag. Það er vont að missa af góðum leik, en vonandi var hann ánægður með úrslitin.
Ásdís Sigurðardóttir, 30.6.2008 kl. 10:41
Kall anginn. Hann á samúð mína alla.
Þoli sjálf ekki boltaleiki, en get alveg fundið til með fólki sem elskar íþróttir og missir svo af svona leik .
Hulla Dan, 30.6.2008 kl. 11:20
Hehehe góðar stelpur, hann verður mjög ánægður þegar ég sýni honum allar þessar samúðarkveðjur. Ég ætla líka að vera voða góð við hann þegar hann kemur heim, svona smá knúsi knús.
Ía Jóhannsdóttir, 30.6.2008 kl. 11:30
Innlitskvitt
Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.6.2008 kl. 14:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.