Tónaflóðið heldur áfram að berast frá Leifsbúð

Nú eru það ómar frá klarinettinum hans Einars Jóhannessonar sem berast hér með vindinum yfir sveitina okkar en hann kom í gær hingað og ætlar að dvelja hér í Listasetrinu næstu fjórar vikurnar. 

Ég hef alltaf haldið dálítið upp á þetta ljúfa hljóðfæri og ekki amalegt að fá að njóta þess að hlusta á snillinginn spila.

Minnir mig á fyrsta veturinn okkar hér í Prag 1991.  Þá bjuggum við niðrí borg ekki svo langt frá Kastalanum.  Einu sinni sem oftar var ég að ganga niður í bæ og var komin niður á Mala Strana en þar liggja öngstræti alveg niður að Moldá.  Ég man að það var brunakuldi eins og hann getur orðið verstur hér og stilla.  Allt í einu heyri ég undurljúfa óma klarinetts berast út um opinn glugga. 

 Ég stansaði og leit upp að húsinu sem var fremur óhrjálegt þriggja hæða steinhús.  Grá kolaslikjan huldi gömul útflúr og steinmyndir en bak við opinn glugga bærðist hvít gardína í svölu morgunloftinu. 

 Það er í svona strætum hér í Prag sem tíminn stendur kyrr og það er svo auðvelt að finnast maður vera kominn inn í mynd fyrri alda. Ég man að ég stóð þarna gjörsamlega bergnumin og hlustaði lengi á tónana sem bárust frá opnum glugganum.  Mér fannst ekkert vanta þarna nema krínólínið.  Ég rankaði við mér þegar ég heyrði hófaskelli á götusteinunum og vagn kom skröltandi fyrir hornið.  Ekillinn heilsaði og hvarf síðan inn í frostþokuna eins og í ævintýrunum.

Ég gleymi þessum sunnudagsmorgni aldrei og ef þið eigið einhvern tíma leið hér um farið þá og heimsækið þessi öngstræti Mala Strana snemma morguns á vetrarkvöldi.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég er líka hrifin af Klarinettinu.  Elsti bróðir minn átti eitt og spilaði mikið á það þegar ég var krakki.  Þegar Benny Goodman hljómaði svo á gömlu gufunni var hækkað í transistor tækinu.  Eldri sonur minn lærði svo á þetta hljóðfæri í tvo vetur, en það vék því miður fyrir "öðruvísi" áhugamálum unglingsáranna.  Metalica var ekki beint með þetta sánd.

Sigrún Jónsdóttir, 8.8.2008 kl. 12:02

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já pabbi hélt rosalega mikið upp á Benny Goodman og maður gat ekki annað en hrifist með. 

Ía Jóhannsdóttir, 8.8.2008 kl. 12:06

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rosalega er þetta falleg mynd sem þú dregur upp.  Það er í þig spunnið kona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.8.2008 kl. 20:03

4 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Knúsaðu snillinginn frá mér, ég er einlægur aðdáandi og vona að Einar njóti fögru sveitarinnar hjá þér og æfi eitthvað rosalega nýtt og erfitt

Eva Benjamínsdóttir, 8.8.2008 kl. 20:56

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er svo falleg saga Ía, í frásagnarstíl þínum, magnast svo upp lýsing þín á andrúmsloftinu og staðarháttum, að manni finnst maður hafa verið þarna með þér. Sem áhorfandi af upplifun þinni.   Einar er líka einn af mínum uppáhalds ..........

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 8.8.2008 kl. 21:36

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Segi eins og Jenný, falleg og heillandi mynd sem þú teiknar fyrir okkur. Ég man fyrst eftir klarinett í leikritinu Kardimommubærinn, mjög skemmtilegt hljóðfæri.  Kær kveðja og góða helgi elsku Ía

Ásdís Sigurðardóttir, 8.8.2008 kl. 23:14

7 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Ég hefði viljað upplifa þetta, hefur verið eins og ævintýri.

Knus

Kristín Gunnarsdóttir, 9.8.2008 kl. 14:31

8 Smámynd: Hulla Dan

Ó mæ god!!!
Hér sit ég öll útötuð í kjúklingabólum og langar meira en nokkru sinni áður að skoða Prag og sveitirnar þar í kring.

Þú kannt SKOOO og koma hlutunum frá þér kona!

Hulla Dan, 9.8.2008 kl. 18:16

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Heart Beat  Heart Beat Heart Beat ... lifandi frásögn - þú lætur Prag hljóma freistandi, ég kom þarna einu sinni í stutta (allt of stutta) helgarferð, en man hvað Karlsbrúin var flott og dularfull í rigningunni.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.8.2008 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband