18.9.2008 | 12:08
Gamla góða heimsendingarþjónustan. Sendlarnir á svötu hjólunum.
Ahhh... það er komin glæta, ég meina sólarglæta. Var svona að spá í það hvort ég ætti að skella mér í bæjarleiðangur eða bara kúra hér innandyra þar sem veðrið er nú ekki alveg upp á það besta hér við sjávarsíðuna í Garðabænum. Var búin að gleyma rokrassinum hér heima.
Í gær sat ég með móður minni aldraðri en hún er nú ótrúlega hress eftir aldri. Við röbbuðum um lífið og tilveruna svona almennt og ég fór að hugsa hvað í raun og veru við systkinin værum heppin hversu sjálfbjarga hún er komin hátt á níræðisaldur. Eina utanaðkomandi aðstoðin sem hún fær er þrif á íbúðinni hálfsmánaðarlega.
Það sem ég horfði á regnið lemja rúðurnar og vindinn gnauða fyrir utan hátt uppi á níundu hæð þá hugsaði ég með mér að ekki kæmist hún nú langt í þessu veðri. Þarna gerði samviskubitið vart við sig því ég veit að ábyrgðin er öll á systkinum mínum þremur sem búa hér á landi. Þau sjá um að keyra hana á milli, versla inn fyrir hana ef með þarf, ná í lyfin o. sv. frv. á meðan ég kem bara hingað sem gestur og stoppa yfirleitt stutt. Og öll vitum við að í hraða þess þjóðfélags sem við lifum í þá hafa allir nóg á sinni könnu. Móðir mín er líka ein af þeim sem aldrei vanhagar neitt þegar spurt er en síðan kemur það í ljós daginn eftir að hún er dauðþreytt af því hún fór út í matvöruverslunina og bar pokana alla leiðina heim.
Ég spurði gömlu konuna sem sat þarna keik á móti mér: Heyrðu mamma er ekkert hér sem heitir heimsendingaþjónusta frá matvöruverslunum.
Gamla konan leit á mig og glotti út í annað: Nei vinan það er nú ekki neitt svoleiðis hér. Ja ég get tekið leigubíl til og frá búðinni en sjálf verð ég nú að skakklappast þetta. Bætti síðan við, annars eru nú krakkarnir voða dugleg að hjálpa mér. Vildi auðheyranlega ekki vera að kvarta undan systkinum mínum við mig í þetta sinn.
Mér var hugsað til fyrri ára þegar mamma hringdi í Ólabúð og pantaði inn fyrir helgina og sendillinn kom með þetta á sendiferðahjólinu frá búðinni. Yfirleitt voru þetta einn til tveir troðfullir pappakassar af matvöru. Man enn eftir lyktinni sem fylgdi kössunum. Eitthvað hlýtur nú fólk að hafa borgað upp í sendingarkostnað en getur varla hafa verið nein ósköp.
Ég vildi eiginlega ekki trúa þessu. Meira að segja í landinu þar sem ég bý er heimsendingarþjónusta. Þegar dóttir mín var nýbúin að eiga frumburðinn og bjó i London notfærði hún sér heimsendingu frá Tesco. Það þótti bara ósköp eðlilegt.
Hvað með allt þetta gamla fólk og sjúklinga sem búa einir og komast illa ferða sinna. Það hljóta að vera einhverjir með þessa þjónustu. Ég fór á netið og leitaði og komst að því að ein búð hér býður upp á heimsendingu, Nóatún en allt fer það í gegn um tölvu. Síðan er slatti af Pizza og hraðréttastöðum, Kjöt í heilum skrokkum, grænmeti aðeins stórar pakkningar. Það var ekki það sem ég var að leita að. Ég nennti ekki að fara inn á síðuna hjá Nóatúni vegna þess að ég fór að hugsa en hvað með allt þetta fólk sem kann ekkert á tölvur, ætli sé hægt að fá vörulista í búðinni og panta símleiðis?
Nú nálgast veturinn óðum og færðin versnar. Hvernig fer gamla fólkið að sem á enga aðstandendur sem létta undir. Er það inni í heimaþjónustu að versla inn fyrir sjúklinga og aldraða? Afsakið en nú spyr ég bara eins og bjáni.
Hugsið ykkur hvað margt gamalt fólk sem býr eitt væri þakklátt fyrir að geta hringt í hverfisbúðina og pantað inn nauðsynjavörur. Ekkert vesen. Ekkert svona þegar hringt er í börnin sín: Æi, fyrirgefðu að ég skuli vera að kvabba þetta, ég veit þú hefur nóg annað að gera en ég bara treysti mér ekki út í veðrið.
Svo einfalt. Lyfta tólinu, velja númerið, panta eftir lista og síðan: Viltu svo væni minn senda þetta heim fyrir mig. Þakka þér fyrir góurinn.
Það hefur dregið fyrir sólu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Matur og drykkur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Því miður er þetta ein af aukaverkunum nútímavæðingarinnar.
Kaupmaðurinn á horninu fer að heyra sögunni til og þær fáu búðir sem eftir eru eru auðvitað dýrar vegna smæðar sinnar.
Að þessu leytinu hlýtur að vera erfitt að verða gamall.
Úff, hvað ég skil áhyggjur þínar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.9.2008 kl. 12:16
Það er inni í Heimaþjónustunni að keyra fólkið í búð eða þá versla fyrir það. Ég veit það af því að ég vinn í Heimaþjónustu, að vísu hér á Akureyri en ég held ekki að það sé svo mikill munur á þjónustunni hér og þarna
Jónína Dúadóttir, 18.9.2008 kl. 12:17
Jenný já þetta fer pínu í pirrurnar á mér.
Jónína gott að vita það, en hvað með alla hina sem þurfa ekki á þessari heimaþjónustu að halda? Eða eins og móðir mín, fyrr lægi hún dauð en að láta einhvern ókunnugan skottast út í búð fyrir sig. Stoltið skilurðu.
Ía Jóhannsdóttir, 18.9.2008 kl. 12:35
Það er val, annað hvort láta keyra sig eða versla fyrir sig. Ég skil þetta svo vel, auðvitað vill hún sem mest geta bjargað sér sjálf
Jónína Dúadóttir, 18.9.2008 kl. 12:39
Já ég held að ef við færum að tala um heimaþjónutu við hana þá tæki hún það sem höfnun af okkar hálfu.
Ía Jóhannsdóttir, 18.9.2008 kl. 12:48
Velkomin í hópinn minn Auður. Já ætli þeir kenni ekki um manneklu eða kostnaður yrði svo mikill að fólk myndi veigra sér við að nota þjónustuna, örugglega eitthvað í þá áttina.
Ía Jóhannsdóttir, 18.9.2008 kl. 13:40
Ía mín er mamma mín var á Lindargötunni þá var heimsendingarþjónusta frá 10 11
búðinni á Skúlagötunni, þetta eru dapurleg afturför ef þeir eru hættir því, en reyndar mundi mamma þín ekki versla þaðan en er ekki einhver verslun þarna nær henni sem mætti athuga með, svo senda Apótekin lyfin heim og allt sem þig vantar frá þeim.
En ég veit líka að þessar elskur vilja komast í búðina sjálfar og er það vel á meðan þær geta það.
En svo er þetta líka í heimaþjónustunni.
Knús knús
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.9.2008 kl. 12:02
Ég held að þetta sé ekki alveg útdautt, dettur í hug Kjötborgarkallar og svo Fjarðarkaup hér í Hafnarfirði. Gæti trúað að þar fáist heimsendar vörur. Þetta er enn til en erfiðara að finna það en áður var.
Kær kveðja í minni fyrstu heimsókn á síðuna þína
Ragnheiður , 25.9.2008 kl. 10:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.