Það er eitthvað mikið að því miður.

Perlurnar okkar sem við eigum hér á ísaköldu landi eru óteljandi og við sýnum stolt þessi undur útlendingum sem sækja okkur heim.  Geysir er ein af þessum perlum og þangað lá leið okkar hjóna um seinustu helgi. 

Geysir hefur nú aldrei heillað mig sérstaklega mikið.  Mér er nokk sama hvort sá ,,gamli" gýs eða hvort Strokkur hellir úr sér smá slettum. Gufustrókar úr jörðu hafa aldrei vakið neina sérstaka hrifningu hjá mér enda er ég fædd og uppalin á þessu landi og fyrir okkur er bara ósköp eðlilegt að gufu leggi upp úr jarðskorpunni hingað og þangað um landið. En útlendingum finnst þetta spes og þá er ekkert sjálfsagðara en að sýna öllum sem hingað koma frussandi hveri eða borholur sem hvæsa upp á Hellisheiði og víðar.

En það er eitthvað mikið að á þessum helstu ferðamannastöðum okkar.  Hirðuleysi umsjónamanna um öryggi og hreinlæti er þvílíkt ábótavant að það er til áborinnar skammar. Angry

Við hjónin komum seinast að Geysi fyrir tveimur árum í fylgd með helstu ráðamönnum þjóðarinnar og þjóðhöfðingja erlends ríkis.  Þá virtist allt vera í stakasta lagi og var tekið á móti okkur að Hótel Geysi með miklum höfðingsskap. Við vorum að koma ofan af jökli og fengum þarna léttar veitingar áður en haldið var til Reykjavíkur.

Það ríkti þess vegna dálítil eftirvænting hjá okkur þar sem nú átti að gista eina nótt að Hótel Geysi og skemmta okkur í góðra vina hópi íslenskra vina.

Veðrið var nú ekki upp á það besta en við harðákveðin í því að láta það ekki skemma fyrir okkur.  Við renndum í hlað rétt um hádegi og tók ég strax eftir því að fallega tréverkið var farið að láta á sjá.  Þegar inn kom spurðum við um gestamóttökuna og vinaleg stúlka frá Pest, Ungverjalandi vísaði okkur út og fylgdi okkur að bakhúsi sem mér fannst nú líkjast meir hjalli en húsi.  Þar var gestamóttakan.

 Grútskítugt teppi var það fyrsta sem ég tók eftir og mér fannst ég vera komin svo langt frá raunveruleikanum að það hálfa var nóg og er enn að pæla í því hvort þetta hafi í raun og veru verið eins slæmt og raun bar vitni. 

Konan í móttökunni var elskuleg og rétti okkur lykla og sagði að við værum í húsi númer 12.  Við hváðum, hvað meinarðu erum við ekki á hótelinu?  - Jú gistingin er hér fyrir neðan.

OK, við fundum hús númer 12 og það var þokkalegt, hreint á rúmum og svona eins og maður vill hafa þriggja stjörnu gistingu. 

Vinirnir fóru nú að tínast að og sumir fengu hús sem engan vegin var bjóðandi gestum.  Hitinn virkaði ekki í einu húsanna og í öðru fékk einn vinur okkar lokið af klósettkassanum í fangið þegar hann skrúfaði frá vatninu í vaskinn. Heita vatnið lét eitthvað á sér standa því það tók hálftíma að láta renna áður en hlandvolgt vatnið kom úr heitavatnskrananum og þannig var það í öllum húsunum og á salernum inni í Hótelbyggingunni var ekkert rennandi heitt vatn. Tvær af þessum glerfínu þvottaskálum voru stíflaðar og vatnið flæddi nær yfir barmana og salernin voru í hræðilegu ástandi. Sick

Halló við vorum á hverasvæði en ekkert rennandi heitt vatn!!!!!!!!

Um kvöldmatarleitið söfnuðumst við saman á ,,Hótelinu" því nú átti að halda inn í skógarrjóður þarna örskammt frá og snæða útigrillað gúmmelaði.  Það var búið að segja okkur að klæða okkur vel en það sem beið okkar var ótrúlegt.

Við vorum selflutt þarna uppeftir og ég var í fyrsta bílnum og það sem við okkur blasti var hringlaga hjallur, svona alveg eins og þeir voru gerðir verstir í gamla daga með þriggja til fimm sentímetra bili á milli fjalanna og sum staðar voru bara engir veggir.  Mér var að orði, nei þið hljótið að vera að grínast. 

Þegar inn kom blasti við grill í miðju svona í stærra lagi.  Allt í kring voru bekkir og borð sem voru rennandi blaut vegna þess að veðrið var brjálað.  Engin gashitun var þarna og ekki heldur nein lýsing fyrir utan kerti á borðum sem auðvitað logaði ekki á vegna vinda og vatns.

 Ég var sem betur fer þokkalega klædd og einn vinur minn var svo næs að lána mér flísteppi yfir axlirnar svo ég gat vafið dúnúlpu dóttur minnar um fæturna.  Sumar af konunum voru miklu verr klæddar en ég því engin hafði gert sér fulla grein fyrir aðstæðum.

Ég sá aldrei matinn sem settur var fyrir framan mig en borðaði hann bara blindandi og hann var ekkert slæmur, hef ekki hugmynd um hvað fram var borið.  

Við reyndum öll að gera gott úr þessu og sungum okkur til hita og sumir supu stíft á söngvatninu til að mýkja raddböndin. Þegar flestir voru búnir að borða tók minn af skarið og sagði að nú ætti að keyra konurnar upp á hótel enda var komið aftaka veður og við að verða gegnsósa eftir regn og sót frá grillinu sem þeir kynntu óspart til að halda á okkur hita. Whistling

  Ég hef aldrei elskað minn mann jafn mikið og þegar hann sagði: Allar konur í bílana.

Ákveðið var að hittast á barnum á hótelinu og flestir fengu sér kaffi og ,,með því" til að koma blóðinu af stað.  Það versta við að þegar inn í hús var komið var þar líka skítakuldi.  Kyndingin í ólagi var okkur sagt.  Engin sá um að þjóna okkur, gömul útbrunnin kerti voru hist og her en engin hafði haft rænu á að setja ný í stjaka eða ker.

Sumir drukku eigin veigar þar sem engin skipti sér af því hvort við versluðum við barinn og alveg skítsama hvort við værum eða færum. Aldrei sáum við Íslending við afgreiðslu.Tounge

Hádegismaturinn var borðaður í flýti áður en lagt var af stað enda ekki hægt annað þar sem fingur voru hálf frosnir við hnífapörin þar sem hitinn var greinilega ekki kominn í lag.

Stúlkan úr gestamóttökunni kom til okkar og spurði hvernig hefði verið í gærkvöldi.  Ég sagði bara: Ég gæti nú sagt þér það hefði ég séð eitthvað en satt best að segja fannst mér ég hafa misst sjónina þessa tvo tíma.  - Já við hefðum nú átt að flytja dinnerinn inn í hús en þetta er rosalega flott á sumrin.

  Ég nennti ekki að svara henni en hugsaði bara jæja vinkona ekki skal ég þræta við þig um það, sjálfsagt voða kósí á sumarkvöldi en mér fannst við bara vera þarna eins og fé af fjalli sem rekið hafði verið inn í réttina.  Sorry!

Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og þeir sem hafa haft það af að lesa sig alla leið hingað niður fá verðlaun næst þegar við hittumst.

Eftirminnileg og skemmtileg ferð með vinum mínum þrátt fyrir allt volkið.

Komin með blöðrubólgu og hor í nös.Grin

 

 

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Vá þetta var ótrúlegt og það á þessum mikla ferðamannastað ! Hvað er svo í verðlaun ?

Jónína Dúadóttir, 23.9.2008 kl. 06:17

2 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Hvað er í gangi, á svona miklum ferðamannastað ætti alt að vera tipp topp, ekki góð auglýsing seigi ég nu bara.

Kristín Gunnarsdóttir, 23.9.2008 kl. 08:52

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jónína koss á báðar!

Neip Stína frekar bágborið.

Ía Jóhannsdóttir, 23.9.2008 kl. 09:22

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er þetta ekki dæmigert fyrir okkur Íslendinga?  Allt svo frábært á yfirborðinu og á myndum, svo kárnar gamanið.

Mér er skítkalt eftir lesturinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.9.2008 kl. 09:26

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jú því miður virðist það vera svo.  Ekki það að það sé neitt betra í útlöndum Jenný mín en hér er maður á ,,heimavelli" og finnst að hlutirnir ættu að vera í lagi, það er bara þannig.  

Ía Jóhannsdóttir, 23.9.2008 kl. 09:46

6 identicon

Ég hef komið á þetta hótel að vori minnir reyndar að það hafi verið á 17. júní, ég og dóttir mín komum þarna til þess að borða kvöldmat og ég hef aldrei fyrr né síðar fengið eins lélegar móttökur á nokkrum veitingastað.

Ég veit ekki hvort það var af því að þau nenntu ekki að taka á móti okkur eða bara vildu ekki fá okkur í mat en það voru held ég ein pör að borða þarna og við spurðum hvort við gætum fengið borð og mat, júu var svarið en það væri eiginlega allt upppantað og við litum yfir salinn og það var engin nema þessi pör. Við fengum síðan að setjast við borð og mat og sátum heillengi til þess að vita hvenær allt þetta fólk kæmi. Við gátum ekki séð það á kokknum að hann væri mjög upptekin við að útbúa mat handa stórum hópi því hann var úti að leika sér við hundinn nánast allan tímann á meðan við borðuðum, hann var í júníforminu, sem sagt kokkabúningnum og hattinum og öllu saman þannig að það fór ekki á milli mála að þetta var kokkurinn.

Þegar við yfirgáfum þennan stað þá sögðum við að kannski hafi salurinn  verið fullar af fólki úr öðrum víddum sem við sæjum ekki, við skemmtum okkur að minnst kosti stórkostlega yfir þeirri hugmynd okkar á leiðinni heim.

En hvað er í verðlaun Ía mín mér var líka orðið kalt að lesa þetta og sótið í augu og háls úff.

Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 10:05

7 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Je minn eini....Tetta kemur mér sko ekki á óvart Ía mín.Ég var tarna í fyrrasumar med gesti frá Danmörku og bordudum tarna í hádeginu.Pantadur var sodinn lax med gódu hvítvíni.Bedid var góda stund eftir matnum og er hann kom var laxinn kaldur og sodnu kartöflurnar líka en á móti var hvítvíndi ordid heitara en maturinn svo listin var ekki mikil.Vid kvörtudum á leidinni út en móttökurnar á teirri kvörtun var eins og vid værum ad tala vid veggina.

Tarna förum vid aldrey aftur tví midur tví tetta er stadur sem gaman ad ad sýna útlendingum.

Mér finnst móttökurnar sem tid hafid fengid ótrúlegar samt ....Madur sendir ekki fólk til kvöldverdar út í garrann...Hvad er skemmtilegt vid tad ?Mér er spurn.Nei Hótel Geysir er sko ekki á pallbordinu hjá mér frekar en tér mín kæra.

Tad er svo einkennilegt med starfsemina tarna ,fyrir 6 árum fór ég tarna med fjölskyldunni minni og fengum vid frábærar móttökur og allt í sómanum.Hótelid leit vel út útskurdurinn fallegur á húsinu en nú er allt í nidurnýslu.Hvad hefur gerst eiginlega?Tá er ég líka búin ad hella úr mínum skálum  Ía mín og tad á tinni sídu.Sorry.

Hafdu tad sem best kæra vinkona

Gudrún Hauksdótttir, 23.9.2008 kl. 10:22

8 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jónína maður verður svo reiður Arg....  Takk fyrir innlitið.

Guðrún mér skilst að það sé sama fjölskyldan sem rekur þetta og hefur gert í áraraðir.  Ég gat ekki kvartað yfir matnum hann var í lagi en bara rétt svo. Ég veit líka að til þess að halda svona stóru batteríi í gangi þarf eigandinn að vera vakandi og sofandi yfir þessu 24 hours, og það er ekkert létt verk eins og þú veist sjálf.  Ekki það að ég ætli að fara að afsaka þetta hér á neinn hátt, langt í frá.  

Ía Jóhannsdóttir, 23.9.2008 kl. 12:09

9 Smámynd: Þröstur Unnar

Nennan er ekki fyrir hendi þarna og hefur aldrei verið.

Gisti þarna og borðaði fyrir nokkrum árum og geri það aldrei aftur.

Þröstur Unnar, 23.9.2008 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband