Það var þá! Er sagan að fara að endurtaka sig?

Við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld munum vel eftir skömmtunarseðlunum.  Þar sem maður stóð í biðröð niðr´í gamla Gúttó og hékk í pilsfaldi mömmu eða ömmu bíðandi eftir að röðin kæmi að manni. 

Við munum líka eftir lyktinni fyrir jólin þar sem eplakassinn var vandlega falinn inn í kompu því ekki mátti snerta þessa munaðarvöru fyrr en á Aðfangadag.  Sumir voru heppnir og fengu appelsínur líka en þá varð maður að hafa ,,góð sambönd" eins og það var kallað. Stundum slæddist skinkudós með og súkkulaði.  Þá voru jólin fullkomin.

Vonandi koma þessir tímar aldrei aftur en þegar fólki er ráðlagt að fara að hamstra þá er útlitið ekki gott.

Ég tók eftir því þegar ég var heima um daginn að verslunarmenn voru svona hálfpartinn að afsaka vöruúrval og fékk ég oft að heyra eitthvað á þessa leið:  Nei, því miður við erum að bíða eftir næstu sendingu, kemur í næstu viku.  Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að varan væri komin til landsins,  það væru bara ekki til peningar til að leysa hana út.

 Í einni af okkar betri verslunum í Reykjavík var mér sýnd flík sem ég vissi að hefði verið seld þarna síðasta vetur og stúlkan sýndi mér hana sem nýkomna haustvöru.  Ég gerðist svo djörf að segja upphátt:  Þetta er síðan í fyrra.  Aumingja konan fór öll hjá sér og til að bjarga sér fyrir horn greip hún nýjan bækling sem hún sýndi mér af miklum áhuga og allt var þetta væntanlegt innan skamms.

Ég er ansi hrædd um að útsölur byrji snemma í ár.

Eins einkennilega og það hljómar er eins og ég sé komin langt, langt frá ykkur núna.  Ég skynjaði það strax í gærkvöldi að ástandið heima skipti mig ekki svo miklu máli lengur og ég fékk hrikalegt samviskubit.  Á meðan ég dvaldi á landinu tók ég fullan þátt í daglegu lífi landa minna og skammaðist og argaði ekkert minna en aðrir.  Í morgun fletti ég blaði landsmanna og það eina sem kom upp í kolli mínum.  Djöfull er þetta ömurlegt!  Síðan hætti ég að hugsa um þetta ófremdarástand.  Það var eins og það snerti mig ekki lengur.

Ein góð bloggvinkona mín sem býr í DK skrifaði um þetta sama tilfinningaleysi hjá sér í morgun.  Held að okkur hafi liðið álíka illa.  Erum við svona vondar manneskjur eða er þetta eðlileg reaksjón.  Veit ekki!! 

Þetta hrellir mig satt best að segja en mér þykir ósköp mikið vænt um ykkur öll og vil ykkur ekkert nema alls hins besta.

Er farin að skoða hug minn.


mbl.is Verslunarmenn vænta vöruskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær færsla. Ég man ekki eftir skömmtunarseðlunum er fædd ´52 en ég man eftir eplunum og appelsínunum og lyktinni úr geymslunni sem barst út um allt hús.

Það var svo mátulegur munur á hvunndag og helgi á þeim árum.  Nú er þetta meira og minna runnið saman í eitt í neyslubrjálæðinu.

Man líka eftir lyktinni af brakandi næloninu sem jólakjólarnir voru saumaðir úr og svörtu lakkskónum með leðursólanum og það brakaði í þeim þegar maður steig í snjóinn.  Ó jesús minn hvað það er langt síðan.  Horfinn heimur.

En ég skil þig vel að þú skulir upplifa þig fyrir utan þar sem þú býrð í öðru landi.  Hef sjálf verið þarna og það er bara skiljanlegt.

Knús á þig elsku Ía.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.10.2008 kl. 12:32

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Hef aldrei öfundað ykkur brottflutta meira en núna og skil ykkur mætavel

Sigrún Jónsdóttir, 3.10.2008 kl. 12:41

3 Smámynd: Snowman

Ég skil þig mjög vel varðandi tilfinningaleysið.  Ég er sjálfur búsettur í Danmörku og hef verið það í þó nokkur ár.  Fór þó heim í 2 ár og endaði með mínustal í bankanum.  Þess vegna er ég sáttur við krónuna því það er helmingi ódýrara að borga allt niður heima þegar maður hefur tekjur í erlendum gjaldmiðli

Snowman, 3.10.2008 kl. 12:45

4 identicon

Þetta með "nýkomna haustvöru"... mér hefur alltaf fundist það merkilegt hve [kven]þjóðin hengir sig oft í þetta að eitthvað sé betra af því það er glænýtt (karlarnir þurfa nýjustu græjur náttúrulega).  Var peysan eitthvað síðri af því hún var ekki nýkomin úr gámnum? Sölukonunni fannst það greinilega skipta máli allavega.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 13:44

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já Jenný horfinn heimur.

Sigrún æ já hélt aldrei að ég ætti eftir að upplifa þessa tilfinningu.

Snowman:  Svona er þetta bara.  Takk fyrir innlitið.

Bragi Þór: Elsku kallinn allar konur vilja eignast eitthvað nýtt við erum við bara þannig og karlar engu síður eins og þú bendir á.  Takk fyrir innlit.

Ía Jóhannsdóttir, 3.10.2008 kl. 14:14

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Nei þú ert ekkert vond manneskja þó þér finnist ekkert um þetta er þú ert komin heim af hverju ættir þú að vera að pirra þig á þessu rugli.
Ég man líka skömmtunartímann og skortinn á hinum ýmsu vörum, en man ekki eftir að það hafi háð mér neitt, má vera að það hafi bara alltaf verið svo gaman hjá mér.

þetta með nýju vöruna hefur ætíð viðgengist kaupmenn láta gömlu vetrarvöruna í geymslu og draga hana svo fram ári síðar, varð margoft vör við þetta er ég var iðulega að versla erlendis svo kom maður heim og sá í búðunum það sem maður augum leit veturinn áður erlendis.

En það verður erfiður tími framundan það er á tæru.
Knús knús Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 3.10.2008 kl. 14:34

7 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Sæl Ía mín.Vid tvær um lídan okkar....tetta med útsölurnar tad er á hreinu tær verda fyrr á ferdinni enda ekki skrítid.

Fadmlag á tig inn í góda helgi úr fallegu haustinu í Jyderup.

Gudrún Hauksdótttir, 3.10.2008 kl. 15:57

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Er nú svolítið farin að öfunda ykkur sem búið fjarri hallærinu. Sagt að það séu tvær leiðir út úr því. Iceland Express og Icelandair.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 3.10.2008 kl. 17:35

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ditta mín við erum nú ekki tvævetur, við lifum þetta allt af eins og annað

Guðrún mín bestu kveðjur héðan frá Stjörnusteini, erum bara hress hér.

Ía Jóhannsdóttir, 3.10.2008 kl. 17:36

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jóhanna heheheh þar komstu með það annars er ég svartsýnismanneskjan sjálf frekar bjartsýn fyrir ykkar hönd.  Eins og sonur minn hefur haft að mottói síðan hann gat talað:  Þetta reddast allt.

Ía Jóhannsdóttir, 3.10.2008 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband