Alveg sérstaklega hjartahlýtt og brjóstgott fólk sem tók á móti mér.

Það er ekkert sjálfgefið fyrir konu að taka upp símann og panta tíma hjá Hjartavernd eða Krabbameinsfélaginu, þá er ég að tala um þessar reglubundnu heimsóknir sem allir ættu að fara í en flestir fresta og sumir næstum fram í rauðan dauðann. Ég er þar engin undantekning og skammast mín fyrir að segja ykkur hvenær ég hundskaðist síðast svo ég læt það liggja á milli hluta.

En fyrst ég var nú á leið heim þá pantaði ég mér tíma hjá báðum þessum stofnunum um daginn og fékk tíma um leið, sem sagt engin biðtími þar eins og hjá flestum læknum. 

Það skal tekið fram að ég er alveg þrusu hress bæði á sál og líkama.  Þarna voru á ferð fyrirbyggjandi aðgerðir af minni hálfu.

Ég byrjaði á því að heimsækja Hjartavernd með tóman maga að sjálfsögðu.  Yndælis kona tók á móti mér og mældi og viktaði og tók línurit.  Eftir að ég hafði fengið að vita að ég hefði hlunkast saman um næstum tvo sentímetra fór ég í blóðprufu hjá lækni, konu, sem var ekkert nema elskulegheitin og af því að hún var svona geðug þá hugsaði ég með mér að best væri nú að létta aðeins á litla hjartanu og segja hvað hefði verið að angra mig í næstum tvö ár. 

Saga mín var skráð í tölvuna og hún segir að þetta geri hún svo hjartalæknirinn sem tæki á móti mér eftir nokkra daga hefði nú þetta allt fyrir framan sig.

Ég þakkaði voða vel fyrir mig og gekk út í rokið og fékk mér sígó.

Næsta dag heimsótti ég góða fólkið hjá Krabbameinsleitarstöðinni.  - Karlar þurfa ekkert endilega að lesa þetta........ Jésús það var svo rosalega langt síðan ég hafði sest í stólinn góða eða það fannst mér alla vega.  Eftir mjúku strokuna og þið vitið...... þá vippaði ég mér niður og hjúkkunni varð á orði , ja þú ert ekki þung á þér.  Held þetta hafi ekkert haft með þyngdina að gera, ég var bara svo rosalega fegin að komast af stólnum. 

Þá tók við tortúrtækið þið vitið stelpur sem kremur litlu sætu dúllurnar okkar út og suður.  Hey það er komin ný vél, ekki næstum eins sárt og síðast. Ég mátti síðan hringja daginn eftir af því ég bý erlendis, sem sagt þarna fór kona með forréttindi, sem ég og gerði og fékk að vita að mínar eðaltúttur voru eins hreinar og hjá hálfstálpuðum ungling. 

Mikið var nú gott að heyra það og ég fékk mér sígó, enda tilefnið frábært.

Tveimur dögum seinna lá leið mín aftur upp á Hjartavernd en þar tók á móti mér kornungur ljóshærður og myndalegur hjartalæknir.  Mín fyrsta hugsun var:  Guð minn góður hann er svo ungur!  Ég´bjóst fastlega við því að mér yrði skipað úr fötunum að ofan og upp á bekk eins og gert var hér áður fyrr og maður þuklaður með köldum lúkum en nei þessi ungi piltur bauð mér kurteysislega sæti og opnaði fælinn minn.  Þá upphófust samræður um fjölskyldu mína og hans þar sem konan hans var sveitungi tengdadóttur minnar.  Þetta stóð yfir í nokkrar mínútur.  Mjög fróðlegt samtal og skemmtilegt.

Síðan setti hann prentarann í gang og út gubbuðust nokkur A-4 blöð. Þar sem ég hafði verið mjög hreinskilin og sagt með réttu að ég væri stórreykingarmanneskja komu niðurstöður mér mjög á óvart.  Ekkert virtist vera athugavert við neitt.  Kólesterólið sem alltaf hefur verið við hættumörk var nú bara eðlilegt og það eins sem hann gerði athugasemd við var að ég auðsjáanlega hreyfði mig allt of lítið, yrði að bæta úr því.  

Ég komst aldrei svo langt að segja honum að ég púlaði hér í garðvinnu átta mánuði á ári og það teldist nú örugglega til hreyfingar.  Jæja skítt með það.  Allt var þetta í stakasta lagi.  Ég impraði líka á því sem ég hafði sagt hinum lækninum um það sem ég hefði áhyggjur af en áður en hann gat svarað mér var ég búin að svara mínum eigin spurningum sjálf, skilgreina allt á góðri Íslensku, orsakir og afleiðingar og hann jánkaði mér bara og sagði að ég hefði sjálfsagt rétt fyrir mér.  Ekkert svona hum eða ha, þú ættir nú að láta athuga þetta eða hitt ef þetta kemur fyrir aftur.  Sem sagt bara kerlingavæll í mér og histería.

Ég er líka bara ansi sátt við þá niðurstöðu.

Þá kom fyrirlestur um reykingar og spurningar um hvort mig langaði til að hætta sem ég jánkaði alveg hreinskilningslega.  Þá opnuðust flóðgáttir og þessi ungi maður tók mig algjörlega á sálfræðinni, talaði um áhættuhópinn sem ég væri í, barnabörnin sem eru augasteinar mínir.  Eftir nokkrar mínútur var ég svo heilaþvegin að ég gekk út með tárin í augunum og lyfseðil upp á fleiri tugi þúsunda sem eiga að hjálpa mér að hætta þessum ósóma.

Sko tárin voru ekki vegna þessara þúsundkalla heldur var ég alveg rosalega snortin. 

Ég var ekkert send í ómskoðun eins og alltaf hér áður fyrr vegna þess að önnur slagæðin í hálsinum á mér er alltaf í feluleik.  Hann kom aldrei við mig nema þegar hann heilsaði og kvaddi. Ef ég hefði ekki lyfin hér fyrir framan mig væri mér næst að halda að þetta hefði verið draumur. 

Ég er í undirbúningsvinnu núna fram yfir áramót og þá á að taka á því.  

Er farin að fá mér eina sígó.   

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þessa ákvörðun. Hún brennur á mér sem aldrei fyrr. Ef maður gæti kennt einhverju um eins greindarskorti!

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 20:45

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já ég er þetta líka ánægð með sjálfa mig.  Ætlaði síðan líka í beinþynningarprófið sem þú tókst um daginn en vissi ekki að maður yrði að koma fastandi.  Dríf í því næst Hallgerður mín ekki spurning.

Ía Jóhannsdóttir, 20.11.2008 kl. 21:01

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Er enn í kasti frábær saga hann hefði getað komið aðeins við þig þessi ungi læknir,
en er líklegast með snertifóbíu.
Takk fyrir kvöld hláturinn
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.11.2008 kl. 21:03

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hann var algjör dúlla þessi strákur.  Já gott að geta hlegið Milla mín. 

Ía Jóhannsdóttir, 20.11.2008 kl. 21:29

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir gott "rapport" og ég sé að þú ert í fínu lagi.  Gangi þér vel að losna við "sígó"......ég er ennþá að hugsa.....á töflur uppi í skáp....verð þér kannski samferða

Sigrún Jónsdóttir, 21.11.2008 kl. 00:19

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Flott hjá þér

Jónína Dúadóttir, 21.11.2008 kl. 08:15

7 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Humm jamm Sigrún mín lyf sem ég hef stundum orðið að taka undanfarin ár hafa alltaf virkað rosalega vel upp í skáp heheh..... við sjáum til eftir áramót hvernig þessi virka.

Auður til hamingju og ég fæ e.t.v. stuðningsfulltrúa þar sem þú ert.

Jónína takk vinkona.

Ía Jóhannsdóttir, 21.11.2008 kl. 09:06

8 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

OHHH, hvað ég skil þig með krabbameinsskoðunina en við verðum víst að láta fylgjast með þessu eins og öðru, þó að ég sé þung á mér þá er ég aldrey eins li'ðug og þegar að ég get farið úr þessum glennibekk. Það er fyrir mestu að þú ert hraust Ía mín

Kristín Gunnarsdóttir, 21.11.2008 kl. 13:46

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, ég hef verið tekin svona í bakaríið og mér leitt fyrir sjónir hversu slæmar reykingar eru.  Það svínvirkaði, alveg þangað til að ég var komin út úr húsi, inn í bíl og búin að kveikja í.

Ég er algjörlega forstokkuð í reykingunum.

En.. ég hef minnkað um meira en helming.

Ég er viss um að þú tekur þetta með vinstri Ía mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.11.2008 kl. 14:39

10 identicon

Hey Ia

Gvöð hvað það er gaman að uppgötva hver og hvar þú ert.

Ég tók leiklistar tíma í 2 eða 3 ár hjá þér í Réttó og sýndum Nakinn maður og annar í kjólfötum. he he he skemmtilegasta ár sem ég hef lifað og ég meina það !!

Við höldum enn hópinn og einn af leiklistarhópnum þínum er virkur í áhugamannaleikfélagi. Gvuð hvað þessir tíma gáfu manni mikið!

Hildur ( sem lék gleðikonu 13 ára og fílaði það í tætlur)

Hildur (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:43

11 identicon

PS Ég er á degi 12 í reykleysi og tygg nikotinell eins og brjáluð!

Ég veit ekki nema ég byrji aftur  um áramót og deyi helsátt fyrir " aldur fram!"

Þetta er sorgarferli sem maður gengur í gegn um og mér finnst krepputla alveg nóg

Hildur (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:57

12 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Sæl Hildur mín.  Mikið er gaman að heyra að þið haldið enn hópinn.  Veistu ég var að fletta Mbl. hér áðan og þegar ég sá greinina um leiklistakeppni skólanna var mér einmitt hugsað til ykkar sem voruð hjá mér þessi ár. Þið voruð alveg sértakur hópur og samheldin.

Ætli nokkur leikstjóri hafi látið leikara hjóla úr sal, upp brekku sem við létum Þorvald byggja og beint upp á svið í skólauppfærslu nema við sem settum upp Dario Fo.  Heheeh það var flott ekki satt?  Enda fengum við mikla umfjöllun.

Skilaðu knúsi og góðum kveðjum frá mér til allra og takk fyrir innlitið Hildur mín.   

Ía Jóhannsdóttir, 22.11.2008 kl. 09:12

13 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Hjartahlýtt og brjóst gott fólk er vel við hæfi á svona stöðum Gott að ljúka svona málum af. Ég er nýbúin í eftirlitspakka krabbameinsleitar en hjartapakkann æti ég að taka heima sé það á þessu. Ég væri í góðum málum í sumu þar. Reyki ekki en frekar og mikið af mér finnst mér. Úff . . . ef það yrði kommentað á það

Vona að hundurinn geti dregið þig út í snjóinn, gengur ekki að hafa hann of feitann. Hundinn "held ég".... 

Kær kveðja frá Als

Guðrún Þorleifs, 22.11.2008 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband