22.6.2009 | 18:06
Undir húsveggnum hér og þar.
Ég sat undir húsvegg með syni mínum á laugardaginn og þar sem við nutum þess að láta júnísólina verma okkur sagði Egill: ,,Mamma veistu að það er alveg óþarfi að spyrja þig hvernig þú hafir það" Ég pírði augun á móti honum og júnísólinni og hváði:,, Ha nú?" -Ja sérðu, maður þarf bara að opna bloggið og ef þú hefur ekki bloggað þann daginn þá veit maður að þú hefur það lousy en ef maður sér færslu frá þér þá veit maður að þú ert í lagi sagði hann og brosti sínu fallega brosi á móti mömmu sinni sem hafði þá ekkert bloggað í nokkra daga.
Humm, en bara svo þið vitið það þá hef ég það reglulega skítt í dag en ætla samt að setja hér inn litla færslu. Verð víst að fara í sprautu í fyrramálið en samt er þetta allt á uppleið og ég verð fín eftir nokkra daga. Ekkert helvítis væl núna þegar þetta er alveg að verða búið!
Orðalagið sem ég notaði hér að ofan ,,að sitja undir húsvegg" fékk mig til að fljúga á vit minninganna og ég var allt í einu orðin lítil stelpa sitjandi undir húsvegg með Sigrúnu vinkonu minni.
Við sátum á teppi og dúkkurnar okkar hjá okkur. Við vorum í mömmuleik. Það var sunnudagur og sól skein í heiði. Mín dúkka hét Pressý og var með ,,ekta hár" man ekki hvað Sigrúnar dúkka hét en mig minnir að það hafi verið negrastrákur.
Ég átti forláta dúkkuvagn svona mínitur af Pedegrí vagni. Vagninn minn bar af öllum dúkkuvögnum í hverfinu enda keyptur í útlöndum og ég var ofsalega montin með hann og þarna stóð hann við hlið mér og glampaði á krómaðar gjarðirnar í sólinni.
Hvernig var það þarna í denn var alltaf sól á sumrin? Alla vega var alltaf sól hjá mér og við vinkonurnar spásseruðum í mjallahvítum sportsokkum með risa slaufur í hárinu og ýttum dúkkuvögnunum á undan okkur upp og niður Hólmgarðinn sem þá var varla hægt að kalla götu heldur leit meira út sem moldartröð. Reyndar máttum við aldrei, alla vega ekki ég, fara niður fyrir millibilið, það bjuggu villingar fyrir neðan búð. Svanhvít mín og þið hin sem bjugguð þarna, ef þið lesið þetta þá bara brosa með mér núna.
Eftir göngutúrinn settumst við aftur undir húsvegg og plokkuðum drulluslettur af hvítum sportsokkunum og vonuðumst til að mæður okkar myndu ekki taka eftir því hvað við vorum orðnar skítugar til fótanna. En hvernig átti annað að vera þar sem við höfðum skondrast á milli drullupolla með dúkkuvagnana okkar.
Jahá það voru þarna drullupollar svo það hlýtur að hafa rignt líka á þessum árum.
Á meðan við biðum eftir að vera kallaðar í matinn hlustuðum við á Séra Jón Auðuns jarma yfir messugestum því ómurinn frá útvarpsmessunni barst út um eldhúsgluggann og við fundum ylminn af lærinu sem kraumaði í ofni mæðra okkar.
Ef ég man rétt þá hef ég sjálfsagt fengið mér forrétt þarna við húsvegginn. Ég var nefnilega dálítið sérkennilegur krakki. Mér nægði ekki að éta hundasúrur eins og allir hinir krakkarnir gerðu heldur át ég gras eins og kýrnar. Það hlýtur að hafa vantað helling af einhverjum efnum í mig þegar ég var að alast upp því ég lét mér til munns hin ólíkustu efni jarðar.
Já ég var hrikalega spes krakki.
Meir um það seinna.
B.T.W. Súkkulaðikakan klikkaði aðeins. Á að skila góðum kveðjum frá mínum elskulega til ykkar allra sem standið með honum í blíðu og stríðu hér í eldhúsinu að Stjörnusteini. Hann tók það fram í dag að hann vildi svo gjarna hitta þessar vinkonur mínar hehehe... ekki skrítið eins og þið dásamið hann í bak og fyrir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hlýjar sportsokka og slaufukveðjur að Stjörnusteini, frá Grettisbæli.
Vona að þér líði betur strax á morgun!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.6.2009 kl. 18:28
Takk Jenný mín. Já ég hefði átt að vakna fyrr í morgun þá hefði ég náð að fá sprautu í dag strax eftir blóðprufuna en ég var löt og þreytt og það má mann alveg stundum.
Hvað og hvar er þetta Grettisbæli?
Ía Jóhannsdóttir, 22.6.2009 kl. 18:38
hlýjar kveðjur til baka, ég fór einmitt undir minn bernskuhúsvegg við lesturinn.
Þegar ég hitti herrann þá vil ég súkkulaðiköku, bakaða af honum. Ég hef fulla trú á að hann nái þessu fyrir rest !
Knús í minn æfintýraskóg
Ragnheiður , 22.6.2009 kl. 18:45
Grettisbæli er heimili okkar hjóna hér við Kyrrahafsströnd. (Hann heitir Grettir og er Grettisson) samt alveg óþarfi að gretta sig yfir því
Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.6.2009 kl. 18:50
Ragga skal fara með knúsið næst þegar ég fer í göngu og skila því til þeirra sem vilja taka við því. Þú skilur ekki satt.
Aha Jenný ekki þó tónlistamaðurinn?
Ía Jóhannsdóttir, 22.6.2009 kl. 19:03
Yndislegt og ljúft að ylja sér við minningar dásamlegra tíma.Ánægð að heyra nafnið á drengnum þínum.Ég á líka einn með sama nafni.Knús.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 19:06
Harmoníkusnillingurinn Grettir Björnsson heitinn, var tengdafaðir minn.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.6.2009 kl. 19:10
Auðvitað verður þú bara flott eftir næstu sprautu og kemur svo hress og kát til landsins ljúfan, en þetta með súkkulaðikökuna, hann verður þessi elska þín orðin betri en þú fyrir rest
Kærleik til ykkar
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.6.2009 kl. 19:35
Vissedda Jenný hehehe...
Milla never ever og það hef ég sko eftir krökkunum mínum. Mömmu er BEST heheh
Ragna já Egils nafnið hefur haldist í ættinni í þrjá liði.
Ía Jóhannsdóttir, 22.6.2009 kl. 19:40
Nei ég bara segi svona. það getur heldur engin gert brúnu tertuna fyrir jólin nema ég, eða kannski þær haldi það bara þessar dætur mínar.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.6.2009 kl. 19:46
Það væri gaman að fá að hitta ykkur bæði... og fá auðvitað súkkulaðikökuGangi þér vel í fyrramálið
Jónína Dúadóttir, 22.6.2009 kl. 21:05
Yndisleg lesning!
Gangi þér vel í fyrramálið.
Hrönn Sigurðardóttir, 22.6.2009 kl. 21:54
Takk fyrir þessa fallegu færslu Ía minn.
Segðu bakaranum að hann sé ofurkrútt.
Ójá.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.6.2009 kl. 22:13
Ljúf og kunnugleg minning og svo gaman að lesa Knús og kveðjur til ykkar að Stjörnusteini
Sigrún Jónsdóttir, 22.6.2009 kl. 22:51
Súkkulaðikaka? Hvar?
Skemmtilegar minningar
Dúa, 22.6.2009 kl. 22:59
Góðan daginn elskuleg og gangi þér vel í dag.
Kærleikskveðjur til þín og Krúttalíusar.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.6.2009 kl. 07:53
Sæl Ía mín, gaman að lesa þessa lýsingu þar sem spókuðum okkur með dúkkuvagnana, lögðum af stað í hvítum sokkum sem voru nú orðnir brúnir þegar við komum heim og tjullslaufurnar í hárinu, mig minnir samt að þú hafir verið mikið penni en ég og dúkkuvagninn þinn, ég hef ekki séð flottari vagn síðan. Ég held ég eigi fína mynd af okkur frá þessum tímum, það eru ekki nema svona 55 ár síðan,það var alltaf sól í þá daga!
Varðandi veikindin þín þá óska ég þér alls hins besta í baráttunni, les alltaf pistlana þína. Vonandi sjáumst við þegar þú kemur hingað og getum þá talað betur saman um gamla og nýja tíma. Bestu kveðjur til ykkar allra, þín "gamla" vinkona Sigrún Erlends.
Sigrún Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:00
Elsku Sigrún mín. Takk fyrir að kíkja hér inn. Gaman að heyra frá þér. Já við verðum að reyna að hittast þegar ég kem heim. Farðu vel með þig líka vinkona.
Ía Jóhannsdóttir, 23.6.2009 kl. 09:44
Þú ert alveg mögnuð Ía mín og takk fyrir að deila skemmtilegri minningu með okkur
Súkkulaðikökugerðarmaður eða ekki, hann Þórir er fínn
Kær kveðja til ykkar á Stjörnusteini,
frá okkur Alsbúum sem í augnablikinu erum stödd í Smálöndunum.
Guðrún Þorleifs, 23.6.2009 kl. 10:40
Yndisleg færsla, finnst ég hefði alveg getað verið þessi vinkona þín, man eftir svona dögum. Bið fyrir þér elskan og vona að ljótu verkirnir og vanlíðanin hverfi fljótt.
Ásdís Sigurðardóttir, 23.6.2009 kl. 14:14
Sá þetta fyrir mér. Og minning kom upp, heldur dekkri. Þegar ég tróð mér í barnavagn 5 ára? í mömmuleik. Átti svo að gráta fyrir utan Kaupfélagið á meðan "mamman" fór inn. Og Gölli Valdason kom og "huggaði" barnið. Gráturinn varð ekta á svipstundu og það rann af karli.
Ég hugsa til þín á hverjum degi..Og sé önnum kafin bakarann fyrir mér
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 16:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.