Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Það kemur maður í manns stað. Takk fyrir mig í KOSTINUM í dag!

Að sjálfsögðu er það sárt þegar menn fara með fjölda fólks í hreina glötun og eiga tvímælalaust að borga fyrir allar misgjörðir alveg sama hversu dýrt drottins orðið er.  Lítil samúð hér með Jóhannesi og hans fjölskyldu.

Ég hef ekki mikið verið í matarbúðum hér síðan ég kom til landsins en í dag fannst mér tími til kominn að fara og versla inn á minn máta en ekki míns elskulega.  Þá datt mér í hug að kíkja í KOST hér í Kópavoginum. 

Ég hef rekið mig á það hér þessi fáu skipti sem ég hef farið í matvörubúð að vöruúrval er hrikalega takmarkað og hillur flestar fylltar með ódýrari vöruflokkum, útrunnið, eða hálf mokið og ónýtt,  því miður. 

Þess vegna gladdist ég þvílíkt í dag inn í Kost. Vöruúrvalið er e.t.v. ekki alveg eins og ég á að venjast frá heiman en var alveg tæmandi og margir vöruflokkar sem þú sérð ekki hvar sem er. 

Ég var fljót að fylla körfuna og kom heim með hluti sem ég gat sett í ísskápinn með ánægju. 

Frábært grænmeti og ávextir.  FERSKIR OG FALLEGIR.

Þakka kærlega fyrir góða þjónustu.  Hlaupið til og sett í poka með manni og allir brosandi.

VEL AFTUR KOSTINN      -     EKKI SPURNING!


mbl.is 80% vilja ekki Jóhannes í Bónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við snerumst öndverð.

Þegar fólk verður yfir sig áhugasamt um að þóknast mér og mínum þá á ég það til að fara í algjöran baklás og það sama gegnir hjá mínum elskulega.

Í gær fórum við í smá leiðangur um borgina við sundin blá.  Okkur vanhagaði ýmislegt bæði stórt og smátt þannig að við visiteruðum nokkrar velvaldar verslanir.  Það fór ekkert á milli mála að verslunarfólk var mikið í mun að selja sína vöru og hvar sem við komum voru góð tilboð í gangi. En það er nú ekki alveg nóg að vera með góð tilboð sölumenn verða líka að kunna að selja vöruna.

Við komum t.d. inn í verslun þar sem okkur var tekið eins og við værum algjörir hálfvitar, snúið út úr spurningum okkar og jafnvel ekki svarað nema með annarri spurningu. Sölumanneskjan setti sig á háan hest og það sem við vorum að skoða kostaði marga, marga ísl. peninga, má eiginlega segja að hún væri í hærri kantinum.  Þar sem við þekktum þessa vöru af gamalli reynslu vorum við e.t.v. dálítið spennt fyrir að kaupa aftur svipað en að sjálfsögðu breytist allt með árunum og verður fullkomnara og þá vill maður fá upplýsingar eða jafnvel prófa.

Við hjónin snerumst öndverð vegna óþægilegrar framkomu viðkomandi og verslunin missti af góðri helgarsölu.

Annar verslunarmaður tók svo vel á móti okkur að við komumst snarlega í verslunarham og það vakti athygli sölumannsins sem sagðist elska að fá svona samhent hjón sem vissu nákvæmlega hvað þau vildu.  Við vorum svo samhljóma í neijunum og jáunum að það vakti almenna ánægju í versluninni.

Ætla að fara núna að plana daginn.

 


Er þetta nokkuð einn af þínum?

 Þetta gerðist fyrir hart nær förutíu árum og sagan er sönn.

Þeir voru samankomnir nokkrir vinir á einum besta veitingastað bæjarins norður í landi.  Það var ákveðið að gera sér glaðan dag og á þessum árum var vinsælt að fá sér Nautasteik Bernaise.

Þjónninn sem afgreiddi var ekkert nema almennilegheitin þar sem þetta voru örugglega mikilmenni að sunnan og snerist á hæl og hnakka til að þóknast þessum herramönnum sem kunnu sig!  Pöntuðu steik og drukku rauðvín með.  Ekta fínir kúnnar. Skemmtu sér konunglega og voru með háreysti og slógu um sig eins og fólk gerði á þessum árum.

Þegar hann kom með Turnbauta-steikina stoltur eins og hani, sko alveg nýbyrjaður á staðnum, segir minn elskulegi, sem unnið hafði við kokkerí í nokkur ár, lítandi yfir borðið á einn vininn:  ,, Heldurðu að þetta sé nokkuð einn af þínum?" og um leið hamrar hann fingrunum í borðplötuna svona til merkis um hvað hann sé að fara.

Þjónsræfilstuskan sem stendur enn bísperrtur við borðið verður eldrauður í framan og án þess að segja orð lætur hann sig hverfa.

Á þessum árum var altalað og vitað að hrossakjöt var blandað við nautakjöt og oft var hesturinn borinn fram eða litla folaldið sem fínasta nautasteik.  Fólk sem vissi ekki betur át þetta með bestu list og jafnvel fólk eins og ég sem sagðist aldrei borða hrossakjöt gerði það nú samt óafvitandi. 

Fyrirgefið en nú er ég komin með velgjuna upp í háls. Borða ekki vini mina.

Það fóru nú ekki fleiri sögur af borðhaldinu en þegar þessir herramenn héldu heim daginn eftir og stigu um borð í flugvél Flugfélags Íslands er þá ekki þjónsræfilstuskan mættur á svæðið.  Þeir spyrja hann hvað hann sé að gera þarna og það stóð ekki á svarinu:  ,,Ég vinn ekki fyrir fólk sem svindlar á viðskiptavinum sínum svo ég er farinn aftur suður".

Æ grey ræfilstuskan vissi ekki betur, þeir gerðu þetta líka fyrir sunnan.

Þessi frásögn er dagsönn eins og ég sit hér í eldhúsinu mínu og færi þetta í letur.

Ég tek hatt minn ofan, alla vega húfuna, fyrir þessum ágæta bónda í Kjósinni.  Hann er ekki að segja neitt nema sannleikann og alveg óþarfi að slá upp einhverri frétt um að Landssambandið harmi þessi ummæli. 

Hvað haldið þið að gerist ekki á krepputímum elskurnar mínar?

 


mbl.is Harma ummæli um kjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ mín elskulega þjóð ætlið þið aldrei að læra af reynslunni.

Er þetta ekki alveg eftir öllu öðru á Íslandi.  Nú ætla allir að græða á ferðamönum bæði bílaleigur og hótelin.  Satt best að segja eru Íslendingar grunnhyggin þjóð.  Um leið og einhver sér að hægt er að græða á einhverju er verðið sprengt upp úr öllu valdi og hvað gerist þá.  Jú asnarnir ykkar ferðamenn hætta að koma til landsins.

Við litla fjölskyldan erum á leið heim og vinafólk Egils og Bríetar, útlendingar, eru núna að spóka sig með börnin ásamt þeim fyrir norðan.  Áður en þau lögðu land undir fót fóru þau að huga að bílaleigubíl fyrir sjö manns.  Hvað haldið þið að slíkur bíll hafi kostað í eina viku.  yfir  500.000.- kall!  Já sæll, Agli datt í hug að kaupa bíl það yrði örugglega ódýrara. Henda honum bara síðan eftir notkun.  Hótelherbergin á góðum hótelum í henni Reykjavík voru á uppsprengdu verði og sum jafnvel með tvö verð Euro og Krónu.  Nú á sko að græða á útlendingunum. 

 Fífl, vitið þið ekki að fjögra til fimm stjörnu hótel sem voru á bilinu 180 - 260 Euro í fyrra hafa lækkað um helming í Evrópu en þið sauðirnir hækkið eins og fífl.   Og hver verður árangurinn, jú kæru landar þið missið þetta eina sem hefur haldið ykkur á floti undanfarna mánuði, túrismann.  Fólk hættir að koma og þetta er því miður þegar farið að spyrjast út hér.

Ballið er líka að verða búið hjá veitingamönnum, hóteleigendum og öllum öðrum sem hafa sett allt sitt traust á ferðamanninn hingað til. Þetta er allt keðjuverkandi ef þið hafið ekki skilið það enn og ef engin eru túrhestarnir þá fara veitingahúsin og Rammagerðin eða hvað þetta heitir í dag sem selur lopapeysur og aska að taka upp á því að væla aftur. 

 Þetta minnir mig á þegar þið mín elskulega þjóð fóruð að senda hingað til Tékklands lambakjötið og það seldist eins og heitar lummur. Hvað gerðu þið þá , jú asnarnir ykkar þið hækkuðuð kílóaverðið um einhver cent og um leið hætti Tékkland að versla við ykkur og sneri sér til Nýja Sjálands.

Eins þegar þið senduð okkur útrunna niðursuðuvöru og voruð rosalega hissa á að við fengjum þetta ekki samþykkt af heilbrigðiskerfinu og spurðu í forundran:  Hva er þetta ekki austantjalds land!  Svo kom lausnin frá ykkur:  ,,Setjið bara nýjan miða yfir dagsetninguna þá fattar engin neitt!   Við vorum heiðarlegri en svo að fara eftir ykkar ráðum.  Nú fer maður að skilja hvernig sumir urðu svona oheyrilega ríkir á svindli og svínaríi.  

Annað sem mér dettur í hug þar sem ég er byrjuð að agnúast út í landann er þegar við fengum sendan heitreyktan Silung frá Íslandi. Okkur fannst hann svo góður og vel verkaður að við pöntuðum heilan gám en hvað gerðist.  Jú fiskurinn kom hingað óhreinsaður og hrikalega vondur, við kvörtuðum og svarið var:  ,, Já ég veit, en þú pantaðir svo mikið magn að við höfðum ekki mannskap til að hreinsa fiskinn"

Finnst ykkur eitthvað skrítið að við hættum að versla við ykkur kæru landar! 

Í guðana bænum farið nú að hugsa aðeins.  Þessi græðgi gerir ykkur að athlægi út um allan heim.  Það er betra að selja ódýrt, gott og í magni en lítið, vont og taka fólk í nefið.  Það græðir engin á því að verða að aurum api!

Ég ætla nú samt heim og hjálpa til við gjaldeyrissjóðinn.  Setja nokkrar Euro inn í kassann af því mér þykir svo undurvænt um ykkur öll bjánarnir ykkar. 

  


mbl.is Verðgjá á milli innlendra og erlendra ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraunmolarnir okkar voru festir á þröskuldsbút.

Mikið hefði verið gaman að standa í sporum forseta Alþingis og taka í hlýja hönd friðarleiðtogans frá Tíbet. 

Hraunmolinn sem Dalai Lama var færður vakti athygli mína enda minnti mig óneitanlega á grip sem við hjónin hönnuðum fyrir all mörgum árum hér í Tékklandi. 

Þannig var að árið 1994 að ég held, ákvað ég að taka þátt í alþjóðlegum jólabazar hjá International Womens Club. Þar sem ég var ein frá Íslandi og varð að koma með eitthvað þjóðlegt á söluborðið ákvað ég þegar ég fór heim um sumarið að fylla nokkra poka með hraunmolum og flytja með mér út. 

Þá er það sem sé upplýst hér að ég stal hrauni og flutti með mér úr landi. Blush Police

Þegar heim kom var hafist handa við að hanna mynjagrip frá Íslandi.  Minn elskulegi kom með þá hugmynd að festa hraunmola á viðarkubb og þar sem við vildum halda verðinu í hófi keyptum við nokkra þröskulda, söguðum í búta og lökkuðum svarta.  Hraunmolanum var síðan komið fyrir með skrúfu minnir mig frekar en nagla ofan á bútnum og til að gera þetta seljanlegra létum við útbúa skildi sem á stóð GREETING FROM ICELAND  sem var síðan komið snyrtilega fyrir á hlið þröskuldsins.

Þetta auðvitað rann út á jólabazarnum ásamt íslensku síldinni sem ég nota bene stal ekki og ég safnaði vel í sjóð sem rann til fátækra barna.  

Nú er sem sagt einhver listamaður búinn að stela hugmyndinni okkar og farinn að stórgræða, shit svona missir maður hvert tækifærið á eftir öðru út úr höndunum bara fyrir eintóman klaufaskap. DevilGrin

Man hvað mér fannst hugmyndin frábær á sínum tíma en var auðvitað búin að steingleyma henni þar til ég sá þetta ferlíki sem blessaður maðurinn fékk í dag afhent með viðhöfn.

Verð að segja það að mér fannst okkar útgáfa fallegri, eitthvað svona nettari. 

Hvernig ætli það sé núna með hraunið fylgir vottorð eins og með kjötinu? Wink

Nei segi bara svona og svo var ég að velta öðru fyrir mér líka ætli hann verði látinn borga yfirvikt?  Halo  


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarvíl yfir snjómokstri í dag.

Á meðan ég kepptist við hér í dag að moka snjóinn frá innganginum, já hér er snjór, þá fór hugurinn á harðakan um líðandi stundir og þá sérstaklega heim til Hamingjulandsins sem ekki lengur er neitt Hamingjuland og einhverja hluta vegna fannst mér frostið bíta harðar á beinin en ella þegar ég fór að hugsa heim.

Nú fer fólk að finna alvarlega fyrir kreppunni þá sérstaklega þeir sem missa vinnuna um næstu mánaðamót og þeir sem nú þegar hafa fengið skellinn. Hvað verður um allt þetta fólk, verða landflutningar með vorinu eða bjargar það sér fyrir horn með aðstoð ættingja sem betur eru settir.

Hverju hafa mótmælin áorkað.  Sumir vilja halda því fram að þau hafi hjálpað mikið til og margir hrökklast úr starfi sem að öðrum kosti hefðu setið fastast.  Var ekki þetta fólk löngu búið að taka ákvörðun um að hætta.  Getur ekki verið að samviskan og eða sómatilfinningin hafi gert vart við sig hjá þessu ágæta fólki?  Hvað vitum við svo sem.

Uppþot og óspektir eiga ekki upp á pallborðið hjá mér og harma ég það að sumt fólk haldi uppi hanskanum fyrir nokkra ólátabelgi sem þora ekki einu sinni að sýna sitt rétta andlit.  Svona uppákomur gera ekkert gagn, frekar ógagn.  Þögul mótmæli eins og á Ísafirði og víða úti á landsbyggðinni eru held ég miklu áhrifameiri.

Nú er líka spurningin hvort okkar hæstvirtu ráðherrar og aðrir stjórnarmenn hrökkvi upp af blundinum og hristi af sér doðann en því miður virðast ekki miklar líkur á því.  Hver höndin upp á móti annarri, Sjálfstæðisflokkurinn að klofna, taugastríð á milli ISG og Geir og nú biða allir eftir landsfundi þar á sko að taka á málunum.  Hvaða endemis bull og vitleysa er þetta! Og ekki er stjórnarandstaðan hótinu betri með sínar upphrópanir. 

Svo var það Gasa svæðið sem allt í einu varð orðið miðdepill allra frétta.  ISG líttu þér nær, hér er þörfin!  Ekki það að ég vorkenni ekki saklausu fólki sem fellur í hundruða tali en við höfum við vanda að glíma þarna heima og  ætti það að vera í forgangi.

Svo er spurningin sem engin virðist geta svarað sama hvert leitað er.

 Úthrópanir sem hafa verið í marga mánuði.  Burt með ríkisstjórnina, burt með seðlabankastjórnina en hvað vill fólkið í staðinn?  Stjórnarandstöðuna, nýja flokka, nýja menn.  En hvaða menn?  Ég hef ekki heyrt neinn koma með frambærilegar tillögur. Það er ekki nóg að hrópa og kalla út um alla borg en hafa svo ekkert nýtt og frambærilegt í pokahorninu.

Svo að lokum hvað með útrásarliðið er það gleymt?  Fáir krefjast þess lengur að réttvísinni sé fullnægt.  J.Á. hættur að sitja í nefndum, og hvað með það, hann fjarstýrir þessu bara á annan máta.  Sumir af þessum pótintátum skrifa afsökunargreinar til að friða samviskuna.  Hvenær ætli einhver taki í rassinn á þessu liði?   

Þetta var nú það helsta sem ég var að pæla í við snjómoksturinn í dag.

Uppbyggjandi eða hvað!!!!!!

 


Hvað með þessa ,,jólasveina" sem komu okkur á kaldan klakann?

Öll umræða snýst um hvort ríkisstjórnin og Seðlabankastjórn eigi að sitja eða standa upp. Tillagan feld í þingi í gær.  Borgarfundur í Háskólabíó þar sem kona nokkur hafði það af að láta alla leppalúðana standa upp, flott hjá henni en hvað gerðist, þeir settust jú aftur og sitja sem fastast.  

Væri ekki nær eins og Ólína Þorvarðar bendir á á bloggi sínu að láta jólasveinana sem komu okkur á kaldan klakann sitja fyrir svörum fólksins í landinu.  Þeir halda áfram að kaupa sín eigin gjaldþrota fyrirtæki og bankarnir láta það viðgangast. Aðeins útvaldir fá að bjóða í þessi fyrirtæki.  Ekki það að ég hefði áhuga á þessum leikföngum þeirra en það gæti verið fólk þarna úti sem hugsanlega vildi og gæti keypt þrotabúin.  En þessu er öllu haldið kyrfilega inn í hellinum hjá Grýlu og Leppalúða.  

 Luxushótel í frönsku ölpunum, einkaþota og snekkja virðast vera skráðar á eiginkonu og þetta fína lið heldur áfram veislunni eins og ekkert sé. 

 Allir jólasveinarnir fara sér hægt á fjöllum og forðast byggð því þar er mannfólkið og það er reitt, sárt og úrræðalaust sumt hvert.   

Hvar eru jólasveinarnir?  Eru þetta e.t.v. þeir hér á myndinni á leið í næstu veislu? 


mbl.is Frostköld jólastemning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf að berja niður okkar baráttuþrótt?

Ég kveikti á útvarpinu til að fylgjast með mótmælunum í dag. 

 Vinur minn Hörður Torfa startaði og síðan tók við ræða Kartínar Oddsdóttur, og þvílík framsögn og kraftur!  Þarna fór kona að mínu skapi, með allt á hreinu og meðvituð um að hún var að tala til þjóðarinnar. Dampurinn féll því miður niður við ræður næstu ræðumanna, betur að Katrín hefði verið síðust á mælendaskrá.  En við lærum af mistökum. 

Ég var full af baráttuþrótti eftir að hafa hlustað á Rás 2, þökk sé allri okkar tækni og lækkaði ósjálfrátt, búin að fullvissa mig um að nú hefðu landar mínir gert góða hluti án þess að til einhverja átaka kæmi.  

Ég heyrði reyndar í Gerði þar sem hún sagði í miðri ræðu:  Hvað er að gerast?  Þá var verið að klæða Jón Sigurðsson forseta í bleikan kvennaklæðnað!!!!!!!!   

Gjörningar kalla þeir það!!!!   Jæja ég hef aldrei þolað gjörninga vegna þess að ég einfaldlega skil þá ekki. 

Var þetta nauðsynlegt?

Síðan, nokkrum mínútum seinna hækkaði ég í tölvunni. 

Óeirðir við Lögreglustöðina!!!!!!!!!!!!    Halló, var þetta líka á planinu? 

Þarf alltaf að skemma fyrir fólki sem vilja friðsamleg mótmæli með svona skrílslátum.  OK maðurinn var látinn laus, en þetta finnst mér lágkúra að hálfu mótmælenda.  Við náum engum árangri með svona hegðun. 

Stöndum frekar í þögn og mótmælum með kertum svo klukkutímum saman, það ber miklu meiri árangur.  Skiptist á, sínum einhug.  Ég skal gera mittbesta hér í fjarlægð.  

Við eigum eftir að sjá hvað verður í janúar og febrúar þegar fólkið okkar verður ekki lengur á vinnumarkaðnum. Allir góðir vættir veri með okkur þá.

Svo bíð ég bara góðrar nætur til ykkar allra þarna úti. 

 


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er og verð Íslendingur!

Þegar ég kom heim í dag eftir skemmtilegan morgunfund og hádegismat með góðum vinkonum settist ég við apparatið mitt hér við eldhúsborðið og rúllaði yfir fréttir dagsins og nokkur blogg.

Ekki get ég nú sagt að sú lesning hafi verið par upplífgandi,  frekar að það hafi dregið úr mér alla löngun til að komentera eða skrifa þó voru nokkrir málefnalegir og aðrir sem komu mér til að hlægja og það léttist aðeins brúnin þegar líða tók á lesturinn.

Eins og hjá flestum öðrum var emailið mitt yfirfullt af knúsum, takk fyrir það en satt best að segja finnst mér dálítið hjákátlegt að fá svona knús frá apparatinu sem liggur hér fyrir framan mig en ég sendi skilvíslega knús til baka til þess að vera ekki félagsskítur.  Sem sagt tók þátt í þessum leik Mbl. og reyndi eftir fremsta megni að hugsa hlýtt til viðkomandi á meðan færslan fór út í tómið.

Mér þykir ekkert að því að knúsa fólk sem mér þykir vænt um og hef aldrei fundist það hallærislegt að gefa fólki koss og taka utan um það en þetta kossastand og knúserí er orðið ansi þreytandi hér á milli bloggvina.  Sendum frekar hlýjar hugsanir, held þær virki miklu betur.

Í gær las ég um konu sem rekin var út úr búð á Strikinu.  Ég vona að þarna hafi verið einhver misskilningur i gangi en margir hafa bloggað um þetta atvik og sumir jafnvel sagt að þeir ætli að hætta að kannast við það að vera Íslendingar og hætta að tala sitt móðurmál erlendis svo nokkur heyri.  Hvað gengur að þessu fólki?  Hvar er nú þjóðarstoltið og burgeysishátturinn sem fylgt hefur okkur Íslendingum í aldaraðir.  Að ætla að þykjast vera einhver annar en maður er er þvílíkt bull og ekki orð um það meir!

Ég byrjaði hér að ofan að segja ykkur að ég hefði farið á morgunverðarfund með góðum vinkonum en fór svo út í allt aðra sálma en nú ætla ég að hverfa aftur að þessum fyrstu línum. 

Undanfarna viku hefur síminn vart stoppað hér hjá okkur, blaðasnápar og fréttamenn útvarps og sjónvarps hafa verið að snapa eftir fréttum en við höfum hrist þetta af okkur enda ekki í okkar verkahring að gefa upplýsingar að heiman.

Þetta er eina viðtalið sem Þórir hefur veitt eftir að við seldum.

http://www.praguepost.com/articles/2008/10/15/talking-iceland-over-ice-cream.php

 

Eins og gefur að skilja vakti lokun Rest. Reykjavík mikla athygli hér og það að við skildum loka einmitt sama dag og landið okkar hrundi þótti að sjálfsögðu dálítið grunsamlegt.  Við gerðum okkur strax grein fyrir að fljótlega færu að berast alls konar Gróusögur um borgina því þó við búum hér í milljónaborg erum við þekkt sem athafnafólk til margra ára.

Þegar ég mætti á fundinn í morgun sá ég strax að þarna var komið að því að ég útskýrði málið.  Viðmótið var hlýlegt hjá þeim sem ég hef þekkt til margra ára en aðrar sem ekki hafa verið hér lengi sendu mér svona augngotu og forðuðust að horfa beint framan í mig. 

Í lok fundarins stóð ég upp og útskýrði lauslega hvers vegna við hefðum selt veitingastaðinn og líka að við hefðum gert það fyrir sex mánuðum hefði bara viljað þannig til að lokunin hefði átt sér stað sama dag og Ísland lenti i sínum miklu hremmingum.  Það létti mikið yfir samkundunni og margar spurningar komu í kjölfarið aðalega um fjölskyldu okkar og almennt ástand.  Gordon Brown var satt best að segja rakkaður niður í svaðið og þarna voru margir Bretar sem stóðu með okkur Íslendingum. 

Ég endaði á því að segja að nú hefðu þær þetta frá fyrstu hendi og gætu leiðrétt Gróu á Leiti ef þær mættu henni á götu.  Þetta var léttir fyrir mig og mér leið miklu betur.

Gekk eftir hádegismatinn að bílnum mínum þar sem ég hafði lagt honum beint fyrir framan Danska sendiráðið og það glitti á Íslenska fánann okkar á grilli bílsins og á skottlokinu. Ég var hreykin af því að vera Íslendingur! 

 

 

 


In memory - Restaurant Reykjavík - Prag

Adieu, adieu. Þið sem ætlið að leggja leið ykkar í Karlova götuna hér í Prag og heimsækja okkur á Restaurant Reykjavík komið nú að lokuðum dyrum.  Að gefnu tilefni langar okkur til að þakka þeim rúmlega 3 milljónum manna sem heimsótt hafa staðinn okkar undanfarin sautján ár.

Til þess að valda engum misskilning þá viljum við líka taka fram að þessi ákvörðun var ekki tekin vegna einhvers kreppuástands í heiminum heldur eru samningar búnir að standa yfir sl. átta mánuði og það bara vildi þannig til að skrifað var undir samninga 30. sept. og við lokuðum  fyrirtækinu 1. október.

Þegar horft er til baka þá minnumst við þegar við gengum Liliova 1991 og vorum að ,,njósna" um staðinn sem þá var rekinn á vegum ríkisins. Þar sem við gengum  fram hjá færallt í einu minn elskulegi bunu yfir nýju jakkafötin.  Við litum upp og sáum mann standa uppi á annarri hæð út á svölum með allt úti og hafði auðsjáanlega orðið mál.  Okkur brá auðvitað en um leið litum við á hvort annað og sögðum næstum samtímis:  Let´s do it!  Þar með var það ákveðið að kaupa staðinn og þurfti ekki nema eina litla pissusprænu til að sannfæra okkur um að þetta yrði okkur í hag.

 Við gerðum okkur strax grein fyrir því að staðsetningin var prime location en við yrðum að moka út áður en við gætum opnað nýjan stað eftir okkar höfði. Hafist var strax handa og á mánuði var búið að kaupa innréttingar frá Hollandi, græjur í eldhús, ráða starfsfólk  og þann 29. nóvember 1991 opnuðum við Restaurant Reykjavík.

Það var engin lognmolla sem ríkti frekar en fyrri daginn og viku fyrir opnun vorum við tilbúin en ekki með öll leyfi þannig að við byrjuðum á því að bjóða vinum og ýmsum fyrirtækjum í dinner sem var bráðsnjallt vegna þess að þá fékk staffið að æfa sig í þjónustu og matargerðarlist sem engin í eldhúsinu hafði kynnst áður.  Við komum með nýjungar og vorum sektuð í tíma og ótíma fyrir að breyta hefðbundnum matseðli frá kommatímanum yfir í Evrópskan standard.

Matseðlar voru þá allir eins hvort sem það hét Hotel Intecontinental (sem þótti flottast í Prag) eða venjulegur bjórpöbb. Það hét Skubina I - II eða III. og það voru landslög að þessu mætti ekki breyta. Við breyttum öllu og þess vegna vorum sektuð í tíma og ótíma sem við kipptum okkur ekkert upp við enda margt af því sem við settum á matseðilinn okkar er orðinn hálfgerður þjóðarréttur í dag.

  Man þegar við vorum að ráða starfsfólk og spurðum hvort þau töluðu ensku.  Svarið var yfirleitt Yes og við héldum þá áfram að spyrja en fengum engin svör vegna þess að þau skildu ekkert í því máli.  Þegar við sögðum síðan að því miður gætum við ekki ráðið viðkomandi kom andsvar: En ég kann matseðilinn. 

Kokkarnir okkar voru rosalegur höfuðverkur.  Steikur að þeirra mati áttu að vera yfirsteiktar, annað var dýrafóður! Þeir helltu olíu á gasgrillið og síðan vatni svo lá við að gestirnir köfnuðu í salnum fyrstu kvöldin.  Þegar við komum með örbylgjuofninn þá gladdist allur mannskapurinn, þeir héldu að þetta væri sjónvarp!  Örbylgjuofn höfðu þeir aldrei litið augum. Ojá þetta var ekkert auðvelt í byrjun en við höfðum gott fólk sem vildi læra og sumir voru hjá okkur öll þessi sautján ár.

Já það er margs að minnast og Reykjavík varð strax einn af þekktustu stöðum Prag.  Man eftir því vorið eftir að við opnuðum kom ég gangandi að heiman og sá langa biðröð sem náði frá Reykjavík og langt inn í Karlova.  Ég spurði einn sem stóð í röðinni eftir hverju fólkið væri að bíða og svarið var að komast inn á Reykjavík.  Nú sagði ég, hvers vegna?  Jú þetta var eini staðurinn í Prag sem borðandi væri á.  Ég spurði síðan, hvað ert´u búinn að bíða hér lengi?  Um 45 mínútur og býst ekki við að komast að fyrr en eftir hálf tíma, það er nefnilega ekki hægt að panta þarna borð.  First come, fist served.  Já er það sagði ég og gekk að veitingastaðnum mínum sem var þá strax orðinn þekktur.

Ég gæti haldið lengi áfram að segja ykkur sögur en ætla að láta þetta nægja að svo stöddu.  Það eiga örugglega eftir að spretta upp í minningunum skemmtileg atvik sem ég segi ykkur síðar frá.Það er dálítil blendin tilfinning sem er ríkjandi hér á þessu heimili.  Eftirsjá og léttir eru held ég bestu orðin yfir það hvernig okkur líður í dag.

Við hjónin viljum þakka ykkur öllum sem heimsótt hafa Restaurant Reykjavík þessi sautján ár fyrir viðskiptin og nú tekur við nýr og vonandi spennandi kafli í okkar lífi hér í hundrað turna borginni okkar.

Ræðismannsskrifstofan verður áfram opin í Karlova 20 alla vega næstu mánuði.

Þökkum enn og aftur ykkar hlýhug kæru landar í okkar garð og lifið heil. 

Heimasíðan okkar er enn lifandi www.reykjavik.cz

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband