Færsluflokkur: Matur og drykkur

Er þetta nokkuð einn af þínum?

 Þetta gerðist fyrir hart nær förutíu árum og sagan er sönn.

Þeir voru samankomnir nokkrir vinir á einum besta veitingastað bæjarins norður í landi.  Það var ákveðið að gera sér glaðan dag og á þessum árum var vinsælt að fá sér Nautasteik Bernaise.

Þjónninn sem afgreiddi var ekkert nema almennilegheitin þar sem þetta voru örugglega mikilmenni að sunnan og snerist á hæl og hnakka til að þóknast þessum herramönnum sem kunnu sig!  Pöntuðu steik og drukku rauðvín með.  Ekta fínir kúnnar. Skemmtu sér konunglega og voru með háreysti og slógu um sig eins og fólk gerði á þessum árum.

Þegar hann kom með Turnbauta-steikina stoltur eins og hani, sko alveg nýbyrjaður á staðnum, segir minn elskulegi, sem unnið hafði við kokkerí í nokkur ár, lítandi yfir borðið á einn vininn:  ,, Heldurðu að þetta sé nokkuð einn af þínum?" og um leið hamrar hann fingrunum í borðplötuna svona til merkis um hvað hann sé að fara.

Þjónsræfilstuskan sem stendur enn bísperrtur við borðið verður eldrauður í framan og án þess að segja orð lætur hann sig hverfa.

Á þessum árum var altalað og vitað að hrossakjöt var blandað við nautakjöt og oft var hesturinn borinn fram eða litla folaldið sem fínasta nautasteik.  Fólk sem vissi ekki betur át þetta með bestu list og jafnvel fólk eins og ég sem sagðist aldrei borða hrossakjöt gerði það nú samt óafvitandi. 

Fyrirgefið en nú er ég komin með velgjuna upp í háls. Borða ekki vini mina.

Það fóru nú ekki fleiri sögur af borðhaldinu en þegar þessir herramenn héldu heim daginn eftir og stigu um borð í flugvél Flugfélags Íslands er þá ekki þjónsræfilstuskan mættur á svæðið.  Þeir spyrja hann hvað hann sé að gera þarna og það stóð ekki á svarinu:  ,,Ég vinn ekki fyrir fólk sem svindlar á viðskiptavinum sínum svo ég er farinn aftur suður".

Æ grey ræfilstuskan vissi ekki betur, þeir gerðu þetta líka fyrir sunnan.

Þessi frásögn er dagsönn eins og ég sit hér í eldhúsinu mínu og færi þetta í letur.

Ég tek hatt minn ofan, alla vega húfuna, fyrir þessum ágæta bónda í Kjósinni.  Hann er ekki að segja neitt nema sannleikann og alveg óþarfi að slá upp einhverri frétt um að Landssambandið harmi þessi ummæli. 

Hvað haldið þið að gerist ekki á krepputímum elskurnar mínar?

 


mbl.is Harma ummæli um kjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotnir diskar, brúðarstuldur og aðrar hefðir í hundrað turna borginni.

Það var hálf haustlegt hér í gær og blés kröftuglega þar sem við stóðum í einum af glæsilegasta hallargarði hundrað turna borgarinnar. 

Gestir stóðu í litlum hópum hér og þar um garðinn og spjölluðu.

Svo birtist hún eins og engill, hvítklædd með hvítan blómvönd.  Andlitið geislaði af hamingju og hún næstum sveif niður tröppurnar í fylgd föður síns.  Ég þekki hana næstum ekki neitt en samt táraðist ég.  Hvað er þetta með það að grenja alltaf við brúðkaup? 

Við vorum viðstödd borgaralegt brúðkaup í gær þar sem gefin voru saman Íslendingurinn Leifur Alexander og fallega tékkneska Marketa eða Marky eins og hún er kölluð.

Falleg látlaus athöfn sem fór fram á þremur tungumálum, tékknesku, íslensku og ensku svo það færi ekki fram hjá neinum hvað um var að ræða þarna.

Það getur verið algjör þolraun að lenda í tékkneskum brúðkaupum þar sem haldið er í ævafornar hefðir.  Sem betur fer var farið milliveginn í gær svo þetta varð ágætis blanda af ísl./tékk. brúðkaupi.

Venja er að fjölskylda brúðarinnar kemur saman heima hjá foreldrum hennar eldsnemma um morguninn og hjálpast við að klæða hana og skreyta bíla gestanna á milli þess sem sópað er í sig skinku, súrum gúrkum, sveppum og stundum köldum snitzel og rennt niður með bjór og Becerovka sem er snaps.

Athöfnin fer síðan venjulega fram um hádegi hvort sem það er borgaralegt eða kirkjubrúðkaup.  Við vorum einu sinni boðin þar sem hjónin voru gefin saman hér í ráðhúsinu og sú athöfn minnti mig helst á hersýningu á tímum Stalins.

Eftir athöfnina fara veislugestir í halarófu á skreyttum bílum þangað sem veisla er haldin.  Allir þenja bílflauturnar eins og frekast er kostur.  Það er ein hefðin og ef þú lesandi góður ert einhvern tíma staddur í hundrað turna borginni á föstudegi um hádegisbil láttu þá ekki koma þér á óvart óþolandi bílflautuvæl sem ómar hér um öngstræti borgarinnar.  Þetta gengur yfir sem betur fer.

Það fyrsta sem gerist þegar komið er að veislusalnum er það að brúðurin brýtur disk fyrir framan brúðgumann og saman tína þau upp brotin og sópa vel og vandlega ekkert brot má verða eftir því það stýrir ólukku.  Þannig að þarna skríða brúðhjónin um allt gólf tínandi upp glerbrot og sópandi flísar.  Þegar þau standa upp er brúðarkjóllinn orðinn ansi sjabbí og brúðguminn með hné í buxunum. 

Það er mikið nastravíað (skálað) í svona veislum og venja að byrjað sé á kampavíni og léttum málsverði sem samanstendur af kjúklingalifrasúpu, nautakjöti (Pot roast) með knellik (soðkökum) og þungri sósu.  Brúðarterta og kaffi.  Þessu er skolað niður með góðu magni af víni, öllum sortum.

Ræður eru ekki margar (sem betur fer) Brúðhjónin fá fyrst allra súpuna og þjónninn kemur með stóran dúk og bindur hann utan um nýgiftu hjónin svo þau eru nú komin með einn ,,smekk" og mata hvort annað á súpunni.  Eitthvað hefur það líka með það að gera að það má ekki sulla einum dropa niður þá er víst voðinn vís. Eftir þessa þolraun taka allir til matar síns.

Eftir kökuátið tekur maður eftir því að brúðurin er horfin. Þá er sem sagt búið að stela brúðinni og koma henni fyrir einhvers staðar á nærliggjandi pöbb þar sem hún djammar með vinkonum sínum.  Brúðguminn fer síðan með sínum vinum að leita hennar og finnur alltaf á endanum og þar setjast þau að sumbli.  Á meðan þessu fer fram sitja veislugestir áfram og blaðra við vini og vandamenn.  Þeir sem ekki þekkja neinn eins og komið hefur fyrir okkur hjónin þá lætur maður sér leiðast út í horni.  Þetta getur tekið allt upp í þrjár klukkustundir.  Þetta er eins og það sé verið að hegna manni fyrir að mæta í viðkomandi gilli.

Loksins þegar þau nýgiftu láta sjá sig aftur eru þau orðin vel kippó og kát.  Þá er tekið við að borða aftur!  Nú er svíni sem búið var að slátra fyrr um morguninn og hefur snúist á teini allan daginn, sporðrennt með tilheyrandi súrmeti og dóteríi.

Þegar þarna er komið er maður orðinn svo stútfullur af mat að ekki er möguleiki að koma sér út á dansgólfið þar sem nú hefur verið skverað upp balli í tilefni dagsins.

Þá er aðeins ein hefð eftir og það er það að brúðurin sér færi á því að nú geti hún halað inn smá pening í sínu eigin brúðkaupi svo hún skellir sér úr skónum og haltrar á milli gesta sem sitja afvelta eftir allan matinn eða ofurölvi og nú rekur hún skóinn með táfýlunni næstum upp í nef gestanna og biður þá góðfúslega um ölmusu.  Allir rétta eitthvað fram, það bara tilheyrir.  Eftir þessa uppákomu geta gestir loks haskað sér heim á leið en um leið og þú lætur þig hverfa er þér rétt karfa full af smákökum og vín í flösku svo maður hafi nú eitthvað að maula á heimleiðinni.

Brúðkaupið í gær var sem betur fer ekki svona hefðbundið.  Það voru brotnir diskar og þau mötuðu hvort annað af súpunni og allir síðan átu á sig gat en aðrar tékkneskar uppákomur voru látnar eiga sig.

Það datt aðeins andlitið af Tékkunum þegar Íslendingarnir fóru að slá í glös og hjónin stigu upp á stólana til að kyssast en þeir lærðu fljótlega þennan ,,sið"  okkar (sem ég hef ekki hugmynd hvaðan kemur) og fannst bara gaman að þessu.

Þá vitið þið hvað við vorum að bardúsa í gærdag og langt fram eftir kvöldi. 

 


Nú er kominn tími til að uppskera hér að Stjörnusteini.

Þegar við fluttum í fyrsta húsið okkar hér í Prag fyrir mörgum árum fylgdi með þokkalegur garður.  Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var himinlifandi, ekki aðeins af því að komast úr kakkalakkaíbúð í mannsæmandi húsnæði heldur líka að fá garð og með þetta líka flottum ávaxtatrjám.  Epli, perur, plómur, kirsuber og radísur, vaxa þær ekki líka á tránum?  Bara nefndu það! 

Og konan var himinlifandi en dvaldi ekki lengi í Paradís því þegar haustaði kom að því að sulta, safta, búa til grauta og hvað þetta nú allt heitir og hún ég hafði aldrei farið í húsmæðraskóla ( ég taldi nefnilega alla visku koma frá Húsmæðraskólum bara af því ég hafði farið frekar á Lýðháskóla og nennti ekki að læra að elda norsk mad) aðeins verið í matreiðslu í Réttó og alltaf staðið álengdar þegar mamma bjó til sultur og saft því það var ekki ætlast til að maður tæki til hendi í því eldhúsi. 

Hér með er því komið á framfæri að ég hef aldrei verið mikil búkona. Alla vega ekki svona sultu,grautar eða sveppagerðarmanneskja.  Voða gott að láta bara aðra sem nenna að vesenast í þessu gera það fyrir mig. 

Ég man hvað ég glápti á trén, andskoti var mikið á þeim, ætlaði þetta aldrei að taka enda svo ákvað ég að láta náttúruna sjá um sig og hætt að glápa á trén. 

Ég hefði betur hundskast út og tínt eitthvað af þessari hollu fæðu og gefið bara öskuköllunum (þeir fengu allt sem ég vildi ekki nota lengur eða gat verið án í þá daga) því þegar leið á haustið var garðurinn eitt drullusvað þar sem epli, perur og annar úrgangur safnaðist fyrir neðan trén og safnaði í sig allslags bakteríum og óþverra.  Get svarið fyrir það garðurinn leit út eins og í hryllingsmynd og það var ekki farandi niðrí hann nema á klofstígvélum.

Ekki man ég hvernig þetta endaði en örugglega með ósköpum og ég fengið einhvern velviljaðan sem vantaði pening til að þrífa þetta gums.

Þegar við fluttum hingað að Litla Íslandi þá var ég svo himinlifandi yfir því að það voru engin ávaxtatré eða svo hélt ég.  Komst að því fyrsta vorið að hér er himinhátt kirsuberjatré en sem betur fer svo hátt að þangað kemst aðeins fuglinn fljúgandi eftir berjunum og veisla hjá þeim allan júlímánuð.  Síðan voru þrír kræklóttir aumingjar hér við lóðarmörkin langt frá húsinu okkar.  Ég skipti mér ekkert af þeim en eftir því sem við fórum að þrífa í kring um þessar hríslur byrjuðu þær að dafna og viti menn voru þá þetta ekki plómutré sem Tékkar kalla svetské eða sveskjutré. 

Í dag eru þetta hin gerðalegustu tré og í ár eru miljónir sveskja sem dingla þarna engum til ánægju og mér til ama vegna þess að ég veit að ég verð að hunskast til að tína þetta.

Indian sumar 2009 015 

Ef vel er að gáð þá er þetta blágráa afurðin, obboslega eitthvað krúsulegt.

Er einhver til í að koma og hjálpa mér?  Ég borga vel í PLÓMUM nú eða SVESKJUM ef það verður komið fram á haustið.

Hugmynd býð gestunum mínum bara að tína hér í kvöld fyrir matinn við undirleik og söng frá Tom Jones hann hefur alltaf svo hressandi áhrif á mig. 


Vélin fær að halda heiðurssætinu aðeins lengur.

Ég skokkaði ,,léttfætt" niður stigann í morgun.  Viku djúsdögum var lokið og nú gat ég farið og gúffað í mig öllu því sem mér finnst gott á morgnanna.  Hafrakex með miklu smjöri og marmelaði, ómælt kaffi og bara að nefna það!

Þegar niður kom barst mér í vit sama lyktin og ég hef fundið á hverjum morgni alla vikuna.  Lykt af nýpressuðum ávöxtum með engifer og annarri hollustu. Minn elskulegi hafði auðsjáanlega haldið áfram í djúsnum. 

Þarna stóð hún á sama staðnum og hún hefur verið alla vikuna.  Í nokkurs konar heiðurssæti í eldhúsinu. Við hlið hennar var shakevélin, viktin og kannan.  Allt eins og það er búið að vera í heila viku. 

 Um hvað er ég að tala? Nú auðvitað djúsvélina sem ég var búin að hlakka svo til að koma aftur út í horn hinum megin í eldhúsið.  ´Langt, langt úr sjónmáli!  Bara pakka græjunni og nota aðeins spari.  Þetta var orðið ágætt og ég svindlaði ekki nema síðasta daginn enda búin að fá upp í kok af allri þessari hollustu.

Neip, minn elskulegi nú er nóg komið hugsaði ég og sótti mitt hafrakex í skúffuna, sem enn var í þokkalegu standi, ekkert farið að mygla að ráði, smjörinu og marmelaðinu var skellt á borðið og ég smurði kexið á meðan munnvatnið lak út um munnvikin.  

Með kaffið í krúsinni og kexið í hendi settist ég og nú skildi kjamsað á óhollustunni.  KJammmssss..... viti menn þetta var ekki eins gott og mig minnti.  ´Stóð upp náði í djúskönnuna úr ísskápnum og skellti í mig einum góðum.

Djúsvélin fær að standa í heiðurssætinu aðeins lengur.

Verð sjálfsagt að drekka mig niður næstu daga.

Farin út að mála grindverkið hvítt.  

Það er heitt, það er hrikalega heitt úti.  Finna mér sólhlíf.  

 


Þrír Frakkar alltaf á sínum stað, góður matur og þjónusta til fyrirmyndar.

Heppinn Úlfar minn að verða ekki uppiskroppa með hnossætið.  Ekki það að ég leggi mér þetta til munns en af því þú ert kominn í fréttirnar vil ég fá að nota tækifærið og þakka þér fyrir að halda uppi staðnum í öll þessi ár.

Geri aðrir betur!  Við komum við hjá þér fyrir réttri viku og vorum með gamla fólkið þ.e. aldraða foreldra okkar með okkur. Fengum frábæran mat og þjónustan var þvílíkt til fyrirmyndar en því miður varst þú hvergi nærri gamli minn. En þú getur svo sannalega streyst þínu fólki fyrir staðnum af og til.  Frábærir krakkar að vinna þarna og gaman að fylgjast með þeim leysa dæmin sem komu upp á yfirbókuðum staðnum og klukkan rétt um sjö mig minnir að þetta hafi verið laugardaginn 1. ágúst.

 Aldrei neitt mál. Þau unnu saman eins og einn maður.

Takk fyrir okkur. 


mbl.is Hvalkjötið dugði Úlfari í sautján ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður ekki farið yfir Elliðaárnar oftar í þessari reisu!

Það var fallegt að horfa til Eyja í fyrradag þegar við keyrðum austur fyrir fjall.  Við vorum svona í fyrra fallinu eins og Hallgerður myndi orða það og ekki laust við að okkur langaði að skella okkur yfir með Herjólfi en létum skynsemina ráða og héldum okkur á meginlandinu.

Við gerðum víðreisn á fimmtudag. Heimsóttum vinkonu okkar sem býr ekki langt frá Skálholti og fengum þar frábærar súpur í hádeginu, já segi súpur því hún bauð upp á tvennskonar súpur.

Sumar á Íslandi 2009 001   Gerist ekki betra á Íslandi.

Þá keyrðum við að sumarhúsi vina okkar ekki all langt frá og lentum þar á skemmtilegu ,,félagsmóti"  algjörlega óvart.  Hrikalega skemmtileg uppákoma.

Sumar á Íslandi 2009 014 Þeir eru flottir kofarnir á Íslandi!

Sumar á Íslandi 2009 016  Þrjár í stuði.

Um sexleitið renndum við í hlað hjá HelgaSumar á Íslandi 2009 018 bróður Þóris og Jónu í Grímsnesinu en þar beið okkar uppdúkað borð og kræsingar.  Eins og gefur að skilja var ómögulegt að keyra heim eftir að hafa stútfyllt magann allan daginn svo við þáðum gistingu um nóttina.

Í gær eftir góðan sundsprett í Hraunborgarlaug og auðvitað Brunch því maður verður jú að halda sér við efnið síðan keyrðum við í fyrra fallinu til Reykjavíkur.  

Við sem sagt tókum Verslunarmannahelgina snemma og enduðum í gærkvöldi heima hjá góðum æskuvinum í frábærum félagsskap og að sjálfsögðu enn og aftur glæsilegum dinner!

Sumar á Íslandi 2009 026 Blómum skreytt salat!

Vitiði það við bæði hjónin stöndum nú á blístri eftir allt átið síðustu daga!  Þetta er ekki nokkur hemja að kunna sér ekki magamál.

Svo bara hugsar maður:  ,,Mikið vildi ég að ég væri sofnaður, vaknaður aftur og farin að éta"

 Ætla að reyna að koma mér út úr húsi og rölta með móður minni um Hljómskálagarðinn í góða veðrinu.

Og eitt er alveg á hreinu ég fer ekki yfir Elliðaárnar já alla vega ekki lengra en að Rauðavatni í þessari ferð.  Er aveg búin að fá nóg af sveitasælu í bili. 

Ég er líka fegin að við tókum helgina í fyrra fallinu, þá getum verið hér í borginni alein, eða næstum því.


mbl.is Blíða í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snæfellsjökull er enn kynngimagnaður.

Sumar á Íslandi 2009 117  Á ferð okkar frá höfuðstað norðurlands og suður til Reykjavíkur vakti það athygli okkar hvað þorpin og sveitabæirnir á Snæfellsnesi báru af hvað snyrtimennsku og fallegt umhverfi varðar. Þá sérstaklega fannst okkur Stykkishólmur bera af með sínum fallegu gömlu húsum.  Við keyrðum fyrir jökul og gistum á Búðum síðustu nóttina okkar á þessu ferðalagi. 

Engin bauð þó upp á Hnallþórur í þetta sinn og fannst okkur pyngjan léttast all verulega við það að snæða kvöldverð á þessu ,, rómaða"  hóteli.  Held að Jónas Kristjáns hefði ekki orðið par hrifinn ef hann hefði verið þarna við næsta borð. 

Við gengum um fjöruna í kvöldkyrrðinni og soguðum að okkur kraftinn sem streymdi frá jöklinum er glóði sem gull við sólsetur.  Það er ekki oft sem færi gefst á að upplifa slíka daga hér á ísaköldu landi. Kynngimagnað!

 Við komum seint til með að gleyma þessari ferð. 


Fara heim með sundfötin og Evrur í farteskinu

Jæja þá er hinn langþráði dagur runninn upp og við loksins á leiðinni heim.  Ekki nema örfáir klukkutímar þar til við lendum í Keflavík.

  Þið vonandi búin að draga út rauða dregilinn og flagga þjóðarfánanum.  Lúðrasveitin tilbúin með ættjarðarlögin og svo ekki gleyma að það eru alltaf svona litlar sætar stúlkur klæddar í Íslenska þjóðbúninginn sem færa konu blómvönd. Muna að taka sellófanið utan af vendinum, þoli ekki blómvendi klædda í sellófan, bara svo það sé á tæru.

En svo ég tali nú í alvöru þá er mikil tilhlökkun hjá okkur að koma heim og knúsa ykkur öll!

Heyrði utan af mér að við skildum taka með okkur sólfatnað þar sem heima væri bongó blíða og Evrur og nóg af þeim vegna þess að sumir aðilar sbr. Hvalaskoðunarferðir, Einhverjir heilsupollar og ekki hvað síst nokkur veitingahús tækju nú aðeins evrur ef þeir hreyrðu á máli þínu að þú byggir ekki á landinu þá veskú taka upp Evrubudduna. 

 Púra íslenska verður það að vera heillin.  Er búin að vera að æfa mig í slangmáli Íslendinga alveg í heila viku: Kaddamar ekki málið.  Já sæll.  Ertu ekki að grínast í mér og fleiri afbögur sem ég nenni ekki að telja upp núna.

Ég á eftir að sannreyna þetta allt á næstu vikum elskurnar mínar.  Læt ykkur heyra frá mér.

En talandi um veitingahúsin þá hef ég oft farið inn á síðuna hans Jónasar Kristjáns veitingarýnis áður en ég hef komið heim, hann veit yfirleitt hvað hann syngur og það eru alla vega tveir staðir sem ég ætlar EKKI að sækja því hann telur þá engan veginn boðlega.  Tek alla vega enga sénsa í þeim efnunum.

Ok er sem sagt alveg eldklár í bátana og allt tilbúið fyrir heimför.

Hendi inn einni og einni fæslu næstu vikur ef mér ofbýður eitthvað eða ég get sagt ykkur eitthvað skondið. 

Njótið þess að vera til og elska lífið og tilverunna. 

 

 


C´est la vie!

Þegar fólk kvartar þá reyni ég að bæta um betur svo hér bæti ég við tveimur myndum af stækkuninni á Häagen-Dazs ísbúðinni.  Hættið svo að væla í mér, ég get ekki gert betur nema þá að fá professjónal ljósmyndara og maður eyðir ekki peningunum sínum í sollis vitleysu eins og ástandið er í heiminum.  Skilið?

Häagen Dazs 2009 003

Happy?

Häagen Dazs 2009 002

Og svo vil ég ekki heyra fleiri kvartanir frá ykkur þarna heima í landi ís og funa. 

Og þar sem hitastigið er komið yfir 25° í skugga og gula fíflið alveg að missa það úr hamingju þá ætla ég að fara út og setjast hér í skuggann og ekki hreyfa mig fyrr en sólin er sest þá e.t.v. reyni ég að gera eitthvað af viti.  C´est la vie!


Häagen - Dazs opnar aftur í Prag eftir breytingar

  Í gær opnuðum við aftur Häagen-Dazs ísbúðina okkar eftir miklar breytingar. Í stað þess að selja ís í anddyrinu á Restaurant Reykjavík eins og við gerðum hér áður tífölduðum við plássið og tókum hluta af gamla Rest. Reykjavík þegar við seldum staðinn.  Íssbúðin er núna á þremur hæðum og ein sú glæsilegasta í allri Prag.  

046

  Úrvalið er miklu meira en áður og þjónustað er á borðin bæði úti og inni.

045

Þessar myndir voru teknar í gærkvöldi.  Þetta eru hægindin á neðri hæðinni

030

En hér sést í hluta setustofunnar á efri hæðinni.

032

 

Ég veit að það verða margir ánægðir núna því fólk hefur beðið spennt eftir því að við opnuðum aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband