Brotnir diskar, brúðarstuldur og aðrar hefðir í hundrað turna borginni.

Það var hálf haustlegt hér í gær og blés kröftuglega þar sem við stóðum í einum af glæsilegasta hallargarði hundrað turna borgarinnar. 

Gestir stóðu í litlum hópum hér og þar um garðinn og spjölluðu.

Svo birtist hún eins og engill, hvítklædd með hvítan blómvönd.  Andlitið geislaði af hamingju og hún næstum sveif niður tröppurnar í fylgd föður síns.  Ég þekki hana næstum ekki neitt en samt táraðist ég.  Hvað er þetta með það að grenja alltaf við brúðkaup? 

Við vorum viðstödd borgaralegt brúðkaup í gær þar sem gefin voru saman Íslendingurinn Leifur Alexander og fallega tékkneska Marketa eða Marky eins og hún er kölluð.

Falleg látlaus athöfn sem fór fram á þremur tungumálum, tékknesku, íslensku og ensku svo það færi ekki fram hjá neinum hvað um var að ræða þarna.

Það getur verið algjör þolraun að lenda í tékkneskum brúðkaupum þar sem haldið er í ævafornar hefðir.  Sem betur fer var farið milliveginn í gær svo þetta varð ágætis blanda af ísl./tékk. brúðkaupi.

Venja er að fjölskylda brúðarinnar kemur saman heima hjá foreldrum hennar eldsnemma um morguninn og hjálpast við að klæða hana og skreyta bíla gestanna á milli þess sem sópað er í sig skinku, súrum gúrkum, sveppum og stundum köldum snitzel og rennt niður með bjór og Becerovka sem er snaps.

Athöfnin fer síðan venjulega fram um hádegi hvort sem það er borgaralegt eða kirkjubrúðkaup.  Við vorum einu sinni boðin þar sem hjónin voru gefin saman hér í ráðhúsinu og sú athöfn minnti mig helst á hersýningu á tímum Stalins.

Eftir athöfnina fara veislugestir í halarófu á skreyttum bílum þangað sem veisla er haldin.  Allir þenja bílflauturnar eins og frekast er kostur.  Það er ein hefðin og ef þú lesandi góður ert einhvern tíma staddur í hundrað turna borginni á föstudegi um hádegisbil láttu þá ekki koma þér á óvart óþolandi bílflautuvæl sem ómar hér um öngstræti borgarinnar.  Þetta gengur yfir sem betur fer.

Það fyrsta sem gerist þegar komið er að veislusalnum er það að brúðurin brýtur disk fyrir framan brúðgumann og saman tína þau upp brotin og sópa vel og vandlega ekkert brot má verða eftir því það stýrir ólukku.  Þannig að þarna skríða brúðhjónin um allt gólf tínandi upp glerbrot og sópandi flísar.  Þegar þau standa upp er brúðarkjóllinn orðinn ansi sjabbí og brúðguminn með hné í buxunum. 

Það er mikið nastravíað (skálað) í svona veislum og venja að byrjað sé á kampavíni og léttum málsverði sem samanstendur af kjúklingalifrasúpu, nautakjöti (Pot roast) með knellik (soðkökum) og þungri sósu.  Brúðarterta og kaffi.  Þessu er skolað niður með góðu magni af víni, öllum sortum.

Ræður eru ekki margar (sem betur fer) Brúðhjónin fá fyrst allra súpuna og þjónninn kemur með stóran dúk og bindur hann utan um nýgiftu hjónin svo þau eru nú komin með einn ,,smekk" og mata hvort annað á súpunni.  Eitthvað hefur það líka með það að gera að það má ekki sulla einum dropa niður þá er víst voðinn vís. Eftir þessa þolraun taka allir til matar síns.

Eftir kökuátið tekur maður eftir því að brúðurin er horfin. Þá er sem sagt búið að stela brúðinni og koma henni fyrir einhvers staðar á nærliggjandi pöbb þar sem hún djammar með vinkonum sínum.  Brúðguminn fer síðan með sínum vinum að leita hennar og finnur alltaf á endanum og þar setjast þau að sumbli.  Á meðan þessu fer fram sitja veislugestir áfram og blaðra við vini og vandamenn.  Þeir sem ekki þekkja neinn eins og komið hefur fyrir okkur hjónin þá lætur maður sér leiðast út í horni.  Þetta getur tekið allt upp í þrjár klukkustundir.  Þetta er eins og það sé verið að hegna manni fyrir að mæta í viðkomandi gilli.

Loksins þegar þau nýgiftu láta sjá sig aftur eru þau orðin vel kippó og kát.  Þá er tekið við að borða aftur!  Nú er svíni sem búið var að slátra fyrr um morguninn og hefur snúist á teini allan daginn, sporðrennt með tilheyrandi súrmeti og dóteríi.

Þegar þarna er komið er maður orðinn svo stútfullur af mat að ekki er möguleiki að koma sér út á dansgólfið þar sem nú hefur verið skverað upp balli í tilefni dagsins.

Þá er aðeins ein hefð eftir og það er það að brúðurin sér færi á því að nú geti hún halað inn smá pening í sínu eigin brúðkaupi svo hún skellir sér úr skónum og haltrar á milli gesta sem sitja afvelta eftir allan matinn eða ofurölvi og nú rekur hún skóinn með táfýlunni næstum upp í nef gestanna og biður þá góðfúslega um ölmusu.  Allir rétta eitthvað fram, það bara tilheyrir.  Eftir þessa uppákomu geta gestir loks haskað sér heim á leið en um leið og þú lætur þig hverfa er þér rétt karfa full af smákökum og vín í flösku svo maður hafi nú eitthvað að maula á heimleiðinni.

Brúðkaupið í gær var sem betur fer ekki svona hefðbundið.  Það voru brotnir diskar og þau mötuðu hvort annað af súpunni og allir síðan átu á sig gat en aðrar tékkneskar uppákomur voru látnar eiga sig.

Það datt aðeins andlitið af Tékkunum þegar Íslendingarnir fóru að slá í glös og hjónin stigu upp á stólana til að kyssast en þeir lærðu fljótlega þennan ,,sið"  okkar (sem ég hef ekki hugmynd hvaðan kemur) og fannst bara gaman að þessu.

Þá vitið þið hvað við vorum að bardúsa í gærdag og langt fram eftir kvöldi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Alltaf gaman að kynnast hefðum annarra þjóða  Eigum við einhverjar séríslenskar hefðir?...ég bara spyr, af því ég veit það ekki.

Sigrún Jónsdóttir, 5.9.2009 kl. 09:42

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Neip ég held bara ekki. Helst að það séu ræðurnar sem eru oft svo óþarfar en það er bara með okkur landann að við erum svo mikið fyrir það að láta ljós okkar skína.

Ía Jóhannsdóttir, 5.9.2009 kl. 09:59

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Einu "sér íslensku " hefðirnar sem ég hef heyrt um hin síðari ár er eftiröpun úr bandarískum myndum.  Þetta er býsna skemmtileg lýsing ´hjá þér, örugglega gaman að prófa einu sinni.  Við hjónin vorum einu sinni í kaþólsku brúðkaupi í Sviss, það var mjög gaman en ekki svona mikið af siðvenjum eins og þú segir frá.  Góða helgi elsku Ía.

Ásdís Sigurðardóttir, 5.9.2009 kl. 13:38

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skemmtileg frásögn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.9.2009 kl. 15:38

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Gaman að lesa þetta, sérstakega eftir að vera nýbúin að standa í brúðkaupi dótturinnar.

Danskur siður er að klippa sokkana af brúðgumanum eftir brúðarvalsinn og var það gert við minn Svigeson!

Kveðja til þín annars í haustvindana.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.9.2009 kl. 14:42

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Frábær saga og ég tek undir að gaman er að kynnast öðrum hefðum en okkar, ég hef verið viðstödd Pólskt brúðkaup, en var fljót að láta mig hverfa um leið og búið var að gefa kaffi og tertu.
Knús knús
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.9.2009 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband