Fundinn fjársjóður - Minning.

Fyrir nokkrum árum flutti móðir mín í þjónustuíbúð eftir að hafa búið í nær fimmtíu ár á sama stað.  Það kom í hlut eldri bróður míns að losa háaloftið þar sem faðir okkar, þá látinn fyrir tíu árum, hafði eitt mörgum stundum án þess að nokkur vissi í raun hvað hann hafðist við. Þetta var svona hans prívat vistavera frá skarkala heimsins.

Þarna uppi kenndi margra grasa og þar á meðal gömul sendibréf skrifuð af föðurafa okkar og ömmu svo og systur pabba.  Þessi bréf eru skrifuð á árunum 1925 - ´30. 

 Nú hefur Kjartan bróðir minn tekið sig til og endurritað nokkur af þessum bréfum og fékk ég þau send á mailinu um daginn. Ég verð að segja ykkur að þetta kom virkilega við viðkvæma strengi. Ég kynntist aldrei þessum afa mínum því hann dó þegar faðir minn var 12 ára. Eitthvað sat í mér frá bernsku að afi minn hefði dáið úr krabba en eitt bréfið sem skrifað er af bróður hans lýsir veikindunum eins og heilablóðfalli.  Við fáum víst aldrei úr því skorið.

Föðurfólk mitt hefur verið mjög vel skrifandi og stílfæring er svo lifandi að maður sér hlutina ljóslifandi fyrir sér.  Jafnvel 17 ára systir pabba míns sem þá lá á Franska spítalanum (1925) skrifar mjög greindarlega og þar kemur svo vel í ljós að hún hugsaði meir um fjölskylduna heldur en sín veikindi.  Hún talar um að hún hafi keypt pund af garni í peysu og sokka handa systkinum sínum en það komi ekki fyrr en með haustinu. Eina sem hún kvartar yfir er heimþrá og vondur matur á spítalanum en allir séu svo góðir við sig.  Þessi frænka mín dó ári seinna úr berklum þá aðeins sautján ára. 

Skemmtilegasta bréfið fannst mér það sem afi minn skrifar 1930 til ömmu minnar þar sem hún dvelur í Reykjavík hjá Dísu dóttur sinni sem þá var komin með berkla.

Þá er hann einn í Vík með föður minn átta ára og talar um að strákurinn borði vel.  Fái grjónagraut í middag og kvöldmat.  Einnig fái hann annað gott með og fullt af nýmjólk.  Hann sé farinn að vinna (sem sagt faðir minn) við að tálga hökk af girðingastaurum og fái 5 aura á stykkið.  Hann kvarti ekki um fótkulda enda hafi afi þæft sokkana hans vel áður en verkið hófst.  Finnst ykkur þetta ekki yndislegt?

Á öðrum stað talar afi minn um að enginn þurfi að svelta á heimilinu um jólin því nóg sé til af mat. Full tunna af kjöti, 9 rúllupylsur, 7 reykt læri, vel full tunna af Fýl og tunnu af blóðmör.   Fyrir utan fisk og mjólkina sem sjálfsagt kom þá frá Suður Vik.  Alsnægtaheimili sum sé.

Þegar þessi bréf eru skrifuð eru flest þeirra börn, afa og ömmu flutt til Reykjavíkur.  Pabbi var orðinn einn eftir heima þegar faðir hans dó 1933 að ég held.  Eftir það flutti amma á mölina með pabba.  Tvær systur pabba dóu ungar önnur úr barnaveiki (held ég) hin út berklum. Sjö komust til manns.

Systkinum föður míns sem öll eru látin varð ekki margra barna auðið. Við vorum 9 frændsystkinin og erum nú aðeins fimm eftirlifandi.  Systur pabba sem voru þrjár eignuðust aldrei börn en tóku okkur frændsystkinin að sér eins og þeirra eigin. 

Þetta var stórhuga fólk, stolt með afbrigðum en með hjartað á réttum stað.

Takk fyrir Daddi minn að hreinrita þennan ómetanlega fjársjóð. 

Blessuð sé minning afa míns og ömmu Kjartans Finnbogasonar og Ingibjargar Jóhannsdóttur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þvílíkur fjársjóður, sem þig eigið þarna.  Þarna finnið þið ræturnar.

Sigrún Jónsdóttir, 16.1.2009 kl. 21:59

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já stelpur þetta er BARA yndislegt eins og Íslendingar segja í dag. 

Ía Jóhannsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:05

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 17.1.2009 kl. 08:50

4 identicon

Mikið er gaman að þessu. Ég á smávegis eftir langömmu mína sem dó rétt að verða 100 ára. Hún var frá Strönd í Meðallandi en bjó í Vík í Mýrdal. Mig minnir að ég geti séð þig í islendingabok eitthvað nálægt. Skoða það aftur.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 11:32

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Kæmi mér ekki á óvart að við værum skildar einhvers staðar langt aftur í rass......

Eitthvað af fólkinu hans pabba kom frá Meðallandinu en man ekki eftir bæ sem hét Strönd.  Láttu mig heyra um niðurstöður.

Ía Jóhannsdóttir, 17.1.2009 kl. 12:22

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Gaman að þessu Ía mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 17.1.2009 kl. 12:38

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er yndisleg frásögn.

Þegar þú talar um Franska spítalann, ertu þá að meina þennan í Hafnarnesi?

Þar bjó mamma mín sem barn, þe. eftir að spítalinn var lagður niður.

Það er svo merkilegt að lesa um líf fólkisns á Íslandi áður fyrr. 

Svo fallegt reyndar að maður verður klökkur af og til.

Takk Ía mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.1.2009 kl. 14:40

8 Smámynd: Huld S. Ringsted

Huld S. Ringsted, 17.1.2009 kl. 18:56

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Kær kveðja úr bloggfríinu

Guðrún Þorleifs, 18.1.2009 kl. 00:29

10 identicon

Eins og sagði þér er varla talað um skyldleika en þó köllumst við á einmitt úr Meðallandinu. Þess má geta að frá þeim legg kemur bæði gott og einstaklega vel gefið fólk  Auðvitað með eini og einn undantekningu..

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband