9.10.2008 | 10:10
Ljósið í myrkrinu.
Í gær ætlaði ég að taka fréttafrían dag. Sem sagt ekki lesa eða hlusta á fréttir. Ég var svo harðákveðin í þessu enda alveg búin að fá nóg af sorgarfréttum undanfarna daga. Jafnvel bloggið veitti enga ánægju og þar af leiðandi datt niður öll löngun til að skrifa.
Ég ákvað að nú skildi bara snúa sér að einhverju uppbyggilegu, þvo þvott og taka til í skápum heheheh... án gríns, mér datt í hug að það alla vega, væri eitthvað sem gæti dreift huganum og jafnvel gæti ég sett í kassa og gefið frá mér. Gera eitthvað góðverk. Það getur verið mjög uppbyggjandi fyrir sálina.
Ég var rétt komin í gírinn þegar gesti bar að garði frá Íslandi og þar með féll ég aftur inn í hringiðu daglegs lífs Íslendingsins. Yfir kaffibollum voru hörmungarnar heima fyrir ræddar fram og til baka. Satt best að segja var allt farið að hringsnúast í höfðinu á mér. Hverjum var hvað að kenna, hver var góði maðurinn og hver var vondi maðurinn? Hverjum var treystandi, hvern ætti að reka og hver fengi að sitja í stólnum sínum áfram. Það eina sem ég vissi með vissu var að þessu yrði ekki bjargað hér heima í stofunni minni þótt ég fegin vildi að svo væri hægt.
Við hér erum sem betur fer ekki enn ekki farin að finna fyrir ástandinu og erum þakklát fyrir hvern dag sem líður.
Þetta hér á undan koma alveg óvart. Mig langar ekki einu sinni að reyna að leika Pollýönnuleikinn.
Ljósið í myrkrinu, friðarljósið hennar Yoko Ono á nú eftir að lýsa heima og er þá ekki reynandi að horfa til þess og vona það besta okkur öllum til handa. Frið í sálu og ekki hvað síst heimsfriði.
Eigið góðan dag.
Yoko og Lennon á landinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2008 | 17:04
Kemur okkur alls ekki á óvart.
Í mörg ár erum við búin að vara fólk við að skipta peningum í þessum svo kölluðu ExChange búllum hér í Prag. Þessir skiptibankar ef kalla má svo. hafa aldrei verið neitt betri en ruslaralýðurinn á götunni sem bauðst til að skipta erlendri mynt í tékkapeninga en létu oft á tíðum saklausa túrista fá Pólsk slotsy í staðin, algjörlega verðlaus.
Stundum sá maður þessa þjófa fyrir utan skiptibúllurnar reyna að lokka fólk að og er ég næstum 100& viss um að þessi lýður var á vegum eiganda skiptibúllanna.
Sem betur fer hlustuðu Íslendingar, í flestum tilfellum á okkur, þegar við vöruðum þá við en auðvitað voru sumir sem nenntu ekki að leita að hraðbanka og fannst auðveldara að randa inn í næstu okursjoppu.
Oftar en einu sinni lamdi ræðismaðurinn í borðið hjá skiptibúllunni út á horni hjá okkur og krafðist þess að rétt gengi væri gefið upp. Einu sinni hótaði hann þeim lögreglu og mig minnir að þá hafi gengið verið leiðrétt á staðnum en bara fyrir þann kúnnann, hinir sem á eftir komu voru teknir áfram í nefið.
Þessi frétt er gleðifrétt fyrir okkur sem búum hér því borgin hefur haft á sér óorð vegna margskonar spillingar og þetta var ein af þeim.
Fyrr á árinu tók Borgarstjórinn í Prag 1 sig til og dulbjóst sem ferðamaður og ferðaðist með leigubílum borgarinnar til að sannreyna alla þá spillingu sem þar viðhófst. Hann hafði með sér blaðamann og fréttin var það kræsileg að leigubílar fóru að hegða sér eftir lögum og reglum.
NB takið bara leigubíla sem merktir eru AAA og eru auðþekkjanlegir af sínum heiðgula lit þið sem eruð að koma hingað á næstunni. Þeir eru OK.
Vil ég bara óska lögreglunni í Prag 1 til hamingju með rassíuna og haldið bara áfram stákar því af nógu er að taka.
Skiptibanki í Prag flæktur í glæpastarfsemi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.10.2008 | 10:55
Allra augu beinast að okkur Íslendingum
Eftir atburði gærdagsins setur mann hljóðan. Veislunni er lokið sem flestir ef ekki allir tóku þátt í. Sumir sátu við háborðið og fengu að líta alla þessa háu herra eigin augum en aðrir létu sér nægja að sitja í hliðarsölum og fylgjast með ræðuhöldum úr hátölurum.
Timburmennirnir leggjast misjafnlega í menn alveg eftir því hvað sopið var oft úr ausunni.
Núna verðum við að huga að ungu börnunum sem erfa eiga landið. Forðast að tala um erfiðleika í þeirra návist og knúsa þau meir en við höfum gert hingað til. Börnin skilja meir en við höldum og þau finna greinilega ef mamma og pabbi eru pirruð og þreytt. Þetta vitum við öll og stundum er bara ekkert svo auðvelt að leyna ástandinu.
Ég man eftir því að það var oftast keypt í ,,billegu búðinni" handa okkur systkinunum, skór, úlpur og fl. en sú búð var uppá háalofti og okkur fannst það bara eðlilegur hlutur.
Mér blöskraði aðeins þegar ég frétti að ein verslun væri farin að hvetja fólk til að hamstra. Þarna fór sú ágæta verkun aðeins yfir strikið. Ég vona bara að þeir sem keyptu hveitið eigi músheldnar geymslur.
Það fer ekkert á milli mála að allra augu beinast að okkar litlu þjóð og ástandinu heimafyrir. Ég hef þá trú að við komust út úr þessu eins og öllu öðru með okkar seiglu og dugnaði.
Við eigum frábært fólk á Íslandi sem gefst ekki upp þá móti blási.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.10.2008 | 19:22
In memory - Restaurant Reykjavík - Prag
Adieu, adieu. Þið sem ætlið að leggja leið ykkar í Karlova götuna hér í Prag og heimsækja okkur á Restaurant Reykjavík komið nú að lokuðum dyrum. Að gefnu tilefni langar okkur til að þakka þeim rúmlega 3 milljónum manna sem heimsótt hafa staðinn okkar undanfarin sautján ár.
Til þess að valda engum misskilning þá viljum við líka taka fram að þessi ákvörðun var ekki tekin vegna einhvers kreppuástands í heiminum heldur eru samningar búnir að standa yfir sl. átta mánuði og það bara vildi þannig til að skrifað var undir samninga 30. sept. og við lokuðum fyrirtækinu 1. október.
Þegar horft er til baka þá minnumst við þegar við gengum Liliova 1991 og vorum að ,,njósna" um staðinn sem þá var rekinn á vegum ríkisins. Þar sem við gengum fram hjá færallt í einu minn elskulegi bunu yfir nýju jakkafötin. Við litum upp og sáum mann standa uppi á annarri hæð út á svölum með allt úti og hafði auðsjáanlega orðið mál. Okkur brá auðvitað en um leið litum við á hvort annað og sögðum næstum samtímis: Let´s do it! Þar með var það ákveðið að kaupa staðinn og þurfti ekki nema eina litla pissusprænu til að sannfæra okkur um að þetta yrði okkur í hag.
Við gerðum okkur strax grein fyrir því að staðsetningin var prime location en við yrðum að moka út áður en við gætum opnað nýjan stað eftir okkar höfði. Hafist var strax handa og á mánuði var búið að kaupa innréttingar frá Hollandi, græjur í eldhús, ráða starfsfólk og þann 29. nóvember 1991 opnuðum við Restaurant Reykjavík.
Það var engin lognmolla sem ríkti frekar en fyrri daginn og viku fyrir opnun vorum við tilbúin en ekki með öll leyfi þannig að við byrjuðum á því að bjóða vinum og ýmsum fyrirtækjum í dinner sem var bráðsnjallt vegna þess að þá fékk staffið að æfa sig í þjónustu og matargerðarlist sem engin í eldhúsinu hafði kynnst áður. Við komum með nýjungar og vorum sektuð í tíma og ótíma fyrir að breyta hefðbundnum matseðli frá kommatímanum yfir í Evrópskan standard.
Matseðlar voru þá allir eins hvort sem það hét Hotel Intecontinental (sem þótti flottast í Prag) eða venjulegur bjórpöbb. Það hét Skubina I - II eða III. og það voru landslög að þessu mætti ekki breyta. Við breyttum öllu og þess vegna vorum sektuð í tíma og ótíma sem við kipptum okkur ekkert upp við enda margt af því sem við settum á matseðilinn okkar er orðinn hálfgerður þjóðarréttur í dag.
Man þegar við vorum að ráða starfsfólk og spurðum hvort þau töluðu ensku. Svarið var yfirleitt Yes og við héldum þá áfram að spyrja en fengum engin svör vegna þess að þau skildu ekkert í því máli. Þegar við sögðum síðan að því miður gætum við ekki ráðið viðkomandi kom andsvar: En ég kann matseðilinn.
Kokkarnir okkar voru rosalegur höfuðverkur. Steikur að þeirra mati áttu að vera yfirsteiktar, annað var dýrafóður! Þeir helltu olíu á gasgrillið og síðan vatni svo lá við að gestirnir köfnuðu í salnum fyrstu kvöldin. Þegar við komum með örbylgjuofninn þá gladdist allur mannskapurinn, þeir héldu að þetta væri sjónvarp! Örbylgjuofn höfðu þeir aldrei litið augum. Ojá þetta var ekkert auðvelt í byrjun en við höfðum gott fólk sem vildi læra og sumir voru hjá okkur öll þessi sautján ár.
Já það er margs að minnast og Reykjavík varð strax einn af þekktustu stöðum Prag. Man eftir því vorið eftir að við opnuðum kom ég gangandi að heiman og sá langa biðröð sem náði frá Reykjavík og langt inn í Karlova. Ég spurði einn sem stóð í röðinni eftir hverju fólkið væri að bíða og svarið var að komast inn á Reykjavík. Nú sagði ég, hvers vegna? Jú þetta var eini staðurinn í Prag sem borðandi væri á. Ég spurði síðan, hvað ert´u búinn að bíða hér lengi? Um 45 mínútur og býst ekki við að komast að fyrr en eftir hálf tíma, það er nefnilega ekki hægt að panta þarna borð. First come, fist served. Já er það sagði ég og gekk að veitingastaðnum mínum sem var þá strax orðinn þekktur.
Ég gæti haldið lengi áfram að segja ykkur sögur en ætla að láta þetta nægja að svo stöddu. Það eiga örugglega eftir að spretta upp í minningunum skemmtileg atvik sem ég segi ykkur síðar frá.Það er dálítil blendin tilfinning sem er ríkjandi hér á þessu heimili. Eftirsjá og léttir eru held ég bestu orðin yfir það hvernig okkur líður í dag.
Við hjónin viljum þakka ykkur öllum sem heimsótt hafa Restaurant Reykjavík þessi sautján ár fyrir viðskiptin og nú tekur við nýr og vonandi spennandi kafli í okkar lífi hér í hundrað turna borginni okkar.
Ræðismannsskrifstofan verður áfram opin í Karlova 20 alla vega næstu mánuði.
Þökkum enn og aftur ykkar hlýhug kæru landar í okkar garð og lifið heil.
Heimasíðan okkar er enn lifandi www.reykjavik.cz
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
3.10.2008 | 12:24
Það var þá! Er sagan að fara að endurtaka sig?
Við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld munum vel eftir skömmtunarseðlunum. Þar sem maður stóð í biðröð niðr´í gamla Gúttó og hékk í pilsfaldi mömmu eða ömmu bíðandi eftir að röðin kæmi að manni.
Við munum líka eftir lyktinni fyrir jólin þar sem eplakassinn var vandlega falinn inn í kompu því ekki mátti snerta þessa munaðarvöru fyrr en á Aðfangadag. Sumir voru heppnir og fengu appelsínur líka en þá varð maður að hafa ,,góð sambönd" eins og það var kallað. Stundum slæddist skinkudós með og súkkulaði. Þá voru jólin fullkomin.
Vonandi koma þessir tímar aldrei aftur en þegar fólki er ráðlagt að fara að hamstra þá er útlitið ekki gott.
Ég tók eftir því þegar ég var heima um daginn að verslunarmenn voru svona hálfpartinn að afsaka vöruúrval og fékk ég oft að heyra eitthvað á þessa leið: Nei, því miður við erum að bíða eftir næstu sendingu, kemur í næstu viku. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að varan væri komin til landsins, það væru bara ekki til peningar til að leysa hana út.
Í einni af okkar betri verslunum í Reykjavík var mér sýnd flík sem ég vissi að hefði verið seld þarna síðasta vetur og stúlkan sýndi mér hana sem nýkomna haustvöru. Ég gerðist svo djörf að segja upphátt: Þetta er síðan í fyrra. Aumingja konan fór öll hjá sér og til að bjarga sér fyrir horn greip hún nýjan bækling sem hún sýndi mér af miklum áhuga og allt var þetta væntanlegt innan skamms.
Ég er ansi hrædd um að útsölur byrji snemma í ár.
Eins einkennilega og það hljómar er eins og ég sé komin langt, langt frá ykkur núna. Ég skynjaði það strax í gærkvöldi að ástandið heima skipti mig ekki svo miklu máli lengur og ég fékk hrikalegt samviskubit. Á meðan ég dvaldi á landinu tók ég fullan þátt í daglegu lífi landa minna og skammaðist og argaði ekkert minna en aðrir. Í morgun fletti ég blaði landsmanna og það eina sem kom upp í kolli mínum. Djöfull er þetta ömurlegt! Síðan hætti ég að hugsa um þetta ófremdarástand. Það var eins og það snerti mig ekki lengur.
Ein góð bloggvinkona mín sem býr í DK skrifaði um þetta sama tilfinningaleysi hjá sér í morgun. Held að okkur hafi liðið álíka illa. Erum við svona vondar manneskjur eða er þetta eðlileg reaksjón. Veit ekki!!
Þetta hrellir mig satt best að segja en mér þykir ósköp mikið vænt um ykkur öll og vil ykkur ekkert nema alls hins besta.
Er farin að skoða hug minn.
Verslunarmenn vænta vöruskorts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.10.2008 | 19:10
Prag tók á móti mér í litskrúði haustsins
Þegar ég renndi til Keflavíkur klukkan fimm í morgun með stírur í augum og geispa niður í maga voru tilfinningarnar heldur blendnar. Auðvitað hlakkaði ég til að fara heim en um leið fór um mig óhugur yfir að skilja ykkur öll eftir þarna í volæði og óstjórn.
Þar sem ég sat í vélinni og horfði niður á landið mitt, sem pínulítil snjóföl þakti eftir úrkomu næturinnar, langaði mig helst til að hrópa niður til ykkar allra: Verið sterk og standið saman gegn allri þessari spillingu sem verið hefur og óstjórn! Það birtir til, verið viss!
En hvað veit ég vanmáttug konan sem bý ekki einu sinni þarna uppi.
Sveitin mín tók á móti mér í sínum fegurstu haustklæðum sem glóðu í síðdegissólinni. Mikið var gott að koma heim.
Ég er komin í skotið mitt í eldhúsinu. Minn elskulegi er ekki væntanlegur fyrr en eftir miðnætti þar sem hann varð að fara snemma í morgun til borgarinnar Zlín í embættiserindum.
Ég verð sjálfsagt farin að gæla við koddann þegar hann birtist og komin inn í draumheima.
Lái mér hver sem er, ósofin kona með hroll í hjarta yfir öllu óstandinu á gamla landinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.9.2008 | 22:19
Myrkir dagar hér uppi á ,,Hamingjulandinu"
Eftir myrkan mánudag kom þungbúinn þriðjudagur. Sat best að segja er ekkert sérlega skemmtilegt að heimsækja ,,Hamingjulandið" á þessum erfiðu tímum. Maður ósjálfrátt fer inn í sömu hringiðuna og allir aðrir. Ef það hefði ekki verið fyrir skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu minni og vinum hefði ég verið farin heim fyrir löngu.
En nú fer að líða að því að ég haldi heim og ég veit ekki hvers ég á eftir að sakna héðan fyrir utan litlu fjölskyldunnar minnar.
. Jú verðlaginu sem aldrei hefur verið jafn hagstætt fyrir okkur ,,útlendingana" Ef til vill á ég líka eftir að sakna þess að láta vindinn og regnið lemja mig í bak og fyrir. Veit samt ekki alveg hvort sú verður raunin, ætli ég verði ekki fegin að geta setið úti á veröndinni minni í haustsólinni, held það bara.
Það er margt sem hefur drifið hér á daga mína og e.t.v. segi ég ykkur nokkrar skemmtilegar sögur eftir að ég er sest í hornið mitt í eldhúsinu mínu að Stjörnusteini með mína kaffikrús.
Er að fara heim á fimmtudaginn og hlakka til að knúsa minn elskulega en hann fór heim í síðustu viku vegna anna heima fyrir.
Farið vel með ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.9.2008 | 13:10
Í ljósi alls sem er.
Er farin að sjá heiminn í allt öðru ljósi og sumt af því sem ég sé hrellir mig en það er líka annað sem kemur skemmtilega á óvart og gleður augað.
Ég sagði ykkur um daginn að ég lærði alltaf eitt nýyrði þegar ég væri hér á landinu og í gær heyrði ég alveg splunkunýtt orð sem kom mér til að skella upp úr. Nú á maður að segja þegar maður ætlar að gera nákvæmlega ekki neitt, í dag ætla ég bara að Haarda.
Og það er það sem ég ætla að gera í dag, bara Haarda með dóttur minni og fjölskyldu.
Njótið helgarinnar hvar sem þið eruð stödd í heiminum og elskið hvort annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.9.2008 | 12:55
Nú legg ég vonandi öllum þessum fínu lonníettum.
Þá tifar klukkan og nú eru aðeins rétt þrír tímar þar til einhver sæt hjúkka gefur mér eina valíum svona rétt til þess að róa mínar fínu taugar eins og sérfræðingurinn komst að orði í gær.
Síðan á ég að leggjast upp á borð, augnalokin verða spennt upp og dropar settir í augun síðan kemur hvisssss.. og allt búið. Hvað er kerlingin að röfla hugsar nú einhver, jú það skal ég segja ykkur tók nefnilega þá stóru ákvörðun í gær að fara í Laser operation eða sjónlagsaðgerð eins og það heitir víst á okkar máli.
Þar sem ég var orðin svo rosalega pirruð á mínu gleraugnastandi þá ákvað ég bara að drífa í þessu ef hægt væri. Minn elskulegi augnsérfræðingur sagði við mig í gær eftir ítarlega skoðun:
-Aha og ert þú búin að keyra svona án gleraugna lengi?
Já svaraði ég pílu skömmustuleg, því ég vissi auðvitað að ég hef verið stórhættuleg í umferðinni undanfarna mánuði.
Hann benti mér á að horfa á spjaldið á veggnum.
- Jæja hvað sérðu þarna?
- Humm... hvítt spjald með einhverju svörtu
-OK en hér, segir hann og réttir mér blað í svona A4
- Á ég að sjá eitthvað hér spurði ég
- Svona sérðu núna segir hann og um leið smellir hann málmgleraugum á nefið á mér og segir síðan, horfðu nú á spjaldið á veggnum aftur.
Ég sá meira að segja neðstu línuna og gat lesið smáa letrið á blaðinu, vá......
- OK svona kemur þú til með að sjá án gleraugna eftir aðgerðina.
Ég er orðin spennt, ég er orðin ansi mikið spennt, svona eins og hengd upp á þráð þið vitið.
Veit ekkert hvenær þið heyrið í mér aftur. En ef ég er ekki komin inn eftir tvo daga þá getið þið hafið kertafleytingar.
Sko þetta er stórmál, ég hef aldrei á æfi minni tekið inn valium!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.9.2008 | 00:10
Er alveg komin að því að þverbrjóta öll góð fyrirheit.
Áður en ég hélt hingað heim var ég búin að ákveða að ekkert, segi og skrifa ekkert skildi koma mér úr jafnvægi og ég ætlaði heldur ekki að láta eitt eða neitt fara í pirrurnar á mér. Ætlaði að líta fram hjá öllu neikvæðu og vera allan tímann á jákvæðu nótunum sama á hverju gengi.
Þetta gekk eftir svona í byrjun, ja eingöngu vegna þess að ég vogaði mér ekki út fyrir dyr þar sem þessi veðurbeljandi var ekki einu sinni hundi bjóðandi. En ekki er nú hægt að sitja inni allan daginn svo út úr húsi varð ég að fara enda veðrið orðið þokkalegt fyrir svona kuldaskræfu eins og mig.
Ég var ekki fyrr komin út undir bert loft að pirringurinn fór að gera vart við sig. Ég alveg beit saman tönnum og andaði djúpt, taldi upp á tíu eða tuttugu en pirringurinn er enn til staðar. Ég gæti haldið áfram í alla nótt að segja ykkur hvað það er margt sem fer í mínar fínustu hér en af því að ég hafði þennan góðan ásetning áður en ég hélt hingað ætla ég að reyna að halda mig á mottunni, ja alla vega þar til ég spring en ef þessu heldur svona áfram næstu daga er ekki langt í stóru bombuna.
Bara að anda djúpt og þegja er bara andskotakornið ekkert auðvelt skal ég segja ykkur.
Síðan er alveg óþolandi að hlusta á fólk sem er kvartandi í tíma og ótíma og aldrei ánægt.
Og er ég núna að berjast við að vera ekki í þeim hópi.
Svo ég haldi nú ekki áfram hér og blaðri öllu því sem liggur svo þungt á mér eins og mara er ég farin til kojs að sofa í hausinn á mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2008 | 23:40
Það er eitthvað mikið að því miður.
Perlurnar okkar sem við eigum hér á ísaköldu landi eru óteljandi og við sýnum stolt þessi undur útlendingum sem sækja okkur heim. Geysir er ein af þessum perlum og þangað lá leið okkar hjóna um seinustu helgi.
Geysir hefur nú aldrei heillað mig sérstaklega mikið. Mér er nokk sama hvort sá ,,gamli" gýs eða hvort Strokkur hellir úr sér smá slettum. Gufustrókar úr jörðu hafa aldrei vakið neina sérstaka hrifningu hjá mér enda er ég fædd og uppalin á þessu landi og fyrir okkur er bara ósköp eðlilegt að gufu leggi upp úr jarðskorpunni hingað og þangað um landið. En útlendingum finnst þetta spes og þá er ekkert sjálfsagðara en að sýna öllum sem hingað koma frussandi hveri eða borholur sem hvæsa upp á Hellisheiði og víðar.
En það er eitthvað mikið að á þessum helstu ferðamannastöðum okkar. Hirðuleysi umsjónamanna um öryggi og hreinlæti er þvílíkt ábótavant að það er til áborinnar skammar.
Við hjónin komum seinast að Geysi fyrir tveimur árum í fylgd með helstu ráðamönnum þjóðarinnar og þjóðhöfðingja erlends ríkis. Þá virtist allt vera í stakasta lagi og var tekið á móti okkur að Hótel Geysi með miklum höfðingsskap. Við vorum að koma ofan af jökli og fengum þarna léttar veitingar áður en haldið var til Reykjavíkur.
Það ríkti þess vegna dálítil eftirvænting hjá okkur þar sem nú átti að gista eina nótt að Hótel Geysi og skemmta okkur í góðra vina hópi íslenskra vina.
Veðrið var nú ekki upp á það besta en við harðákveðin í því að láta það ekki skemma fyrir okkur. Við renndum í hlað rétt um hádegi og tók ég strax eftir því að fallega tréverkið var farið að láta á sjá. Þegar inn kom spurðum við um gestamóttökuna og vinaleg stúlka frá Pest, Ungverjalandi vísaði okkur út og fylgdi okkur að bakhúsi sem mér fannst nú líkjast meir hjalli en húsi. Þar var gestamóttakan.
Grútskítugt teppi var það fyrsta sem ég tók eftir og mér fannst ég vera komin svo langt frá raunveruleikanum að það hálfa var nóg og er enn að pæla í því hvort þetta hafi í raun og veru verið eins slæmt og raun bar vitni.Konan í móttökunni var elskuleg og rétti okkur lykla og sagði að við værum í húsi númer 12. Við hváðum, hvað meinarðu erum við ekki á hótelinu? - Jú gistingin er hér fyrir neðan.
OK, við fundum hús númer 12 og það var þokkalegt, hreint á rúmum og svona eins og maður vill hafa þriggja stjörnu gistingu.
Vinirnir fóru nú að tínast að og sumir fengu hús sem engan vegin var bjóðandi gestum. Hitinn virkaði ekki í einu húsanna og í öðru fékk einn vinur okkar lokið af klósettkassanum í fangið þegar hann skrúfaði frá vatninu í vaskinn. Heita vatnið lét eitthvað á sér standa því það tók hálftíma að láta renna áður en hlandvolgt vatnið kom úr heitavatnskrananum og þannig var það í öllum húsunum og á salernum inni í Hótelbyggingunni var ekkert rennandi heitt vatn. Tvær af þessum glerfínu þvottaskálum voru stíflaðar og vatnið flæddi nær yfir barmana og salernin voru í hræðilegu ástandi.
Halló við vorum á hverasvæði en ekkert rennandi heitt vatn!!!!!!!!
Um kvöldmatarleitið söfnuðumst við saman á ,,Hótelinu" því nú átti að halda inn í skógarrjóður þarna örskammt frá og snæða útigrillað gúmmelaði. Það var búið að segja okkur að klæða okkur vel en það sem beið okkar var ótrúlegt.
Við vorum selflutt þarna uppeftir og ég var í fyrsta bílnum og það sem við okkur blasti var hringlaga hjallur, svona alveg eins og þeir voru gerðir verstir í gamla daga með þriggja til fimm sentímetra bili á milli fjalanna og sum staðar voru bara engir veggir. Mér var að orði, nei þið hljótið að vera að grínast.
Þegar inn kom blasti við grill í miðju svona í stærra lagi. Allt í kring voru bekkir og borð sem voru rennandi blaut vegna þess að veðrið var brjálað. Engin gashitun var þarna og ekki heldur nein lýsing fyrir utan kerti á borðum sem auðvitað logaði ekki á vegna vinda og vatns.
Ég var sem betur fer þokkalega klædd og einn vinur minn var svo næs að lána mér flísteppi yfir axlirnar svo ég gat vafið dúnúlpu dóttur minnar um fæturna. Sumar af konunum voru miklu verr klæddar en ég því engin hafði gert sér fulla grein fyrir aðstæðum.
Ég sá aldrei matinn sem settur var fyrir framan mig en borðaði hann bara blindandi og hann var ekkert slæmur, hef ekki hugmynd um hvað fram var borið.
Við reyndum öll að gera gott úr þessu og sungum okkur til hita og sumir supu stíft á söngvatninu til að mýkja raddböndin. Þegar flestir voru búnir að borða tók minn af skarið og sagði að nú ætti að keyra konurnar upp á hótel enda var komið aftaka veður og við að verða gegnsósa eftir regn og sót frá grillinu sem þeir kynntu óspart til að halda á okkur hita.
Ég hef aldrei elskað minn mann jafn mikið og þegar hann sagði: Allar konur í bílana.
Ákveðið var að hittast á barnum á hótelinu og flestir fengu sér kaffi og ,,með því" til að koma blóðinu af stað. Það versta við að þegar inn í hús var komið var þar líka skítakuldi. Kyndingin í ólagi var okkur sagt. Engin sá um að þjóna okkur, gömul útbrunnin kerti voru hist og her en engin hafði haft rænu á að setja ný í stjaka eða ker.
Sumir drukku eigin veigar þar sem engin skipti sér af því hvort við versluðum við barinn og alveg skítsama hvort við værum eða færum. Aldrei sáum við Íslending við afgreiðslu.
Hádegismaturinn var borðaður í flýti áður en lagt var af stað enda ekki hægt annað þar sem fingur voru hálf frosnir við hnífapörin þar sem hitinn var greinilega ekki kominn í lag.
Stúlkan úr gestamóttökunni kom til okkar og spurði hvernig hefði verið í gærkvöldi. Ég sagði bara: Ég gæti nú sagt þér það hefði ég séð eitthvað en satt best að segja fannst mér ég hafa misst sjónina þessa tvo tíma. - Já við hefðum nú átt að flytja dinnerinn inn í hús en þetta er rosalega flott á sumrin.
Ég nennti ekki að svara henni en hugsaði bara jæja vinkona ekki skal ég þræta við þig um það, sjálfsagt voða kósí á sumarkvöldi en mér fannst við bara vera þarna eins og fé af fjalli sem rekið hafði verið inn í réttina. Sorry!
Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og þeir sem hafa haft það af að lesa sig alla leið hingað niður fá verðlaun næst þegar við hittumst.
Eftirminnileg og skemmtileg ferð með vinum mínum þrátt fyrir allt volkið.
Komin með blöðrubólgu og hor í nös.
Bloggar | Breytt 23.9.2008 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.9.2008 | 11:58
,,Teggja" ára afmæli er stórhátíð.
Ég var löngu búin að gleyma þessu en rifjaðist allt upp fyrir mér hér í gær. Barnaafmæli, allt frá eins árs aldri og langt fram á fermingaraldurinn eru stórviðburðir í lífi allra barna. Allt umstangið fyrir afmælið er engin smá vinna ég tala nú ekki um þegar gestir eru það margir að hleypa þarf inn í hollum.
Þessi amma sem skrifar hér var fjarri öllum undirbúning því hún og afi fóru út fyrir borgarmörkin á laugardaginn og komu ekki í bæinn fyrr en rétt eftir hádegi í gær. Amman fékk svona vott af samviskubiti yfir að hjálpa ekki dóttur sinni við undirbúninginn en afinn bætti úr betur og pantaði brauðtertur í tilefni dagsins.
Þegar við mættum í Garðabæinn upp úr tvö var allt tilbúið hjá henni dóttur minni. Borðið hlaðið veitingum, skemmtilega skreytt, blöðrur inni og úti, hattar og servíettur í stíl og allt eins og ég hefði verið með puttana í þessu. Eitthvað hefur stelpan lært af mömmu sinni.
Þá vatt ég aðeins til baka og viti menn, ég mundi allt í einu eftir því að þetta hafði ég líka gert án allrar hjálpar í denn og man ekki eftir því að mér hafi þótt þetta neitt stórmál. Svona er maður fljótur að gleyma og vex e.t.v. allt of mikið í augum í dag það sem manni fannst ekkert mál hér áður fyrr.
Tveggja ára stórafmælið hér við Strandveginn stóð langt fram eftir kvöldi eins og hæfir stórveislum.
Ætla að fara að gá til veðurs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.9.2008 | 01:15
Cavalleria Rusticana og Pagliacci.
Ef einhver á núna heiður skilið þá er það Stefán Baldursson Óperustjóri sem sýndi enn og aftur að hægt er að galdra fram meistaraverk í litlu Óperunni okkar og fá okkar færustu söngvara til að koma fram og gleðja okkur í skammdeginu.
Prúðbúnir frumsýningargestir fögnuðu listamönnunum vel í lokin og satt best að segja hélt ég á tímabili að gólf fjalirnar í Gamla Bíó myndu gefa sig. Held að þetta sé eitthvað sem óperugestir hafa fundið út, að í stað þess að klappa þar til lófarnir eru orðnir eldrauðir og aumir þá stappa gestir af öllu afli í gólfið svo dynur í gömlu fjölunum.
Það var ánægjulegt að fá tækifæri á að hlusta á Kristján Jóhannsson syngja Canio en það hefur hann sungið margoft út í hinum stóra heimi. Ekki fannst mér verra að fá að heyra í henni Sólrúnu Bragadóttur í hlutverki Neddu því ég hef ekki heyrt Sólu syngja í mörg, mörg ár. Langar að geta þess að Elín Ósk Óskarsdóttir var mjög flott í hlutverki Santuzza.
Þar sem ég er aðeins leikmanneskja þá ætla ég ekki að fara að skrifa kritik hér en vil samt láta koma hér fram að allir einsöngvararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekki gat ég heyrt annað en við ættum þarna fólk á heimsmælikvarða. Kórinn var mjög góður líka en pínu staður að mínu mati en sviði býður nú ekki upp á mikinn hreyfanleika.
Til hamingju með kvöldið litla Ópera!
Takk fyrir mig og mína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.9.2008 | 12:08
Gamla góða heimsendingarþjónustan. Sendlarnir á svötu hjólunum.
Ahhh... það er komin glæta, ég meina sólarglæta. Var svona að spá í það hvort ég ætti að skella mér í bæjarleiðangur eða bara kúra hér innandyra þar sem veðrið er nú ekki alveg upp á það besta hér við sjávarsíðuna í Garðabænum. Var búin að gleyma rokrassinum hér heima.
Í gær sat ég með móður minni aldraðri en hún er nú ótrúlega hress eftir aldri. Við röbbuðum um lífið og tilveruna svona almennt og ég fór að hugsa hvað í raun og veru við systkinin værum heppin hversu sjálfbjarga hún er komin hátt á níræðisaldur. Eina utanaðkomandi aðstoðin sem hún fær er þrif á íbúðinni hálfsmánaðarlega.
Það sem ég horfði á regnið lemja rúðurnar og vindinn gnauða fyrir utan hátt uppi á níundu hæð þá hugsaði ég með mér að ekki kæmist hún nú langt í þessu veðri. Þarna gerði samviskubitið vart við sig því ég veit að ábyrgðin er öll á systkinum mínum þremur sem búa hér á landi. Þau sjá um að keyra hana á milli, versla inn fyrir hana ef með þarf, ná í lyfin o. sv. frv. á meðan ég kem bara hingað sem gestur og stoppa yfirleitt stutt. Og öll vitum við að í hraða þess þjóðfélags sem við lifum í þá hafa allir nóg á sinni könnu. Móðir mín er líka ein af þeim sem aldrei vanhagar neitt þegar spurt er en síðan kemur það í ljós daginn eftir að hún er dauðþreytt af því hún fór út í matvöruverslunina og bar pokana alla leiðina heim.
Ég spurði gömlu konuna sem sat þarna keik á móti mér: Heyrðu mamma er ekkert hér sem heitir heimsendingaþjónusta frá matvöruverslunum.
Gamla konan leit á mig og glotti út í annað: Nei vinan það er nú ekki neitt svoleiðis hér. Ja ég get tekið leigubíl til og frá búðinni en sjálf verð ég nú að skakklappast þetta. Bætti síðan við, annars eru nú krakkarnir voða dugleg að hjálpa mér. Vildi auðheyranlega ekki vera að kvarta undan systkinum mínum við mig í þetta sinn.
Mér var hugsað til fyrri ára þegar mamma hringdi í Ólabúð og pantaði inn fyrir helgina og sendillinn kom með þetta á sendiferðahjólinu frá búðinni. Yfirleitt voru þetta einn til tveir troðfullir pappakassar af matvöru. Man enn eftir lyktinni sem fylgdi kössunum. Eitthvað hlýtur nú fólk að hafa borgað upp í sendingarkostnað en getur varla hafa verið nein ósköp.
Ég vildi eiginlega ekki trúa þessu. Meira að segja í landinu þar sem ég bý er heimsendingarþjónusta. Þegar dóttir mín var nýbúin að eiga frumburðinn og bjó i London notfærði hún sér heimsendingu frá Tesco. Það þótti bara ósköp eðlilegt.
Hvað með allt þetta gamla fólk og sjúklinga sem búa einir og komast illa ferða sinna. Það hljóta að vera einhverjir með þessa þjónustu. Ég fór á netið og leitaði og komst að því að ein búð hér býður upp á heimsendingu, Nóatún en allt fer það í gegn um tölvu. Síðan er slatti af Pizza og hraðréttastöðum, Kjöt í heilum skrokkum, grænmeti aðeins stórar pakkningar. Það var ekki það sem ég var að leita að. Ég nennti ekki að fara inn á síðuna hjá Nóatúni vegna þess að ég fór að hugsa en hvað með allt þetta fólk sem kann ekkert á tölvur, ætli sé hægt að fá vörulista í búðinni og panta símleiðis?
Nú nálgast veturinn óðum og færðin versnar. Hvernig fer gamla fólkið að sem á enga aðstandendur sem létta undir. Er það inni í heimaþjónustu að versla inn fyrir sjúklinga og aldraða? Afsakið en nú spyr ég bara eins og bjáni.
Hugsið ykkur hvað margt gamalt fólk sem býr eitt væri þakklátt fyrir að geta hringt í hverfisbúðina og pantað inn nauðsynjavörur. Ekkert vesen. Ekkert svona þegar hringt er í börnin sín: Æi, fyrirgefðu að ég skuli vera að kvabba þetta, ég veit þú hefur nóg annað að gera en ég bara treysti mér ekki út í veðrið.
Svo einfalt. Lyfta tólinu, velja númerið, panta eftir lista og síðan: Viltu svo væni minn senda þetta heim fyrir mig. Þakka þér fyrir góurinn.
Það hefur dregið fyrir sólu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.9.2008 | 10:31
Þetta er flugsjórinn ykkar sem talar.
Ég hef aldrei verið flughrædd en annað mál gegnir með bílhræðslu mína sem er oft gert grín að. Einhverra hluta vegna hefur þetta ágerst með aldrinum og núna áður en við héldum hingað heim upp á Hamingjulandið örlaði fyrir má kvíða fyrir fluginu. Ef til vill var það vegna þess að ég var svo mikið á fylgjast með veðurfregnum og las meira að segja pistlana hans Einar veðurfræðings í þaula.
Og ekki bætti úr skák að hann sagði að angi af Ike væri á leið til landsins og ætti að fara yfir landið í gærkvöldi og nótt á sama tíma og við áttum að lenda heima. Stormur í aðsigi! Þessi litli fiðringur í maganum magnaðist og var að hnút!
Við höfum alltaf verið mjög fastheldin og höfum valið að fljúga með sömu flugfélögunum en í gær breyttum við út af vananum og flugum frá Prag til Köben með Sterling í stað SAS eða Cz. Airlines. Þetta voru nú óþarfa áhyggjur. Bara allt í lagi að fljúga með þeim, dálítið þröngt en fyrir eins tíma flug er óþarfi að kvarta.
Eftir nokkra tíma bið í Köben var haldið heim með Icelandair.
Á meðan þeir voru að lóðsa vélina út á brautina kom þessi ljúfa rödd í hátalarann og sagði:
Góðir farþegar þetta er flugstjórinn ykkar sem talar. Ég heiti Linda Gunnarsdóttir.
Úps, mér var litið á minn elskulega hvernig ætli honum líki að hafa konu við stjórnvöldin? Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem við höfum lent í því að fljúga með konu í kokkpittinu sem bar alla ábyrgð á ferðinni yfir hafið.
Minn var bara voða rólegur og lét ekki á neinu bera. Sætt af honum.
Ferðin heim var bara þægileg og af og til kom þessi mjúka rödd sem útskýrði hvar við værum stödd og hvernig veðurhorfur væru heima. Sem gömul flugfreyja bjóst ég nú við smá dýfum og hristing þegar við nálguðumst landið en allt voru það óþarfa áhyggjur. Vélin varla haggaðist og Linda lenti vélinni eins og engill. Bara svona renndi sér niður á fósturjörðina með mjúkri lendingu, afskaplega kvenlega.
Það var ekki fyrr en slökkt hafði verið á hreyflunum að vélin fór að hristast enda brjálað veður þarna á rampinum.
Takk fyrir ferðina Linda og áhöfn FI 213.
Déskoti var veðrið brjálað í nótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)