Þá er Hamingjulandið í sjónmáli.

Hér fyrir framan mig liggur nettur bunki af A-4, nei þetta eru ekki hlutabréf, ekki séns að ég taki þannig áhættu í lífinu.  Á maður ekki bara að segja sem betur fer!  Þetta eru skal ég segja ykkur flugmiðar til Köben - Keflavík á morgun heitir úr prentaranum, alveg satt, nú á að heimsækja Hamingjulandið og knúsa fjölskyldumeðlimi og vini. 

Við erum sem sagt á leiðinn heim í teggja ára afmælið hans Þóris Inga.  Mikil tilhlökkun hér á bæ og getum ekki beðið eftir að dekra drenginn upp úr skónum, því eins og ég hef sagt ykkur áður þá hafa afi og amma í útlöndum sértakt leyfi til þess.

Við ætlum líka að fara um helgina að Geysi með góðum vinum og gista þar eina nótt.  Annað er nú ekki mikið planað í þetta sinn en ég er nú alveg klár á því að þessar tvær vikur sem ég verð heima koma til með að verða ansi busy.  

Búin að pakka næstum öllu og kominn ferðahugur í mína. Bara svo þið vitið það bloggvinkonur mínar í DK þá verð ég galvösk á Strikinu milli klukkan tvö og fjögur á morgun, ef þið verðið þarna á ferðinni. 

 Þannig að ef þið rekist á konu með Illum poka á þönum með svona brjálæðislegan búðarglampa í augum þá er það hún ég.

Annars kem ég inn þegar ég finn mér tíma og læt vita af mér.

Er farin að lakka á mér neglurnar, ekki séns að ég fari í flug með ólakkaðar neglur.


F..... kokkurinn er líka með veitingastað hér í borg.

Oft þarf nú oft ekki nema nafnið til að staðir gangi vel og Gordon Ramsey er inn. Engan hef ég séð fara öðrum eins hamförum í eldhúsinu eins og hann brussast í þáttunum nema ef væri minn elskulega eiginmann.  

 Við höfum nú ekki borðað nema einu sinni á staðnum hans hér í Prag og það var rétt eftir að hann opnaði.  Misstum af því að sjá höfðingjann sjálfan þar sem hann var nýfarinn heim enda komum við frekar seint að kvöldi og mesta traffíkin liðin hjá og hann örugglega dauðuppgefin eftir að hafa hent pottum og pönnum í gólf og veggi og öskrað sig hásan á starfsliðið.

Okkur fannst nú staðurinn ekki merkilegri en það að við höfum algjörlega gleymt honum og ekki farið þangað aftur en auðvitað á maður alltaf að gefa stöðum second change.  Ættum að láta verða af því við tækifæri enda heyrðum við frá syni okkar sem hefur farið þangað oftar en við að hann héldi alveg sínum standard. 

Ekki held ég að við komum til með að bera höfðingjann augum því blessaður karlinn hefur örugglega nóg með alla hina nítján ef fréttin er rétt.   

 


mbl.is Ramsey í klandri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er haustið rétt handan við hornið?

Brrrrr... í gær blésu vindar sem er ekki algengt hér og í morgun var hitastigið 4° en er nú að skríða upp fyrir 12° og verður sjálfsagt orðið gott um hádegi.  Það er sem sagt farið að hausta hér og kominn tími til að huga að haustverkunum.  Taka slátur og sulta smá.  Ekki taka mig alvarlega núna þið þarna trúgjörnu vinir mínir, ekki séns að ég leggi á mig svoleiðis vesen.

Mín haustverk liggja nú aðallega í því að verja þessar hríslur mínar hér á landareigninni fyrir vetri konungi og ágangi dádýra og annarra ferfætlinga sem hafa þann ósið að naga nýgræðinginn niður að rótum ef ekki eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. En ég þarf nú varla að byrja að hugsa um það fyrr en í enda október byrjun nóvember.

September er mánuður breytinga hér í Prag. Maður finnur svo vel að sumarið er að hverfa fyrir haustinu.  Vinirnir fara að koma aftur eftir sumarfrí með sögur af fyrri heimkynnum sínum, börnum og barnabörnum.  Félagslífið fer að blómstra og konur sækja fundi reglulega, koma með nýjar hugmyndir og allt fer að verða svo virkilega heimilislegt.  Ekki það að ég sé mikil kvenfélagskona en ég held mig enn innan viss hóps kvenna sem mér þykja skemmtilegar og lífga upp á tilveruna.

Sandalatúhestarnir hverfa og pínu meiri menningarbragur litar borgina.  Listalífið breytist líka, leikhúsin, óperan og tónleikahöllin bjóða upp á vandaðra efni og betri flytjendur.  Það færist ró yfir borgina og maður getur gengið um göturnar án þess að rekast sífellt utan í fólk eða vera hræddur um að verða troðin undir. 

Sem sagt allt annað líf.

Eigið góðan sunnudag.

 

  

 

 

 


Þrátt fyrir allt þá trúi ég því að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir.

Einhvern vegin þannig komst Anna Frank að orði í dagbókinni sinni.  Þessi setning hefur oft komið upp í huga mér þegar ég hugsa til okkar meðbræðra og systra.

Náungakærleikur, traust og vinátta sem varir úr í það óendanlega er ómetanlegt og oftsinnis höfum við hjónin rætt um hversu heppin við í raun og veru erum.  Sterk fjölskyldubönd eru í okkar fjölskyldu og áratuga vinátta við æskuvini hefur aldrei rofnað.  Að sjálfsögðu hafa komið upp misklíð en aldrei þannig að ekki væri hægt að rétt fram sáttarhönd, sem betur fer.

Öll erum við misjöfn að eðlisfari, ég er t.d. fljóthuga og á það til að láta úr úr mér það sem oft mætti kyrrt liggja en yfirleitt hverfur reiðin eins og dögg fyrir sólu.  Langrækin er ég ekki og get auðveldlega rétt fram sáttarhönd og beðist afsökunar.

Þórir minn er með þeim eiginleikum fæddur að hann getur alltaf fundið góðu hliðarnar á fólki.  Aldrei hef ég heyrt hann tala illa um nokkurn mann og hans orðatiltæki er frægt á meðal vina:  Hvað þarf að vera að velta sér upp úr þessu?   Hef oft sagt að aumingjabetri maður er vandfundinn.  En ef honum þykir við einhvern, og það þarf ansi mikið til, þá er viðkomandi einfaldlega out.

 Um daginn sátum við hér í rökkurbyrjun og ræddum um náungakærleikann og hversu langt væri hægt að ganga til að umbera sumt fólk.  Við fórum í framhaldi að velta fyrir okkur hvers vegna sumir væru alltaf óánægðir, gætu aldrei horft á björtu hliðarnar, gengju með hangandi hausa alla daga. Væri þetta áunnið eða meðfætt?

Svo eru það kerlingarnar Öfundin og Hræsnin.  Hugsið ykkur þá sem aldrei geta samglaðst öðrum.

- Nei vá varstu að fá nýjan stól, en æðislegur, til hamingju.  Öfundin segir aldrei svona nokkuð, nei hún hugsar:  Nú það er aldeilis veldi, bara nýr stóll og þá hlær Hræsnin henni til samlætis.

Síðan er það fólkið sem leggur það í vana sinn að tala illa um náungann hvar sem það getur komið því við.  Helst líka að sverta mannorðið eins og hægt er.  Sem betur fer kemst nú þetta fólk ekki langt á lyginni, það er nefnilega fljótt að fréttast hvaðan sögurnar koma og á endanum hættir fólk að hlusta og umgangast Gróu á Leiti.

Sumir leggja það í vana sinn að yfirfæra alla sína galla á vini eða vandamenn, jafnvel ókunnuga ef út í það er farið.  Góð vinkona mín fræddi mig um það fyrir alllöngu að þetta væri því miður ein tegund sálsýkinnar.  Fólk réði einfaldlega ekkert við þetta og gerði þetta ómeðvitandi.  Sárt til þess að hugsa.

Þetta og margt annað ræddum við hér í rökkurbyrjun fyrir nokkrum dögum.  Nú megið þið ekki halda að ég telji okkur vera einhverja englabassa og að sjálfsögðu hef ég tekið þátt í ýmsum óskemmtilegum umræðum um dagana en ómerkilegheit, lygi, meiðandi umtal á ég óskaplega erfitt með að þola.

   Ekki vil ég trúa að fólk sé fætt með þessum eiginleikum.  Innibyrgð reiði, sársauki og lífsleiði hlýtur að vera orsökin og ég sárlega vorkenni öllum þeim sem verða að bera þessa byrgði og lifa í sálarkreppu allt sitt líf.

Með aldrinum verðum við mýkri og hættum sem betur fer flest okkar að gera okkur óþarfa rellu út af smámunum. Við lærum sem betur fer líka að leiða hjá okkur hluti sem áður hefðu getað ært óstöðugan.

Og ég tek undir orðin hennar Önnu Frank:

Þrátt fyrir allt þá trúi ég því að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir!


Við erum enn hér og ekkert getur haggað því.

Já þetta hafði ég á tilfinningunni hér í gær, það lá eitthvað í loftinu og ekki var það þetta frábæra Indian summer sem við höfum hér núna, nei það var sko eitthvað miklu hrikalegra enda hamaðist ég í allan gærdag að ganga frá öllu hér utan húss sem innan.

Ég spúlaði hundinn, þvoði þvott, straujaði, affrysti frystinn, tók ísskápinn hátt og lágt (báða), þvoði úr eldhússkápum, tók alla fataskápa og sorteraði föt eftir sjetteringu, setti hreint á rúmin, tók alla glugga og gardínur, kom bókaskápnum og skrifborðinu í mannsæmandi horf og endaði síðan á að baka fjórar Hnallþórur.

Get alveg svarið það, endaði seint í gærkvöldi á því að klippa tré og vökva blómin.  Maður nefnilega skilur ekki við heimili sitt eins og svínastíu þegar maður skreppur af bæ, ég tala nú ekki um þegar maður veit nú ekki einu sinni hvort maður á afturkvæmt.

Síðan kom mér varla dúr á auga í alla nótt (satt), var með andvara á mér enda ekki alveg viss um hvort ég hefði sett í uppþvottavélina áður en ég lagðist við hliðina á mínum elskulega. 

Horfði á eina bíómynd milli tvö og hálf fimm.  Rafmagnið var enn á.  Hundur og maður hrutu en ég var bara svona á nálum, öll með hugann við heimilið og alla þá hluti sem ég átti eftir að framkvæma á næstu mánuðum og jafnvel árum. 

Datt útaf um hálf fimm leitið og vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir átta og viti menn hér var ég enn, minn farinn í vinnuna, hundurinn lá á sínum stað sallarólegur og sólin skein í heiði. Rafmagnið í lagi og nú sit ég hér með kaffið mitt og ekkert getur haggað því, ja nema jú heimsendir!

OK, farin að gera eitthvað að viti, hvað var fyrst á listanum í gær, þvo þvottinn eða var það ísskápurinn sem átti að fá yfirhalningu, nei spúla hundinn alveg rétt.

Lifið lífinu lifandi kæru félagar og vinir hvar sem þið eruð í heiminum.

Er farin út í sólina að hugsa. 

 

 

  


mbl.is Vekja athygli á heimsendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð, Tékklandi

Listasetrið Leifsbúð   Listamaðurinn Örn Þorsteinsson

Í fyrradag lifnaði aftur yfir Listasetrinu okkar þegar þau hjónin Örn Þorsteinsson, listamaður og María kona hans runnu hér í hlað í ljósaskiptunum, en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Mig var farið að lengja eftir því að sjá ljós í gluggum setursins á kvöldin þar sem vika er nú liðin síðan síðasti ábúandi fór héðan frá okkur.

Við bjóðum þau hjón velkomin hingað og vonum að dvölin verði þeim til gagns og gamans.

 

Stjörnusteinn sept.2008 007

 

 

 

 


Mannaþefur í helli mínum

Aumingja skessan, hvað er líka verið að þvæla henni á milli eyja og lands.

  Hún er sjálfsagt mjög ósátt við allt þetta brambolt.

  Nú verður bara að kalla Siggu litlu til hjálpar.  Þær eru vinkonur og hún er sú eina sem getur tjónkað við kerlu.

Annars held ég að skessan hafi ekkert með þessar truflanir að gera heldur hafi annar/önnur verið fyrir í hellinum eða mjög nálægt og hann eða hún sættir sig ekki við þennan ágang á sínu yfirráðasvæði.

Það hefur jú alltaf verið talið mjög reimt á Suðurnesjunum.


mbl.is Er skessunni illa við fjölmiðla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ég þá heldur biðja um Jóhannes Arason, Jón Múla og Ragnheiði Ástu

Sátum hér undir stjörnubjörtum himni og borðuðum kvöldmatinn.  Ósköp notalegt, bara við tvö.  Þá dettur mínum elskulega í hug að tengja tölvuna við græjurnar og hlusta á fréttirnar frá RÚV.  Við erum með hátalara tengda hér út á veröndina svo sex fréttir bárust hér frá ljósvakanum eins og ekkert væri sjálfsagðra.

Á meðan við gæddum okkur á grillsteikinni og nutum þess að sötra á rauðvíni frá Toscana hlustuðum við á fréttafólk flytja okkur fréttir að heiman. Voða svona heimilislegt.

  Helst í fréttum: Þjóðin skuldar þetta marga milljarða, bankarnir þetta mikið o.sv.frv. Ég stein hélt kjafti á meðan á þessari upptalningu stóð.  Síðan kom, kona lamin í höfuðið til óbóta, liggur á gjörgæslu. Þarf ég að halda áfram, held ekki.

En það sem vakti athygli mína var fréttaflutningurinn.  Það var eins og allir fréttaþulir væru í kappræðu, að lýsa sinni eigin skoðun fyrir okkur almenningi.  Ekki tók nú betra við þegar eitthvað sem heitir Spegillinn, að ég held, kom á eftir fréttum.  Þar fóru menn hamförum í lestrinum mér fannst ég vera stödd í sal þar sem ræðumaður vildi láta í sér heyra og nú skuluð þið aumingjarnir hlusta á hvað ég er að segja ykkur.  Þetta var næstum óþolandi að hlusta á.  Einungis þegar þeir höfðu viðtöl urðu þeir manneskjulegir, annars var eins og þeir væru að flytja framboðsræðu eða tala á málþingi.

Ég hélt nú að fréttamenn ættu að vera ópólitískir í sínum fréttaflutningi og flytja okkur fréttir á passívan hátt, en hamagangurinn og lætin í kvöldfréttum RÚV í kvöld var alveg með ólíkindum.

Þegar leið á fréttirnar gat ég ekki orða bundist og sagði við minn elskulega:  Veistu, það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi, heyrir´ðu flutninginn þau eru öll svo hátt stemmd að það er virkilega pirrandi að hlusta á þetta. Hann játti því og fór og lækkaði í tækinu.

Við ræddum síðan um okkar góðu hæglátu, vitru fréttamenn sem höfðu rödd sem seytlaði inn í landsmenn í áraraðir.  Jón Múla Árnason, Jóhannes Arason og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur.

Þau voru aldrei með nein læti, lásu fréttirnar á hlutlausan hátt og allir hlustuðu á þau með andakt.

Ef til vill erum við bara orðin gömul og aftur á kúnni en andskotinn þetta er ekki fréttaflutningur þetta líkist meir áróðri að mínu mati. 

Það skal tekið fram hér að ég hef ekki hlustað á íslenskar fréttir í útvarpi í nokkur ár.

Ég gat bara ekki orða bundist.

 

 

 

 

 


Baráttukveðjur yfir hafið og smá broslegt í lokin

Það er ekki seinna vænna að senda ljósunum okkar baráttukveðjur með einlægum óskum um að það rætist úr þeirra málum ekki seinna en STRAX!

Ég man hvað ég var þakklát fyrir heimsóknir minna ljósa eftir að ég kom heim af fæðingarheimilinu.  Veit eiginlega ekki hvernig ég hefði farið að ef þeirra hefði ekki notið við.

Þessar ljósur mínar voru starfandi þá í Fossvoginum á árunum 1974 og 1977.

Og alltaf sömu elskulegheitin þegar þær kvöddu mig með þessum orðum:  Og hringdu bara í mig ef þú hefur einhverjar spurningar.  Þetta var ómetanlegt.  Þó ég muni nú ekki lengur nöfnin á þessum ágætis konum þá langar mig til að þakka þeim af alhug fyrir alla þá nærgætni og umönnun sem þær sýndu mér.

En að aðeins léttara hjali.

Við, ég og minn elskulegi sátum hér í eldhúsinu um daginn og biðum eftir soðningunni.

-Minn:  Heyrðu, þú ert bara léleg!

Ég leit upp stórum augum því annað eins hafði ég aldrei heyrt úr hans munni í minn garð. 

- Hvað meinar´ðu, vissi ekki alveg hvort ég ætti að reiðast og ganga út en hætti við því mig dauðlangaði að heyra af hverju ég væri svona LÉLEG.

- Jú elskan hér stendur að kona ein í Frakklandi gangi með þríbura og hún er 59 ára sem sagt jafnaldra þín sagði hann og glotti út í annað.

Ég var ekki alveg klár á því hvort ég ætti að láta fúkyrði fjúka.  Hvort hann hefði viljað skipta um hlutverk, fæða börnin okkar og líka það að börnin væru jú ekki eingetin, það þyrfti tvo til og ég man nú ekki lengur hvað annað mér datt í hug að láta út úr mér en það flugu eldingar um höfuð mér smá stund.

En þegar hann sprakk úr hlátri gat ég ekki annað en brosað út í annað og sagði: Veistu þú ert ekki í lagi stundum.  Þetta hefði getað endað illa skal ég segja þér og ég vara þig við að vera með einhvern karlrembuskap þegar ég er ekki í stuði til að taka því.

Mér datt að láta þetta samtal okkar hjóna flakka þegar ég heyrði að einhver vitringur á einhverri útvarpsrásinni hefði gloprað út úr sér að konur ættu bara að halda krökkunum í sér þar til verkfallið leystist.

Suma karlmenn ætti bara að stoppa upp!

 

 

 

 

 


mbl.is Fjölmenni á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með nýja embættið!

Þau í Mosfellsprestakalli og Kjalarnesprófastsdæmi verða ekki svikin að fá Séra Ragnheiði Jónsdóttur sem sóknarprest.

Ragnheiður er öndvegis kona með hjartað á réttum stað.

Innilega til hamingju Raggý mín!  Blessun fylgi þér í starfi sem leik.

Kveðjur héðan frá Stjörnusteini til þín, Sigurgeirs og fjölskyldunnar. 


mbl.is Valin sóknarprestur í Mosfellsprestakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er í bígerð, lofa því.

Viltu koma í göngutúr var sagt við mig hér í ljóskiptunum í gær.  Nei, takk var svarið frá mér um leið og ég hugsaði, ég hefði nú ekkert nema gott af því að hreyfa mig örlítið.  En þar sem ég var búin að koma mér svo huggulega fyrir undir hitalampanum á veröndinni með bók var eitthvað sem hét göngutúr svo fjarri mér.

Þegar minn elskulegi með Erró á undan sér voru komnir í hvarf fyrir hornið sá ég strax eftir því að hafa ekki skellt mér með þeim og fór að pæla í því hvurslags leti þetta væri í mér og hvaða hreyfingu minn eðalskrokkur hefði fengið þann daginn.  Jú ég hafði gengið þessa 100 metra niður að póstkassa og lengri leiðina heim aftur, sem sagt bak við hesthúsin, ca 3mín. ganga.  Ég fylltist skelfingu, ég meina það, svo allt í einu mundi ég eftir mínum minnsta kosti 10 ferðum upp og niður stigann hér þar sem ég hafði staðið í þvottum allan daginn. 

 Úff, hvað ég róaðist niður, hringaði mig betur ofan í sófann, opnaði bókina með góða samvisku og hélt áfram að lesa.  

Er ekki lestur góðra bóka líka gott fyrir heilasellurnar, það held ég nú bara.

Annar ætla ég að fara að vinna í þessu, mjög fljótlega..... 


mbl.is Hreyfing bætir minnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já þeir kunna ,,trikkin

Við höfum alltaf sagt hér að ef  eigendur verslana, veitingahúsa eða banka þekkja 20 aðferðir sem þeir nota þá kunna þeir 21 eða fleiri. 

Eitt sinn var ég stödd á Íslandi.  Ég brá mér inn í Hagkaup til að versla smotterí í poka. Þar sem ég var nýkomin til landsins var ég bæði með tékkneska og íslenska peninga í veskinu. Tékkneski þúsundkallinn lítur nær nákvæmlega eins út og sá íslenski, sami litur, sama stærð svo það er mjög auðvelt að rugla þessum seðlum saman.  

Í hugsunarleysi rétti ég konunni við kassann þrjá þúsundkrónu seðla og hún tók við þeim án þess að gera neina athugasemd.  Ég varð ekki vör við misskilninginn fyrr en ég kom upp á hótel og fór að taka til í veskinu.  Vissi að þar ættu að vera þrír 1000 korun tékkapeningar en fann ekki nema tvo. Vissi um leið að þarna hefði átt sér stað ruglingur.

Ég fór nú ekkert að garfa í þessu enda var tapið mitt en ekki Hagkaups þar sem 1000.- tékkapeningar voru þá 3.000.- ísl. kr.

Svona var nú það.        

   


mbl.is Starfsfólk verslana og banka beitt blekkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsælt myndefni fyrir ferðamenn!

Í fyrra var ég stödd heima upp á Hamingjulandinu og þar sem ég stóð út á svölum hjá systur minni til að fá mér frískt loft eða þið vitið... en hún býr í Þingholtunum í einu af þessum gömlu húsum sem búið er að gera upp og er eigendum til sóma, tók ég eftir því að nokkur hús, þá sérstaklega eitt var að hruni komið og gat ég ekki betur séð en fólk byggi þarna innan veggja.

Þar sem ég stóð þarna í kvöldsólinni komu hjón gangandi eftir götunni.  Ég heyrði á tal þeirra og voru þarna ferðamenn á kvöldgöngu.  Þau stöldruðu við af og til og horfðu á byggingarnar og bentu á sum húsin með aðdáun.  Allt í einu stoppar maðurinn og fer að stilla myndavél sem hann bar um hálsinn.  Hann stóð þarna lengi vel og myndaði þetta hreysi í bak og fyrir. Ég hugsaði, hvað manninum kæmi til með að velja þetta hús þar sem útskornir gluggarammar voru morknir af elli, bárujárnið ryðgað og gular gardínur hengu fyrir gluggum eins og lufsur en í gluggakistum mátti líta á mjólkurhyrnur innan um skrælnuð pottablóm. 

Ég spurði systur mína hvernig stæði á því að sum af þessum gömlu húsum væru í svona slæmu ásigkomulagi og svarið var:  Æ ég held að þessi hús séu leigð út og eigendunum er alveg skítsama hvort þau grotna niður eður ei.

Ég varð aftur vitni að því að hópur útlendinga notuðu þetta hús sem fyrirmynd gamalla húsa í borginni okkar.  Sorglegt!  Veit ekki alveg hvað fólki gengur til.  Mér hefur aldrei dottið í hug að mynda öngstræti stórborga til að sýna öðrum sorann.

Vonandi taka nú eigendur gamalla húsa sig saman í andlitinu og sýna sóma sinn í því að ganga betur um eignir sínar í henni Reykjavík svo og öðrum stöðum á landinu.     


mbl.is Draugahús fær andlitslyftingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir voru hreint út sagt frábærir!!!!!

Blásarakvintett ReykjavíkurUm fimmtíu manns sóttu okkur heim í gær og hlýddu á tónleika Blásarakvintetts Reykjavíkur.  Hér myndaðist svona hálfgerð stofustemmning þar sem ég hafði komið fyrir sófum og hægindastólum hingað og þangað á veröndinni og fólk lét fara vel um sig í síðsumarsólinni og naut þess að hlýða á þessa frábæru listamenn spila hér hvert verkið á fætur öðru. 

Listamönnunum var að sjálfsögðu vel fagnað í lokin og eftir tónleikana buðum við upp á léttar veitingar þar sem öllum gafst tækifæri á að ræða við strákana og fræðast um þeirra feril. 

 Pósthólfið mitt fylltist í dag af kveðjum og átti ég að færa þeim bestu þakkir fyrir frábæran flutning og ánægjulegan eftirmiðdag hér að Stjörnusteini og geri ég það hér með.  

Um kvöldið héldum við Þórir þeim og mökum þeirra auk sendiherrahjónunum okkar sem komu frá Vínarborg smá matarboð hér úti í Leifsbúð.  Mikil og góð stemmning ríkti hér og Listasetrið bauð þessa listamenn velkomna á sinn einstæða hátt með brakandi arineldi og flöktandi kertaljósum sem sendu skugga sína upp í rjáfur þessa sérstaka seturs.

Mig langar að þakka Einari Jóhannessyni fyrir skemmtilega daga hér undanfarnar vikur og góða viðkynningu, en hann hélt heim með félögum sínum í dag. 

Benni, Jo, Hafsteinn og Daði takk fyrir að koma og gleðja okkur og gesti okkar þennan fallega síðsumardag hér í sveitinni.  Ógleymanleg stund sem lengi verður í minni höfð.       


The Reykjavík Wind Quintet í hundrað turna borginni í kvöld.

Þjóðarstoltið var gjörsamlega að fara með mig í kvöld.  Strákarnir okkar úr Blásarakvintett Reykjavíkur þeir Bernharður Wilkinson á flautu, Daði Kolbeinsson á óbó, Einar Jóhannesson á klarinett, Joseph Ognibene á horn og Hafsteinn Guðmundsson á fagott gjörsamlega heilluðu áheyrendur hér í kvöld þar sem þeir héldu tónleika fyrir nær fullu húsi í Gallery Sargsyan í hundrað turna borginni Prag.

Einar Jóhannesson er búinn að dvelja hér hjá okkur í Listasetrinu undanfarnar vikur og var ákveðið að vinir hans úr Blásarakvintettnum kæmu hingað í lok dvalarinnar og héldu konsert í borginni.  Strákarnir hefðu nú átt að vera viku seinna á ferð þar sem við töldum september vænlegri til tónleikahalds.  En þeir fylltu nær húsið og fólk stóð upp í lokin og hylltu þessa frábæru listamenn okkar með húrrahrópum og lófataki. Margir sóttust eftir eiginhandaáritun og þeir voru stjörnurnar okkar sem lýstu hér upp síðsumarnóttina í öngstræti Prag í kvöld.

Efnisskráin fyrir ykkur tónlistaunnendur var Mozart, Ibert, Reicha, Páll. P. Pálsson, Bach og Farkas.

Á morgun ætla þeir að njóta lífsins í borginni með sínum eiginkonum en á laugardaginn koma þeir hingað að Stjörnusteini  þar sem þeir ætla að halda tónleika hér heima í garðinum okkar.

Þá býst ég við að þjóðarstoltið taki sig upp aftur og örugglega í miklu meira mæli þar sem þeir verða hér á næstum Íslenskri grund. 

Takk fyrir frábæra tónleika og ykkar návist kæru félagar! 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband