4.11.2008 | 11:24
Séra Siggi sér um sína!
Það er ekki að spyrja að þessum öðlingsmanni nú er hann búinn að fylla sendiráðið okkar í London af fisk og lætur landa okkar njóta góðs af. Þegar ég las fréttina fann ég alveg fisklyktina og sá fyrir mér fundarherbergið þar sem togaramyndir frá fyrri árum klæða veggina og fundarborðið svignar undan þorskinum.
Ég var heldur ekkert hissa að heyra að kirkjusókn væri góð og fólk kæmi langar leiðir tll kirkju. Ég var svo lánsöm að kynnast séra Sigurði og hans starfi þarna úti fyrir nokkrum árum og gleymi aldrei páskamessu sem við sóttum einu sinni. Hvert mannsbarn tók fullan þátt í messunni eins og ein fjölskylda. Dóttir okkar var í kórnum í smá tíma og heyrði maður oft hversu frábærlega Siggi hélt utan um allt sitt fólk.
Haltu þínu góða starfi áfram Siggi minn. Gerir ekkert til þó sendiráðið ,,ylmi" eins og gúanó í smá tíma þið loftið bara út þegar þetta er gengið yfir. Bestu kveðjur til ykkar allra.
Fiskað í íslenska sendiráðinu í London | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.11.2008 | 21:26
Áætlanir fóru út um þúfur og ég er smá pirruð.
Ég þoli ekki þegar hlutirnir ganga ekki eftir mínu höfði.
Í dag hafði ég ákveðið að eyða ekki tíma mínum eða orku í fréttalestur. Orkan átti að fara í það að hrista fram úr erminni nokkur húsverk sem setið hafa á hakanum í langan tíma.
Allt byrjaði þetta eftir áætlun og ég var búin að færa sumarfötin upp og vetrarfötin niður. Fullur poki af skóm og öðru sem hússtýran mín átti að taka með sér heim beið í anddyrinu. Ég fékk mér kaffi um ellefu leitið og var bara þvílíkt ánægð með framvindu mála. Næst skildi taka bókaherbergið rækilega í gegn og klára það fyrir kvöldið.
Ég byrjaði á skrifborðinu og tölvuborðinu. Stór svartur ruslapoki fór að fyllast óðfluga. Eftir skrifborðstiltekt réðst ég af fítonskrafti á bókaskápinn. Ákvað að byrja neðst en þar eru lokaðir skápar sem svo rosalega auðvelt er að henda inn í þegar maður nennir ekki að fara með ruslið í tunnuna og svo það góða við svona lokaðar hirslur er að það sér engin hvað felst bak við lokaðar dyr. Ég var búin að tæma fyrsta skápinn, allt komið út á gólf, búin að sortera það sem ég ætlaði að geyma annað komið í svarta pokann. Vegna þess að ég er svo köttuþrifin (stundum) ákvað ég að nú yrði þvegið allt hátt og lágt með Ajax og alles.
Þar sem ég lá á fjórum fótum og teygði mig inn í skápinn (neðri skáparnir eru ansi djúpir og ég handleggjastutt) vopnuð blautri tusku gerðist eitthvað mjög sársaukafullt í bakinu, hægra megin. Ég fraus smá stund með svona ,,Ópið" á andlitinu en þar sem sársaukastig mitt er ansi hátt ætlaði ég nú ekki að láta smá sting koma mér í óstuð svo ég hélt áfram að puða þetta inn í skápnum.
Ég gafst upp eftir smá stund. Nú liggja bækur, bæklingar, möppur og fl. eins og hráviðri út um allt gólf þarna uppi og ég sit hér og vorkenni mér alveg heilan helling.
Ætla samt að klára þetta á morgun. Engan aumingjaskap kona! Búin að fara í nuddpottinn og síðan er bara að maka Voltaren kremi á báttið og éta tvær pillur og ekkert röfl.
Verð orðin góð á morgun, ekki málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.11.2008 | 18:34
Mótmælendur eru ekki lýður að mínu mati nema til uppreisnar komi.
Hvað er lýður? Í gamalli orðabók sem ég á hér og fletti upp í segir: Lýður sbr. menn. Þannig að við verðum að horfa fram hjá þessu orðalagi í fréttinni. En lesandi fréttina þá fannst mér þetta vera sagt í niðrandi merkingu. Hörður Torfa ávarpaði lýðinn!
Orðið lýður fyrir mér hefur neikvæða merkingu. Uppreisnarmenn, óaldalýður, þjófar og hyski. Ekki kemur fram í fréttinni að til uppreisnar hafi komið eða fólk verið handsamað. Var ekki einfaldlega hægt að segja Hörður Torfa ávarpaði viðstadda, eða ávarpaði mótmælendur fundarins.
Ég ber fulla virðingu fyrir þessu fólki sem hefur kjark og vilja til að standa í þessum mótmælum og svo framalega sem þetta fer fram á skipulagðan og skynsaman hátt finnst mér óþarfi að tala um að,, lýðurinn" hafi safnast saman á Austurvelli.
Um þúsund mótmælendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.10.2008 | 21:51
Halló - vín / Halloween
Á morgun er minn dagur! Og þá fer nornin hún ég á stúfana með öllu sínu hyski og málar bæinn rauðan. Það er hægt að mála bæinn rauðan á marga vegu, þetta er líka spurning um hversu djörf/djarfur maður er í eðli sínu.
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega djörf.
Er ekki alveg búin að plana daginn en samt að ég held, að hálfu leiti, og það verður minn dagur ekki spurning. Minn elskulegi fær að slæpast með og e.t.v. einhverjir fleiri, sjáum bara til.
Þegar ég var krakki bakaði mamma ótal Hnallþórur á þessum degi og bjó til ekta súkkulaði úr Konsum blokksúkkulaði með þeyttum rjóma.
Ekki nokkur maður hafði þá heyrt um eitthvað sem hét Halló - vín enda bjuggum við á eyju sem stundum var ekki einu sinni merkt inn á kortið. En það var alltaf hátíð þennan dag og húsið fullt af ömmum, frænkum, og nokkrum vinkonum úr hverfinu sem mamma valdi fyrir mína hönd, því ekki mátti maður bjóða hinum og þessum inn á heimilið.
Nú eruð þið e.t.v. farin að skilja hvað ég er að þvæla um hér. Nornin ég á afmæli 31. október. Hvað ég er gömul? Segi ykkur það ekki!
Ég slóst í hóp þeirra sem ríða sópum þegar ég flutti hingað út og kynntist þessum degi norna og seiðkalla. Heheheh það var mér ótrúlega auðvelt! Fædd í hlutverkið.
Við bjuggum í hverfi í átta ár þar sem margir útlendingar höfðu samastað. Svona ,,Saterlight" hverfi eins og það var kallað í þá daga. Mér fannst alltaf allt hverfið halda upp á daginn með mér og tók þátt í hrekkjavökunni af alvöru. Fyllti skálar með nammi og skreytti allt með ljósum og draugaglingri. Krakkarnir elskuðu að heimsækja nornina í Sadová. Þegar árin liðu var fullorðna fólkið farið að koma með krökkunum því það vissi að innst í stofunni stóðu glös með kampavíni.
Það var þá. Hrikalega skemmtilegir tímar.
Á morgun verður ekki hringt hér á bjöllu, ekkert ,,trikker treat" Tékkanir eru ekki alveg búnir að læra þennan sið þrátt fyrir alla innrásina frá Ameríku og Bretlandi undanfarinn ár. Þeir skreyta og selja Halloween skraut hér og þar, en börnin eru ekki alveg farin að læra að koma og berja að dyrum. Ja alla vega ekki hér í sveitinni okkar.
Nornin að Stjörnusteini ætlar sem sagt að halda daginn hátíðlegan á morgun. Hvort ég ríð sköftum veit ég ekki, fer allt eftir veðri og vindum en skal lofa ykkur að ég skal elda seið og fara með nokkrar vel valdar línur úr nornarseið Macbeth.
Happy Halloween!
Fólk hamstrar vín fyrir hækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
29.10.2008 | 20:28
Ekki fleiri draugasögur!
Munið þið eftir leikritinu Innrásin frá Marz.
Þeir eru að koma, þeir eru að koma! Þannig hljómaði setningin í útvarpinu og fólk þyrptist út á götur skelfingu lostið, svo trúverðug var framsetning leikarans.
Æ elskurnar mínar í gær sást skært ljós á himni sem síðan sprakk í milljón eindir og fólk fékk fyrir hjartað af æsing. Þetta reyndist síðan aðeins vera stjörnubrot sem villst hafði yfir litla Ísland.
Nú birtist svartur hringur. Hvað táknar þetta? Hverjir eru að fylgjast svona með okkur dag eftir dag? Haldið ró ykkar kæru landar þetta reyndist aðeins vera sérsveitarmenn að æfa sig fyrir innrásina á........ ja hverja haldið þið?
Ég veit ekkert af hverju en þegar ég las fréttina var ég allt í einu stödd í torfbæ, nb. kom aldrei svo ég muni inn í torfbæ þar sem fólk bjó. Ég sat þar og hlustaði á gamlan mann segja draugasögu. Ég horfði út um ljórann en sá ekkert nema svart myrkrið. Mér leið ekki vel á meðan á þessu stóð en þegar bráði af mér hugsaði ég, æi nei ekki fleiri drauga eða draugasögur það eru allir búnir að fá nóg!
Bara datt þetta í hug svona af því það er nú alveg að koma Halló-vín!
Njótið kvöldsins og dreymi ykkur vel.
Dularfullur hringur yfir Reykjanesbæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.10.2008 | 20:09
Þið skiljið þetta ekki, þið búið ekki hér!!!!!
Undanfarnar vikur er ég búin að láta menn og málefni fara óstjórnlega í taugarnar á mér svo ég hef örugglega verið óþolandi hér á heimilinu. Ég þessi ópólitíska kona sem aldrei skipti sér af pólitík, kaus sama flokkinn á meðan hann var við lýði er farin að bölsótast yfir fréttum og ekki fréttum.
Það sem verra er ég trúi engum lengur, treysti engum og sé grýlu í hverju horni og mitt viðkvæði er allan daginn ,,já en....já ef.....en hvað ef...." hvernig haldið þið að það sé að búa með svona konu, nei ég veit það, það er bara ekki hægt. Ég er nú samt svo heppinn að eiga þolinmóðan og ljúfan ektamaka sem tekur þessu öllu með jafnaðargeði og segir bara: Vertu nú ekki að velta þér upp úr þessu elskan. Siðan reynir hann að útskýra fyrir mér málið á góðri íslensku og þá byrjar allt að hringsnúast í mínum eðal kolli og ég skil bara ekki bops!
Það sem fer mest í pirrurnar mínar er þegar fólk hringir í okkur að heiman og heldur yfir okkur ræðu um ástandið og hvað ætti að gera eða hvað hefði átt að gera, allir þvílíkir spekingar, með allt sitt á tæru, endar síðan ræðuna á því að segja:
En þið skiljið þetta bara ekki, þið búið ekki hér!!!!
Halló, við erum nettengd, við lesum blöðin, við hlustum á ísl. útvarpið og horfum á umræðuþætti. Við búum ekki í svörtustu Afríku. Við fylgjumst alveg með öllu því sem er að gerast þarna heima og reyndar í heiminum öllum.
Við eigum fjölskyldu á Íslandi, við hugsum til þeirra dag og nótt og biðjum fyrir þeim öllum.
Það eina sem skilur okkur frá löndum okkar er að við eigum ekki eignir á Íslandi, enga peninga eða bréf í banka eða sjóðum þ.a.l. liggjum við ekki í sömu súpunni og þorri þjóðarinnar. Ef til vill er það þess vegna sem fólk segir að við getum ekki skilið þetta til fulls, hvað veit ég.
Fólk gleymir því stundum að við áttum heima þarna uppi á eyjunni í fjörutíu ár. Börnin okkar eru fædd og uppalin þarna. Við munum alveg tímana tvenna. Gengisfellingar, gjaldþrot, og basl. Stundum gátum við lifað eins og kóngar og við gerðum það. Spreðuðum í utanlandsferðir, byggðum sumarbústað, vorum á kortaflippi. Bara eins og hver annar Íslendingur og ekki skal ég neita því að þá var gaman að lifa. En það kom að skuldadögunum og þá var bara ekki eins gaman en aldrei létum við nokkurn mann vita af því að við værum skítblönk. Við byrjuðum bara upp á nýtt og fundum okkur verkefni sem okkur hentaði.
Er ekki talað stundum um sjö mögur og sjö feit ár, eins og mig minni það.
Jæja þá er ég búin að hella úr skálum reiði minnar og er það vel!!!! Mér líður miklu betur og af því að ég er komin aftur niður á jörðina ætla ég að láta ykkur vita að við ætlum að taka þessu öllu með ró og spekt. Engar fánabrennur hér bara kveikt á kertum okkur öllum til handa.
Farin að hjúfra mig upp að mínum elskulega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.10.2008 | 16:57
Horfum til framtíðarinnar og verum jákvæð.
Loksins kom eitthvað jákvætt í fréttum og á rektor Háskóla Íslands hrós skilið fyrir að ætla að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á vegum vísinda og fræða á komandi ári.
Þetta litla ljóð er búið að sitja fast í mér í nokkra daga svo ég ætla að láta það fylgja hér með.
AÐEINS EITT LÍF
Við erum ekki með níu líf
eins og James Bond eða köttur
við erum sannast sagna
aðeins með eitt líf
svo vitað sé með vissu
því skaltu nú hætta
að mæla flest í hljóði
að sofa kastalasvefni
bíðandi eftir kossinum
sem öllu muni breyta
að láta þvottavélar
samvisku þinnar
þeytivinda blóðið
úr lífæðunum
já hættu líka að ganga
ávallt troðnar slóðir
farðu heldur kattarstígana
ósýnilegu, spolausu
sem liggja hér og þar
gegnum skrifuð og óskrifuð
ævintýri
þú munt reyndar ekki eignast
neitt af níu lífum kattarins
en lætur þér eflaust nægja
ævintýrin.
Úr ljóðabókinni Öskudagar eftir Ara Jóhannesson
Háskólinn mun svara kalli samtímans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.10.2008 | 10:43
Afmælisbarn dagsins í okkar fjölskyldu
25. október 2008 mikið líður tíminn hratt. Í dag er liðið eitt ár síðan prinsessan okkar hún Elma Lind fæddist hér í Prag. Amman er búin að baka köku og skreyta eftir sínu höfði síðan verður haldið inn í borgina til þess að fagna þessum merkisdegi með litlu fjöskyldunni.
Innilega til hamingju með fyrsta afmælisdaginn litla vinkona!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.10.2008 | 20:55
Ég ætla aldrei, aldrei aftur í bláu og gulu búðina!
Ég lét mig hafa það í dag að keyra í samtals þrjá klukkutíma og þrjátíu mínútur til þess eins að koma heim froðufellandi og aðframkomin á sál og líkama. Ég varð sem sagt að fara í þessa mannskemmandi verslun hans Ingmars af því það var eini staðurinn hér í Prag sem ég vissi að ég fengi rauðan lakkrís.
Segi og skrifa rauðan lakkrís af því ég ætla að baka köku fyrir afmælisbarnið hana Elmu Lind á laugardaginn og ég vildi hafa rauðan lakkrís fyrir hár. Svo helvítis IKEA varð það að vera.
Þegar ég loksins fann bílastæði eftir að hafa keyrt í klukkutíma og tíu mínútur skellti ég harkalega á eftir mér hurðinni og skundaði að aðaldyrunum. Datt nú í hug að svindla mér inn bakdyramegin, eða þeim megin sem maður kemur út en get stundum verið svo ógeðslega heiðarleg svo inn fór ég og eftir hringsól komst ég loksins niðrá neðri hæðina og fyrst ég var nú búin að randa þetta þá skellti ég mér í kertadeildina og stakk fjórum hlussu kertum í poka, þið vitið þessa gulu sem maður dregur síðan á eftir sér eftir gólfinu af því böndin eru ekki hönnuð fyrir lágvaxna!
Ég sá einhvern útgang og hugsaði mér að þarna gæti ég stytt mér leið að kassafjandanum. Ég villtist!!!! Var komin aftur á byrjunarreit!!!!! Píluandskotinn í gólfinu sneri öfugt!!!!! Ég sneri við og komst við illan leik að kassanum og valdi auðvitað kolrangan kassa þar sem aðeins ein hræða stóð við og að mér virtist vera komin að því að borga. Nei takk, viti menn þarna var einhver snillingurinn að láta endurreikna vörur sem hann hafði keypt í gær!!!! Ég skimaði að hinum kössunum en þar voru raðir svo ég ákvað að hinkra aðeins. Eftir korter tók ég kertin, henti þeim aftur í gula skjattann og strunsaði að næsta kassa þar sem ég mátti dúsa í allt að korter í viðbót.
Loksins komst ég að matarversluninni þar sem lakkrísinn átti að finnast. Eitthvað hafði gerst þarna síðan ég var þarna síðast en það eru jú ansi margir mánuðir síðan. Búið var að umsnúa öllu og vöruúrval sama og ekkert. Ég fann loks lakkrísinn niður við gólfið og skellti um leið tveimur pokum af kjöttbullar í poka fyrst ég var nú komin þarna á annað borð. Borgaði og út, út, út!!!!!
Ég var komin með suð fyrir eyrun og dúndrandi hausverk en sá rauði var kominn í skottið og ég gat haldið heim. Þetta var búið að taka mig þrjá klukkutíma síðan ég lagði af stað að heiman. NB ég bý hinum megin fyrir utan borgina sem sagt í suður en andskotans bláa og gula búðin er vestur af borginni.
Það bjargaði öllu að ég kom við hjá syni okkar og tengdadóttur og dúllunni henni Elmu Lind. Gat aðeins andað áður en ég hélt heimleiðis.
Sú ferð tók nær tvo klukkutíma vegna þess að það er verið að gera við Autobanann heim til okkar og þarna sat ég í stau í nærri heila klukkustund með snarvitlausa ökuníðinga allt í kringum mig.
Þar sem ég hafði talað við minn elskulega um það leiti sem ég lagði af stað frá Agli var minn farinn að ókyrrast heldur betur og var næstum farinn að kalla út hjálparsveit skáta til að leita að konu sem sat föst einhvers staðar out of no where.
Guði sé lof fyrir göngusímann, hann alla vega virkaði.
Þetta skal verða mín síðasta ferð í þessa hryllingsbúð hans Ingmars, ja nema ef ég verð nauðsynlega að kaupa rauðan lakkrís fyrir barnabarnið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.10.2008 | 16:31
Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð
Í gærkvöldi komu síðustu ábúendurnir að Listasetrinu þetta árið. Jóhann Hjálmarsson skáld og kona hans Ragnheiður en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Hjartanlega velkomin kæru hjón.
Það var eins og sveitin biði þau líka velkomin þar sem litaskrúð haustsins var með eindæmum fallegt í dag. Hér blakti ekki hár á höfði og hitinn fór yfir 19° um miðjan daginn.
Vonum að dvölin hér verði ykkur ánægjuleg, sveitin okkar og setrið veiti ykkur innblástur og skjól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.10.2008 | 09:22
Fréttalaus helgi og misstum ekki af neinu.
Fyrir mörgum árum fundust mér það forréttindi að geta hoppað upp í bílinn minn og keyra yfir landamærin inn í ,,nýjan heim" eins og við kölluðum það. Komast í burtu frá amstri hversdagsins og skilja allar veraldlegar áhyggjur eftir heima.
Í glóandi litum haustsins sl. föstudagsmorgunn hentum við tannburstum niður í tösku og ókum suður á bóginn. Eiginlega var engin sérstök ferðaáætlun, bara komast aðeins í burtu og gleyma sér augnablik og njóta samvistar hvors annars.
Ekki er alveg jafn auðvelt að kúpla sig frá fréttum eins og áður fyrr þegar tölvan var of stór til að taka hana með sér og við áttum engan farsíma. Núna fer maður ekki einu sinni út í garð án þess að göngusíminn sé meðferðis og tölvan er eitt af því sem pakkað er niður ef farið er lengra en 200 km frá heimilinu.
Ég opnaði aldrei tölvuna þessa daga en var þakklát fyrir göngusímann þar sem ég gat hringt í vinkonu mína sem stödd var á Barcelona í tilefni 60 ára afmælis hennar og líka þegar ég týndi mínum elskulega alveg óvart eða þannig. Hvar ertu? Hann stóð við hliðina á mér, get svarið það.
Við áttum góða helgi, nutum þess að dóla okkur í haustsólinni, borðuðum góðan mat og fórum í leikhús.
Í gærmorgun ákváðum við að keyra sveitavegina heim þar sem við höfðum ekki keyrt þá leið í tíu ár eða fleiri. Eitthvað hlýtur minnið að hafa skertst því það tók okkur fimm og hálfan tíma að keyra þessa leið. Fallegt en verður ekki gert aftur i bráð, minn rass þolir illa svona langkeyrslu á misjöfnum fjallavegum.
Það kom í ljós þegar heim var komið að við höfðum ekki misst af neinu sérstöku úr fréttum að heiman. Allt var við það sama. Samningar sem löngu hefðu átt að vera í höfn voru enn í frysti og sama blablabla í gangi. Horfðum á Silfrið í gærkvöldi og var gott að heyra í vini okkar Jóni Baldvin, hann talar enga tæpitungu karlinn sá frekar en fyrri daginn.
Eigið góðan mánudag öll sömul.
Farin að sinna haustverkum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.10.2008 | 18:04
Ég er og verð Íslendingur!
Þegar ég kom heim í dag eftir skemmtilegan morgunfund og hádegismat með góðum vinkonum settist ég við apparatið mitt hér við eldhúsborðið og rúllaði yfir fréttir dagsins og nokkur blogg.
Ekki get ég nú sagt að sú lesning hafi verið par upplífgandi, frekar að það hafi dregið úr mér alla löngun til að komentera eða skrifa þó voru nokkrir málefnalegir og aðrir sem komu mér til að hlægja og það léttist aðeins brúnin þegar líða tók á lesturinn.
Eins og hjá flestum öðrum var emailið mitt yfirfullt af knúsum, takk fyrir það en satt best að segja finnst mér dálítið hjákátlegt að fá svona knús frá apparatinu sem liggur hér fyrir framan mig en ég sendi skilvíslega knús til baka til þess að vera ekki félagsskítur. Sem sagt tók þátt í þessum leik Mbl. og reyndi eftir fremsta megni að hugsa hlýtt til viðkomandi á meðan færslan fór út í tómið.
Mér þykir ekkert að því að knúsa fólk sem mér þykir vænt um og hef aldrei fundist það hallærislegt að gefa fólki koss og taka utan um það en þetta kossastand og knúserí er orðið ansi þreytandi hér á milli bloggvina. Sendum frekar hlýjar hugsanir, held þær virki miklu betur.
Í gær las ég um konu sem rekin var út úr búð á Strikinu. Ég vona að þarna hafi verið einhver misskilningur i gangi en margir hafa bloggað um þetta atvik og sumir jafnvel sagt að þeir ætli að hætta að kannast við það að vera Íslendingar og hætta að tala sitt móðurmál erlendis svo nokkur heyri. Hvað gengur að þessu fólki? Hvar er nú þjóðarstoltið og burgeysishátturinn sem fylgt hefur okkur Íslendingum í aldaraðir. Að ætla að þykjast vera einhver annar en maður er er þvílíkt bull og ekki orð um það meir!
Ég byrjaði hér að ofan að segja ykkur að ég hefði farið á morgunverðarfund með góðum vinkonum en fór svo út í allt aðra sálma en nú ætla ég að hverfa aftur að þessum fyrstu línum.
Undanfarna viku hefur síminn vart stoppað hér hjá okkur, blaðasnápar og fréttamenn útvarps og sjónvarps hafa verið að snapa eftir fréttum en við höfum hrist þetta af okkur enda ekki í okkar verkahring að gefa upplýsingar að heiman.
Þetta er eina viðtalið sem Þórir hefur veitt eftir að við seldum.
http://www.praguepost.com/articles/2008/10/15/talking-iceland-over-ice-cream.php
Eins og gefur að skilja vakti lokun Rest. Reykjavík mikla athygli hér og það að við skildum loka einmitt sama dag og landið okkar hrundi þótti að sjálfsögðu dálítið grunsamlegt. Við gerðum okkur strax grein fyrir að fljótlega færu að berast alls konar Gróusögur um borgina því þó við búum hér í milljónaborg erum við þekkt sem athafnafólk til margra ára.
Þegar ég mætti á fundinn í morgun sá ég strax að þarna var komið að því að ég útskýrði málið. Viðmótið var hlýlegt hjá þeim sem ég hef þekkt til margra ára en aðrar sem ekki hafa verið hér lengi sendu mér svona augngotu og forðuðust að horfa beint framan í mig.
Í lok fundarins stóð ég upp og útskýrði lauslega hvers vegna við hefðum selt veitingastaðinn og líka að við hefðum gert það fyrir sex mánuðum hefði bara viljað þannig til að lokunin hefði átt sér stað sama dag og Ísland lenti i sínum miklu hremmingum. Það létti mikið yfir samkundunni og margar spurningar komu í kjölfarið aðalega um fjölskyldu okkar og almennt ástand. Gordon Brown var satt best að segja rakkaður niður í svaðið og þarna voru margir Bretar sem stóðu með okkur Íslendingum.
Ég endaði á því að segja að nú hefðu þær þetta frá fyrstu hendi og gætu leiðrétt Gróu á Leiti ef þær mættu henni á götu. Þetta var léttir fyrir mig og mér leið miklu betur.
Gekk eftir hádegismatinn að bílnum mínum þar sem ég hafði lagt honum beint fyrir framan Danska sendiráðið og það glitti á Íslenska fánann okkar á grilli bílsins og á skottlokinu. Ég var hreykin af því að vera Íslendingur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.10.2008 | 18:40
Sæmundur Kristjánsson hafðu þökk fyrir!
Ef ég tryði á hugsanaflutning þá væri mér næst að halda að Sæmundur og minn elskulegi hefðu verið í góðu sambandi því hér í síðustu viku sagði Þórir svona upp úr eins manns hljóði: Veistu ef ástandið verður til þess að fólk fer að svelta þá er ég farinn heim og set upp stóran súpupott í Austurstrætinu til að seðja hungur fólksins.
Ég leit á hann og sá strax að hann meinti þetta alveg frá hjartanu svo ég bara sagði: Við skulum vona að svo illa fari ekki fyrir fólkinu okkar.
Sæmundur minn okkar bestu kveðjur til þín og alls starfsfólks! Hafðu þökk fyrir þína manngæsku og við hér að Stjörnusteini tökum ofan fyrir þér og öllum sem stóðu að þessu góðverki.
Stórt knús til ykkar allra.
Súpueldhús í kreppunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.10.2008 | 14:28
Hvað á að gera við strákaling?
Var að koma inn úr haustblíðunni hér og eins og alltaf þegar ég er úti fer hugurinn á flug. Stundum eru þetta rosalega merkilegar uppgötvanir en að öllu jöfnu einskisnýtar pælingar.
Hvað gerir maður við elskulegan eiginmann sem allt í einu tekur upp á því eftir 30 ár að fara með sinni heittelskuðu í búðir. Á maður að hoppa hæð sína og hrópa upp yfir sig, batnandi mönnum er best að lifa eða fara í baklás og hugsa andskotinn hvar er nú frjálsræðið!
Eins og þið flest vitið þá er minn sem sagt nýorðinn svona 25% atvinnurekandi og þar sem okkur finnst nú ekki mikil vinna í því að halda uppi einni íssjoppu þó fræg sé, þá er nægur tími til annarra verka. Häagen Dasz rekur sig eiginlega sjálft miða við Rest. Reykjavík sem við urðum að vaka og sofa yfir 24 hours. Þess vegna segi ég að hann sé í svona 25% vinu miða við sem áður var.
Á laugardaginn datt honum í hug að spyrja mig hvort ég vildi ekki fara í smá búðarráp. Ekki það að okkur vanhagi um eitt eða neitt heldur bara svona window -shopping. Ég missti andlitið alveg niður að hnjám. Var manninum mínum alvara eða var þetta bara svona morgundjók? Eftir rúmlega 30 ár hef ég ekki einu sinni fengið hann með mér til þess að kaupa jólagjafir nema eftir margra daga tuð og rekistefnur.
Ég sagði sem satt væri að ég yrði hvort sem er að fara í matvörubúð svo hann mætti alveg koma með mér. Það hringsnerist allt í hausnum á mér alla þessa 30 km í búðina. Þarna sat hann sallarólegur með bros á vör og gerði að gamni sínu eins og fyrirmyndar húsband auðvitað á að vera en ég varð alltaf meir og meir undrandi.
Þegar við komum inn í Billa (matvöruverslun) þá skildu fljótt leiðir og hann birtist af og til með eitthvað smotterí í höndunum enn brosandi út að eyrum.
Nei elskan við eigum nóg af smjöri. Ekki þennan ost. Hvað ætlar þú að gera við allt þetta brauð? Það er til nóg af hundanammi heima. Svona gekk þetta lengi vel. Ég rak hann umsvifalaust með vörurnar til baka eins og ég væri með óþægan krakka í eftirdrægi. Loksins gafst minn upp á þessari mimmandi kerlingu og sagði: Heyrðu ég ætla að fá mér kaffi, við hittumst bara þar. NB hann var enn brosandi!
Ég veit ekki hvort þetta var vegna ástandsins heima á Íslandi og ég var farin að spara eins og allir aðrir eða ég gat bara ekki einbeitt mér að því að versla alla vega var ótrúlega lítið í körfunni þegar ég kom að kassanum og þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði ekki keypt neitt kjötmeti í matinn.
Þessari verslunarferð var nú ekki aldeilis lokið heldur dró minn mig með sér á milli húsgagnaverslana og ljósabúða sem hafði auðvitað ekkert upp á sig þar sem við vorum svo hjartanlega sammála um að það sem okkur líkaði væri á uppsprengdu verði.
Nú er það stóra spurningin, hvað á að gera við strákaling?
Hef annars ekki stórar áhyggjur því nú tekur við stækkun á Häagen Dazs í Karlova og það tekur nokkrar vikur svo hann verður upptekinn við að ráðskast þar.
Ein viknona mín hér sagi við mig um daginn ,,Rosalega ertu heppin að eiga svona mörg hús þú getur bara sent hann í eitt þeirra þegar þú færð nóg". NB þessi vinkona mín er með einn svona retired heima hjá sér.
Æ ég veit ekki hvort ég hefði hjarta til þess, hann er jú svo mikil dúlla þessi elska.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2008 | 10:27
Dallas leiðin - Þetta var bara draumur!
Þetta sagði Dr. Gunni í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun: Alveg eins og í Dallas forðum þegar fólk horfði á marga þætti og síðan kom fram að JR var bara að dreyma. Eins gæti þetta gerst hér, bara vakna í fyrramálið og Steingrímur Hermannsson væri enn forsætisráðherra og allt í gúddí.
Á þessu heimili er það síðasta sem maður gerir áður en lagst er á eyrað er að hlusta á fréttir að heiman og það fyrsta sem gert er er að opna fyrir fréttir að heiman. Síðan taka við allar þær TV stöðvar sem við höfum hér og núna áðan var ég að horfa á Sky fréttastöðina og hlustaði með öðru eyranu en hugsaði um leið: Nú er hvít jörð heima. Það var nú það sem vakti áhuga minn. Segi ekki meir.
Í gær datt minn elskulegi inn á bloggið hans Jónasar Kristjánssonar og við skellihlógum hér yfir skondnum færslum. Mikið var gott að hlæja og í dag bendir Jónas einmitt á að sumir bloggarar geti bjargað sálarheill margra þ.á.m. nefnir hann Dr. Gunna.
Ég er alveg harðákveðin í því að framvegis verða þessi blogg lesin áður en ég les um að allt sé að fara til helvítis. Þá get ég e.t.v. séð fréttirnar í öðru ljósi og hugarástandið ekki í eins miklu svartnætti og hefur verið.
Þetta ætla ég að gera fyrir mína sálarheill.
Hugsið málið.
Farin að tína við í arininn fyrir kvöldið til að gera smá kósi fyrir okkur hjónin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)