Ég bara trúi þessu ekki! Ætti ég að láta útbúa stimpil?

Tuttugu og einn dagur til jóla og fyrsta jólakortið kom í póstkassann okkar í gær yfir hafið frá Íslandi!   Ég fór alveg í hnút!  Er virkilega kominn tími á jólakortavesen.  Getur bara ekki verið, ég á eftir að gera svo ótal margt áður en ég sest við skriftir.

Það er nefnilega algjör serimonía hjá mér við skrif jólakorta. Verð að taka það fram að minn elskulegi kemur ekki nálægt þessu, hvorki kvittar undir hvað þá að líma á frímerkin. Sem sagt búinn að komast undan þessu veseni í yfir þrjátíu ár! 

 Sko það sem ég vildi sagt hafa.  Allt þarf að vera orðið jólalegt innanhúss.  Ég kveiki á ótal kertum, set ljúfa jólatónlist í græjurnar og bjarminn frá arineld leikur um stofuna.  Síðan hefst ég handa við að skrifa öllum persónuleg kort og  annál ársins með sem ég hef sett saman á tölvuna og skelli með, ekki bara á mínu móðurmáli heldur ensku líka.  

Sko þetta er auðvitað BILUN!!!!

Það er nú líka önnur stór bilun í gangi hér það er hvað við höfum sankað að okkur mörgum ,,JÓLAKORTAVINUM " í gegn um tíðina.  Ég sendi um 150 kort út um allan heim.  

ÞETTA ER RUGL!!!!!!

Á hverju ári strika ég svo og svo marga út en alltaf skal sami fjöldi bætast við. ´

Í fyrra ákvað ég að hafa annálinn í styttra lagi því mér fannst bara þeir sem nenntu að fylgjast með okkur gætu gert það hér á blogginu.  Það helltust yfir mig kvartanir eftir áramótin.  Djöf...frekja í þessu fólki, halda það að maður hafi ekkert betra við tímann að gera en að setja saman skemmtisögur handa þeim í jólakortin!   Tounge´Mér var meir að segja tilkynnt það að ég hefði bara eyðilagt JÓLIN fyrir fjölskyldunni og hvernig haldið þið þá að mér hafi liðið, þessi samviskusama kona sem ég er?   HRÆÐILEGA  eitt orð.Tounge

Sko nú er ég að hugsa og ætla að hugsa vel og lengi áður en ég tek ákvörðun um annál eður ei svo og líka, hvort ég get ekki skorið þetta aðeins niður í ár.  Má samt ekki hugsa of lengi vegna þess að tíminn flýgur þessa dagana.

Eitt sinn datt mér í huga að láta búa til stimpil sem ég gæti bara skellt inn í kortin með svohljóðandi:         Gleðileg Jól, Ía. Þórir og börn.

Ef ég hefðii gert það hefðu símalínur logað og fólk sem annars aldrei hefur samband mundi eyða í það að hringja yfir hafið og senda mér tóninn.Halo

Jæja ég ætla að leggjast undir fiðuna eins og ein vinkona mín orðar það og hugleiða málið.

Nenni ég þessu yfir höfuð og hver er tilgangurinn að senda einhverjum JÓLAKORTAVINI kveðju sem ég hef ekki séð í tugi ára?   Bara fyrir prinsippið?  

Farin að hugsa djúpt.Woundering

  

 


Hugmyndin góð en......

...hefði ekki verið táknrænna að tendra blysið við styttu Jóns Sigurðssonar.  Við erum jú sjálfstæð þjóð ennþá.......

Vona að kallinn hann Kristján hafi ekki brennt sig mikið á hendinni því ef svo er leggst viðgerðarkostnaður á skattgreiðendur.

Farið vel með ykkur í dag kæru landar og farið ykkur hægt og skynsamlega.

 


mbl.is Neyðarkall frá Kristjáni IX
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má svo sem reka suma jólasveina aftur til síns heima fyrir mér.

Jólasveinar skemmta sér úti  TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN 1. DESEMBER!

Datt í hug að setja inn hér mynd af jólastrákunum mínum sem skemmta sér í gluggakistunni úti við innganginn svona til að dreyfa huga ykkar frá uppákomum dagsins. 

Jólasveinarnir okkar eru svo sem ekki allir góðir en það er held ég af og frá að við færum að banna komu þeirra eins og þessi Jón Knúdsen í DK vill ólmur koma á framfæri í sínu landi.

Suma jólasveina sem nú ráða ríkjum á Íslandi má svo sem reka aftur til síns heima en það er víst hægara sagt en gert. 

Held að særingar norna og fylgiliðs hafi ósköp lítið upp á sig. Mér fannst nú helst þegar ég horfði á fréttina að ,,norninni" væri alveg skítkalt  þar sem hún æddi um og baðaði út svörtum vængjum.

En sitt sýnist hverjum.  Góðar stundir gott fólk.

 

 


mbl.is Vill banna jólasveina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spádómskertið tendrað og ljósadýrð um allan heim.

Síðsumar og haust 2008 179Í dag hefur svipuð stemmning verið á öllum torgum stórborga heims þar sem ljós hafa verið tendruð á risatrjám með viðeigandi athöfn.  Prag er þar engin undantekning og hófust hátíðahöldin á Gamla torginu klukkan fimm í dag og standa örugglega enn.

Það er alltaf hátíðlegt að vera viðstödd opnum jólamarkaðar hér og það er ekki bara tréð sem fólk dáist að heldur ótal aðrar skreytingar sem gleðja augað.

Ekkert varð úr þessari bæjarför okkar því fótboltabullur Breta áttu hug og hjarta míns elskulega í allan dag.  Ég var svo sem ekkert að þrasa yfir þessari ,,sófalegu" því ég hafði í nógu að snúast við að skreyta hér innan húss. Fer bara seinna í vikunni til að taka út herlegheitin.

Ekki það að ég hafi heldur haft mikið fyrir því að trítla niður á Austurvöll með ungviðið í gamla daga, ja e.t.v. tvisvar eða þrisvar gerðum við það þó  Ekki alveg ga ga foreldrar.

Nú ætla ég upp og kveikja á Spádómskertinu en svo nefnist kerti fyrsta í aðventu njóta það sem eftir er kvöldsins i friði og ró.

Lofaði að setja inn myndir og nú koma þær smátt og smátt.

 

 

 


mbl.is Ljósin kveikt á Óslóartrénu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vala Matt og aðrir snillingar ættu bara að sjá þetta núna!

Ég hef örugglega sagt ykkur frá því að ég er alveg hrikalega lofthrædd og fer ekki upp í aðra tröppu í stiga nema nauðbeygð.  En oft er þörf en nú var nauðsyn!  Ég ákvað það í síðustu viku að eldhússkáparnir gætu ekki haldi jól nema ég tæki þá í gegn og það eins og hvítan stormsveip.

Nú eiga einhverjar vinkonur mínar eftir að brosa rækilega út í annað þar sem ég sagði alltaf hér í den að jólin hjá mér yrðu ekki haldin i skápunum þess vegna væri ónauðsynlegt að taka til nema í algjöri neyð.

Til að gera langa sögu stutta um mig dinglandi með Ajax og önnur eiturefni í heila vikur upp og niður stiga þá kláraði ég mitt eldhús í gær!  Sko það er skrambi stórt, svona ca 30 fm.  Já ég er ekkert að djóka og skáparnir eftir því.  En nú lítur það út eins og hvítur stormsveipur og mér var næstum á að hringja í Völu Matt og bjóða henni hingað til að sýna henni hvernig á að fara að hlutunum.  Já þið trúgjörnu megið alveg trúa þessu bulli en Vala Matt eða aðrir innlitsplebbar kæmu ekki inn í mitt hús, ja nema þá sem gestir í sherry-stofuna heheheh....   Varð að bæta þessu við fyrir viðkvæma, sko smile merkin virka ekki hér á minni tölvu. 

Á meðan ég bardúsaði þarna á neðri hæðinni stóð minn elskulegi í stórframkvæmdum á efri hæðinni.  Þið munið hann er bara í 25% vinnu heheh... Ýmislegt hefur ekki verið klárað hér í húsinu frá því við fluttum sbr. Saunan hefur aldrei komist í gagnið en nú bætti minn um betur og er búinn að klæða og þylja og nú bara bíðum við eftir rafvirkjanum til að tengja ofninn.  Þó ég segi sjálf frá og viti að hann les þetta, þá verð ég að hæla honum fyrir þetta afrek.  Hann hefur e.t.v. alla tíð verið á rangri hillu, hefði átt að leggja fyrir sig smíðar?  Nei en í alvöru þetta er þrusuflott svo flott að ég er að hugsa um að setja rauða jólaseríu þarna inn og svo bara höldum við litlu jólin þarna í herlegheitunum, ja ef rafvirkinn lætur sjá sig fyrir jól.

Í dag fór ég  til Hönnu minnar (snyrtir) og lét dúlla við mig í tvo tíma.  Ætlaði að fara í búðir á eftir en hér virtist jólatraffikin vera komin á skrið svo ég brunaði bara beint heim og hef ekki gert handtak síðan. Enda kona komin á minn aldur (hvaða bull er nú þetta, aldur hvað?) á skilið að taka það rólega eftir svona vesen.

Á morgun ætla ég að dúlla í jólaskrautinu.   

 

 


Jólaljósin tendruð að Stjörnusteini.

Ljósadýrð loftið fyllir!  Ég jólabarnið er komin í jólafíling.  Mér finnst ekkert eins gaman og að skreyta húsið að utan og innan.  Ég vildi að þið gætuð séð núna útiskreytingarnar hjá okkur.  Þúsundir ljósa allt frá hliðinu og aftur fyrir veröndina ljóma nú eins og heill jólaheimur.  

Í ár vildi ég hafa hvítt og blátt frá innkeyrslunni og að framanverður svo auðvitað kostaði það nýjar seríur.  Ég bjóst nú helst við því að minn elskulegi mundi fitja aðeins upp á nefið en hann tók ekki minni þátt í þessum skreytingum og í hvert sinn sem hann kom úr bænum hafði hann keypt nokkrar nýjar ljósaseríur. Allar gömlu marglituðu seríurnar lýsa núna upp litla greniskóginn minn sem ég bjó til fyrsta árið okkar hér, fyrir aftan veröndina.  Verð að taka myndir af þessu og skella inn við tækifæri. 

Þökk sé Pavel okkar sem hefur staðið hér í þrjá daga frá morgni til kvölds við að gera þetta mögulegt, gera húsið og umhverfið að litlu jólalandi okkur til mikillar ánægju og ekki síður sveitungum okkar sem leggja leið sína hingað til að fá smá jólastemmningu.

   


Haustljóð skáldsins færði okkur kyrrð og ró hér í kvöld.

Skáldið, Jóhann Hjálmarsson hallaði sér makindalega aftur í hnausþykkan leðurstólinn með gleraugun á nefinu og las upp úr síðustu bók sinni sem gefin var út 2003. Kertin á borðinu flögruðu í takt við ljóðlínurnar. Við erum stödd í Listasetrinu okkar Leifsbúð.

Nóttin var dimm en inni var bjart og hlýtt.  Við sem nutum þessa upplesturs vorum aðeins þrjú, ég, Þórir og eiginkona skáldsins Ragnheiður. Við hölluðum okkur aftur með rauðvín í glösum og hlustuðum á skáldið fara með ljóðin sín.  Fyrst þau gömlu en síðan ný sem hann hefur samið hér undanfarnar vikur.  Ljóðin hans Jóhanns eru svo myndræn að ég var komin hálfa leið í gönguferð hér um nágrennið á stundum. 

Ekkert þykir mér betra en að hlusta á skáldin fara með sinn eigin kveðskap eða ritverk sama hversu góðir flytjendur eru þá jafnast ekkert á við það að hlusta á meistarana sjálfa.  Merking orðanna verður aldrei sú sama jafnvel þó okkar færustu listamenn fari með ljóð eða lesi úr ritverkum.

Verð að geta þess að Erró okkar sem telst til einstakra hunda, listelskur og næmur settist niður með okkur og góndi upp í skáldið og hlustaði dolfallinn.  Hef alltaf sagt að þessi hundur ber nafn með réttu.

Kvöld sem þetta gleymist seint.  Ég finn það svo vel núna hvað ljóðið gefur okkur mikið ef við hlustum.

Hlakka til að fá í hendurnar næstu ljóðabók sem samin var hér í Bohemiu. 

 

 

 

 


Ætla að vera stykk frí núna, hætta að velta mér upp úr því sem ég fæ engu um breitt.

Eftir að hafa úðað í mig breskum fisk frá Marck & Spencer í gærkvöldi sat ég hér við kertaljós og hugleiddi hvað væri mikilvægast í lífinu.  Svarið kom um leið, auðvitað fjölskyldan engin spurning.

Undanfarið hef ég eitt allt of löngum tíma í það að rýna í heimsmálin og ástandið heima á Íslandi.  Dagurinn byrjar með því að rúlla málgagni landsmanna frá A-Ö, lesa greinar og blogg þrátt fyrir þann góða ásetning minn að hætta að velta mér svona mikið upp úr þessu. Að sjálfsögðu verðum við að fylgjast með og viljum vita hvað er að gerast í okkar málum, þ.e. okkar landsmanna en við leysum ekki málin hér í eldhúsinu mínu það er á tæru. 

Og stundum getur þetta farið út í öfgar og ært óstöðugan.

Þess vegna ætla ég að vera stykk frí í smá tíma og reyna að skrifa ekkert um pólitík, enda hef ég hvorki vit né gaman af því og líka að hætta að komentrera um ,,tíkina" hjá öðrum þ.e.a.s. ef ég kemst hjá því.  Í stað þess að hlusta á alla þætti útvarps og sjónvarps ætla ég að setja góða tónlist i spilarann eða lesa góða bók.

Nú þegar líður að aðventu þá ætla ég að nota tímann í það að gera heimilið okkar sem jólalegast svo við getum notið aðventunnar í ró og næði.

Svo ef þið fáið bara hjartainnlit frá mér kæru vinir þá er það vegna þess að mér þykir svo undur vænt um ykkur öll.   


Hvað með þessa ,,jólasveina" sem komu okkur á kaldan klakann?

Öll umræða snýst um hvort ríkisstjórnin og Seðlabankastjórn eigi að sitja eða standa upp. Tillagan feld í þingi í gær.  Borgarfundur í Háskólabíó þar sem kona nokkur hafði það af að láta alla leppalúðana standa upp, flott hjá henni en hvað gerðist, þeir settust jú aftur og sitja sem fastast.  

Væri ekki nær eins og Ólína Þorvarðar bendir á á bloggi sínu að láta jólasveinana sem komu okkur á kaldan klakann sitja fyrir svörum fólksins í landinu.  Þeir halda áfram að kaupa sín eigin gjaldþrota fyrirtæki og bankarnir láta það viðgangast. Aðeins útvaldir fá að bjóða í þessi fyrirtæki.  Ekki það að ég hefði áhuga á þessum leikföngum þeirra en það gæti verið fólk þarna úti sem hugsanlega vildi og gæti keypt þrotabúin.  En þessu er öllu haldið kyrfilega inn í hellinum hjá Grýlu og Leppalúða.  

 Luxushótel í frönsku ölpunum, einkaþota og snekkja virðast vera skráðar á eiginkonu og þetta fína lið heldur áfram veislunni eins og ekkert sé. 

 Allir jólasveinarnir fara sér hægt á fjöllum og forðast byggð því þar er mannfólkið og það er reitt, sárt og úrræðalaust sumt hvert.   

Hvar eru jólasveinarnir?  Eru þetta e.t.v. þeir hér á myndinni á leið í næstu veislu? 


mbl.is Frostköld jólastemning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf að berja niður okkar baráttuþrótt?

Ég kveikti á útvarpinu til að fylgjast með mótmælunum í dag. 

 Vinur minn Hörður Torfa startaði og síðan tók við ræða Kartínar Oddsdóttur, og þvílík framsögn og kraftur!  Þarna fór kona að mínu skapi, með allt á hreinu og meðvituð um að hún var að tala til þjóðarinnar. Dampurinn féll því miður niður við ræður næstu ræðumanna, betur að Katrín hefði verið síðust á mælendaskrá.  En við lærum af mistökum. 

Ég var full af baráttuþrótti eftir að hafa hlustað á Rás 2, þökk sé allri okkar tækni og lækkaði ósjálfrátt, búin að fullvissa mig um að nú hefðu landar mínir gert góða hluti án þess að til einhverja átaka kæmi.  

Ég heyrði reyndar í Gerði þar sem hún sagði í miðri ræðu:  Hvað er að gerast?  Þá var verið að klæða Jón Sigurðsson forseta í bleikan kvennaklæðnað!!!!!!!!   

Gjörningar kalla þeir það!!!!   Jæja ég hef aldrei þolað gjörninga vegna þess að ég einfaldlega skil þá ekki. 

Var þetta nauðsynlegt?

Síðan, nokkrum mínútum seinna hækkaði ég í tölvunni. 

Óeirðir við Lögreglustöðina!!!!!!!!!!!!    Halló, var þetta líka á planinu? 

Þarf alltaf að skemma fyrir fólki sem vilja friðsamleg mótmæli með svona skrílslátum.  OK maðurinn var látinn laus, en þetta finnst mér lágkúra að hálfu mótmælenda.  Við náum engum árangri með svona hegðun. 

Stöndum frekar í þögn og mótmælum með kertum svo klukkutímum saman, það ber miklu meiri árangur.  Skiptist á, sínum einhug.  Ég skal gera mittbesta hér í fjarlægð.  

Við eigum eftir að sjá hvað verður í janúar og febrúar þegar fólkið okkar verður ekki lengur á vinnumarkaðnum. Allir góðir vættir veri með okkur þá.

Svo bíð ég bara góðrar nætur til ykkar allra þarna úti. 

 


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg sérstaklega hjartahlýtt og brjóstgott fólk sem tók á móti mér.

Það er ekkert sjálfgefið fyrir konu að taka upp símann og panta tíma hjá Hjartavernd eða Krabbameinsfélaginu, þá er ég að tala um þessar reglubundnu heimsóknir sem allir ættu að fara í en flestir fresta og sumir næstum fram í rauðan dauðann. Ég er þar engin undantekning og skammast mín fyrir að segja ykkur hvenær ég hundskaðist síðast svo ég læt það liggja á milli hluta.

En fyrst ég var nú á leið heim þá pantaði ég mér tíma hjá báðum þessum stofnunum um daginn og fékk tíma um leið, sem sagt engin biðtími þar eins og hjá flestum læknum. 

Það skal tekið fram að ég er alveg þrusu hress bæði á sál og líkama.  Þarna voru á ferð fyrirbyggjandi aðgerðir af minni hálfu.

Ég byrjaði á því að heimsækja Hjartavernd með tóman maga að sjálfsögðu.  Yndælis kona tók á móti mér og mældi og viktaði og tók línurit.  Eftir að ég hafði fengið að vita að ég hefði hlunkast saman um næstum tvo sentímetra fór ég í blóðprufu hjá lækni, konu, sem var ekkert nema elskulegheitin og af því að hún var svona geðug þá hugsaði ég með mér að best væri nú að létta aðeins á litla hjartanu og segja hvað hefði verið að angra mig í næstum tvö ár. 

Saga mín var skráð í tölvuna og hún segir að þetta geri hún svo hjartalæknirinn sem tæki á móti mér eftir nokkra daga hefði nú þetta allt fyrir framan sig.

Ég þakkaði voða vel fyrir mig og gekk út í rokið og fékk mér sígó.

Næsta dag heimsótti ég góða fólkið hjá Krabbameinsleitarstöðinni.  - Karlar þurfa ekkert endilega að lesa þetta........ Jésús það var svo rosalega langt síðan ég hafði sest í stólinn góða eða það fannst mér alla vega.  Eftir mjúku strokuna og þið vitið...... þá vippaði ég mér niður og hjúkkunni varð á orði , ja þú ert ekki þung á þér.  Held þetta hafi ekkert haft með þyngdina að gera, ég var bara svo rosalega fegin að komast af stólnum. 

Þá tók við tortúrtækið þið vitið stelpur sem kremur litlu sætu dúllurnar okkar út og suður.  Hey það er komin ný vél, ekki næstum eins sárt og síðast. Ég mátti síðan hringja daginn eftir af því ég bý erlendis, sem sagt þarna fór kona með forréttindi, sem ég og gerði og fékk að vita að mínar eðaltúttur voru eins hreinar og hjá hálfstálpuðum ungling. 

Mikið var nú gott að heyra það og ég fékk mér sígó, enda tilefnið frábært.

Tveimur dögum seinna lá leið mín aftur upp á Hjartavernd en þar tók á móti mér kornungur ljóshærður og myndalegur hjartalæknir.  Mín fyrsta hugsun var:  Guð minn góður hann er svo ungur!  Ég´bjóst fastlega við því að mér yrði skipað úr fötunum að ofan og upp á bekk eins og gert var hér áður fyrr og maður þuklaður með köldum lúkum en nei þessi ungi piltur bauð mér kurteysislega sæti og opnaði fælinn minn.  Þá upphófust samræður um fjölskyldu mína og hans þar sem konan hans var sveitungi tengdadóttur minnar.  Þetta stóð yfir í nokkrar mínútur.  Mjög fróðlegt samtal og skemmtilegt.

Síðan setti hann prentarann í gang og út gubbuðust nokkur A-4 blöð. Þar sem ég hafði verið mjög hreinskilin og sagt með réttu að ég væri stórreykingarmanneskja komu niðurstöður mér mjög á óvart.  Ekkert virtist vera athugavert við neitt.  Kólesterólið sem alltaf hefur verið við hættumörk var nú bara eðlilegt og það eins sem hann gerði athugasemd við var að ég auðsjáanlega hreyfði mig allt of lítið, yrði að bæta úr því.  

Ég komst aldrei svo langt að segja honum að ég púlaði hér í garðvinnu átta mánuði á ári og það teldist nú örugglega til hreyfingar.  Jæja skítt með það.  Allt var þetta í stakasta lagi.  Ég impraði líka á því sem ég hafði sagt hinum lækninum um það sem ég hefði áhyggjur af en áður en hann gat svarað mér var ég búin að svara mínum eigin spurningum sjálf, skilgreina allt á góðri Íslensku, orsakir og afleiðingar og hann jánkaði mér bara og sagði að ég hefði sjálfsagt rétt fyrir mér.  Ekkert svona hum eða ha, þú ættir nú að láta athuga þetta eða hitt ef þetta kemur fyrir aftur.  Sem sagt bara kerlingavæll í mér og histería.

Ég er líka bara ansi sátt við þá niðurstöðu.

Þá kom fyrirlestur um reykingar og spurningar um hvort mig langaði til að hætta sem ég jánkaði alveg hreinskilningslega.  Þá opnuðust flóðgáttir og þessi ungi maður tók mig algjörlega á sálfræðinni, talaði um áhættuhópinn sem ég væri í, barnabörnin sem eru augasteinar mínir.  Eftir nokkrar mínútur var ég svo heilaþvegin að ég gekk út með tárin í augunum og lyfseðil upp á fleiri tugi þúsunda sem eiga að hjálpa mér að hætta þessum ósóma.

Sko tárin voru ekki vegna þessara þúsundkalla heldur var ég alveg rosalega snortin. 

Ég var ekkert send í ómskoðun eins og alltaf hér áður fyrr vegna þess að önnur slagæðin í hálsinum á mér er alltaf í feluleik.  Hann kom aldrei við mig nema þegar hann heilsaði og kvaddi. Ef ég hefði ekki lyfin hér fyrir framan mig væri mér næst að halda að þetta hefði verið draumur. 

Ég er í undirbúningsvinnu núna fram yfir áramót og þá á að taka á því.  

Er farin að fá mér eina sígó.   

  

 

 


Hverju orði sammála.

Langt í frá að það sé skemmtilegt að ferðast í dag með Íslenskt vegabréf í farteskinu.  Við fundum vel fyrir þeirri niðurlægingu á ferð okkar núna um Danmörk og Þýskaland sem frú Vigdís talar hér um í viðtalinu við El País. Við erum því miður öll merkt sama brennimarkinu. 

 Fólk brosir ekki lengur við okkur þegar við sýnum vegabréfin okkar.  Það spyr ekki lengur um land eða þjóð og segist vilja heimsækja okkur eða upplýsir mann um að það hafi nú hitt Íslendinga áður eða eigi vini á Íslandi.  

Við vorum spurð að því, þar sem við sátum á veitingastað, hvort við værum Svíar?  Nei, við erum Íslendingar svöruðum við samhljóma.  Ég var hreint ekki alveg á því hvort þjónninn kæmi aftur að borðinu eða mundi senda einhvern útlending til að afgreiða okkur.  Sorglegt, mjög sorglegt.

Mér fannst erfit að koma heim núna.  Það ríkti svo mikið svartnætti í sál margra.  Þó voru all margir sem báru sig vel og voru enn með bjartsýnina að leiðarljósi en umræðan var skelfileg hvar sem maður kom.

En nú er ég sest hér í skotið mitt og búin að kveikja á kertum til handa öllum ættingjum og vinum heima.

Ég veit að við komum öll til með að endurheimta virðingu meðal annarra þjóða en það á eftir að taka tímann sinn.  Það fer víst ekkert á milli mála því miður. 

      


mbl.is Íslendingar verða að endurheimta virðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í gluggum sem ylja og gleðja án orða.

Um hádegisbil keyrðum við út úr Berlin eftir tvo góða daga í þeirri merkisborg.

Hittum Þráinn og frú Sólveigu á föstudagskvöldið og fórum yfir ,,Íslandssöguna"  Mjög skemmtilegt!

Þráinn gaf okkur nýju bókina sína ÉG ef mig skyldi kalla og auðvitað tók minn hana fyrst traustataki en ég er nú búin að fá hana í hendur og ætla að lesa hana í háloftunum annað kvöld.

  Það er alveg svona típiskt fyrir okkur að athuga ekki með brottför ferjunnar frá Rostock til Gedser svo auðvitað rétt misstum við af eitt ferjunni og urðum að dúsa tvo tíma á kajanum eftir þeirri næstu og þar sem við höfðum heldur ekki pantað far fyrirfram, sem er líka alveg típiskt fyrir okkur, þá lentum við á biðlista.

Við rétt náðum inn, vorum næst síðasti bíllinn. 

Þar sem við keyrðum inn til Kóngsins Köbenhavn var farið að skyggja og það vakti athygli mína að í öðru hvoru húsi var fólk að kveikja á kertum í gluggum eða inn í stofum og mér varð á orði við minn elskulega hvað þetta væri eitthvað vinalegt.  Að sjálfsögðu voru lítil viðbrögð við þessari athugasemd minni, þótti örugglega of væmin til að svara eða þá að hann var svo mikið að keyra þessi elska, þið vitið þeir geta bara gert einn hlut í einu.

Mér alla vega fannst þetta mjög athyglisvert og fannst hvert ljós bjóða okkur velkomin til landsins.

Þegar ég síðan kom inn á hótel og opnaði tölvuna mína eftir nokkra daga hvíld blasti við mér ótal póstar frá bloggurum sem hvöttu fólk til þess að kveikja á kerti í gluggum.  Að gefa ljós til náungans og byrja snemma að undirbúa aðventuna með litlu kertaljósi í glugga.  Fræbær hugmynd og falleg!

Ég hef eflaust ekki mikinn tíma fyrir komment næstu daga hjá bloggvinum en ætla að setja inn færslu þegar tími gefst til.

Á morgun verður farið í uppáhalds búðirnar og síðan haldið heim með kvöldvélinni.

   

 


Skemmtilegur hittingur í Berlin annað kvöld.

Þá skal haldið heim á leið.  Ég komst að því í dag þegar ég var að pakka niður að ég þarf tilfinnanlega að endurnýja fataskápinn og ekki verra að vera fara heim því þá get ég ef til vill slegið tvær flugur í einu höggi, dressað mig upp og um leið lappað aðeins upp á gjaldeyrisskortinn í heimalandinu. 

Ég er alla vega harðákveðin í því að reyna að gera mitt besta.

En talandi um að pakka niður í ferðatösku, mikið óskaplega finnst mér það leiðinlegt verk.  Veit aldrei hvað ég vil hafa með mér, hvað er nauðsyn eða hvað er óþarfi.  Yfirleitt pakka ég óþarfa hlutum og borga svo yfirvigt fyrir allt draslið.

Þetta er bara til þess að búa til leiðindi á milli hjóna skal ég segja ykkur.

Var voða skynsöm núna, enda á ég ekkert til skiptana eins og ég var búin að segja.

Þar sem við vorum búin að ákveða að keyra til Berlinar um helgina þá slógum við bara til og keyptum okkur flugmiða frá Köben.  Þannig að við keyrum þangað og skiljum bílinn eftir og fljúgum þöndum vængjum heim með Icelandair ja svo framalega sem það eðalfélag verður lifandi á mánudaginn.

Annað kvöld verður skemmtilegur hittingur í Berlin en þá ætlum við að knúsa vini okkar Þráinn Bertelsson og frú Sólveigu alveg í klessu, en þau eru stödd þarna í borginni núna. Mikið rosalega hlakka ég til að hitta þau heiðurshjón og kryfja þjóðmálin til mergjar yfir góðum kvöldverði.

Þetta verður nú ekki skemmtiferð til heimalandsins í þetta sinn eins og þið vitið sem hafið lesið síðustu færslu mína en lífið heldur áfram ekki satt?

Kíki inn þegar ég má vera að næstu daga og glamra ef til vill líka á lyklaborðið.

Eigið góða helgi kæru vinir.

BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ !!!!!!!

 

 

 


Þankar úr fjarlægð.

Ég sit hér og horfi inn í kertalogann.  Það er myrkur allt í kring og það er myrkur í huga mínum. 

 Ég kveikti á kerti fyrir góðan vin okkar hjóna. Loginn flöktir, hann stendur líka kyrr og síðan flöktir hann aftur alveg eins og lífið sjálft.  Ég veit líka að það þarf ekki nema lítinn gust til að það slökni á loganum og engin fær neinu þar breytt, en ef ekki gustar þá fær kertið að brenna niður hægt og sígandi en því miður er ekki alltaf svo.

Ég horfi inn í logann og minningar liðinna ára koma upp í hugann, allar góðar.  Ég hugsa heim til æskuvinkonu minnar og það er svo sárt.  Vildi að ég gæti tekið utan um hana og faðmað að mér og veitt henni einhverja huggun.  Ég geri það í huganum og horfi inn í logann.

Doðinn sem heltók mig í morgun vill ekki hverfa.  

Á föstudaginn höldum við heim á leið.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband