Færsluflokkur: Bloggar
28.2.2009 | 13:18
Kærar þakkir Professor Pafko!
Bara til að láta ykkur vita að aðgerðin gekk vel og Professor Pafko mjög ánægður með Íslensku kerlinguna sem plummar sig ágætlega eftir að verða ,,lunganu léttari" (vona að þið getið tekið þessum gálgahúmor mínum) Ég hangi nú enn hér inn á gjörgæslu, var að vona að ég fengi að fara inn á ,,svítuna" mína í dag en þeir nenna örugglega ekki að vesenast í því svona á laugardegi svo ég verð víst að vera hér í ,,almenningnum" fram yfir helgi.
Mér líður miklu betur núna eftir að ég veit að búið er að fjarlægja litla ljóta græna karlinn sem var nú ekkert svo lítill, tók yfir hálft vinstra lungað. Svo er bara að berjast áfram.
Takk fyrir allar góðu kveðjurnar og hlýjar hugsanir. Það voru margir hér sem lögðust á eitt svo þetta færi allt vel, bæði þessa heims og annars. Alla vega sagði minn elskulegi að það hefði ekki verið hægt að þverfóta hér á göngunum fyrir ættingjum og vinum. Ég fann líka vel að við vorum ekki ein hér. Við vorum bæði mjög yfirveguð yfir þessu öllu.
Nú ætla ég að fara að lesa Moggann og sjá hvort ég hef misst af einhverju þessa daga.
Kem inn aftur í kvöld og e.t.v. með smá sögu héðan frá gjörgæslunni í Motol.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.2.2009 | 22:16
Þar sem forsjónin ræður færð þú engu um breytt.
Þá er þessi dagur að kvöldi kominn. Allt líður þetta án þess að þú þurfir að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því. Þannig er það bara í henni veslu.
Það er nú soleiðis að þar sem forsjónin hefur einu sinni sett mann niður, þar verður maður að standa í stykkjunum, hver eftir sínu litla pundi. Þessa setningu rakst ég á þegar ég var að glugga í Sölku Völku og fannst hún einhvern vegin eiga ansi vel við mig og allt sem hefur gengið á hér undanfarnar vikur.
Í fyrramálið fer ég eldsnemma upp á spítala, eða við verðum að leggja af stað héðan klukkan 6:30 (sem sagt hánótt hjá mér) en það tekur um klukkustund að keyra héðan frá okkur og í hinn enda borgarinnar. Dagurinn fer sjálfsagt í undirbúning fyrir skurðaðgerðina sem fer væntanlega fram á fimmtudags morgun.
Ég kem til með að hitta Professor Pafko í fyrsta skipti á morgun en hann kemur til með að framkvæma aðgerðina. Hann er einn færasti skurðlæknirinn hér á landi og skar Havel forseta upp á sínum tíma. Dr. Musil sem er lungnasérfræðingur og hefur fylgst með mér undanfarnar vikur kemur til með að vera í tíminu sem ætla að grafa eftir litla græna karlinum og losa mig við þann óþverra.
Mér fannst ég nú vera að pakka fyrir helgarferð áðan þegar ég lét ofan í tösku, handklæði, sápu, klósettpappír og fleira sem er nauðsynlegt fyrir konu að hafa með sér að ógleymdum fínu náttfötunum. Ekki það að það sé ekki sápa eða WC pappír til boða á sjúkrahúsinu en mér var ráðlagt að taka minn pappír, hitt sem í boði væri kæmi til með að rispa jafnvel minn dúnmjúka bossa.
Það er búið að lofa mér einkastofu sem ég vona að ég fái. Það væri ekki nema að inn kæmi sjúklingur í lungnafluttning þá verð ég að láta stofuna eftir sem er auðvitað ekkert nema sjálfsagt.
Ég veit ekki hvort ég verð tölvutengd næstu daga eða vikur svo ég vil nota tækifærið núna og þakka ykkur öllum sem stutt hafa mig undanfarnar vikur. Allar hlýju kveðjurnar og góðar hugsanir. Þetta hefur verið mér ómetanlegur stuðningur.
Stórt kærleiksnús á ykkur öll og blessun Guðs fylgi ykkur öllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
23.2.2009 | 21:08
Búið að taka af mér ráðin og fata mig upp fyrir miðvikudaginn.
Ég er ein af þessum pjöttuðu konum sem sef ekki nema í silki og helst með svona smá blúnduverk hingað og þangað. Náttföt eru ekki í myndinni já nema þá stuttar buxur og ermalausir toppar það gengur. Mér finnst bómullarnáttföt þvílíkt ósexý svo ég hef nú ekki átt slíkan fatnað síðan ég var krakki og hafði ekki ætlað mér að fjárfesta hvað þá að klæðast slíku dóti.
En í dag voru tekin af mér ráðin.
Það er nú búinn að vera smá undirbúningur fyrir þessa bæjarferð í dag, ja alveg síðan dóttir okkar kom til að stjórna heimilinu.
Hún tilkynnti mér fljótlega eftir að hún kom að ég gæti ekki verið í mínum silki náttfötum á spítalanum það væri algjört must að kaupa ekta bómullarnáttföt og við færum í þann leiðangur á mánudaginn, sem sagt í dag.
Ég fékk svona vægt áfall bara við tilhugsunina að fara að klæðast einhverjum rósóttum náttfötum frá M & S eða álíka magasíni. Reyndi alveg eins og ég gat að mótmæla og reyna að koma henni í skilning um að mér myndi ekki festast blundur á brá í einhverju sem héti bómull. Hvort hún vildi verða þess valdandi að móðir hennar yrði dópuð öll kvöld með svefnlyfjum þarna á spítalanum. Svo yrði mér svo heitt í svoleiðis múnderingu og gæti fengið útbrot og því fylgdi kláði.
Alveg sama hvað ég reyndi að streitast á móti bómull skildi það vera. Svo miklu þægilegra ég ætti eftir að þakka henni eftir á og blablablabla.... Ég gafst auðvitað upp og í dag var FARIÐ MEÐ MIG til að kaupa náttföt eftir að hún hafði samþykkt að ég fengi að velja verslunina. Ég færi ekki inn í eitthvað magasín hér, ekki að ræða það! Svo það var keyrt niður á Prarizka og þar voru keypt tvenn BÓMULLARNÁTTFÖT!!! en elskurnar mínar ég fann sko náttföt sem voru með fyrirkomulagi eins og það heitir á Jennísku. Pínu silki hér og smá dúllerí þar, bara ansi ,,lekker" fyrir bómullardress. Þannig að ég tapaði ekki alveg baráttunni við mitt sjálfstæði.
Á eftir fórum við saman mæðgurnar í hádegismat og síðan var keyrt heim þar sem úthaldið er nú ekki meir en þetta.
Já gleymdi að segja ykkur að það átti líka að rífa af mér inniskóna.
- Sko mamma þú ferð ekki með þessa skó.
- Nú hvers vegna ekki?
- Vegna þess að þeir eru með hæl.
- Hæl? Þetta kallar maður nú ekki hæla elskan, bara svona smá lyftingur
-Alveg sama þú kaupir flatbotna.
Þá fékk ég allt í einu stuðning frá mínum elskulega. -Já en mamma þín hefur aldrei getað gengið á flatbotnuðu.
Ég hefði getað knúsað hann í tætlur enda var ekki oftar minnst á skókaup svo ég fer með mína góðu inniskó.
Nú er kominn svefntími á þá gömlu og býð ég ykkur öllum góðrar nætur og Guð geymi ykkur öll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2009 | 10:35
Helgin leið eins og dögg fyrir sólu.
Það var vel hugsað um konurnar á þessu heimili í gær. Þórir minn snerist í kring um okkur mæðgurnar allan daginn og við nutum þess að láta hann stjana við okkur.
Þrátt fyrir að minn elskulegi sé eðal kokkur þá er hann ekki besti bakari í heimi. Hann var allur að vilja gerður í gærmorgun og vildi ólmur baka bollur í tilefni dagsins. Þar sem ekki var til nóg smjör í húsinu brá hann á það ráð, þrátt fyrir einróma mótmæli frá okkur mæðgum, að nota smjörva. Það hlyti að koma í sama stað niður sagði hann. Þið sem hafið bakað vatnsdeigsbollur vitið alveg hvernig deigið á að vera. Hans varð pínu öðruvísi, en ekki gafst hann upp skellti einni plötu í ofninn og út komu tvíbökur. Þá skellti hann aðeins meira hveiti í hræruna og prófaði í annað sinn. Sko aldrei að gefast upp, útkoman varð hin sama svo þetta endaði því miður í ruslinu. Æ,æ ég vorkenndi honum pínu hann vildi svo vel.
Annars leið helgin allt of fljótt. Á föstudag fórum við mæðgur í göngutúr hér í nágrenninu. Mér fannst ég vera voða dugleg en fann fyrir því daginn eftir. Fór aðeins of langt og geyst.
Í gær bauð Þórir okkur í nudd á Hotel Mandarin sem ég varð því miður af vegna þess að nuddarinn tók engan séns á sjúkling eins og mér. Ég skal viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum en skildi afstöðu nuddarans og lét mig bara dreyma um gott nudd á meðan ég beið eftir Soffu minni og mínum elskulega. Iss ég á þetta bara inni, ekkert mál.
Á eftir var okkur svo boðið í mat á Mandarin og ég var bara mjög dugleg að borða. Sem sagt frábær konudagur með dóttur og eiginmanni.
Ég er ansi löt að kommentera hjá ykkur bloggvinir mínir. Ég fylgist samt með ykkur öllum á hverjum degi.
Sendi ykkur öllum sem kíkja hér inn hlýjar kveðjur héðan úr sveitinni og snjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.2.2009 | 19:35
Litla hryllingsstofan
Á meðan ég bíð eftir því að Soffía min komi hingað til mín, en hún er væntanleg frá Köben núna klukkan hálf niu, þá ætla ég að nota tímann til að setja hér inn nokkrar línur.
Get varla beðið eftir að fá að knúsa stelpuna mína sem ætlar að vera hér hjá okkur í nokkra daga mömmu sinni til skemmtunar.
Ég hef sagt það hér áður að ég hefði verið alveg hræðilega á móti allri læknaþjónustu hér alveg frá því að ég varð nauðbeygð að fara til tannlæknis árið 1991. Síðan við fluttum hingað höfum við sem betur fer verið fílhraust og lítið sem ekkert orðið að nota þessa þjónustu. En svo þið skiljið aðeins betur hvað ég er að fara þá ætla ég að skella hér inn tannlæknasögunni frá sumrinu 1991.
Ég vaknaði um morgun og fann að ég var komin með bullandi tannrótarbólgu. Ég var búin að hafa vandamál með tennurnar mínar í nokkur ár og tannrótarbólga ásamt tannlosi var ansi leiðinlegur kvilli.
Jæja hugsaði ég nú verð ég víst að biðja einhvern að leita fyrir mig að tannlækni því ekki get ég verið svona lengi. Ég kom mér niður á skrifstofu og spurði bókarann okkar hvort hann vissi um einhvern góðan tannlækni sem gæti tekið mig inn í einum grænum. Árið 1991 var ekki búið að opna nein einkaklinik og þeir útlendingar sem hér bjuggu leituðu yfirleitt á heimaslóðir eftir aðstoð ja nema í neyð og þetta var algjört neyðarúrræði hjá mér.
Eftir nokkur símtöl sem hvert um sig tóku um hálftíma, Tékkar verða alltaf að ræða málin rosalega mikið og allir vita best, fann Mr. Pikous loksins tannlækni sem gat tekið mig strax.
Þegar ég kom á stofuna fékk ég fyrsta sjokkið. Hvert sæti í biðstofunni var skipað. Fólkið hálf húkti á stólunum og sumir jafnvel dottuðu. Einn gluggi var í enda herbergisins en það sást ekkert út fyrir stórum lufsulegum pottaplöntum, þið vitið þessar gúmmíplöntur sem ég skil ekki hvernig fólk getur haft nálægt sér. Ég fæ alltaf hroll þegar ég sé svona plöntur á læknastofum. Sem betur fer er þetta alveg að verða liðin tíð.
Mr. Pikous (bókarinn okkar) gekk beint að dyrunum og bankaði. Eftir dálitla stund var opnað og viti menn okkur hleypt inn á undan öllum hinum. Þarna var örugglega búið að múta fyrir fram þó ég gerði mér nú ekki grein fyrir því á þeirri stundu.
Þá kom annað sjokkið. Við mér blasti tannlæknastóll á miðju gólfi örugglega frá 18. öld. Brúnt leðrið var næstum flagnað af, stálskemill fyrir fæturna og höfuðpúðar þið vitið eins og eyrnaskjól. Þarna átti ég að leggjast og vegna þess að ég er svo asskoti samvinnuþýð eða ég var hreinlega ekki alveg með sjálfri mér settist ég í þennan antik stól og opnaði munninn. Ég man að mér fannst ég vera í pintingarstól þar sem eyrnaskjólin þrýstu svo fast að höfðinu að mig sundlaði.
Um leið og tannlæknirinn sem var sjálfsagt svona milli fimmtugs og sextugs beigði sig yfir mig var ég næstum köfnuð úr svitafýlu og brennivínslykt. Ég opnaði samt munninn, alltaf jafn samvinnuþýð og hann skoðaði eitthvað upp í mig. Hann rétti síðan úr sér og sagði eitthvað á tékknesku við Mr. Pikous sem stóð þarna til hliðar eins og öryggisvörður. Mr. Pikous túlkaði síðan. Það yrði að rífa allar tennurnar úr mér, hverja og einu einustu. Ekki seinna en núna!!!
Það var eins og ég vaknaði úr dvala ég hentist upp úr pintingartækinu og skipaði fyllibyttunni að skrifa upp á penesillin og nóg af því og með það rauk ég á dyr án þess svo mikið sem borga krónu enda hann örugglega búin að fá allt of mikið fyrir sinn snúð.
Eftir þessa lífsreynslu hjá tannlækni fór ég reglulega heim þar til ég fann Dr. Kuvik en það var nokkuð mörgum árum seinna sem mér var bent á hann af Austurrískum vini okkar hjóna. Það er honum að þakka að ég get enn brosað án þess að vera hrædd um að missa allt út úr mér.
Þá er þessari sögustund lokið að sinni. Eigið gott kvöld kæru vinir.
Soffa mín er alveg að lenda og þá verður hún komin í fangið á mér eftir klukkustund eða svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.2.2009 | 08:26
Taktu svo bara tramm númer 27 hann stoppar rétt hjá....
Minn góði læknir ,,Dr. House" sagði við mig um daginn: Þú verður að gera þér vel grein fyrir því að þú ert að leggjast inn á Tékkneskan spítala þar sem fáir tala ensku eða þýsku og viðbúnaður er allur annar en þú ert vön að sjá annars staðar. Síðan rétti hann mér kortið sitt og sagði - þú bara hringir í mig ef þú þarft á túlk að halda. Mér létti stórum skal ég segja ykkur.
Oftsinnis hef ég sagt að aldrei skildi ég leggjast inn á spítala hér í Tékklandi en maður á víst aldrei að segja aldrei og hér urðum við að bregðast fljótt við svo það eiginlega gafst engin tími til umhugsunar. Það einkennilega við þetta er að ég er mjög sátt við þessa ákvörðun okkar.
,,Dr. House" hefur leitt mig í gegn um þetta og hann hafði strax samband við færustu læknana hér svo ég veit ég er í góðum höndum.
Ég las um daginn grein þar sem einhver var að kvarta undan vegalengdum á göngum spítalana heima á Íslandi þegar fólk væri að fara í rannsóknir. Biðsalirnir væru svo ómanneskjulegir. Ég gat nú ekki annað en brosað þetta fólk ætti að vera komið hingað.
Undanfarnar vikur er ég búin að endasendast borgarhluta á milli, ein rannsókn hér önnur þar. Hef nú verið heppin þar sem ég hef bílstjóra og oft hugsað til allra þeirra sem verða að fara með tramminum eða strætó, fársjúkt.
Ég hef alltaf fengið leiðavísi með mér frá aðstoðarkonu Dr. House og hún alltaf boðin og búin til að segja mér hvaða tramm ég eigi að taka þrátt fyrir það að ég væri marg búin að segja henni að ég væri á bíl þá fannst henni bara svo eðlilegt að fólk notaði þjónustu borgarinnar, brosti alltaf voða sætt og sagði´- já en hann stoppar alveg rétt hjá......
Nú læt ég þetta duga hér í bili kem aftur seinna í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.2.2009 | 14:38
Litli ljóti græni karlinn sem fékk á sig skeifu og meig niður úr.
Eftir að vera búin að fara marga hringi með rússibananum undanfarnar þrjár vikur er ég loksin komin með bevis í vasann upp á það að ekkert sé til fyrirstöðu svo hægt sé að skera ljóta græna karlinn í þúsund einingar og henda út í hafsauga. Eitthvað verð ég vist að sjá eftir meiru en karlskömminni en ég hef það alveg af.
Nú spyrja margir af hverju ég tali um grænan karl en það er vegna þess að mig dreymdi draum um daginn þar sem ég skyrpti út úr mér ormum og í restina litlum grænum kalli sem var ekki stærri en helmingur litla putta. Hann leit út eins og Golem, lítill feitur samanrekinn óþverri eða eins og japanskur stríðsmaður, veit ekki alveg hvort. Ég hirti hann upp og lét í plastpoka og lokaði þéttingsfast, þá setti hann upp skeifu og síðan pissaði hann niður úr og með það vaknaði ég.
Þess vegna tala ég um litla ljóta græna karlinn.
Ég hef alla tíð verið hraust og eins og ein góð vinkona mín orðaði það eftir einni sem svipað er ástatt fyrir: Maður verður að vera djöfulli heilbrigður til að fá krabbamein. Ég held að það sé nokkuð til í því.
Þórir minn sagði við mig í dag þar sem við vorum á leið úr síðustu rannsókninni fyrir uppskurð: Þessar þrjár vikur eru búnar að vera mikill skóli og það er hverju orði sannara.
Núna hef ég viku til að undirbúa mig eins vel og ég get. Borða vel, sofa og hreyfa mig eins og hægt er. Það er líka skært ljós með mér núna á hverjum degi sem hjálpar mér að komast í gegn um daginn og er það ómetanlegur styrkur.
Ég segi ykkur líka e.t.v. nokkrar skondnar sögur næstu daga ef þið eruð góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.2.2009 | 14:12
Sogamýri - Rafstöð
Rosalega er nú pirrandi þegar maður klúðrar ómerkilegum hlutum eins og að baka eina smá klessu handa sínum elskulega á Valentínusardaginn en ég hafði það af í gærkvöldi. Ef til vill var ég bara orðin of þreytt eftir daginn til að vera með fulla athygli við kökugerð. Ætti ef til vill að reyna aftur í dag, sé til.
Annars áttum við gott kvöld saman í gær. Ég afþakkaði að fara út að borða svo við höfðum það bara notalegt hér. Eftir matinn settumst við að hljóðskrafi og eitt af því sem við ræddum voru strætóferðir á okkar yngri árum.
Við fórum að minnast gömlu vagnanna með vinalegum´strætisvagnastjórum sem opnuðu með sveif hurðarnar. Stóru peningabaukunum sem voru gulir að mig minnir. Háir hlunkar sem mjókkuðu aðeins upp að ofan. Bílstjórinn sem ýtti á þar tllgerðan hnapp ofan á geispunni og maður gat heyrt þegar klinkið féll niður. Málmkennt hljóð ef baukurinn var hálftómur annars lægra og dempaðra.
-Allir úr að aftan var viðkvæðið hjá bílstjórunum en ekki -allir út að aftan. Eða þannig er það í minningunni og um háannatímann þegar fólk var að fara til og frá vinnu hljómaði oft úr barka bílstjórans - færið ykkur aftar í vagninn. Þarna stóð maður oft eins og síld í tunnu og ég man hvað mér leið oft hræðilega illa þar sem ég var svo lyktnæm og fann fúkkalykt af manninum við hliðina eða fiskifýlu af konunni sem var að koma úr frystihúsinu. Úff, eins og þetta hafi gerst í gær.
Við hjónin vorum lítillega að karpa um heiti vagnanna og ég stóð í þeirri meiningu að ég hefði alltaf tekið leið átta. Hann stoppaði í götunni heima og ég tók hann á hverjum degi til og frá Ísaksskóla svo og ef ég fór til ömmu minnar á Flókagötuna. Þórir vildi meina að ég hefði tekið Sogamýri - Rafstöð og eftir smá vangaveltur komumst við auðvitað að því að ég hafði rétt fyrir mér. Hef alltaf rétt fyrir mér, eða þannig hehe
Það getur svo sem verið að vagninn hafi heitið eitthvað í áttina við Bústaðarhverfi, Smáíbúðarhverfi en ég bara man eftir leið átta og síðan leið 18 sem var hraðferð og kom löngu seinna. Þórir aftur á móti tók Sogamýri - Rafstöð þar sem hann er Vogavillingur og engin annar vagn farin að keyra nálægt Karfavoginum í þá daga.
Er búin að fara í stuttan göngutúr í dag en ekki fór nú gamla langt en fór þó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.2.2009 | 12:01
Stórt verkefni framundan.
Hann kom á móti mér, hröðum skrefum og studdi si g við staf. Tók þéttingsfast í höndina á mér og bauð mér inn í hvítmálað snyrtilegt herbergi og spurði hvað hann gæti gert fyrir mig. Ef ég hefði ekki vitað betur þá hefði ég haldið að ég væri stödd í miðjum Dr. House þætti. Allt hans fas minnti mig óneitanlega á Dr. House og göngulagið var það sama.
En ég vissi betur, hér var engin amerískur læknaþáttur í gangi hér stóð ég frammi fyrir bláköldum raunveruleikanu og ekkert fengi því breytt.
Stunum veit maður innra með sér að ekki er allt eins og það ætti að vera og er jafnvel búin að undirbúa sig í huganum fyrr en skellur í tönnum. Það er óneitanlega samt alltaf jafn erfitt að fá þetta beint í æð.
Minn góði ,,Dr. House" brást strax við og sendi mig áfram í viðeigandi rannsóknir og til sérfræðinga sem því miður komust að sömu niðurstöðu.
Það er stórt og mikið verkefni framundan en ég hef trú á því að við komumst í gegn um það eins og allt annað. Tökum bara einn dag í einu og vinnum eins vel og hægt er og höfum trú, von og kærleik að okkar leiðarljósi.
Það tók mig nokkra daga að komu þessu hér inn en nú er ég búin að brjóta ísinn og líður betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
31.1.2009 | 20:40
Jóhanna hósanna, Hanna Hanna hó sanna hó sanna Jóhanna.
Þrátt fyrir að allt snúist í höfðinu á mér þessa daga þá er ég að reyna að fylgjast með því sem er í gangi þarna heima og núna áðan vorum við að fylgjast hér með Spaugstofunni sem hefur ekki fallið mér í geð undanfarin ár en asskoti hafi það, þeir voru snjallir í byrjun og enduðu vel strákaskammirnar.
Takk fyrir að strákar að létta mér lundina og koma út smá hlátri. Það þarf stundum svo agnarlítið til að gleðja sálartetrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)