Færsluflokkur: Bloggar
27.1.2009 | 13:15
Það var og.....
Hér í sveit er engin ofsakæti og fjör upp um alla veggi né heldur grátið hryggðartárum. Það eina sem hægt er að gera núna er að bíða og sjá til hvað gerist á næstu dögum. Það verður ekki auðvelt fyrir þetta góða fólk að finna rétta tóninn og ég held hann sé alla vega ekki þar sem þau leita fanga.
Ég veit ekki með ykkur en tókuð þið eftir uppsetningunni fyrir blaðamannafundinn? Þessi stóll er ekki þarna eingöngu til að lífga upp á sviðsmyndina heldur af ásettu ráði. Ingibjörg Sólrún er hörkukella það verður ekki af henni skafið. Farðu samt vel með þig. Það er engin ómissandi og kemur alltaf maður í manns stað.
Falið að mynda stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.1.2009 | 11:18
Öðruvísi mér áður brá
Hvað ef hér væri ekki nettenging aðeins sími sem væri hleraður og faxtæki sem virkaði eftir dúk og disk? Væri bara ekki lífið auðveldara? Alla vega væri umræðan á heimilinu ekkert í líkingu við það sem hún er í dag.
Ætli það séu nema þrjú ár síðan við fengum almennilega nettengingu. Áður komu íslenskar fréttir í stakato útfærslu sem engin nennti að fylgjast með. Okkar fréttasöð var CNN og Sky og við vorum sátt við það. Fréttir að heiman bárust með vor og haustskipunum ef svo má segja. Einstaka sinnum var síminn notaður en þá sérstaklega til að fylgjast með ættingjum heima. Og okkur fannst við ekkert vera utanveltu, fannst jafnvel þegar við komum heim að fólkið talaði um það sama og síðast þegar við litum við. Sem sagt allt í ró og spekt og himnalægi.
Í dag glymja hér þrjár íslenskar útvarpstöðvar í takt við hvor aðra þ.e. Rás eitt og tvö og Bylgjan allan liðlangan daginn. Tvær heimilistölvur eru rauðglóandi svo liggur við að þær brenni yfir einn daginn. Síminn hringir í tíma og ótíma. - Ertu að horfa á sjónvarpið? -Hvað finnst þér? Vááááá.......
Umræðuefnið á heimilinu, ja hvað haldið þið? Ekki það að ég taki ekki líka þátt í þessu, o svei því, jú ég geri það af fullum krafti, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Núna t.d. bíð ég í ofvæni eftir nýjustu fréttum að heiman. Horfi á klukkuna og bíð eftir ellefu fréttum. Andsk......... verð að fara að hætta þessu ég hvort eð er breyti engu um ástandið.
Sko vissi ég ekki, ýtti ,,alveg óvart" á plús takkann. Ekkert fréttnæmt, bíða til klukkan tólf!
Vildi óska þess að það væri komið vor. Ég er ekki janúar-febrúar manneskja. Vildi helst leggjast í hýði eins og björninn.
En nú er bara að þreyja Þorrann og líta á björtu hliðarnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.1.2009 | 23:13
Frábær landkynning eða hitt þó heldur!!!!!
Ég var að renna yfir nokkur blogg hér áðan og þvílíkur sori sem fólk er búið að láta út úr sér!
Ég bara trúi því ekki að sumir landar mínir séu svona illgjörn og miklar mannleysur! Margt af því sem ég hef lesið er svo ótrúlega ómanneskjulegt að ég er farin að skammast mín fyrir að vera skyld þessari þjóð. Og það er sárt að þurfa að segja það.
Þessi kona sem hér talar við AP fréttastofuna má skammast sín!
Ég hlustaði á Hörð í dag og trúði varla mínum eigin eyrum, hélt ekki að hann gæti látið svona frá sér fara. Ég bjóst við afsökunarbeiðni strax á eftir vegna þess að öllum getur orðið á í messunni en það hefur ekki heyrst stuna né hósti.
Sýnið samhug ágætu landar hvort sem er í baráttu eða veikindum. Þið vitið aldrei hver verður næstur.
Ekki farin að finna til með honum ennþá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.1.2009 | 14:09
Bestu kveðjur héðan frá Prag.
Við hjónin sendum þér Geir minn okkar bestu kveðjur með ósk um góðan og skjótan bata. Hugsum til ykkar Ingu Jónu á þessum erfiðu tímum.
Geir: Kosið í maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.1.2009 | 19:47
Loksins ásættanlegt nafn. Næstum búin að sætta mig við þetta þökk sé 5. - 7. bekk grunnskóla.
Þegar ég var heima í haust og barnabarnið var á leið út í leikskólann lét faðir hans einhverja dulu yfir höfuðið á blessuðum drengnum. Ég reyni alltaf að skipta mér sem minnst af en þarna gat ég ekki orða bundist og spurði:
-Hvað er þetta eiginlega?
-Þetta er Buff
-Buff hvað?
-Bara Buff
-Og á drengurinn að far út með þetta á höfðinu?
-Já af hverju ekki, það eru allir með svona í leikskólanum, þetta er inn.
Hugsaði já en barnið er tveggja ára veit ekkert hvað er inni eða úti. Þetta er sem sagt inn hjá foreldrum.
-Já er það sagði ég og hverju á þetta lufsuverk að skýla, það er við frostmark úti
-Hann er með aðra húfu í skólanum.
Amman þagði en hugsaði aumingja barnið hann lítur út fyrir að vera niðursetningur með þennan skræpótta skýluklút. Lítur út eins og förukerling.
Það skal tekið fram að á meðan ég dvaldi á heimilinu og fór út með drenginn á meðal fólks var buffið týnt og tröllum gefið.
Haldið þið ekki að minn elskulegi hafi keypt sér svona buff þarna uppi á LOST landinu en það hvarf líka með óskiljanlegum hætti sko áður en við komum heim.
Ég skil núna og veit að það var nafnið á þessu þarfa háls, eyrna og höfuðskjóli, sko auðvitað var ég frædd um gildi buffsins, sem fór svona hrikalega fyrir brjóstið á mér.
B U F F ! Lindu, Góu eða hakkað buff langaði mig nefnilega til að spyrja. Ónefni sem ég bara sætti mig ekki við og þ.a.l. þoldi ég ekki þennan höfuðbúnað. Einfalt mál.
Skjóla merkir jú fata en getur líka merkt skjól ef við horfum fram hjá öllum sólarmerkjum.
Er næstum búin að sætta mig við að börn gangi með þennan skýluklút um höfuð.
Höfuðfatið heitir skjóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
22.1.2009 | 11:25
Ég horfi úr fjarlægð......
... og spyr er þetta nauðsynlegt? Að rífa upp gangstéttarhellur og mylja niður til að kasta að vörðum laganna, að kveikja í bekkjum og öðru rusli í miðborginni til að vekja athygli á málstaðnum? Þökkum fyrir að veður hefur verið skikkanlegt, hvað ef eldur hefði borist í nærliggjandi hús miðbæjarins? Hefði það líka verið afsakanlegt?
Í fyrradag um það leiti sem mótmælin byrjuðu á Austurvelli var ég að tala við góða vinkonu á Íslandi og hún sagði mér að nú væri fólk að róast og það væri farið að taka allt öðru vísi á málunum. Reiðin væri horfin, algjörlega horfin og fólk farið að hugsa um úrræði í stað þess að skammast út í allt og alla. Gott mál hugsaði ég.
Nokkrum tímum síðar er kveikt í gjöf Norðmanna, sem borgin hefði auðvitað átt að vera búin að fjarlægja fyrir löngu og nokkrir uppvöðsluseggir vaða fram með offorsi. Helga Vala sýnir okkur hvernig á ekki að koma fram og fer að leita að ,,barninu" sínu. Ellefu ára drengur er fjarlægður af staðnum á meðan móðirin situr á bekk og getur hvorki hreift legg né lið og bölsóttast síðan út í verði laganna fyrir fjarlægja drenginn, hann hefði haft rétt á að mótmæla eins og allir aðrir. Hvað ef hann hefði orðið undir glerregni ef einhver af þessum stóru rúðum sem hann stóð hjá hefði brotnað og rignt yfir hann? Halló!
Manni gjörsamlega fallast hendur við það að fylgjast með fréttunum að heiman og ekki hvað síst þegar ég rúllaði yfir nokkrar bloggsíður í gær þar sem sumir voguðu sér að fordæmdi þessa framkomu mótmælenda fékk það yfir sig þvílíka yfirhalningu, það ætti bara að hundskast niður á Austurvöll í stað þess að sitja heima í sófa, kreppan hefði auðsjáanlega ekki knúið dyra hjá því og þar fram eftir götunum.
Tók eftir því í gær að ef þú vogaðir þér að skrifa orðið skríll, ómenning hvað þá unglingar fékkstu það óþvegið til baka. Þú varst bara auminginn sem sast heima eða vannst þína vinnu á þínum vinnustað og mótmælendur væru ekki að standa vaktina fyrir þig.
Annars held ég að augu margra séu að opnast sbr. viðtal við konu í morgunútvarpinu í morgun sem var auðheyranlega ein af þessum friðsömu mótmælendum. Konan sagðist hafa verið þarna fyrr um daginn og þegar hún var spurð hvers vegna hún væri hér núna aftur í kvöld sagði hún: Ég vildi bara sjá þetta með eigin augum. Og þetta er ekkert annað en samankominn skríll.
Og áður en þið byrjið á því að hella ykkur hér yfir mig þá vil ég endilega benda ykkur á að standa nú ekki neina vakt fyrir mig, ef ég væri heima myndi ég hugsanlega standa þarna með þeim 90% friðsömu mótmælendum sem hafa sýnt og sannað að það hefur verið hlustað.
Það er alveg deginum ljósara að breitinga er þörf. Þetta ástand gengur varla mikið lengur og ég held að ríkistjórnin og aðrir ráðamenn séu búin að meðtaka skilaboðin.
Megi þið eiga góðan og friðsaman dag kæru landar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.1.2009 | 13:58
Lítil fátæk þjóð sem allir vilja heimsækja.
Síðan gáfu þeir honum að éta af því þeir sögðu að Íslendingar þyrftu alltaf að lifa á bónbjörgum frá útlendum þjóðum annars dræpust þeir skrifaði skáldið.
Um daginn var ég spurð hvort ég ætlaði ekki að fara aftur með hóp héðan til Íslands. Við þyrftum örugglega á öllu að halda núna þar sem landið væri farið á hausinn. Þetta kom svona eins og köld gusa framan í mig. Ja það er nú ekki farið á hausinn sagði ég og innra með mér sauð reiðin.
- já en er ekki rosalega gott fyrir ykkur að fá útlendinga núna með gjaldeyri og lappa aðeins upp á aumingjaskapinn. (tek fram þetta var ekki svona orðrétt en næstum því)
´-jú sjálfsagt er það það svaraði ég en ég hef nú ekkert pælt í því að vera með skipulagðar verslunarferðir heim. En ef þú hefur áhuga á landinu sem slíku og ferðast um þá gæti ég hugsanlega aðstoðað þig með ferðaplan en ekki það að ég sé að fara með hópa heim núna á næstunni.
Ef til vill snýst mér hugur. Ef til vill ætti ég að fara að skipuleggja ferðir heim. Ef til vill getur það hjálpað upp á efnahagslífið. Alla vega sýnist mér vera mikill áhugi hjá þessum útlendingum sem búa hér í Tékklandi. Hvort það er til þess að kynnast okkar fallega landi eða til að geta sagt að það hafi séð þessa guðsvoluðu þjóð veit ég ekki.
Vitna hér í skáldið okkar aftur:
Við Íslendingar erum lítil og fátæk þjóð, og allir útlendingar halda að við séum skrælíngjar og þess vegna hef ég alltaf sagt: Ef við getum einhverja ögn af einhverju tagi, alveg sama hvað lítið það er, þá eigum við að gera það í augsýn als heimsins.
Ísland eitt það heitasta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.1.2009 | 19:53
Fundinn fjársjóður - Minning.
Fyrir nokkrum árum flutti móðir mín í þjónustuíbúð eftir að hafa búið í nær fimmtíu ár á sama stað. Það kom í hlut eldri bróður míns að losa háaloftið þar sem faðir okkar, þá látinn fyrir tíu árum, hafði eitt mörgum stundum án þess að nokkur vissi í raun hvað hann hafðist við. Þetta var svona hans prívat vistavera frá skarkala heimsins.
Þarna uppi kenndi margra grasa og þar á meðal gömul sendibréf skrifuð af föðurafa okkar og ömmu svo og systur pabba. Þessi bréf eru skrifuð á árunum 1925 - ´30.
Nú hefur Kjartan bróðir minn tekið sig til og endurritað nokkur af þessum bréfum og fékk ég þau send á mailinu um daginn. Ég verð að segja ykkur að þetta kom virkilega við viðkvæma strengi. Ég kynntist aldrei þessum afa mínum því hann dó þegar faðir minn var 12 ára. Eitthvað sat í mér frá bernsku að afi minn hefði dáið úr krabba en eitt bréfið sem skrifað er af bróður hans lýsir veikindunum eins og heilablóðfalli. Við fáum víst aldrei úr því skorið.
Föðurfólk mitt hefur verið mjög vel skrifandi og stílfæring er svo lifandi að maður sér hlutina ljóslifandi fyrir sér. Jafnvel 17 ára systir pabba míns sem þá lá á Franska spítalanum (1925) skrifar mjög greindarlega og þar kemur svo vel í ljós að hún hugsaði meir um fjölskylduna heldur en sín veikindi. Hún talar um að hún hafi keypt pund af garni í peysu og sokka handa systkinum sínum en það komi ekki fyrr en með haustinu. Eina sem hún kvartar yfir er heimþrá og vondur matur á spítalanum en allir séu svo góðir við sig. Þessi frænka mín dó ári seinna úr berklum þá aðeins sautján ára.
Skemmtilegasta bréfið fannst mér það sem afi minn skrifar 1930 til ömmu minnar þar sem hún dvelur í Reykjavík hjá Dísu dóttur sinni sem þá var komin með berkla.
Þá er hann einn í Vík með föður minn átta ára og talar um að strákurinn borði vel. Fái grjónagraut í middag og kvöldmat. Einnig fái hann annað gott með og fullt af nýmjólk. Hann sé farinn að vinna (sem sagt faðir minn) við að tálga hökk af girðingastaurum og fái 5 aura á stykkið. Hann kvarti ekki um fótkulda enda hafi afi þæft sokkana hans vel áður en verkið hófst. Finnst ykkur þetta ekki yndislegt?
Á öðrum stað talar afi minn um að enginn þurfi að svelta á heimilinu um jólin því nóg sé til af mat. Full tunna af kjöti, 9 rúllupylsur, 7 reykt læri, vel full tunna af Fýl og tunnu af blóðmör. Fyrir utan fisk og mjólkina sem sjálfsagt kom þá frá Suður Vik. Alsnægtaheimili sum sé.
Þegar þessi bréf eru skrifuð eru flest þeirra börn, afa og ömmu flutt til Reykjavíkur. Pabbi var orðinn einn eftir heima þegar faðir hans dó 1933 að ég held. Eftir það flutti amma á mölina með pabba. Tvær systur pabba dóu ungar önnur úr barnaveiki (held ég) hin út berklum. Sjö komust til manns.
Systkinum föður míns sem öll eru látin varð ekki margra barna auðið. Við vorum 9 frændsystkinin og erum nú aðeins fimm eftirlifandi. Systur pabba sem voru þrjár eignuðust aldrei börn en tóku okkur frændsystkinin að sér eins og þeirra eigin.
Þetta var stórhuga fólk, stolt með afbrigðum en með hjartað á réttum stað.
Takk fyrir Daddi minn að hreinrita þennan ómetanlega fjársjóð.
Blessuð sé minning afa míns og ömmu Kjartans Finnbogasonar og Ingibjargar Jóhannsdóttur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.1.2009 | 18:32
Nú er hún alveg búin að missa það hugsa sumir....
Þið sem hafið lesið færsluna mína hér neðar á síðunni þar sem ég talaði um ítarlegar rannsóknir þar sem kaffi getur valdið ofskynjun og maður færi að heyra raddir þá sannprófaði ég þetta hér í morgun á leiðinni til hundrað turna borgarinnar.
Eftir að hafa hvolft í mig tveimur lútsterkum expresso var ég glaðvöknuð. (Er ekkert svona morgunmanneskja í janúar) Já, nei auðvitað henti ég ekki þessari fínu kaffikönnu út á hlað, það er bannað að taka mig svona alvarlega þegar ég bulla.
OK hvar var ég , já sem sagt klukkan var hálf tíu (hrikalega ókristilegur tími, enn nótt hjá mér) og ég keyrði mig niðr´í borg. Þar sem ég var komin langleiðina inn í borgina fór að hægjast á umferðinni svo ég renndi rúðunni aðeins niður mín megin. Þarna eru fjórar akreinar og ég var á þeirri ystu vinstra megin. Þarna dólaði ég góða stund á eftir hinum bílunum sem allir voru að fara í sömu átt og ég. Mín orðin aðeins of sein á fundinn og komin svona smá ergelsi í kroppinn.
Þá allt í einu heyri ég blístur. Ekki beint laglínu en mjög melódíska tóna. Mér fannst þetta koma úr aftursætinu og leit ósjálfrátt við um leið hugsaði ég: Ertu að verða vitlaus eða hvað það er enginn þarna aftur í. Hugsa rökrétt. Hljóðið hlýtur að koma úr einhverjum bíl hér við hliðina á mér og þar sem ég veit að blístur flyst betur en söngur rúllaði ég rúðunni alveg niður og stakk hausnum út. Nei þetta kom innan úr bílnum. Ég rúllaði rúðunni upp og enn hélt blístrið áfram. Fagrir tónar en engin laglína.
Ég hristi hausinn vel og stakk puttanum á kaf í eyrað. Nuddaði vel og vandlega en blístrið hélt áfram úr aftursætinu. Ég endurtók þetta með rúðuna upp og niður, stakk hausnum út en allt kom fyrir ekki það var einhver að blístra í aftursætinu.
Þá datt mér allt í einu í hug faðir minn heitinn. Á meðan hann lifði blístraði hann í tíma og ótíma enda mjög músíkalskur. Ég sneri höfðinu aftur og sagði: Veistu pabbi minn nú er komið nóg af þessu blístri. Blobbb.... blístrið hætti eins og við manninn mælt, sko í orðsins fyllstu....
Mér er alveg sama hvort þið trúið mér eða ekki en þeir sem þekkja mig vita vel að ég er stundum pínu öðruvísi á köflum.
Svo nú er ég alvarlega að hugsa um hvort ég eigi að henda helv... könnufjandanum út á hlað eða sjá til hvað gerist á morgun.
Ætla að bíða til morguns ég hef nefnilega grun um að ástæðan fyrir heimsóknin hans föður míns eigi sér skýringu og segi ykkur frá henni seinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.1.2009 | 14:55
Hvað er maðurinn að fara?
Lesblinduiðnaður, allt má nú kalla það. Maðurinn hlýtur að vera á lyfjum! Að lesblinda sé tilbúningur sem menntakerfið hafi fundið upp til að hylma yfir lélegan árangur nemenda. Þvílíkt bull hef ég nú bara aldrei heyrt.
Ég tel mig þekkja það vel til les- og skrifblindu, ja alla vega nóg til þess að svona skrif fara virkilega í pirrurnar á mér. Dóttir mín barðist við þetta allan barnaskólann og það var ekki fyrr en ég heyrði um lesblindu að ég gat gert eitthvað í málunum. Þökk sé góðri vinkonu minni sem þá bjó í Vínarborg.
Les- eða skrifblinda er ættgeng eða svo er mér sagt. Margt af þessu lesblinda fólki hefur farið menntaveginn svo það er alveg óskiljanlegt hvað þessi hæstvirti þingmaður getur látið út úr sér í lok greinarinnar.
Það var ekkert auðvelt að berjast við sjö ára gamalt barn sem lét bækurnar fljúga milli enda stofunnar þar sem ég reyndi eftir fremsta megni að lesa með henni. Þetta kostaði helling af þolinmæði og tíma. Skólinn taldi hana bara seina í lestri, ég vissi að það var eitthvað meira að.
Ég hafði lesið með syni okkar sem náði árangri á einum vetri en hún var bara miklu verr sett. Ég hafði þann háttinn á að ég las upp úr blöðunum setningar og bað þau að skrifa eftir mér og síðan leiðrétta sjálf eftir bestu getu. Þetta fann ég upp hjá sjálfri mér og það virkaði í öðru tilvikinu en ekki hinu.
Hér áður fyrr voru þessi börn talin tossar og sett í ,,Ö-bekkinn" og fengu aldrei tækifæri á að læra. Bæði börnin okkar fóru menntaveginn og kláruðu það með glans. Dóttir okkar fékk sem betur fer aðstoð þegar hún fór upp í menntaskólann. Stundum þegar við skrifumst á hér á netinu þarf ég að lesa í eyðurnar en hún líka veit að ég skil skrifin hennar og þá hættir hún að vanda sig.
Mamma skilur mig segir hún oft við þá sem kvarta stundum yfir því að verða að lesa á milli línanna.
Segir lesblindu afsökun menntakerfisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)