Færsluflokkur: Bloggar
30.12.2008 | 21:30
Klúður á klúður ofan á næst síðasta degi ársins 2008
Þegar maður byrjar á því að klúðra einhverju í byrjun dags þá er bara eins og enginn endi sé á ósköpunum. Þannig er þetta búið að vera hér í dag. Eiginlega allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur hefur einhvern vegin klúðrast.
Fyrst Mogginn í morgun. Af hverju má ég ekki bara nota gamla systemið heldur en þetta nýja síðuflett. Óþolandi, sem sagt nennti ekki að lesa blaðið í morgun.
Síðan er ég aftur búin að skrá mitt rétta nafn svo ég geti nú verið með í umræðunni. Ég byrjaði að blogga undir fullu nafni en af því að ég hef verið kölluð Ía frá fæðingu og flestir þekkja mig undir því nafni þá er það mér miklu eðlilegra. Finnst alltaf þegar fólk gólar á mig INGIBJÖRG að ég hafi gert einhvern óskunda af mér. Svo ef einhver af vinum mínum hér vogar sér þá hreinlega brjálast ég, bara svo þið vitið það.
Hvernig haldið þið að það hafi verið öll skólaárin þegar kennarar kölluðu upp nafnið mitt og ég fékk alltaf hland fyrir hjartað. Guð, hvað gerði ég nú af mér? Humm.. ja ég gerði víst ýmislegt af mér í skóla svo ekki skrítið að lítla hjartað hafi tekið aukaslag.
Þegar ég fór að taka aðeins til í ísskápnum og henda afgöngum sem enginn vildi setti ég skál með pasta, sósu og kjúlla á borðið, hugsaði um leið: Ætti að henda þessu núna strax í ruslið. Mikið vildi ég að ég hlustaði einhvern tíma á minn innri mann, sko í alvöru. Ég veit yfirleitt fyrir þegar óhöppin gerast. Eftir tíu mínútur var skálin enn á borðinu og ég slengdi einhverju úldnu gænmeti í poka auðvitað beint í skálina og gumsið þeyttist út um allt eldhús.
Ég setti hangikjötið yfir, það er ekki hægt að klúðra suðu á hangikjöti svo það reddaðist. Hér borðum við alltaf flatkökur með hangikjöti með kampavíninu klukkan 12 á gamlárskvöld.
Þá tók ég til við að gera Grand ostaköku sem mér finnst líka ómissandi. Viti menn mig hafði misminnt ostamagnið svo þarna stóð ég aðeins með helming af rjómaosti svo ég bara reyndi að minnka allt draslið um helming. Veit ekkert hvernig hún verður á morgun, kemur í ljós.
Þá var það laxapaté með kavíar. ´Hafði keypt 300 gr af reyktum laxi en þegar ég var búin að roðfletta þá voru þetta ekki nema 175 gr. Dísús hvað ég var orðin pirruð og svo hafði ég auðvitað gleymt að kaupa kavíar. Ég drullaði einhverju saman, ætli þetta fari ekki beint í ruslið á morgun. Sjáum til.
Á meðan ég var að bardúsa þetta þá hafði ég það af að hella úr tveimur fullum kaffibollum og stóru glasi af kók út um allt eldhús á innan við klukkutíma, geri aðrir betur!
Það besta við allt þetta er að ég var eiginlega að laga þessa bévítans ostaköku og paté fyrir mig sjálfa, held að heimilisfólkinu finnist þetta ekkert spes.
Farin með Árna Þórarins í rúmið. Hann getur ekki klikkað, eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.12.2008 | 19:41
Byrjað að hlaða í brennu hér að Stjörnusteini.
Á meðan við mæðgur áttum svona mömmu og dótturdag í bænum dunduðu strákarnir, Þórir aðal strákurinn, Þórir Ingi skriðdreki og Steini dengdasonur sér við að hlaða brennu hér við túnfótinn.
Það var orðið of dimmt þegar við komum heim til þess að ég gæti séð hvað sett hafði verið á brennuna en ég vona bara að vel hafi verið tekið til í útihúsunum.
Kemur í ljós um dagmál.
Það er bítandi kalt hér þrátt fyrir aðeins 5 stiga frost. Rakinn hér smýgur inn í beinin svo það virkar miklu kaldara en ella.
Við mæðgur settumst inn á veitingastað í borginni og áttum ljúfa stund, hefði satt best að segja getið setið þarna allan daginn með Soffu minni. Ekki oft sem gefst tími til að spjalla um daginn og veginn.
Góður dagur að kveldi kominn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.12.2008 | 21:16
Femenine færsla milli jóla og nýárs.
Tók alla bloggvini sem komenteruðu hér á fyrri færslu á orðinu og tók daginn fyrir mig. Hélt bara áfram að gera nákvæmlega ekki neitt. Ja nema fyrir mig sjálfa.
Konur þetta er nauðsyn öðru hvoru fyrir sálartetrið!
Byrjaði á því upp úr hádegi,( ég er ekki komin í gang fyrr en í fyrsta lagi kl. 11) að fara í stutta göngu með dóttur og dóttursyni inn í skóginn. Sýndi honum eplin sem enn hanga á sumum trjám eins og rauðar jólakúlur. Tíndi eitt og gaf honum svo hann héldi ekki að þetta væri plastdrasl. Fengum okkur göngustaf og röltum þar til kuldaboli var farin að bíta í kinnarnar.
Kom heim og ákvað að nú skildi ég gera hluti sem ég ætlaði að gera fyrir jól. Bara fyrir mig!
Kveikti á gufunni (þið sem eigið ekki gufu getið alveg eins látið renna í sjóðheitt bað)
Á meðan gufan var að hitna tók ég öll aukahár af líkamanum sem safnast hafa upp sl. mánuð, þið vitið fætur og sollis.
Má alls ekki gleyma að kveikja á kertum inn á baðherberginu, það er must!
Fór inn í gufuna og lét lýsið renna af mér í ca hálftíma eða þar til ég fann að litla hjartað þyldi ekki mikið meir.
Dúðaði mig inn í þykkan slopp og lagðist á rúmið. (á ekki svona hvíldarbekk, næsta jólagjöf).
Á meðan lýsið hélt áfram að streyma út úr líkamanum fór ég í afslöppunarástand. Það lærði ég þegar ég var ung og spræk í Leiklistarskólanum og held að það hafi verið hún Brynja mín heitin Ben sem kenndi okkur þessa taktík sem ég hef notað af og til allar götur síðan en bara allt of sjaldan.
Meðferðin er ósköp einföld en þú verður að hafa tíma og þolinmæði. Ég sjálf hef bætt aðeins við með árunum og nota núna mína aðferð. Þið sem nennið ekki að lesa lengra, bara hætta, ekkert mál.
Ég anda þrisvar djúpt að mér og slaka á eins róleg og ég get, hugleiði frá höfuðkúpu og alveg niður í tær. Ég tek hvert bein frá haus og niðuður hrygginn þar til ég enda á tábeini. Þar rennur þreytan úr beinunum út um tærnar. Síðan taka við vöðvar líkamans, og sama aðferð notuð, byrjað upp í höfði og síðan hugsað til hvers vöðva fyrir sig ( er aldrei klár á því hvort ég á að taka heilann sem vöðva eða líffæri) en skítt með það þarna rennur öll mín þreyta niður í tærnar og út í tómið. Síðan fer ég í líffærin, hjarta, lifur, lungu etc.
Nú er ég búin að hreinsa út allt stress og kvilla (ye right) og þá tek ég við að anda í gegn um iljarnar og fylli líkamann af hreinu súrefni. Líkaminn á núna að vera þvílíkt aflappaður að þú átt ekki að finna fyrir önduninni. Hún bara kemur upp um iljarnar.
Veit, já núna væru flestir sofnaðir, en ég sofna aldrei þennan hálftíma, já stelpur mínar þetta tekur ekki nema hálftíma. Síðan ligg ég þar til mér fer að leiðast og byrja á því að hreyfa tærnar og maður finnur strax hvort maður vill hreyfa afganginn af þessum aflappaða líkama. Hann segir ykkur það óumbeðinn, lofa því.
Eftir þetta tók við löng og góð sturta.
Ég er ein af þeim sem kaupi alltaf eitthvað dekur dót fyrir mig sjálfa fyrir jól en sjaldnast gefst tími til að nota þetta fyrr en milli jóla og nýárs. Þannig að í dag var allt draslið tekið fram. Boddy lotion, andlitsmaski, hrukkukrem á háls og eyru, yngingardropar og allt þar fram eftir götunum. Þessu smurði ég samvikusamlega á mig (veit svo sem að þetta virkar ekki shit) en þá mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði ekki gefið mér tíma til að ,,taka á mér lappirnar" svo ég skellti vatni í vaskafat og dýfði mínum nettu fótum niður í sjóðheitt vatnið. Síðan var skafið svona ca hálft kíló af skinni af bífunum og þær smurðar með olíu. Eldrautt naglalakk setti síðan punktinn yfir allt saman.
Þá voru það hendurnar. Allar neglur brotnar, mislangar svo þær voru líka teknar í gegn og nú eru þær loksins orðnar eins og á manneskju en asskoti stuttar greyin.
Þá var þetta bara komið og ég fór niður á sloppnum kveikti upp í arninum og setti bífurnar, þessar með rauða lakkinu upp í loft og naut þess að láta hitann frá eldinum ylja mér eftir allt erfiðið. Því þetta tekur sko á skal ég segja ykkur sértaklega þetta lappavesen.
Nú loksins get ég opnað eina af jólabókunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.12.2008 | 18:50
Elsa Lund, Saxi, Skúli rafvirki, Magnús og fleiri góðir karakterar.....
......skutust hér i inn í sjónvarpsherbergið okkar í dag að ógleymdum Ladda sjálfum. Við hjónin skemmtum okkur vel með afmælisbarninu og öllum hans gestum. Örugglega verið frábært að sjá þetta ,,live" í Borgarleikhúsinu á sínum tíma.
Takk kærlega fyrir skemmtunina Laddi minn.
Við erum ein í húsinu gamla settið þar sem Soffía fór í heimsókn til bróður síns og mágkonu. Satt best að segja frekar tómlegt.
Það sem til stóð að gera hér á heimilinu í dag fór fyrir lítið og ætla ég bara að láta við svo búið.
Það má alveg taka einn letidag svona milli jóla og nýjárs, eða er það ekki?
Er ekki enn farin að hafa tíma til að líta í bækurnar sem enn eru hér plastaðar inn.
Glugga ef til vill í einhverja þeirra í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.12.2008 | 21:40
Amma é vil ullabagg a dregga.
Hér standa kræsingar út um eyrun á heimilisfólkinu ja alla vega mér! Ef ég heyri minnst á mat næstu daga hleyp ég á fjöll!
Í hádeginu, þökk sé þeim speking sem fann upp tartaletturnar, var troðið í þær hangikjöti og restinni af rjúpunum. Í kvöldmat voru hér útigrillaðar stórsteikur með tilbehör!
Rauðvínsdreitill handa okkur en sá stutti vildi ullabagg að drekka og amman skildi ekki bops. Hélt fyrst hann meinti rauðvín en nei, hann vildi malt og appelsín. Hef aldrei heyrt börn nefna malt og appelsín ullabagg enda þessi strákur spes.
Ég ætla ekkert að fara að tíunda hér allt það Nóa Siríus og Lindu konfekt svo og annað gúmmelaði sem við erum búin að hesthúsa hér á þessum þremur dögum það væri til þess að æra óstöðugan.
Þessi Jóli heimsótti börnin í gær alla leið frá Íslandi og þarna heldur amma á mínum sem var ekki alveg dús enda Jóli voða rámur eftir tveggja daga stúss í eldhúsinu. En eftir að allir voru búnir að syngja Jólasveinar ganga um gólf þá hýrnaði aðeins yfir þeim stutta svo fengu þau lítinn pakka frá Kertasníki.
Í kvöld þar sem við sátum í borðstofunni og röðuðum í okkur einu sinni enn, horfði sá stutti fast á hurðina í borðstofunni og sagði: Jólaeinninn koma attur núna?
Nei, sagði amma, nú er hann farin heim í fjöllin sín.
Horft á ömmu og sagt: Hann koma attur seinna.
Já svaraði amma seinna.
Svo var það búið mál. Ekki meir rætt um jóseininn.
Þetta voru dýrðarinnar jól hér að Stjörnusteini með litlu fjölskyldunni okkar. Allir sáttir með sitt og friður yfir okkur öllum.
Hugur minn er núna heima með fjölskyldunni minni þar sem þau eru öll samankomin systkini mín og mamma hjá Dadda bróður og Bökku mágkonu.
Ég sakna ykkar allra óneitanlega mikið núna dúllurnar mínar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.12.2008 | 12:29
Jólakveðja frá Stjörnusteini - Tékklandi
Hækkar senn á himni sól
hnekkir myrkra valdi svörtu
beri þessi blessuð jól
birtu og frið í ykkar hjörtu.
Nú senn líður að hátíð ljóss og friðar. Héðan úr sveitinni okkar sendum við öllum ættingjum og vinum, bloggvinum og ykkur öllum sem komið hafa við hér á síðunni minni á árinu hugheilar óskir um gleðileg jól.
Megi gleði ríkja á hverju heimili og friðarljós lýsa ykkur hvar sem þið eruð í heiminum.
Vil þakka öllum mínum bloggvinum ánægjuleg kynni á árinu sem er að líða.
Blessun fylgi ykkur öllum á nýju ári 2009!
Ía og Þórir Gunnarsson
Stjörnusteini - CZ. Sternberg - Tékklandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2008 | 21:59
Borðskreyting fyrir þá sem vilja hvorki blóm eða greni. Auðveld lausn á síðustu stundu.
Ég veit fyrir víst að sumar húsmæður eru alltaf í vandræðum með borðskreytingar.
Ég reyni alltaf að finna eitthvað nýtt fyrir hver jól og að þessu sinni vildi ég hvorki greni eða blóm. Svo mér datt í hug að skella nokkrum rauðum smákúlum í háa vasa og notaði svo seríu með kristal svona til að lýsa upp borðið. Ef vel er gáð getið þið séð hreindýrin mín sem vakið hafa mikla athygli. Þessi hreindýr fann ég í fyrra í körfu á gólfi í einum stórmarkaði hér og keypti fyrir slikk.
Auðveld lausn á síðustu stundu.
Borgin okkar skartaði sínu fegursta í kvöld og við nutum þess að ganga um götur hennar og njóta komu jólanna. Set inn myndir frá Prag á morgun.
Þessir búálfar tóku á móti okkur þegar heim kom.
Góðar stundir gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2008 | 11:07
Nú kætumst við á Þorláksmessu
Jæja þá er Skötudagurinn runninn upp ekki það ég borði þennan fisk og aldrei leyft að elda í mínum húsum. Stundum getur maður haft ítök í sínu eigin eldhúsi.
Jólakveðjur hljóma hér frá gömlu góðu gufunni og alveg ekta Þorláksmessustemmning hér að Stjörnusteini.
Þegar ég vaknaði í morgun var minn elskulegi löngu kominn á fætur og eldhúsið ilmaði af rjúpum þar sem beinin voru komin í pott en þar fá þau að malla í allan dag. Bringurnar verða síðan léttsteiktar á morgun.
Restin af heimilisfólkinu svaf enn enda sjáið þið hér þann stutta í gærkvöldi að hjálpa ömmu að skreyta jólatréð og klukkan langt gengin ellefu.
Maður vandaði sig alveg rosalega!
Þorláksmessa hefur alla tíð verið dálítið spes dagur hjá okkur. Eftir vinnu sem yfirleitt var um tíu um kvöldið rönduðum við niður Laugaveginn og heimsóttum verslunareigendur sem voru okkar viðskiptavinir. Jón og Óskar töku alltaf á móti okkur með koníaksdreitli. Yfirleitt var líka kíkt aðeins upp í Árbæ til vina okkar sem þar bjuggu.
Mig hefur sárlega vantað þessa stemmningu eftir að ég flutti hingað og gleymi aldrei einni Þorláksmessu þar sem ég randaði alein um stræti Pragborgar, á meðan minn var að vinna fyrir saltinu i grautinn, háskælandi , sko ég ekki hann. Mikið rosalega átti ég bágt þá.
Ég á bara eftir að laga eftirréttinn sem alltaf er Sherry fromage að hætti mömmu síðan ætlum við að skella okkur í bæinn og njóta jólaskreytinga og jólatónleika á götum borgarinnar.
Ekkert væl hér í dag! Hangikjötið er komið í pottinn en við nörtum alltaf í hangikjöt eftir bæjarferð.
Jæja þá er að skella sér í fómasinn og svo eru bara alveg að koma jól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2008 | 16:06
Verslunarhefðir Tékka og síðast en ekki síst Let it snow!
Þessi bíður eftir snjónum sem væntanlega kemur ekki fyrr en í fyrsta lagi á annan í jólum ef veðurguðir verða svo vænir að halda spánni.
Það hefur nú oftsinnis snjóað hér á aðfangadag þó seint væri svo ekki er öll nótt úti enn.
Ég skrapp áðan í smá matvöruleiðangur, vantaði svona smotterí í poka en að sjálfsögðu kom ég heim með sex fulla poka af allskonar óþarfa. Ekki beint spennandi að fara í matarinnkaup svona á síðustu stundu. Í fyrsta lagi þá hefur starfsfólkið ekki við að fylla í hillurnar svo sumar eru hálf tómar. Nei það er engin andsk... kreppa hér ef þið haldið það.
Þegar ég kom að einum af þessum 48 afgreiðslukössum sem auðvitað sumir voru ekki í gangi valdi ég einn sem aðeins 10 manns voru á undan mér og hugsaði: OK svona 20 mín. bið. Ekkert mál.
Allt í einu voru bara fimm manns fyrir framan mig og sá ég strax hvað var í gangi. Þau fimm sem stóðu fyrir framan mig stóðu á snakki
Þarna var saman komin hin typiska tékkneska fjölskylda. Allir voða svona mikið saman að versla í jólamatinn. Alveg ótrúlegt hvað tékkar eru samheldin. Það má ekki koma hátíðisdagur eða frídagur þá hópast heilu familíurnar saman í matarinnkaup svo maður getur ekki þverfótað sig á milli hillna vegna þess að allir standa í hnapp og rökræða um verð og gæði.
Hreint út sagt óþolandi þá sérstaklega þegar maður er á hraðferð, en það er ég nú yfirleitt alltaf.
Ég mátti svo sem þakka fyrir þessa einkennilegu hefð i dag vegna þess að biðin varð mun styttri en ég hafði haldið.
Nú ætla ég að fara að laga heitt súkkulaði og gefa fólkinu mínu smá smakk af döðlubrauði með smjöri og eplaskífum.
Svo minni ég veðurfræðinga og alla veðurguði á þetta:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.12.2008 | 08:28
Afi é er a koma till-ín!
Klukkan var að verða hálf sjö í morgun og lítill gutti hringdi í afa sinn til Prag. Hann var staddur í Leifsstöð með foreldrum sínum á leið til afa og ömmu sín.
Eitthvað hefur hann nú verið lúinn blessaður því eftir þessa setningu var hann farinn úr símanum og þá heyrðist í mömmunni: Þórir Ingi minn ekki liggja í gólfinu.
Þetta verður langur dagur fyrir lítinn skriðdreka þar sem þau lenda ekki hér fyrr en hálf níu í kvöld. Ég býst nú við því að minn verði nú ekki par hrifinn þegar hann lendir í Köben og enginn afi að taka á móti honum.
En langþráður dagur er runninn upp.
Nú færist líf og fjör yfir Stjörnustein.
Ætla að fara að hitta jólasveininn og sjá hvort hann á ekki eitthvað í skóinn handa tveggja og hálfs árs ömmustrák.
Njótið nú síðasta sunnudags í aðventu og elskið hvort annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)