Færsluflokkur: Bloggar
19.12.2008 | 20:03
Að gera nákvæmleg ekki neitt en verða örmagna.
Ég skil alveg svona hugarástand í svefni, eða næstum því. Blessuð konan að hafa annað hvort verið tölvunörd með síþreytu eða svo einmanna og langþráð eftir parý að hún skellti smá færslu hálf sofandi.
Ok nenni nú ekki að velta mér yfir þessu lengur en langaði í framhaldi að segja ykkur hvað maður getur orðið hrikalega þreyttur að gera nákvæmlega ekki neitt!
Eftir frekar stuttan nætursvefn sl. nótt vaknaði ég og ákvað að gera ekki neitt til klukkan ellefu en þá yrði ég að keyra sjálfa mig niðrí bæ því ég átti litun og klippingu hjá eðalklippara borgarinnar honum Honsa. Sko það er eins gott að hafa tímann fyrir sér hér í jólatraffikinni en ég var komin tímalega og randaði smá í nærliggjandi götu, svona gluggaverslunarleiðangur.
Mætti stundvíslega. Varð að bíða í hálftíma áður en ég komst í stólinn. Allsherjar gjörningar gerðir á hárinu og eftir þrjá og hálfan tíma (án sígó) stóð ég upp eins og ný manneskja um hausinn en með hrikalega sárann afturenda. Keypti rándýrt shampoo og næringu frá Hollywood og fór út, vil ekki segja ykkur hvað það kostaði því ef ég yfirfæri þetta á ykkar auma gengi þá mynduð þið fá flog!
Nú átti ég klukkustund þar til ég átti að mæta í næsta dekur og maginn hrópaði á mat! Ég fór inn á næsta veitingastað og pantaði mér heitt súkkulaði og gulrótarköku. Þjónninn sem þekkti mig horfði á mig stórum augum þar sem ég hámaði í mig gúmmelaðið en brosti öðru hvoru voða sætt til mín eins og hann vildi segja: Jæja vinkona er ástandið svona eftir að þú seldir Reykjavík, gefur kallinn þér ekkert að éta?
Nú var ég komin í tímaþröng! Reikninginn í hvelli og bauð gleðilega hátíð og út!
Bíllinn var á sínum stað. Ég veit aldrei hvort það er búið að toga bílinn minn í burtu af því ég legg alltaf ólöglega og stöðumælir er ekki til í mínum orðaforða, ja nema núna í augnablikinu.
Umferðin var til að gera alla hálf vitlausa sem venjulega eru með fulle fem! Ég náði samt upp í Prag 6 áður en klukkan sló fimm og hljóp inn í Spaið sem er ekkert smá huggó, þið vitið svona Tai dót út um allt og ljúf mussik og svo tala allir á lágu nótunum. Dísús hvað ég á stundum erfitt með að tala á lágu nótunum.
En ég andaði djúpt og lagðist endilöng upp á bekkinn sem var notalega heitur. Þarna eru bekkirnir hitaðir á veturna. Sko ekkert slor. Kertaljós og austurlenskur ilmur kemur manni í annan heim.
Tveggja tíma andlitsbað og ég var orðin svo þreytt í öllum skrokknum að mér var helst í hug að panta mér heilnudd á eftir. Að liggja eins og kæst Skata í tvo tíma og láta dúlla við sig hljómar eins og himnaríkismeðferð en minn eðal skrokkur er bara orðinn svo vanur öllu amstrinu síðustu daga að þetta var hreinlega to much! Fyrirgefðu Þráinn minn smá sletta.
Ég afþakkaði alla föðrun á eftir og skakklappaðist út í bíl og setti í gang.
Elsku bíll taktu mig nú heim án allra skakkafalla. Please! Önnur afsökun til Þráins.
Og eftir nákvæmlega 45 mín á 160 km hraða var ég komin heim og er nú aðeins að ná mér niður eftir erfiði dagsins.
Ég vona að ég gangi ekki í svefni í nótt og bjóði til veislu en það væri svo sem alveg eftir mér.
Bauð sofandi í kampavínsveislu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.12.2008 | 13:27
Takk fyrir að hnippa í mig Moggamenn.
Enda sit ég hér sveitt við og hamast eins og rjúpan við staurinn að klára þetta vesen svona á milli annarra heimilisþarfa. Það er þetta líka með nennuna, hún hefur tekið upp á þeim leiða sið að yfirgefa mig einstaka sinnum með árunum. Annars er ég nú ekkert fyrir að skilja eftir hálfgerða hluti svo ég klára dæmið fyrir 19. des. ekki málið.
Svo af því ég er í pásu þá vil ég bara biðja ykkur um að muna eftir smáfuglunum.
Hér koma tvær hugmyndir sem auðvelt er að setja upp útivið og tekur engan tíma og þarf ekki að hugsa meir um fram á vor því eins og þið sjáið er af nógu að taka.
Þetta er jólakúla smáfuglanna og þarna má líta hnetur, rúsínur og fl. góðgæti.
Eplatré smáfuglanna. Fersk epli en skerið í nokkur þeirra vegna þess að litlir goggar eiga erfitt með að komast í gegn um börkinn.
Farin að halda áfram með jólakveðjurnar.
Síðasti skiladagur jólapósts 19. desember | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.12.2008 | 22:11
Jólastemmning við Laufabrauðsbakstur.
Hér getið þið séð lítinn hluta af laufabrauðinu sem litla fjölskyldan í Prag dundaði við seinnipart dags.
Engar erótískar kökur voru gerðar hér eins og einn af okkar vinum er þekktur fyrir enda sá maður einn af færustu listamönnum Íslands.
Uppskriftin að sjálfsögðu frá tengdamóður Egils okkar og koma kökurnar útflattar beint frá Grenivík.
Við kepptumst við að skera þær út eins vel og við gátum og sátum við fimm við útskurðinn, Egill, Bríet, ég og tvær systur Bríetar sem búa hér núna í Prag, Ingunn og Alma.
Litla Elma Lind fylgdist með og skemmti okkur með sínu yndislega babli og eftirhermum þess á milli sem hún skottaðist inn í stofu til að dansa með Siggu Beinteins og krökkunum í sjónvarpinu.
Minn elskulegi sá um steikinguna að vanda og Egill stóð við að pressa.
Ég hafði aldrei komið nálægt laufabrauðsgerð fyrr en ég kynntist tengdadóttur minni og nú er það hefð hér að koma saman fyrir jól og halda í þennan gamla norðlenska sið.
Það myndast alveg sérstök stemmning við svona dúllerí.
Takk fyrir góðan og jólalegan fjölskyldudag krakkar mínir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.12.2008 | 10:07
Merkisdagur fyrir 34 árum!
Hann lá við hliðina á mér fyrir 34 árum, bústinn og vel af Guði gerður eins og sagt var. Þvílíkt undur og stórmerki! Þetta gátum við ungu hjónin úr Breiðholtinu.
Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar sjúkramennirnir roguðust með mig niður stigann í körfunni klukkan fjögur að morgni, konu ekki einsamla og tuttugu kílóum þyngri fyrir utan fæðingavigtina. Ég hafði stórar áhyggjur af því að þeir mundu missa mig, þetta rosa flykki sem ég var og missa mig af börunum. Sagðist skildi drepa þá ef þeir létu mig húrra niður stigann.
Aðeins nokkrum tímum seinna fæddist frumburðurinn okkar hann Egill og þvílíkur strákur. Mér fannst hann fallegastur af öllum börnunum á Fæðingarheimilinu.
Þessi mynd er tekin við skírn Elmu Lindar í janúar og eins og þið sjáið þá hefur tognað aðeins úr mínum strák. Nú velmetinn verslunareigandi hér í Prag m.m.
Innilega til hamingju með daginn Egill minn. Njóttu vel og sjáumst á eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.12.2008 | 20:52
Jólagleði að Stjörnusteini.
Það var jólalegt hér á föstudagskvöldið þegar gestir okkar keyrðu í hlað. Jólasnjórinn kom eins og eftir pöntun og eins og einhver hafði á orði, þetta var eins og að stíga inn í fallegt jólaævintýri.
Á slaginu hálf átta runnu bílarnir hér að útidyrunum hver á eftir öðrum eins og lög gera ráð fyrir. Hvað ég kann að meta þessa diplómatísku stundvísi. Engin hætta á að steikin brenni í ofninum eða súpan sjóði upp úr.
Íslenska kreppan var afgreidd yfir fordrykknum og gaf sendiherrann okkar öllum smá yfirlit yfir allt okkar ófremdarástand. Snyrtilega afgreitt Sveinn Björnsson, takk fyrir það.
Minn elskulegi stóð sig eins og honum einum er lagið í eldhúsinu og framreiddi hvern eðalréttinn á fætur öðrum. Hangikjötstartar sem við renndum niður með Svarta dauða. Humarsúpu með mango, önd sem allir stóðu á öndinni yfir og í lokin ferskum ávöxtum með kampavínssósu.
Knús á þig kallinn minn. Held bara að þér fari fram með hverju árinu.
Möndlugjöfina fékk danski sendiherrann. Flunkunýja Skoda Oktaviu. Nei ekki í fullri stærð bjánarnir ykkar, bara svona mini bíl.
Þessi árlegu jólaboð okkar hafa nú alla tíð þótt dálítið spes enda nenni ég ekki að halda stíf og leiðinleg boð þar sem allir sitja með hátíðarsvip og halda uppi einhverskonar gervi samræðum.
Í ár vorum við frá sex þjóðlöndum og sumir gesta okkar hér í fyrsta skipti. Eftir aðalréttinn sló ég í glas og sagði að nú væri komið að því að tekið yrði lagið. Ég hef það fyrir sið að láta einn frá hverri þjóð syngja fyrir hópinn jólalag frá sínu heimalandi. Þetta vekur alltaf mikla kátínu og í ár voru lögin frá Baltik löndunum dálítið framandleg og fyndin.
Ég tók í ár Göngum við í kring um einiberja runn, það er að segja þau vers sem ég mundi eftir og lék allan pakkann fyrir hópinn. Skúraði, þvoði þvott og gekk kirkjugólf með miklum tilþrifum.
Fékk bjartsýnisverðlaunin í ár!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.12.2008 | 20:57
Ömmufærsla og smá dægurmál.
Spyrja afa! Hringja í afa! Í gærkvöldi hringdi síminn og á línunni var litli dóttursonur okkar, rétt rúmlega tveggja ára. Afi ég má fá tvö súkkli? Afi skildi nú ekki alveg málið fyrr en útskýrt var að sá stutti hafði notað tækifærið, þar sem mamma hans var ekki heima, og reynt að plata pabba sinn að gefa sér tvö súkkulaði úr dagatalinu. Pabbinn var auðvitað ekkert á því og þetta endaði með því að hann hringdi í afa sinn til að fá hann á sitt band. Það gekk auðvitað ekki heldur.
Guði sé lof og þökk fyrir Skype á þessum báðum heimilum. Við mundum slá þjóðhöfðingjann okkar út ef svo væri ekki.
Og nú fer skórinn í gluggann í kvöld og minn verður nú ekki lengi að fatta þann sið ef ég þekki hann rétt.
Annars er hér allt á fullu að undirbúa mikið matarboð á morgun svo ég rétt náði að rúlla Mbl. í morgun. Rakst þar á grein eftir Glúm Baldvinsson sem ég hafði nú ekki tíma til að lesa fyrr en núna rétt áðan. Þarna er talað skilmerkilega og tæpitungulaust. Góð grein sem fólk ætti að lesa.
Ég er enn að reyna að vera sykk frí frá öllu þessu argaþrasi heima og njóta þess bara að undirbúa jólin og hafa það kósí á aðventunni. Hér er allt orðið skreytt utan sem innanhúss og ekkert eftir nema kaupa jólatréð en það fer nú ekki upp fyrr en rétt fyrir jólin.
Ég er komin í jólaskap og hlakka til að taka á móti góðum gestum á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.12.2008 | 10:14
Fallegur vetrarmorgun að Stjörnusteini.
Hrímið á trjánum glitrar hér í vetrarsólinni þennan fallega morgun.
Ég fór út snemma með hnetur og epli handa smáfuglunum mínum sem sækja hingað í fóður þegar kólna tekur og erfitt er að finna sér fæðu í skóginum.
Dagurinn í dag er líka merkilegur fyrir það að tengdadóttir okkar hún Bríet á afmæli. Innilega til hamingju með daginn Bríet mín. Kíki við hjá þér á eftir.
Það var enn smá keimur eftir smákökubaksturinn í gær hér í húsinu þegar ég kom niður til að fá mér morgunsopann minn. Ég bakaði engin vandræði þetta árið, ja alla vega ekki enn.
Þá fara jólin að nálgast og ,,jólaboðavikan" framundan. Hér keppast margir um að bjóða heim vinum í smá gleðskap og við tökum því nú orðið eins og hluta af undirbúning jólanna. Veit sem sagt að ég geri ekki mikið meir en að mæta og halda sjálf boð þessa viku.
Eigið góðan dag og munið eftir smáfuglunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.12.2008 | 18:47
St. Mikulas, Svarti Pétur og púkar úr neðra.
Tékkar þjófstörtuðu St. Mikulas deginum í fyrradag en hann er haldinn hátíðlegur 6. desember ár hvert. Við hjónin gerðum okkur ferð í bæinn á föstudag og hugmyndin var að versla eitthvað nytsamlegt og ónytsamlegt. Ef ég hefði vitað um þessa þjófstörtun hefði ég nú valið annan dag til bæjarráps.
Hvar sem litið var sáum við karlinn klæddan í hvíta kuflinn sinn með biskupshúfuna og stafinn umkringdan fjölda af æpandi púkum og Svarta Pétri. Börnin höfðu auðsjáanlega mikið gaman að þessari uppákomu og létu blessa sig í bak og fyrir.
Á markaðnum kepptist fólk við að selja púkahorn sem glóðu eins og vítislogar. Annar hver maður, jafnt börn sem fullorðnir báru þessi horn svo Gamla torgið leit út eins og sjálft neðra.
Torgið er alveg einstaklega fallega skreytt þetta árið og ætla ég að fara aftur eitthvert kvöldið og njóta í rólegheitum þar sem ég á það eki á hættu að fá jólaglöggið yfir mig eða hreinlega verða troðin undir.
Nú ætla ég að fara upp og tendra Betlehemskertið en svo nefnist kerti annars sunnudag í aðventu.
Eigið notalegt kvöld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.12.2008 | 21:07
Silfurskálin sem á sér langa sögu.
Ég sat og velti skálinni fyrir mér. Hvarf eins langt aftur og ég gat munað.
Silfurskál, dálítið snjáð eftir endalaust nudd í tugi ára. Man fyrst eftir henni hjá ömmu minni á Flókagötunni, alltaf á sama stað á eldhúsborðinu. Síðan flutti hún með ömmu og systrum pabba inn á Selvogsgrunn og enn var hún sett á eldhúsborðið.
Dagsdaglega var hún full af tvinnum, skærum, saumnálum og gott ef ekki var sígarettupakka. Sem sagt full af nytsömum hlutum til daglegs brúks. Það var alltaf saumað mikið á því heimili.
En svo komu jólin. Skálin hennar ömmu fékk yfirhalningu með Silvo og var fyllt af rauðum eplum sem pússuð höfðu verið með hreinu ,,viskastykki" svo þau glóðu eins og lifandi ljós. Skjannahvítum útsaumuðum jóladúk, stífuðum eins og pappa, var komið snyrtilega undir skálinni og þannig var það öll jólin. Síðan kom janúar og skálin fór aftur í sitt gamla hlutverk að halda til haga saumadóti frænknanna.
Þessi skál fylgdi mér hingað sem erfðargripur og á sinn sess núna hér í eldhúsinu mínu. Dagsdaglega þjónar hún þeim tilgangi að geima símahleðslur, myndavélahleðslur og fl. drasl sem tilheyrir nútímanum. Endrum og eins er þurrkað úr henni svona til málamynda en venjulega fær hún bara að liggja þarna í neðstu hillunni og safna ryki.
En fyrir hver jól fær hún ærlega yfirhalningu með ,,silvo" og er færð aðeins ofar í hillurnar. Smá jólaskraut er sett til að gleðja hana en engin epli lengur. Önnur nútímalegri hefur tekið við sem eplaskál.
Þegar ég í dag hélt á skálinni var ekki laust við það að ég finndi fyrir ömmu minni og þó sérstaklega einni systur pabba sem alltaf sá um heimilið þeirra þar til yfir lauk.
Oft er sagt: Æ þetta er bara dauður hlutur, en sumir hlutir hafa, ég vil nú ekki kalla það sál, en alla vega kraft.
Svo er ég hætt að fílosofera í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.12.2008 | 19:45
Ég bara trúi þessu ekki! Ætti ég að láta útbúa stimpil?
Tuttugu og einn dagur til jóla og fyrsta jólakortið kom í póstkassann okkar í gær yfir hafið frá Íslandi! Ég fór alveg í hnút! Er virkilega kominn tími á jólakortavesen. Getur bara ekki verið, ég á eftir að gera svo ótal margt áður en ég sest við skriftir.
Það er nefnilega algjör serimonía hjá mér við skrif jólakorta. Verð að taka það fram að minn elskulegi kemur ekki nálægt þessu, hvorki kvittar undir hvað þá að líma á frímerkin. Sem sagt búinn að komast undan þessu veseni í yfir þrjátíu ár!
Sko það sem ég vildi sagt hafa. Allt þarf að vera orðið jólalegt innanhúss. Ég kveiki á ótal kertum, set ljúfa jólatónlist í græjurnar og bjarminn frá arineld leikur um stofuna. Síðan hefst ég handa við að skrifa öllum persónuleg kort og annál ársins með sem ég hef sett saman á tölvuna og skelli með, ekki bara á mínu móðurmáli heldur ensku líka.
Sko þetta er auðvitað BILUN!!!!
Það er nú líka önnur stór bilun í gangi hér það er hvað við höfum sankað að okkur mörgum ,,JÓLAKORTAVINUM " í gegn um tíðina. Ég sendi um 150 kort út um allan heim.
ÞETTA ER RUGL!!!!!!
Á hverju ári strika ég svo og svo marga út en alltaf skal sami fjöldi bætast við. ´
Í fyrra ákvað ég að hafa annálinn í styttra lagi því mér fannst bara þeir sem nenntu að fylgjast með okkur gætu gert það hér á blogginu. Það helltust yfir mig kvartanir eftir áramótin. Djöf...frekja í þessu fólki, halda það að maður hafi ekkert betra við tímann að gera en að setja saman skemmtisögur handa þeim í jólakortin! ´Mér var meir að segja tilkynnt það að ég hefði bara eyðilagt JÓLIN fyrir fjölskyldunni og hvernig haldið þið þá að mér hafi liðið, þessi samviskusama kona sem ég er? HRÆÐILEGA eitt orð.
Sko nú er ég að hugsa og ætla að hugsa vel og lengi áður en ég tek ákvörðun um annál eður ei svo og líka, hvort ég get ekki skorið þetta aðeins niður í ár. Má samt ekki hugsa of lengi vegna þess að tíminn flýgur þessa dagana.
Eitt sinn datt mér í huga að láta búa til stimpil sem ég gæti bara skellt inn í kortin með svohljóðandi: Gleðileg Jól, Ía. Þórir og börn.
Ef ég hefðii gert það hefðu símalínur logað og fólk sem annars aldrei hefur samband mundi eyða í það að hringja yfir hafið og senda mér tóninn.
Jæja ég ætla að leggjast undir fiðuna eins og ein vinkona mín orðar það og hugleiða málið.
Nenni ég þessu yfir höfuð og hver er tilgangurinn að senda einhverjum JÓLAKORTAVINI kveðju sem ég hef ekki séð í tugi ára? Bara fyrir prinsippið?
Farin að hugsa djúpt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)