Færsluflokkur: Bloggar
21.3.2008 | 20:10
Páskasagan héðan frá Stjörnusteini, Föstudagurinn langi
Ég lofaði ykkur framhaldi af páskasögunni.
Eftir allt stússið á Skírdag var börnunum smalað saman niður að næstu á eða læk og nú skildi baða liðið. Mig hryllir við þeirri hugsun, bara það að sumar árnar hér eru jafn mórauðar eins og Moldá en bergvatnsár finnast ekki nema á hálendinu svo blessuðum börnunum var dýft ofan í vatn sama hvernig það leit út. Líka það að núna er hér 3° hiti svo þetta hefur ekki verið tekið út með þegjandi sældinni hjá mörgum á þessum árstíma. En bað skildi það vera á Föstudaginn langa og ekkert múður. Allir fengu síðan hrein föt og sjálfasagt margir kvef í þokkabót.
Fullorðna fólkið fastaði þennan dag en börnin fengu heita mjólk, sem skýrir allt sem þarf, auðvitað heita mjólk eftir vosbúðina og ,,Macanec" en það eru brauðin sem ég sagði frá í síðustu færslu. Ef mikil fátækt var á heimilinu fengu börnin hveitikökur með hunangi sem kallaðar voru ,, Jidásky" en það þýðir Júdas.
Svona var nú Föstudagurinn langi hér áður fyrr og þá er ég að taka um fyrir 1990. Þegar ég var á leið heim í dag, keyrandi hraðbrautina frá Supermarkaðnum þá hugsaði ég ,já hér hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umferðin silaðist áfram á svona 140 km á kl.st. og allir á leið út úr borginni sjálfsagt á leið í sumarhúsin. (Allir Tékkar eiga sitt sumarhús) ja annars ertu þú úti, það er bara þannig.
Nú rennir fjölskyldan inn á McDonalds á leiðinni og fær sér einn Big Mac. Þegar komið er í sveitina er tekið upp franskt rauðvín og svissneskir ostar og þýskar pylsur. Ef veður leyfir er grillað um kvöldmatarleitið á Webergræju. Börnin eru böðuð í heitum pottum eða baðkerum með nuddgræjum. Enginn borðar lengur Jidásky eða baðar sig í ísköldum ám.
Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Píslagöngustígnum hér í sveitinni okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2008 | 23:37
Kveðja frá okkur héðan í Tékklandi
Veit að sumir eru með áhyggjur af okkur þar sem þetta er þjóðvegurinn heim til okkar að Stjörnusteini. Við erum hér heima og allt í lagi með okkur. Vorum bæði á ferðinni klukkustundu fyrir óhappið á hraðbrautinni.
Bestu páskakveðjur til ykkar allra. Ía, Þórir og fjölskylda.
![]() |
115 bíla árekstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.3.2008 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2008 | 11:41
Hody, hody, doprovody! - Hátíð, hátíð, vinir mínir!
Skírdagur er ekki haldinn hér hátíðlegur. Hér áður fyrr notuðu Tékkneskar húsmæður daginn til að undirbúa páskana með því að baka páskabrauð sem svipar aðeins til okkar gamla rúsínubrauðs. Brauðið var bakað í svotilgerðu kanínuformi og síðan skreytt með möndluflögum. Snurfusa heimilið svo allt sé tandurhreint á sjálfan páskadaginn.
Gamlar konur sátu með barnabörnunum og fléttuðu reyrstafi sem síðan voru skreyttir með alla vega litum borðum. Segi seinna frá því til hvers þeir eru notaðir.
Aðrir sátu heima og máluðu egg með fjölskyldu og vinum. Þessi egg eru augnayndi og hér á þessu heimili er til stór karfa með þessum eggjum sem varðveitt eru frá ári til árs og skreyta hér greinar í stofunni.
Nútímakonan þeysist í stórmarkaðinn og fyllir körfuna af allskonar góðgæti handa krökkunum á páskadag, brauðið góða er keypt tilbúið, sveittir og geðyllir eiginmenn drattast með ólund á eftir húsmóðurinni sem auðvitað er með vælandi krakkagrislingana í eftirdragi. Enginn brosir, allir búnir að taka fýlupillu með morgunmatnum.
Ömmurnar sitja heima og núa höndum saman vegna þess að nú er reyrstafurinn keyptur úti á næsta götuhorni svo það er ekkert fyrir þær að gera nema láta sér leiðast.
Enginn nennir að mála egg nema þeir sem hafa það að atvinnu og stórgræða á túrhestum og öðrum sem álpast til að fjárfesta í þessum gersemum.
Svona er nú það og ég ætla að fara að dæmi nútímakonunnar og fá mér andlitsbað hjá dúllunni minni henni Marketu.
Á morgun kemur síðan framhald af páskasögunni héðan frá Stjörnusteini.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.3.2008 | 10:33
Pákuleikarinn og Páfuglar Tékknesku sinfóníunnar.
Hver nema ég gæti fengið hláturskast í miðri sinfóníu Brahms, nánar tiltekið þegar Tékkneska sinfónían spilaði Allegro non troppo kaflann fyrir troðfullum áheyrandasal. Þarna sat ég eins og fífl og hristist af hlátri innra með mér, OK ég gat sem betur fer hamið það að hljóðið bærist út úr búknum, en augnatillitið sem minn elskulegi sendi mér sagði allt sem þurfti:
Reyndu nú að hemja þig manneskja, það er bara ekki farandi með þig innan um fólk. Þetta er kultúrkvöld, ekki trúðaskemmtun!
Við vorum sem sagt stödd á tónleikum í boði sendiherra Lettlands þar sem m.a. var frumflutt verk eftir Lettneska tónskáldið Péteris Vasks. Tónleikarnir byrjuðu á undurfögru verki eftir Haydn og síðan kom verk Mr. Vasks sem var bara virkilega gott miða við að ég er ekkert sérlega hrifin af nútímatónlist.
Í hléi var síðan dreypt á kampavíni eins og tilheyrir á svona stundum og ég veit ekki hvort það var vínið eða Brahms sem fengu mig til þess að hætta að fylgjast með tónlistinni. Sumum sem leiðist á tónleikum fara að telja hljóðfæraleikarana en ég dundaði mér þarna við að grandskoða múnderinguna á kvennaliði hljómsveitarinnar.
Eitthvert þema var þarna örugglega í gangi því allar höfðu saumað hárautt siffon hingað og þangað á svarta síða kjólana og litu út eins og páfuglar með fiðlur. Hræðilegt að sjá þetta drusluverk bylgjast með hreyfingum hvers og eins. E.t.v. hefur þetta verið gert í tilefni páskanna en þvílíkt mislukkað dæmi.
Þetta var nú samt ekki það sem vakti kátínu hjá mér heldur var það yndislegi pákuleikarinn sem trónaði þarna aftast. Ungur og örugglega mjög efnilegur maður en gat bara ekki hamið tilfinningar sínar.
Þarna stóð hann í öllu sínu veldi og lifði sig þvílíkt inn í verkið að hann var farinn að stjórna öllum í hljómsveitinni með höfuðhneigingum til hljóðfæraleikaranna þegar þeir áttu að koma inn. Andlitið gekk í bylgjum og einstaka sinnum sýndist mér hann tralla með. Þegar hann fékk svo tækifæri á að koma inn sjálfur og sýna getu sína þá var það gert með þvílíkum tilþrifum að maður bjóst við að kjuðarnir myndu skoppa úr höndunum og lenda bein í hausinn á stjórnandanum. Aumingja drengurinn var svo gjörsamlega ómeðvitaður um þessa tilburði sína og naut sín svo fullkomlega þarna að það hálfa var nú nóg.
Þetta voru sem sagt hálfgerðir trúðaleikar sem við fórum á í gærkvöldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 12:26
Eru þetta spælegg í páskagardínunum mínum?
Hér skipta veðurguðirnir um skoðun á fimm mínútna fresti. Vita ekkert vort þeir eiga að láta himininn gráta eða brosa niður til okkar. Ég er hálf fúl út í almanakið, páskarnir eru allt of snemma í ár.
Mínir páskar eiga að vera sólríkir dagar, sitja undir blómgandi kirsuberjatrjám í léttum sumarkjól með hádegisverðinn framreiddan á veröndinni sem skreytt er með páskaliljum og túlípönum sem boða okkur komu sumarsins. Öll tré skreytt með gulum og grænum eggjum sem flökta í vorgolunni eins og fiðrildi.
Ég lít hér út um gluggann og snjónum kyngir niður í svona jólaflyksum. Sem betur fer festist hann ekki neitt að ráði þar sem hitastigið er rétt yfir frostmarkið! Við sem fyrir viku kepptumst við að þrífa hér utanhúss jafnvel alveg út að þjóðveg til þess að hafa sem þokkalegast hér um páskana. Sú fyrirhöfn gaf ekkert af sér nema sára bakverki hjá okkur hjónum.
Þegar minn elskulegi snaraðist inn úr dyrunum seint í gærkvöldi varð honum á orði: Hvaða hvíta stöff er þetta sem þú ert búin að þekja alla lóðina með? Ég sat bara með kökkinn í hálsinum því ég hafði búist við einhverju á þessa leið: Nei, elskan ertu búin að páskaskreyta, og baka líka!!!!
Þrátt fyrir að hér væri ekki mjög páskalegt úti ákvað ég þó að setja dálítinn páskasvip á heimilið. Keypti nýjar eldhúsgardínur, voða páskalegar.
Athugasemd frá mínum elskulega: Heyrðu það eru spælegg í gardínunum.
Ég frussaði út úr mér: Nei, þetta eru svona gulir hringir, minnir ekkert á spælegg! (er enn að pæla í hvort hann hafi rétt fyrir sér, góni á þær í hver sinn sem ég kem inn í eldhús)
Minnir mig á þegar ég keypti nýjar gardínur eina páskana fyrir gluggann í holið í Traðarlandinu og pabbi kom í heimsókn og varð starsýnt á gardínurnar sem ég var rosalega hrifin af og sagði á milli hlátursroka:
Nei bara Séra Ólafur Skúlason kominn fyrir glugga á heimilinu!!! Gardínurnar minntu hann víst á möttul Ólafs.
En sem sagt hér er kominn pínu ponsi páskafílingur innanhúss og nú bara þarf ég að leggjast á bæn um gott veður. Held samt að himnafaðirinn fari nú ekki að ómaka sig yfir svo lítilsverðri bón svo ég ætla bara að fara núna og skvera mig í betri fötin og koma mér á tónleika. Það hjálpar alltaf sálartetrinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2008 | 09:20
Ærsladraugurinn kominn á kreik
Það er deginum ljósara að þessi uppfærsla á Tristan og Ísold á ekkert erindi upp á fjalir Metropolitan.
![]() |
Ólánið eltir óperuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2008 | 11:46
Það blæs ekki byrlega fyrir ferðamenn um páskana.
Þeir Íslendingar sem ætla að leggja land undir fót nú um páskana og heimsækja Evrópulöndin verða aldeilis að taka á honum stóra sínum. Það er ekki einungis blessuð krónan ykkar sem hefur lækkað heldur líka hitastigið. Hér gengur á með hryðjum og blæs kröftuglega og hitinn um 3 gráður. Skítakuldi.
Við máttum jú svo sem búast við páskahreti hér og marsmánuður getur oft verið ansi dyntóttur og spáin er ekki góð fyrir næstu daga svo þið sem leggið land undir fót verið viðbúin skítakulda.
![]() |
Gríðarlegt flökt á krónunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2008 | 10:48
Að sjálfsögðu, hvað annað? En samt...
Getum við verið annað en stolt af þessum löndum okkar sem dvelja þarna í Afganistan? Við höfum alltaf verið kjörkuð þjóð en mín skoðun er samt sú að Ísland eigi að draga sig til baka frá Afganistan og senda fólkið heim sama hversu ,,kraft og kjarkmikil" við erum.
![]() |
„Getum verið stolt af Íslendingunum“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2008 | 18:15
Kemur til með að renna ljúft niður
Hugsið ykkur bara að lyfta glasi með guðaveigum frá Pernod-Richard. Horfa á hvernig vínið freyðir í glasinu og kitlar bragðlauka. Þessi unaðslega tilfinning sem fylgir því að súpa varlega og láta renna niður með tileyrandi værðarhljóðum. Humm veit ekki, ég held ég haldi mér bara við Bohemia Sekt, það er líka mjög ljúft og kostar hér aðeins um 300.- ísl. peninga.
Annars datt mér í hug þegar ég las þessa grein um dýrt vín, að segja frá heimsókn okkar í einn frægasta rauðvínskjallara Evrópu hér um daginn. Hann er í eigu Austurríkismanns sem á og rekur Palais Coburg svítuhótelið í Vínarborg. Sá náungi keypti lager af afar gömlum vínum fyrir nokkrum árum á uppboði og kom því fyrir í kjallara hótelsins. Þar kostar ódýrasta rauðvínsflaskan 3.000.- evrur og sú dýrasta um 30.000.- evrur.
Kjallarinn er ekki stór en úrvalið er ótrúlegt og kjallaravörðurinn sem sýndi okkur dýrðina umgekkst þessar flöskur með þvílíkri virðingu, eins og hann væri í höllu drottningar þar sem gersemar glóðu, enda var þetta örugglega mjög merkilegt safn af góðum vínum sem bara vínspekúlantar kunna að meta.
Þegar við spurðum hvort fólk virkilega keypti flösku af þessum guðaveigum með kvöldmatnum sagði hann svo vera en í hvert skipti sem það gerðist væri eins og verið væri að slíta hjartað úr eigandanum og hann ekki með sjálfum sér í marga daga á eftir.
![]() |
Kassi af kampavíni á 50 þúsund evrur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.3.2008 | 17:52
Ég er með höfnunartilfinningu.
Halló er engin heima? Það hlýtur að vera alveg bongó blíða á landinu núna án þess að ég viti það með vissu en alla vega bendir allt til þess. Ég tók upp símann áðan og ákvað að spjalla aðeins við einhvern skemmtilegan heima á Íslandi en mér til mikillar skapraunar ansaði enginn sem ég hringdi í, hvort sem það voru vinkonur mínar eða einhver úr fjölskyldunni, það var hvergi ansað.
Ég er með hræðilega höfnunartilfinningu og líður bara alls ekki vel innra með mér. Minn elskulegi farinn yfir til Þýskalands, í viðskiptaerindum. Erró hálf domm og vill lítið með mig hafa, síðan dettur manni í hug að slá á þráðinn til vinkvenna eða fjölskyldu og þá fær maður bara svona langt og hvellt dúúú aftur og aftur sama hvert ég hef hringt, það er enginn heima hjá sér í dag.
Ætli það sé einhverskonar samsæri í gangi gegn mér þarna uppi á landinu?
Nei ég segi nú bara svona, rosalega er nú samt gott að geta hellt sér yfir ykkur hér á blogginu. Vona að það sé einhver þarna úti sem skilur mig.
Bloggar | Breytt 17.3.2008 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)