Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2008 | 11:04
Þetta verða karlarnir að lifa með
O ætli þeir komi nú til með að kvarta mikið, held ekki.
Verst þetta með tímatakmarkanir, ef svo er þá er sumum konum vandi á höndum. Berbrjósta synda frá eitt til fjögur. Klukkan á mínútunni allar uppúr og drífa sig í sundfötin eða fara bara heim. Þetta gæti valdið algjöru írafári þarna í Danaveldi er ég hrædd um.
En sinn er siður í landi hverju.
Danir synda berbrjósta
Þjóðverjar eru á sprellunum í gufu en verða að synda með sundhettu og kappklædd
Íslendingar eru á báðum áttum, og sundverðir reka fólk í sundföt ef það ætlar að striplast ofan í lauginni en þú mátt liggja flatur og berbrjósta á bakkanum.
![]() |
Heimilt að synda berbrjósta í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.3.2008 | 22:12
Draumsýn eða hvað?
Við vorum á leið heim í kvöld og ég impraði á þessu við minn elskulega þar sem við keyrðum eftir hraðbrautinni heim á leið.
Ég: Hvað finnst þér um að leggja Metro í Reykjavík
Hann: Ertu eitthvað verri, það búa bara rúmlega eitthundrað þúsund manns þarna
Ég: Og so, af hverju ekki? Þetta gæti leyst samgönguvanda og auðveldað fólki að komast frá A til Ö. Sjáðu bara hvað þetta er þægilegt hér, þú hoppar upp í lest og ert kominn innan fárra mínútna á ákvörðunarstað. Hvað er svona neikvætt við þetta.
Hann: Hugarfluga ekkert annað, þetta verður ekki að veruleika á Íslandi meðan við tórum í þessum heimi.
Sem sagt þarna var einn á neikvæðu nótunum. Útilokaði bara sí svona að þetta yrði að veruleika, ja alla vega fengjum við ekki að líta þessi samgöngutæki augum á Íslandi, við værum einfaldlega of fámenn þjóð og kostnaður óyfirstíganlegur.
Ég sit hér og læt mig dreyma. Vonandi, einhvern tíma, bara ef........
![]() |
Borgarráð skoðar hagkvæmni lesta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2008 | 13:56
Ætli þetta yrði ekki bannað á Íslandi en er samt snjöll hugmynd
Mitt í öllu krepputali, þá datt mér í hug að segja ykkur hvernig eitt stórfyrirtæki hér á landi kemur á móts við viðskiptavini sína og fær alla til að brosa um leið og þeir greiða fyrir sína vöru með ánægju.
Þetta stórfyrirtæki heitir Mountfield og selur allt frá garðhrífum upp í sundlaugar og stórvirk garðtæki. Um daginn þegar minn elskulegi var að versla þar eitthvað smotterí og kom að kassanum gekk allt sinn vanagang. Afgreiðsludaman stimplaði allt samviskusamlega inn og gaf síðan upp upphæðina. Um leið og hún sá að viðskiptavinurinn átti pening í buddunni og ætlaði ekki að svíkjast um að borga tilgreinda vöru brosti hún sínu blíðasta svo skein í hvítar tennur og bauð mínum elskulega að snúa stóru rúllettuhjóli sem var við enda á kassaborðinu.
Hjólið var þannig útbúið að á því stóðu tölur frá 1% og upp í 100% og einskonar lukkuhjól fyrir viðskiptavini. Minn sneri hjólinu af mikilli snilld og talan 17% kom upp. Viti menn, hann fékk þá 17% afslátt af vörunni sem hann var tilbúinn að greiða fyrir fullt verð.
Ég hélt nú í fyrstu þegar ég heyrði þessa sögu að hann væri að búa hana til bara svona til að lífga upp á hversdaginn en þetta var staðreynd.
Hann sagði mér að hann hefði að gamni fylgst með nokkrum viðskiptavinum og sumir hefðu farið upp í 20% en yfirleitt hafi nú hjólið stoppað í 10 prósentum. Hann var líka viss um að hjólið væri stillt á ákveðna prósentu og síðan væri e.t.v. þúsundasti hver viðskiptavinur sem fengi 50% eða jafnvel 100% bara til að fá umtalið. Því auðvitað berast svona fréttir fljótt og örugglega og allir vilja jú græða ekki satt.
Þetta kallar maður hugmyndaflug í lagi. Viðskiptavinir alsælir með kaupin og verslunin stórgræðir því auðvitað laðar þetta að viðskiptin.
En þetta væri nú örugglega stranglega bannað á Íslandi því landanum er forboðið að taka þátt í svona leikjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.3.2008 | 12:15
Hamingjuríkið Ísland í 16 sæti og svo er verið að kvarta
Jæja góðir hálsar þá vitum við það. Svo er bara verið að væla og barma sér alla daga. Það hafa nú orðið skipbrot áður í okkar góða þjóðfélagi og veit ekki betur en við höfum alltaf klórað í bakkann.
Ef þessar niðurstöður eru marktækar þá trónið þið góðu landar í 16 sæti og ,,við" Tékkar í því þrítugasta. Er það bara ekki nokkuð gott ef miðað er við stöðuleika og hagsæld 235 landa.
![]() |
Mikil hagsæld og stöðugleiki á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.3.2008 | 14:32
Hvað er fólk líka að þvælast upp í svona tæki?
Ég hef aldrei skilið þá áráttu hjá fólki að vilja dinglast svona í lausu lofti til þess eins að dásama útsýnið. Alveg sama þó maður sé innilokaður í einhverju glerbúri. Allir með sælusvip og baðandi út öllum öngum yfir fegurð landslagsins. Gólandi á himnaföðurinn, þakkandi honum fyrir að skapa jörðina.
En það er nú ekki alveg að marka mig ég er svo lofthrædd að bara það að stíga upp á stól getur farið með mig á tauginni. Fyrir mér er fall af stól eins og fall fram af ystu nöf ofan í stórgrýtt gil og lífinu þar með lokið.
Einu sinni gerðist ég rosalega voguð og fór upp í svona hrillingstæki eftir mikið nauð frá krökkunum mínum, aðhlátur og stórar yfirlýsingar frá mínum elskulega hvað ég væri nú mikil gunga. Að sjálfsögðu stoppaði karfan efst uppi og ég fraus gjörsamlega. Þegar við vorum komin niður á jarðfast sagði minn elskulegi að þetta myndi hann aldrei gera mér aftur, hann sá konuna sína verða græna í framan og hélt að hún væri að syngja sitt síðasta þar sem honum fannst hún vera hætt að anda og dauðastjarfi kominn í líkamann.
Á meðan dóttir mín bjó í London í nær átta ár var oft imprað á því við mig hvort ég hefði ekki farið upp í The London Eye. Yfirleitt hunsaði ég spurninguna því bara það að bera þetta ferlíki augum í hvert skipti sem kom í borgina fékk hárin á mér til að rísa og kuldahrollur hélst í margar mínútur í mínum fína skrokki.
Mér finnst fólk hugdjarft sem getur klifið fjöll, gengið þrönga stíga á ystu nöf, eða farið sér til skemmtunar upp í turna bara til þess eins að dásama útsýnið. En ég elska að ferðast með flugvélum, enda er það allt annað mál.
Lofthræðsla er ekkert grín það er bara þannig.
![]() |
400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2008 | 15:36
Hrollvekjuhjólhýsi
Jamm ég skal segja ykkur það. Að hafa glottandi hauskúpu sem stáss í hjólhýsinu sínu er bara alveg magnað.
Gæti verið að eigendur hafi sofið vel þarna?
Ætli afturgangan hafi haft eitthvað með það að gera að hjólhýsið fauk út í veður og vind? Bráðfindin frétt svona í lok páska.
![]() |
Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.3.2008 | 15:14
Annar í páskum, dagur barnanna. Páskasagan endar hér
Hody, hody, doprovody syngja börnin hér núna og ganga hús úr húsi. Að launum fá þau nammi í körfurnar sínar sem stelpurnar bera en strákarnir reyna að koma á mann höggi með skreyttum reyrstöfunum.
Vísan er eitthvað á þessa leið: Hátíð, hátíð vinir mínir. Gefið okkur rauð egg en ef þið eigið ekki máluð egg þá gefið okkur hvít. Þetta syngja þau hátt og snjallt fyrir alla sem heyra vilja.
Þessi páskasiður hefur lítið breyst í aldanna rás nema að því leiti að hér áður fyrr eltust ungir menn við þær stelpur sem þeir voru skotnir í og oft endaði eltingarleikurinn upp á hlöðulofti með tilheyrandi hlátrasköllum og hamagangi en sumir ungir menn urðu að súpa súrt seyði og gefast upp, þar sem heimasætan lokaði sig inn í föðurhúsum og vildi ekkert með gaurinn hafa.
Minnir óneitanlega dálítið á Öskudaginn okkar.
Þar með endar Páskasagan, á degi barnanna hér í Tékklandi. Ég vona að einhverjir hafi haft gaman að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eftir að hafa opnað tvö míní páskaegg í dag fór ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er verið að setja þessa hundleiðinlegu, úreltu málshætti inn í eggin. En allir lesa þetta og alltaf með jafn mikilli tilhlökkun en síðan kemur skeifa í munnvikin. Æ, sama og í fyrra eða æ, sama og þú.
Það er hefð hjá okkur í fjölskyldunni að lesa málshættina sem við fáum en þetta er orðið svo hundleiðinlegt. Engum stekkur bros, allir sitja og bíða eftir að komi að sér og stundum þarf maður ekki annað en að lesa fyrsta orðið. Að sjálfsögðu kann maður flesta málshætti utanbókar. Svo er ekki kominn tími til að lyfta þessari hrútleiðinlegu lesningu upp í skemmtilegheit
Hvar eru allir vitringarnir, íslenskufræðimennirnir, séníin sem lifa þarna uppi heima á landinu góða. Hefur engum dottið í hug eða fundið betri málshætti en það sem hefur gengið hér mann fram af manni já alla vega síðan ég man eftir! Einstaka egg eru með málshætti sem eru afbökun úr erlendu máli og höfða alls ekki til okkar og eru jafnvel hreint út sagt óskiljanlegir.
Einn frábær bloggari afbakaði íslenskan málshátt hér á blogginu ekki alls fyrir löngu og ég skellihló. Þarna var eitthvað alveg nýtt en með sömu meiningu. Bara á léttari nótunum.
Þið ágætu rithöfundar og aðrir góðir pennar. Hefur engum dottið í hug að fara til Nóa Sirius og uppfæra gulu miðana? Hérna er kærkomið tækifæri fyrir ykkur að stórgræða, en súkkulaðifyrirtækin gætu e.t.v. verið treg í fyrstu því það þarf að prenta nýja gula miða en þegar uppi er staðið þá koma allir til með að hagnast á þessu, ja nema neitendur en það er bara allt annað mál. Það glepja allir við nýungum ekki satt.
Bara hugsið ykkur, auglýsing hjá Nóa Sirius eða annarri súkkulaðifabrikku.
Nýjir málshættir að hætti nútímafólks! Halló koma svo.......
NÝJA OG FINDNA MÁLSHÆTTI FYRIR NÆSTU PÁSKA!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.3.2008 | 15:59
Páskadagur með fjölskyldunni og enska sparkinu
Alveg er það makalaust hvað fótbolti getur umturnað öllu í okkar fjölskyldu, ja öllum nema mér.
Páskadagur og litla fjölskyldan hér í Prag hittist á Four Season hótelinu í hádeginu til þess að eiga ánægjulega samverustund og borða góðan mat. Þessum sið höfum við haldið síðan við fluttum hingað og þykir öllum ómissandi á páskadag.
Að þessu sinni voru með okkur systur Bríetar tengdadóttur, Íris og Jón Helgi maður hennar og þeirra tvö börn og Ingunn. Mér var hugsað til þess þar sem ég leit yfir hópinn hvað við værum heppin að eiga svona yndislega fjölskyldu en saknaði sárlega dóttur minnar og hennar fjölskyldu sem nú eru að spóka sig á skíðum á Akureyri.
Sólin sendi hlýja vorgeisla inn í veitingasalinn þar sem við sátum og gæddum okkur á Nóa Sirius páskaeggjum með kaffinu og lásum málshættina fyrir hvort annað eftir að hafa verið búin að raða í okkur dýrindis krásum úr Michelin eldhúsi hótelsins. Svona líka hugguleg páskastemmning.
Allt í einu spyr einhver við borðið á svona ekta norðlensku: Hæ hvenær byrjar leikkurinn?
Annar svarar: Hann er að byrja núna.
Viti menn það var bara eins og rakettu væri stungið í afturendann á öllum, nema mér og allir ruku upp til handa og fóta. Sá stutti, fimm ára Grenvíkingurinn var held ég verstur: Drífa sig, drífa sig, leikurinn er að byrja pabbi!
Kyss, kyss, allir heim. The end!
Nú liggur minn hér uppi fyrir framan TV eftir að hafa keyrt á methraða heim og glápir úr sér augun og það eina sem hann hefur sagt við mig síðan við komum heim er: Rosalega held ég að þau séu fúl núna þarna í Prag 6. ( Þau búa þar krakkarnir) Liverpool tapaði. Sem sagt allir í fýlu á því heimili núna.
Mér gæti ekki verið meira sama hvor vann eða ekki. Svona tuðruspark á bara alls ekki upp á pallborðið hjá mér að ég tali nú ekki um þegar fullorðnir menn kássast upp á hvern annan og veltast um annan þveran í misjafnlega ástúðlegum faðmlögum er bara eitthvað sem ég skil ekki.
Ætla að fá mér annað Nóa Sirius egg, svona til að hressa mig.
![]() |
Man. Utd með 6 stiga forystu eftir 3:0 sigur á Liverpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2008 | 17:00
Páskasagan heldur áfram...Píslargöngustígurinn
Fátt er skrifað í gömlum ritum um laugardag fyrir páska jú nema það að fólk fór í heimsóknir til ættingja og vina og skiptist á gjöfum. Börnum voru gefin listilega skreytt egg en fullorðna fólkið gaf hvort öðru heimalagaðar pylsur eða annað matarkyns en allt fór þetta eftir efnum og ástæðum heimilanna.
Á páskadagsmorgun klæddist fólk sínu fínasta pússi og sótti kirkju að kristilegum sið.
Nokkru eftir að við fluttum hingað í sveitina og fórum að skoða hér gönguleiðir um nágrennið villtumst við einu sinni af leið og héldum eftir þröngum stíg sem lá frá Sternberg kastalanum sem er í þriggja km fjarlægð frá okkar landareign. Kastali þessi var byggður snemma á 13. öld og hefur fylgt Sternbergunum alla tíð síðan.
Þennan sólríka vordag ákváðum við að fylgja þessum stíg og sjá til hvert hann lægi. Slóðinn liggur frá kastalanum og bugðast niður í frekar djúpt gil. Beggja vegna stígsins vaxa ævaforn grenitré og aðrar skógarjurtir en inn á milli vex blágresi sem gefur umhverfinu ævintýralegan ljóma. Kyrrðin sem ríkir þarna er með ólíkindum, það bærist varla hár á höfði og eina hljóðið sem berst til eyrna er værðarlegt gljáfrið frá bergvatnsánni sem rennur letilega í botni þessa undrareits.
Það sem vakti athygli okkar þegar við fyrst gengum þessa leið, voru mjög gamlir róðukrossar sem höfðu verið settir við stíginn með vissu millibili. Myndirnar sem eru á krossunum eru teikningar eftir börn og þar getur þú fylgt píslarsögunni frá byrjun til enda. Því miður er ekkert ártal á þessum myndum en þær eru örugglega mjög gamlar og hafa varðveist ótrúlega vel þarna undir gleri.
Þegar við fórum síðar að forvitnast um þennan stíg fengum við að vita að hann er nefndur Píslargöngustígur. Sagan segir að hér fyrr á öldum hafi biskupar og prestar gengið í broddi fylkingar þessa leið á páskadagsmorgun til þess að minnast píslargöngu Krists.
Stígurinn er um 10 km langur og liggur héðan til næsta þorps. Þegar Hraðbrautin var lögð var stígurinn vaðveittur eins vel og hægt var og liggur nú undir veginn svo enn í dag er hægt að ganga þessa leið án hindrana. Að sjálfsögðu hefur stígurinn breikkað í tímana rás enda mikið um ferðamenn þarna þó sérstaklega að sumarlagi.
Það liggur mikil og djúp helgi yfir þessu svæði og stundum hefur mér fundist einhver vera með mér á göngunni sem vill fylgja mér áleiðis. Á vissu svæði ríkir svo mikil kyrrð að jafnvel fuglarnir hætta að syngja. Það er eins og allt umhverfið vilji umvefja mann og gefa manni kraft.
Ekki amalegt að hafa svona kraftmikinn stað hér rétt við túnfótinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)