Færsluflokkur: Bloggar

Þegar fólk er farið að stela eyrnapinnum þá er nú fokið í flest skjól

Þjófnaður í hvaða formi sem er er ekkert grín og bara gott mál þegar þrjótarnir finnast og taka út sína refsingu.

Um daginn var ég stödd í snyrtivöruverslun og var eiginlega bara í svona samanburðarkönnun.  Þar sem ég á fljótlega leið um fríhöfnina hér sem er talin ein ódýrasta í Evrópu vildi fá einhverja hugmynd um framboð og verð þar sem tími er kominn til að endurnýja byrgðir í baðskápnum.

Þar sem ég er nýkomin inn í verslunina og stend við einn rekkann kemur ung afgreiðslustúlka að mér og spyr ósköp kurteysislega hvort hún geti aðstoðað.  Ég svara eins og er að ég væri hér aðeins til að skoða. Ég færi mig að næsta rekka og tek fram krukku í forláta umbúðum og velti henni aðeins í hendinni og les um öll þau undur sem þetta gæti nú gert fyrir gamla og þreytta húð.  Kemur þá önnur ljóska að mér og spyr sömu spurningar og sú hin fyrri og ég svara aftur og brosi blítt til hennar.  Bara að skoða.  

Þegar þetta endurtekur sig í þriðja sinn fer ég aðeins að pirrast.  Hvað er þetta halda þær að ég ætli að stela úr hillunum?  Ég sé að mér er fylgt með fránum augum og nú eru þær komnar fjórar að vappa í kringum mig auk öryggisvarðar í fullum skrúða.  Þá kemur einhver púki í mig svo ég fer að gefa mér betri tíma, skoða fleiri tegundir og tek fleiri hluti úr hillum en ég ætlaði mér.  Sný mér síðan að þeirri sem næst mér stendur og spyr hvort ég geti fengið prufu af þessu kremi.  Nei, engar prufur voru til en ég gæti fengið að prófa úr krukku sem var fyrir gesti og gangandi.  Og um leið potar hún fingri ofaní krukkuna og kemur með smá sýnishorn á putta og otar honum að mér.  Ég hörfa aðeins undan og segi ,,fyrirgefðu en ég er nú ekkert á því að þú farir að klína þessu framan í mig og er ekki snyrtilegra að nota eitthvað áhald í þetta í staðin fyrir að nota puttana.  Svar:,,jú við erum bara búnar að gefast upp á því að nota eyrnapinna því þeim er bara öllum stolið" 

Þarna kom skýringin á eftirliti afgreiðslufólksins.  Hér er meira að segja stolið eyrnapinnum!  Til þess að bæta aðeins fyrir leiðindin sem ég sýndi þessu ágæta starfsfólki keypti ég eina krukku af dýrasta kreminu í versluninni og þakkaði síðan pent og gekk út með brosi og töluvert léttari buddu. 


mbl.is Ákváðu að stela dekkjum af bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði verið stungið inn á vitleysingahæli ef náðst hefði til mín.

Búálfar og annað hyski er búið að ver að hrella okkur hér undanfarið eða svo held ég.  Fyrst var það vatnsleysið og svo núna um daginn þar sem ég stóð undir notalegri sturtunni og var rétt búin að löðra sjampói í hárið heyrðist búmmm!  Vatnið smá fjaraði út og ég eins og fallegur dúnhnoðri stóð þarna bölvandi sveitasælunni í sand og ösku.

Ég skellti mér í þykkasta baðsloppinn sem ég fann og hentist niður stigann en þar er rafmagnstaflan fyrir húsið. Allt virtist vera í stakasta lagi.  Þar sem við erum með eigin brunn og dælan gengur fyrir rafmagni var augljóst að aðaleintakið hafði klikkað og það er langt frá húsinu, næstum alveg við þjóðveginn.  

Án þess að hugsa skellti ég mér í skó og út fór ég í hvíta þykka baðsloppnum með sápulöðrið í hárinu hugsaði ekki einu sinni út í það að setja handklæði um hausinn.  Þarna hentist ég yfir gaddfreðna lóðina eins og hvítur ísbjörn með hárvöndul sem líktist Marge í Homer Simpson.Blush

 Með skjálfandi höndum tókst mér að opna lúguna og smella örygginu upp. Um leið er mér litið út á þjóðveginn þar sem bíll hægir ferðina og tvö starandi augu horfa á þetta furðuverk í morgunkulinu.  Ég snerist á hæl og hljóp eins og vitleysingur heim að húsi og þakkaði almættinu fyrir stóra járnhliðið okkar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. 

Nú er ég sem sagt orðin fræg að endemum hér í hverfinu.  Whistling

 

  

 


Sunnudagsmorgun með Bylgjunni og ,,Spaugstofunni

Á meðan ég drakk morgunkaffið og neri stírurnar hlustaði ég á viðtal Valdísar við yfirbloggarann Jenný.  Gaman að kynnast konunni bak við skemmtilega bloggið á Mbl.  aðeins betur þar sem var stiklað á stóru um hennar lífshlaup. 

Eftir þetta skemmtilega viðtal renndi ég Spaugstofunni í gegn sem ég hef ekki gert lengi.

HALLMUNDUR MINN!!!  Á þetta að heita fjölskylduvænt skemmtiefni í skammdeginu!   Nú ættu þessir ágætu listamenn að biðja borgarstjóra formlega afsökunar og pakka síðan saman!  Í hæsta máta ósmekklegt og ekki par fyndið! Nú er nóg komið!      


Bóndadagur með öllu tilheyrandi

Til hamingju með daginn húsbændur, stórbændur, kotbændur og fjárbændur!  Ekki byrjaði hann vel þarna hjá ykkur í stórbyl og allt pikkfast og blómabændur sem treysta á þennan dag sem uppgrip allra tíma. En ekki er öll von úti enn dagurinn svo sem rétt að byrja og húsmæður geta vonandi skutlast eftir einum túlípanavendi í vasa handa ykkur karlar mínir.

Minn elskulegi var svo rosalega hræddur um að ég myndi gleyma deginum svo hann mætti í gær með sinn blómvönd í fanginu brosandi út fyrir eyru, in case. WinkVar að hugsa um að pirrrrrast en hætti við. OK þá þarf ég ekki að endasendast fyrir einn túlípanavönd á morgun.

Datt svona líka í hug að malla eitthvað hér heima en hætti við.  Í fyrsta langi til hvers að vera að skíta út mitt fína eldhús.  Öðru lagi þar sem ég stæði yfir pottunum og hrærði kæmi fljótlega yfirsmakkarinn yfir öxlina með góðar og gildar leiðbeiningar og þá myndi bara sleifin hendast upp í loft og dagurinn ónýtur, ég í fýlu og minn á kafi í eldamennskunni.

Nei ég ákvað að taka minn með mér út á meðal fólks og láta einhverja kokkdrusluna sjá um eldamennskuna.  Sem sagt auðveld lausn, minn elskulegi kaupir sjálfur blómin og eitthvað veitingahús stórgræðir á okkur hjónum í kvöld.Grin Whistling

 


Sendu foreldrar börnin til að mótmæla?

Virðist vera.  Hvar eru kjósendur?  Þvílíkur skrípaleikur!
mbl.is Hávær mótmæli í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í mat hjá Gordon F..Ramsay eftir móttöku í Senatinu

Veit ekkert eins leiðinlegt en að standa upp á endann í háhæluðum skóm, tvístígandi af óþreyju og vera nauðbeygð til þess að  hlusta á ræður sem engan endi ætla að taka.  En það var einmitt það sem ég gerði í kvöld þar sem við vorum stödd í boði Tékkneska Senatsins. 

Á meðan ég hlustaði á forseta Tékkneska Senatsins, Swartzenberg Utanríkisráðherra, Sendiherra Páfa og ,,Prins Valdstein", (auðvitað ekki prinsinn sjálfan því hann var uppi á 17. öld) gat ég látið hugann reika aftur til miðalda því við vorum stödd í reiðhöll Valdsteinanna sem búið er að gera upp sem minjasafn og var þetta boð í tilefni opnunar safnsins.  Engin orð um það meir. Sjón er sögu ríkari þið sem eigið leið hingað til Prag.

Þegar ræðuhöldum lauk og við búin að heilsa til hægri og vinstri gengum við út í kvöldið og ákváðum að fara á Royal Hilton og snæða hjá  heimsfræga kokkinum Gordon F..... Ramsay.  Það er nýbúið að opna hótelið og veitingastaðurinn kennir sig við þennan fræga meistara matargerðarlistar.  Höfðinginn sjálfur er hér staddur í borginni og að sjálfsögðu spurðum við hvort hann væri á svæðinu en því miður var hann ný farinn.  F...ræðuhöldin... annars hefðum við ef til vill fengið að heilsa upp á goðið.  En við vorum ekki svikin af matnum.  Hreint út sinfóníubragð af hverjum rétti. Algjör snilld!

 


Spurning til ykkar allra

Eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur látið út úr sér hér á blogginu.  Nýleg færsla er hér í gangi eftir einhvern "Fullur"  og er það ósmekklegasta sem ég hef séð hér. Er einhver sem getur stoppað svona óþverra?  Þetta nær engri átt að svona skrif geti byrst hér óhindruð. 

Veit aðeins um einn með vissu sem er í algjöru rusli núna

Ætla ekki að blanda mér mikið í þessa hringavitleysu þarna á eyrinni enda hef ég ekki kosningarétt og stjórnmál alls ekki ekki minn tebolli.  Það sem hefur vakið athygli mína er að hörðustu íhaldsmenn eru ekki par hrifnir af þessum sandkassaleik.  Ekki ætla ég heldur að dæma þessa ágætu menn sem verma ætla borgarstjórastólinn til skiptis, örugglega góðir menn og frambærilegir svona ef vel er gáð.

"Duglaus stjórn er mikil blessun fyrir þjóðina" stendur einhvers staðar.  Ef til vill, hver veit?Wink

En það veit ég að einn góður vinur minn er núna í algjöru rusli eftir Borgarstjóraskiptin og það er listamaðurinn og skúlptúristinn Helgi Gíslason sem setið hefur sveittur í mörg ár að gera "Hausa" í brons af flestum ef ekki öllum Borgarstjórum Reykjavíkurborgar. 

 Og nú bætist enn einn við í hópinn og jafnvel aðrir tveir á þessu kjörtímabili.  Heilir sjö "Hausar" á átta árum.  Ekki furða að aumingja Helgi minn sjái ekki fram úr þessum verkefnum. Hvar á svo að koma þessum "Hausum" fyrir, allir í röð, merktir bak og fyrir með nafni og dagsetningum á stalli í Ráðhúsinu. Ætli verði ekki að byggja við húsið í framtíðinni ef þessu heldur svona áfram. 

Helgi minn ekki láta deigan síga þetta hlýtur að taka enda einn góðan veðurdag og ef ekki þá tekur þú bara alla hersinguna með þér hingað í sveitina, ég meina fyrrverandi borgarstjóra og þeir geta setið fyrir hér í Leifsbúð næstu árin.  Ekki málið. Tounge


Ekkert er eins heilagt og barnssálin

Litla þriggja mánaða perlan okkar hún Elma Lind grét sáran um leið og  mamma hennar lokaði útidyrunum og skildi hana eftir í fyrsta skipti í umsjá afa og ömmu. Afinn fór alveg í kerfi og gekk um gólf eins og óður væri en amman tók þessu með stóískri ró og bar þá litlu upp á loft enda mín búin að kúka í buxurnar og prinsessa getur ekki verið þannig lengi án þess að láta í sér heyra.

Held að við höfum komið ágætlega út í pössunarhlutverkinu.  Sú stutta tók nokkrar aríur á milli þess sem hún kúrði til skiptis hjá afa og ömmu enda dálítið lasin í mallanum og þá líður manni ekki sérlega vel og vill kúra í hálsakoti.  Þegar foreldrarnir komu heim, dálítið á nálum hvort við hefðum nú staðið okkur í hlutverkinu fengum við held ég grænt ljós frá þeim báðum.

Rakst á þetta um daginn og læt fylgja hér með

Ekkert er eins heilagt og barnssálin, því hún trúir

guði sínum og lifir í guði sínum, og sakleysið og hreinleikinn

sem skín úr augum barnsins er endurskin af sál guðs,

og bæn barnsins er andaráttur guðs.

                                                                                     HKL


Nú fer að renna úr penna Þráins

Vinur okkar,rithöfundurinn, myndlistamaðurinn og háðfuglinn Þráinn Bertelsson er kominn í íbúðina okkar og sestur við skriftir. Þrátt fyrir einlæga ósk okkar um að hann dveldi frekar í Listasetrinu þessar vikur var það ekki til umræðu.  Vildi frekar vera innan um ,,alþýðufólk" enda vanari borgarþys en lognmollu sveitarinnar. 

Vertu velkominn gamli vin.  Nú lyftist brúnin á mínum elskulega.  Hann er búinn að sakna líkamsræktar- og Shusi félagans þessi líka ósköp. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband