Færsluflokkur: Bloggar

Endurfundir hjá ,,Rósunum"

  ,, Nei, hæ gaman að sjá þig. Rosalega lítur þú vel út, hefur bara ekkert breyst!" þetta glumdi í eyrum mér þegar ég kom inn á veitingastað í gærkvöldi þar sem ,,Rósirnar" hittust aftur eftir næstum 20 ár.  Guð, nú verð ég mér til skammar hugsaði ég þar sem ég hengdi kápuna mína upp og bjóst til að ganga í salinn þar sem þessi föngulegi leikfimishópur frá Djassballettskóla Báru stóð í hnapp og knúsuðu hvor aðra.

Ég er alveg rosalega ómannglögg og nú var enginn elskulegur til að hvísla að mér hver væri hvað. Sem betur fer gekk þetta stórslysalaust og ég gat komið saman andlitum og nöfnum án þess að klikka áberandi mikið. 

Það voru ungar og hressar konur sem byrjuðu saman að hoppa undir leiðsögn Báru fyrir hartnær þrjátíu árum og héldu hópinn í mörg ár.  Farið var reglulega í ferðir innanlands og haldnar árshátíðir. 

Nú voru það nítján hressar kellur sem komu saman og rifjuðu upp skemmtilegar minningar.  Eftir matinn voru teknar léttar æfingar svona til upprifjunar en hér skal ekki sagt frá hæfni eða úthaldi.  Ákveðið var að taka upp reglulegar gönguferðir ,,aldraða" svo það er búið að endurvekja ,,Rósirnar" hennar Báru. Ég lofaði að mæta þegar ég ætti leið hér um.  


Var búin að gleyma hversu beljandinn getur orðið rosalegur.

Veðrið sem gekk yfir landið um síðustu helgi aftraði för okkar til Akureyrar á föstudaginn þar sem flug lá niðri.  Í stað þess að mæta á frumsýningu á Flónni hjá LA sem við vorum búin að hlakka mikið til að sjá hættum við okkur út í brjálað veður um kvöldið og mættum holdvot og veðurbarin á frumsýningu Íslensku Óperunnar á föstudagskvöldið. 

Klukkan átta á laugardagsmorgun vorum við, litla fjölskyldan að sunnan mætt á Reykjavíkurflugvelli í annað sinn og náðum að komast norður með fyrstu vél. Litla Elma Lind lét okkur svo sannarlega hafa fyrir sér enda stóð mikið til þar sem skíra átti prinsessuna þennan sama dag. 

Athöfnin fór fram í Laufási og séra Jón Helgi bróðir séra Péturs heitins skírði barnið í Guðs nafni.  Hátíðleg stund í litlu kirkjunni að Laufási og enginn vafi á að vinur okkar, séra Pétur var með okkur þarna og vel viðeigandi þegar sungið var í lokin sálmurinn hans, Í bljúgri bæn.

Eftir athöfnina var öllum kirkjugestum boðið í kvöldmat að gömlum og góðum sveitasið. 

Egill minn og Bríet og þið öll hin á Grenivík og Laufási takk fyrir skemmtilegar samverustundir.    


Stórsigur Sigrúnar Pálmadóttur í kvöld! Bravo!

Sigrún Pálmadóttir brilleraði sem Violetta í uppfærslu Íslensku Óperunnar á La Traviata Verdis í kvöld.  Ég hef sjaldan verið viðstödd önnur eins fagnaðalæti hérlendis enda frábærir listamenn sem tróðu upp á fjölum Óperunnar. 

Frumsýningagestir fylltu húsið þrátt fyrir skaðræðisveður og mikil stemmning ríkti á sýningunni.  Fagnaðarlætin í lok sýningarinnar þar sem fólk klappaði, stappaði, hrópaði og bravoaði ætlaði hreinlega að rífa þakið af gamla góða Bíóhúsinu okkar.   

Sigrún Pálmadóttir var stjarna kvöldsins, engin spurning.  Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tómas Tómasson voru líka frábærir í hlutverkum Alfredo og Giorgio.  Skemmtileg uppfærsla hjá Jamie Hayes. Hamingjuóskir til allra sem stóðu að þessari sýningu og vonandi líður ekki á löngu þar til við getum boðið öllu þessum glæsilegu listamönnum upp á stærra og betra tónleikahús.  Bravo!! 


Fór næstum því á límingunni yfir 50 centum

Ég vissi betur en hélt samt í þetta litla hálmstá að reykingabarinn á Kastrup, þessi eini sem leyfði reykingar síðast þegar ég fór þar í gegn, hefði aumkvað sig yfir okkur strompana en mér varð ekki að ósk minni. 

Það er nú svo einkennilegt að ég hef ekkert fyrir því að fljúga reyklaus, hugsa ekki einu sinni út í nikotin tyggjóið sem ég hef alltaf í handtöskunni en um leið og ég er lent kemur þessi hræðilega þörf fyrir smók.  Þar sem ég og minn elskulegi vorum millilent í Köben og tveir tímar í næsta flug gúffaði ég upp í mig tyggjói og tuggði með áfergju. 

 Til þess að dreifa huganum fór ég í búðarráp.  Í matvörudeildinni hendi ég í körfu nokkrum vel völdum hlutum og þar sem ég var ekki með neina danska aura þá spyr ég hvort ekki sé hægt að borga með Euro.  Ekkert var sjálfsagðara, en þegar á að gefa til baka vill ekki betur til en svo að daman á enga skiptimynt og spyr hvort ég sé nokkuð með klink á mér.  Ég segi svo ekki vera og frussa út úr mér,, geturðu ekki athugað í hinum kassanum hvort ekki sé til mynt þar."  Nei, hún mátti ekki opna þann kassa hann var ekki hennar. ,, Jæja vinkona, og hvað ætlar þú þá að gera, gefa mér afslátt?"

  Þegar hér var komið er minn elskulegi kominn í nokkra metra fjarlægð frá þessari brjáluðu kerlingu.  Auðvitað endaði það með því að ég gafst upp, og fór í fússi frá kassanum 50 centum fátækari!

Minn elskulegi:  Hvað er eiginlega að þér manneskja, þetta voru skitin 50 cent !

Ég:  Já og hvað með það, rétt er rétt, ég bara læt ekki bjóða mér svona.

Minn:  Heyrðu við förum nú ekki á hausinn út af þessu

Ég:  Mér er bara alveg skítsama, þetta er alþjóða flugvöllur og lágmark að það sé skiptimynt í kassafjöndunum.

Minn:  Jæja elskan, er sígarettuþörfin alveg að fara með þig?

Ég:  Nei, ég er bara rosalega þyrst og með það strunsa ég að næsta bar.  Viltu eitthvað að drekka?  (Venjulega er nú það minn maður sem sækir drykki á barinn en ekki ég.)

Minn: Já vatn með gasi

Ég: Vatn!  Jæja þú getur svo sem drukkið þitt vatn en ég hafði nú hugsað mér eitthvað aðeins sterkara.

Þar sem ég er sest með glasið mitt aðeins farin að róast innra með mér.  Sjálfsagt var tyggjóið farið að hafa áhrif segi ég: 

Heyrðu, heldurðu að við getum ekki bara flogið VIP næst? 

Minn: Ha hvað meinarðu?

Ég : Jú sjáðu til, Margrét Þórhildur reykir enn svo það er örugglega hægt að fá inni í þessu reykherbergi hennar ef við fljúgum VIP.

Mér var ekki svarað.  Kallað út í vél.  Þriggja tíma flug heim og ég gat huggað mig við það að næsta kast kæmi ekki fyrr en í flughöfninni heima. 


Erum á leiðinni heim að hitta eina af hamingjusömustu íbúum Evrópu

Nú fer að styttast í það að ég geti knúsað ykkur öll þarna í Hamingjulandinu ja alla vega ykkur sem ég kem til með að hitta næstu tvær vikurnar.  Ég hlakka mest til að dekra litla skriðdrekann minn hann Þóri Inga allan tíman eins og almennilegar ömmur eiga að gera. Það verður knúsað og kjassað, leikið og hlegið, dansað og sungið, lesið og horft á Bubba byggir allt í einni bunu. 

Við höldum héðan á morgun til Kaupmannahafnar og síðan þaðan heim í norðangarrann.  Egill okkar og Bríet eru farin heim á undan því nú stendur mikið til. Það á skvetta vatni á Elmu Lind, litlu prinsessuna okkar og koma barninu í kristinna manna tölu.  Verður það gert við hátíðlega athöfn í kirkjunni að Laufási á laugardaginn. Bara svo þið vitið það norðanmenn, þá verðum við á Grenivík um næstu helgi. 

Vegna mikilla eftirspurnar um að fá að berja okkur augum og fá að njóta okkar einstöku skemmtilegheita tilkynnist það hér með, ykkur sem alltaf eruð á síðustu stundu að panta tíma hjá okkur, að öll kvöld eru fullbókuð en þó eru nokkur hádegi enn laus. Við gætum líka e.t.v. troðið örfáum aðdáendum okkar inn á milla mála.  Wizard  NB verð í Kringlunni á mánudaginn milli fimm og sex við rúllustigann til hægri og gef eiginhandaráritanir, ekki í úlpu en gæti verið í skepnunni, (það er pelsdruslan), fer svona eftir veðri og vindum. Tounge  

Veit nú ekki hvort mikill tími gefst til skrifta vegna anna í skemmtanalífinu en ég reyni að henda inn einni og einni færslu ef þrek og tími gefst.  Þetta er nefninlega algjör kleppsvinna að kíka á ykkur greyin mín.  Fer venjulega beint á heilsuhæli þegar ég kem heim.  Þið þarna sem skiljið ekkert, þá er heima Prag og heim er Hamingjulandið Ísland. Wink

Kveðja inn í nóttina héðan að heiman.  

 


Já sumir eru vitgrannir aðrir einfaldlega heimskir

Já fólk er misjafnlega vel upplýst.  Sat með fyrrverandi kennslukonu frá henni stóru Ameríku um daginn og hún fór að spyrja mig um landið okkar og þjóð.  Vissi greinilega mjög lítið, taldi það væri hulið ís og hrauni og þ.a.l. að það væri næstum óbyggilegt.

Spurningar á við:  Er hægt að fljúga þangað?  Hvernig komist þið að milli staða?  Notið þið hestvagna?  Eru moldargólf í húsunum ykkar?  Og í framhaldi þessarar spurningar: Eru nokkur Mall?  (típískur Ameríkani)  Fleiri spurningar allar jafn fáráðlegar fylgdu í kjölfarið.  Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að taka þessu.  Var konan að grínast eða var hún bara svona illa upplýst?

Vinkona mín önnur sem sat þarna með okkur og hefur heimsótt landið okkar hló í hálfkæring og reyndi eftir megni að gefa svör.  Ég get svarið það, þarna sat ég, heimskonan á móti henni  (ekki í úlpu og ekki í Channel dragt) og gapti eins og hálfviti á þetta furðuverk sem á móti mér sat og var algjörlega kjaftstopp (það skeður ekki oft) þar til ég eiginlega sprakk í loft upp og næstum hvæsti á kennarann: 

Heyrðu vinkona, nú skal ég segja þér eitt.  Við búum í torfbæjum, með ekkert rafmagn.  Við notum langelda til að halda á okkur hita og við lepjum dauðan úr skel.  (man nú ekki hvernig ég bögglaði þessu síðasta út úr mér á enskunni)  Hesturinn flytur okkur á milli staða og við erum með sleða og hunda á veturna.  Sumir búa í snjóhúsum með lyftu. Þegar við fluttum hingað fyrir sautján árum kynntumst við fyrst menningarþjóðfélagi.  Happy ?!!!!!!!!

Eftir þessa ræðu stóð ég upp og færði mig yfir á hinn enda borðsins og hélt mér þar í hæfilegri fjarlægð frá þessari kerlingu það sem eftir var borðhaldsins. Ég er ekki enn búin að ná mér eftir þessa furðulegu uppákomu. 

NB. Þessi saga er dagsönn! 

 

 

 


mbl.is Breskir unglingar halda að Churchill sé sögupersóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuheiti manna og dýra

Ég þoli ekki nafnið mitt.  Þessu var klínt á mig þriggja mánaða gamalli og það eina sem ég gat gert til að mótmæla var að grenja hástöfum og af einskæru tillitsemi við mína nánustu hef ég ekki viljað gera stórt mál vegna þessa klúðurs sem gerðist fyrir miðja síðustu öld.  

Dýranöfn geta líka verið afskaplega villandi.  Þegar við bjuggum í Fossvoginum fyrir allmörgum árum flutti fólk í götuna fyrir ofan okkur og mér vitandi áttu þau tvo unglingsstráka og eina litla dömu. Á hverju kvöldi heyrði ég í frúnni þar sem hún stóð úti á svölum og kallaði hástöfum ,, Ragnar Magnús komdu að borða!" 

 Eftir nokkra mánuði hittumst við, ég og þessi tiltekna frú svo ég fer að spyrja hana hvað börnin séu gömul og hvað þau heiti.  Fékk ég að vita að drengirnir hétu Jón og Páll, man það nú ekki svo glöggt núna en dóttirin héti Þórhildur.

 ,, Aha og eigið þið svo þriðja strákinn?" 

 ,,Ha nei bara þessi þrjú" 

Ég hugsaði, ekki er hún að góla á kallinn sinn á hverju kvöldi svo ég spurði:

,,Nú en hver er Ragnar Magnús?"

,, Æ það er kötturinn okkar"

Eftir að ég heyrði um þetta furðuheiti kattarfjandans þá hætti ég að furða mig á öllum afbrigðilegum nöfnum hvort sem það voru dýra eða mannanöfn.

       


mbl.is Piu og Sven hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þreyja Þorra

Nú þegar fimbulkuldi herjar á landsmenn og allir kvarta yfir kulda, snjóþunga, bílum sem festast, bílum sem fara ekki í gang, hallærislegum kuldaúlpum sem sumir klæðast til að verjast frosthörku vetrarins (hef ekkert á móti úlpum) sit ég hér og pæli í Þorranum. 

 Þennan mánuð sem fólk hér áður fyrr (og við þurfum ekki að fara svo langt aftur í tímann) varð að þreyja í köldum húsakynnum.  Matarlítil heimili sem ekkert áttu eftir nema nokkra súra bita ofaní tunnu eða skreið undir húshjalli.  Lapti nær dauðan úr skel og kúrði saman í fleti undir súð með hor í nös nær dauða en lífi og beið þess aðeins að sólin færi að bræða héluna á rúðunni svo birt gæti til í mannssálinni.

Í dag sitjum við hér í alsnægt en erum síkvartandi.  Þolum ekki þetta eða hitt, erum pirruð ef allt gengur ekki eins og smurt.  Dálítið mótlæti og allt bara hrynur í kringum okkur. Svo það fari ekki neitt á milli mála er ég að tala um smámuni, veraldlega hluti og annað sem í raun skiptir engu máli.  Við tökumst alltaf á við stóru vandamálin og björgum þeim yfirleitt sjálf vegna þess að við erum ótrúlega gautseig í eðli okkar. 

Í dag situr þessi alsnægta þjóð og hámar í sig sama trosið og forfeður okkar létu ofan í sig og man ekki einu sinni eftir því að þakka Guðunum fyrir hvað þá heldur Sr. Halldóri Gröndal en hann endurvakti þennan gamla góða sið hér fyrir þrjátíu árum eða svo þegar hann réði ríkjum í gamla góða Naustinu sem nú er búið að eyðileggja (svo er fólk að tala um húsfriðun) 

 Ég persónulega læt ekki ,,ónýtan" mat inn fyrir mínar varir en ég hef svo sem ekkert á móti þessum góða sið.  Mér finnst brosandi kjammar og bleikir hrútspungar ekkert sérstaklega girnilegir á diski að ég tali nú ekki um hákarlinn, þann hlandfisk. En sitt sýnist hverjum og verði þeim bara að góðu sem fóðra sig á þessu gumsi. 

Nú þegar leið okkar hjóna liggur fljótlega til lands ís og elda hlökkum við svo sannarlega til að takast á við veðurguðina.  Einnig ætlum við að blóta Þorra með góðum vinum.  Því er komið hér með á framfæri, þið sem ætlið að bjóða okkur í mat, eitt svona trogpartý er alveg nóg en okkur þykir soðningin mjög góð með íslensku sméri. 

Lifið heil og góða helgi.

   

 

    


Búin að panta með fyrstu ferð

Jahá, svo nú er bara að panta far og drífa sig með nektarfluginu.  Allir karlar á sprellunum og konur, væntanlega þýskar, með skúfana undir handarkrikunum.  Allir í stuði og þambandi bjór eða þýsk vín sem síðan klístrast við evu og adamsklæðin þegar hellist úr glösum í þyngdarleysinu jóðlandi á tyrólsku. 

 Áhöfnin eins of fífl innan um hin fíflin kappklædd og uppástrokin með flugþjónabros á vörum biðja farþega vinsamlegast um að spenna sætisbeltin fyrir lendingu, sem koma til með að límast óþyrmilega fast við klístraða líkama.  Það fylgir nú ekki fréttinni hvort farþegar mæti naktir á áfangastað eða þeim verði gefinn kostur á að koma sér í larfana áður en stigið er frá borði.

 Ekki spurning ég panta ferð hvert á land sem er, ekki seinna en núna!ToungeLoL


mbl.is Óvenjuleg ferðamennska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er algjör auli

Í gær var dekurdagur hjá minni. Svona ég, um mig, frá mér, til mín.   Ó þvílík sæla sem í vændum var! Tveggja tíma dúllerí með ilmjurtum.  Herðanudd, andlitsbað og allt sem tilheyrir svona dekri.  Marketa mín er alveg einstaklega mjúkhent og natin svo það er tilhlökkunarefni í hvert sinn sem ég á tíma hjá henni.

Mín var mætt stundvíslega á bekkinn og ætlaði svo sannarlega að njóta þess í botn að láta stjana við sig.  Þar sem mín lá eins og slytti á bekknum undir hlýju teppi, fésið þakið yndislegri froðu fór að síga á mína höfgi.  Og undir ljúfum tónum og sjávarnið hvarf hún ég fljótlega inn í draumalandið.Whistling

 Hef satt að segja ekki hugmynd um hvað ég svaf lengi en hrökk upp með andfælum við hroturnar í sjálfri mér. Aumingja Marketa mín.  Þarna var hún búin að smyrja, nudda og dekra við kerlinguna sem hraut síðan bara beint upp í andlitið á henni. Þvílíkt vanþakklæti! 

 Skelfilegt, líka það að þarna hafði ég legið hrjótandi eins og gamall selur innan um ilmandi orkideur, lágværa tóna, notalega lýsingu og bara misst af öllu fíneríinu. Ég er ekkert smá fúl útí sjálfa mig núna. Næst tek ég með mér eyrnatappa, og stoppunálar til þess að stinga í minn fína rass til þess halda mér vakandi. Ekki séns að ég missi af öðrum dekurdegi.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband