Færsluflokkur: Bloggar

Fyrsta, önnur og þriðja position

Lögreglan í Timisoara dansar nú á hverju götuhorni eftir glymjandi Tschaikowsky úr Ipodinum.  Pligée og allar positionir teknar eftir kúnstarinnar reglum enda allir búnir að fara á ballettnámskeið. 

 Einn vörður laganna tekur sig til og skellir sér í táskóna og dansar Svanavatnið af mikilli innlifun svo umferðahnútar myndast við hringtorg borgarinnar.  Kollegi hans sér að þetta er að fara út í algjöra vitleysu og þeysist út á eyjuna við torgið  til að bjarga málunum.  Sér hann ekkert annað í stöðunni en að taka nokkur þeysistökk úr Hnotubrjótnum.

 Ökumenn eru nú farnir að ókyrrast, sumir komnir út úr bílunum en aðrir þeyta hornin.  Enginn kemst lönd né leið fyrir dansandi lögregluliði og hvað er þá hægt að gera í stöðunni annað en njóta sýningarinnar og klappa síðan léttfetum lof í lófa að sýningu lokinni. Allir hvort sem er orðnir of seinir á sitt stefnumót og þetta eru jú verðir laganna sem þarna eru að troða upp og ekki skammast maður út í þá eða hvað?           


mbl.is Lögreglumenn læra ballett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seyðfirðingurinn síungi er sextugur í dag og tekur væntanlega á móti bikar Þorparanna

Nú er ekki seinna vænna en en skvera sig í betri buxurnar og mæta í sextugsafmæli ársins!  Gísli vinur minn og bloggari Blöndal er sextugur í dag og ef það hefur farið fram hjá ykkur þá er hátíð á Organ núna klukkan fimm. Ef ég þekki minn sæta strák er hann núna mættur á svæðið og búinn að stilla upp trommusettinu með stórhljómsveitum landsins.  Hann lofaði gestum að hann myndi berja kjuðunum í húðirnar í kvöld.

Væntanlega verður honum afhentur bikar Þorparanna,  með mikilli viðhöfn að hætti þeirra ágætu  vina okkar sem kalla sig þessu skemmtilega nafni en þeir voru allir saman í JC fyrir ,,miljón" árum eða svo. Bikar þessi er afhentur á stórafmælum og hefur gengið mann frá manni síðan fyrsti Þorparinn hélt upp á sitt fertugsafmæli og er sagan skráð á þennan merkisgrip. Skemmtileg hugmynd hjá strákunum á þeim tíma.     

Asskoti að missa af þessu öllu en ég skála hér með fyrir þér Gísli minn og njóttu kvöldsins í faðmi fjölskyldu og vina.  Knús og kossar á þig héðan frá Stjörnusteini. 


Með komu Góu vorar innra með mér.

Í tilefni konudagsins og vorkomunnar. 

Má ég hugsa um þig, spurði hann.

Já, sagði hún.

Alltaf? spurði hann.

Ekki í dimmu, sagði hún, en þegar sólin skín.  Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini.   Heimsljós. Fegurð himinsins.

Lítil fluga suðaði við eyra mér og vakti mig snemma í morgun.  Vorið er komið hugsaði ég eða var mig að dreyma?  Létt klapp á öxlina, minn elskulegi að kveðja áður en hann hélt til borgarinnar.  Heyrði í svefnrofunum að hann væri búinn að laga kaffi og það væri tilbúið úti á veröndinni og hundurinn væri strokinn eina ferðina enn og hvort ekki væri í lagi að láta hann eiga sig þar til hann kæmi sér sjálfur til föðurhúsanna.  Ég klappaði mínum til baka á handlegginn og umlaði eitthvað í þá áttina að það væri í lagi.

Um leið og útihurðinni var lokað glaðvaknaði ég og hristi svefndrungann úr kollinum.  Hvað sagði maðurinn, kaffi á veröndinni?  Ég skellti mér í slopp, niður stigann og viti menn vorið var komið, eða alla vega leit allt þannig út.  

Spörfuglarnir sungu frygðarsöngva í trjánum, morgunsólin vermdi andlit mitt og kaffið kraumaði á vélinni í útieldhúsinu okkar.  Mig hafði sem sagt ekki verið að dreyma.  Fyrsti dagur í Góu, Konudagurinn og vorboðinn ljúfi farinn að syngja.

Nú sit ég hér og nýt þess að drekka fyrsta morgunsopann minn hér úti.  Hundspottið er kominn heim og liggur hér við fætur mér örþreyttur eftir langa morgungöngu og ekkert því til fyrirstöðu að byrja á vorverkunum. Whistling         

 

 


Sápustríðið herjar á fleiri stöðum

Sá þessa undarlegu frétt ef frétt skildi kalla í morgun og af því að hún hangir enn inni (skil ekki hvað er málið) þá langar mig til að upplýsa ykkur um það að nú er að skella á sápustríð um gjörvalla Evrópu. Allir sem vettlingi geta valdið hella sér í stórþvotta með Ariel Ultra, Ariel Mountain og Ariel Color.  Sápulöðrið flæðir hér hvarvetna úr hýbýlum manna svo fólk á fótum sínum fjör að launa og kerlingar standa kófsveittar yfir þvottavélum og suðupottum og sést ekki til sólar fyrir mjallahvítum þvotti sem blaktir hér í vorgolunni eins og gunnfáni við hvert heimili.

Jú, jú hér fóru þeir líka hamförum, Proctor & Gamble og bjuggu til fjöll af þessu undra þvottaefni í öllum helstu stórmörkuðum Tékklands.  Hvað er svona merkilegt við það? Stórfrétt í Mbl. tekið beint úr Aftenposten.  Sápustyrjöld yfirvofandi!  Halló það vita allir sem hafa haft einhver kynni af Norðmönnum að þeir elska sitt OMO og fara nú varla að skipta um tegund eins fastheldnir og þeir eru. 

Ég skildi þessa herferð hér ósköp vel vegna þess að í dag flæðir inn í landið allskyns hreinlætisvörur sem Tékkar hafa litla sem enga þekkingu á svo fyrir mér var þetta ósköp eðlileg sjálfsbjargarviðleitni af hálfu P & G. 

Þegar við komum hingað 1991 var aðeins hægt að fá eina tegund þvottaefnis, man nú ekki hvað það hét en flestir keyptu bara þessa gömlu grænsápu svo og það sem við kölluðum Sólskinsápu þegar ég var að alast upp.  Mörg heimili suðu sína eigin sápu og hér var enginn sóðaskapur á heimilum.  Tékkar eru mjög þrifin þjóð og hvergi voru eins hreinar gardínur fyrir gluggum og hér.  Allir áttu eins gardínur og allar voru þær mjallahvítar.  Sápa var munaðarvara og ef þú komst inn á almenningssalerni þá var sápan í neti sem var kirfilega fest við vegginn, stundum með hengilás.

Einu sinni spurði ég konu hér hvert ég gæti farið með fötin mín í hreinsun.  Hún hafði aldrei heyrt um fatahreinsun svo ég spurði ,, Nú hvað gerir þú þá við t.d. jakkaföt mannsins þíns?"  ,,Ég þvæ þau í höndunum heillin"  svaraði hún og brosti svo skein í skemmdar tennurnar. Svona var nú þetta 1991 en hvort Arial eða Persil kemur til með að koma á einhverri sápustyrjöld hér það stórefa ég.

Datt þetta bara svona í hug þegar ég sá þessa bjánalegu frétt um yfirvofandi sápustríð í Noregi Tounge

 

 

 


mbl.is Nýtt sápustríð yfirvofandi í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagið brást 158 einstaklingum

Eftir kvöldmatinn settum við Syndir feðrana í DVD spilarann en þá heimildamynd höfðum við keypt í fríhöfninni á leiðinni heim.  Það var átakanlegt að hlusta á sorgarsögu þessara manna vitandi það að um leið bjó maður sjálfur í hlýjum heimkynnum foreldra og hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast innan veggja þessa ,,heimilis" að Breiðuvík.  Ég man að ef einhver hafði orð á því að þessi eða hinn hefði verið í Breiðuvík var sneitt fram hjá viðkomandi, þetta voru ,,vandræðabörn" og maður skildi forðast alla umgengni við svoleiðis líð.

Guð minn góður hvað þessir drengir máttu þola og enginn hreyfði legg né lið.  Í dag eru 25% af þessum drengjum látnir.  Sjálfsagt hafa nokkrir komist áfram í lífinu af eigin ramleik en síðan eru þeir sem hafa alla tíð barist við óttann við lífið.  Sumir fallið mörgum sinnum í djúpa gryfju og aldrei komist upp en aðrir krafsað í bakkann og hafið betra líf, sem betur fer.

Ég ber mikla virðingu fyrir þessum mönnum sem fram komu í myndinni og Kastljósi á sínum tíma og þeir eiga alla mína samúð.  Það þarf mikla áræðni til þess að koma fram fyrir alþjóð og opna sárar minningar eftir svo mörg ár.

Stakk mig dálítið þegar ég las um skýrslu nefndar sem fjallaði um starfsemi Breiðavíkurheimilisins.

Samfélagið hefur brugðist!

Draga má lærdóm af þessu máli!

Málið enn í rannsókn!

Málið gæti hugsanlega verið fyrnt!

NEFNDIN STARFAR ÁFRAM AÐ ÞESSUM MÁLUM!!!

Þetta segir okkur aðeins eitt, málið er dautt. 

Grátlegt að heyra annað eins frá prófessor í félagsráðgjöf og hennar nefndarmeðlimum!

 


mbl.is Draga má lærdóm af Breiðavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mig vantar einhvern til að sparka duglega í rassinn á mér

Ég hefði betur pantað tíma á heilsuhæli áður en ég fór að heimsækja ykkur þarna uppi á Íslandi og farið beinustu leið af flugvellinum þegar ég kom heim og á hælið.

Dagur eitt (í gær) átti að vera á morgunverðarfundi og síðan í Lunch, nennti ekki að vakna um morguninn og nennti síðan ekki á fætur fyrr en upp úr hádegi.  Hringdi þó og afboðaði komu mína með lélegri afsökun.  Segi ekki einu sinni hver hún var! Blush

  Dagur tvö og ég er hálfnuð að taka upp úr töskunum, búin að fara tíu ferðir upp og niður stigann í þeim tilgangi að klára dæmið en finn mér alltaf eitthvað annað að dunda við.  Skoða myndir sem teknar voru í ferðinni, klappa hundinum í stað þess að baða greyið, hann er grútskítugur núna, fara yfir blöð og bæklinga, setjast við tölvuna, opna og loka pósthólfinu af því ég nenni ekki að svara öllum þessum pósti.

Fer út og horfi yfir landareignina, anda djúpt, kominn tími fyrir vorhreingerningu úti, nenni ekki einu sinni að fara með ruslið eða athuga póstkassann.  Sit með kaffibollann og glápi út í loftið og velti fyrir mér á hverju ég eigi nú að byrja.  Húsið er á hvolfi, föt, skór, töskur, blöð, drasl allstaðar og hússtýran mín í fríi!!!! Devil  Enginn matur í ísskápnum en það er svo sem allt í lagi við erum á detox hér, eða það er það sem ég segi sjálfri mér því ég nenni ekki út að versla inn í matinn.

Og allt er þetta ykkur þarna heima að kenna.  Maður er gjörsamlega búinn á sál og líkama eftir þessa þrekraun að sækja ykkur heim.  Hálfur mánuður sem fer í það að éta sig til óbóta, ég tala nú ekki um að skemmta fólki frá morgni til kvölds. 

  Svefnvana vaknaði maður,( af því að það hafði verið svo gaman kvöldið áður) og var mættur í morgunkaffi, dreif sig síðan í hádegismat sem stóð til kl.2 eða 3, eftirmiðdagskaffi,( sem venjulega var hjá aldraði móður minni af því ég er svo góð dóttir), kokteill hér eða þar og síðan var skverað sig upp til að mæta með bólgna fætur og þrútið andlit í kvöldverð sem stóð langt fram á morgun.  En svona án gríns þetta var rosalega skemmtileg ferð en þið öll sem stóðuð fyrir þessum uppákomum skuluð fá þetta allt í hausinn næst þegar þið komið að heimsækja okkur.  Þá hef ég stjórn á hlutunum og það verður sko ekki nein elsku mamma. Tounge

OK þetta var bara eins og fínasta vítamínsprauta svo nú get ég haldið áfram að hlaupa hér á milli hæða og sjá hverju ég kem í verk fyrir kvöldið áður en minn elskulegi birtist í dyrunum.  Læt hann kaupa eitthvað í kvöldmatinn á leiðinni heim.  Hætt í detoxinu Cool  


Einn góður með morgunsopanum

Vinurinn hringdi í æskuvininn og spurði frétta

Æskuvinurinn ,, Nú bara allt ágætt"

Vinurinn:  ,, er ég að trufla þig"

Æskuvinurinn: ,, ha, nei, nei ég er bara að hugsa um heimilið"

Vinurinn:  ,,Nú hvar er konan, erlendis"?

Æskuvinurinn:  ,,Nei, hún er heima, bara svona að dúlla sér"

Vinurinn:  ,,Nú OK, og þú að hugsa um heimilið?"

Æskuvinurinn: ,, Jamm, ligg hér bara uppí sófa og hugsa um heimilið"


Eitthvað hljóta þessar endalausu vegaframkvæmdir að kosta.

Þetta er nú ekki nýtt af nálinni og nákvæmlega þessa hugmynd viðraði ég við samferðamenn mína  þegar við vorum að keyra til Keflavíkur í fyrradag. Svörin sem ég fékk voru eitthvað á þá leið að kostnaður væri of mikill og fjöldi ferðamanna ekki nægur til að lestarkerfi borgaði sig.

  Eins og þetta lítur út í dag er vegurinn stórhættulegur og þrisvar urðum við að fara út af aðalbrautinni vegna vegaskemmda, að ég held eða framkvæmdir liggja niðri tímabundið vegna þess að verktakinn fór á hausinn. Eitthvað í þá áttina voru svörin við heimskulegri spurningu minni. Eitthvað hljóta þessar endalausu vegagerðir að kosta.  Jarðýta stóð utan vegar ein og yfirgefin og við fengum þær upplýsingar að tækið væri svo gamalt og úr sér gengið að það borgaði sig ekki að selja það og allt of kostnaðarsamt að fjarlægja gripinn.  Ýtan er víst búin að vera þarna í langan tíma og verður örugglega á sama stað þegar ég kem heim næst.     


mbl.is Vilja láta skoða möguleika á lestarsamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Home sweet home

Við kvöddum föðurlandið í fyrradag í slydduveðri eftir tvær frábærar vikur með fjölskyldu og vinum.  Á leiðinni yfir hafið fann ég það út að það er þrekvirki að fljúga með stútfullan maga af Íslenskum kræsingum og nokkrum kílóum þyngri. 

 Þrátt fyrir allt átið heima hafði ég það af að henda í körfu í flughöfninni hangikjöti, flatkökum, páskaeggjum og öðru góðgæti áður en ég yfirgaf landið og þar sem ég er ekkert sérlega hrifin af flugvélamat fyllti ég nestispoka með Jumbó samlokum svona,, in case" ef ég yrði svöng á leiðinni.  Þetta er jú þriggja tíma flug og ekki gott að verða hungurmorða yfir Atlandshafinu. Wink Samlokurnar komu sér reyndar vel þar sem sessunautar mínir, minn elskulegi og vinkona okkar sem  var á heimleið til Vínar hjálpuðu mér aðeins við að hesthúsa þessu.

Við hjónin ,,hvíldum" okkur svo í einn sólarhring.  Spásseruðum í kóngsins Köben og héldum áfram að borða, nú danskar kræsingar alveg þar til við stigum upp í vélina til Prag seint í gærkvöldi.

Það var svo gott að koma heim. Fyrsta sem minn elskulegi gerði var að fá sér brauð með dönskum ál og majó Sick  Síðan tók hann allt íslenska nammið, með mínu samþykki og faldi það einhvers staðar og ég ætla ekki einu sinni að reyna að leita að því. 

Það voru tvær örþreyttar sálir sem lögðust á koddann og tvær vellíðunar stunur bárust út í nóttina.

Fyrsta sem mér datt í hug í morgun var:  Hvar finn ég svona Detox stöð, nei bara jók. Tounge   

 


Muu, mjá, meee og allur pakkinn í morgun

Í dag er afa og ömmu dagur og farið var með litla Þóri Inga í Húsdýragarðinn í morgun.  Hænurnar tóku feikna vel á móti okkur svo og kisa litla.  Barnið áttaði sig nú ekki alveg á öllu þessu svona í byrjun enda er maður aðeins 16 mánaða.  En þegar við komum í fjósið í annað sinn var mikið fjör þar sem beljur bauluðu á básum og litli guttinn lifnaði allur við.  Þá var ákveðið að fara annan hring og krakkinn var dreginn á milli fjárhúss og gripahúsa þar til hann var gjörsamlega uppgefinn. 

Ekki létu nú afinn og amman þar við sitja því þeim langaði sjálfum svo mikið að skoða Skautahöll landsmanna og drógu krakkaræfilinn með sér yfir bílastæðið í fljúgandi hálku yfir að þessari miklu ,,höll"  Jahérna, ekki fannst okkur nú þetta merkilegur staður.  Svellið sjálft er svo sem allt í lagi en umgerðin er hroðaleg!  Þvílíkur druslugangur! OK, þá er ég búin að sjá þetta og ekki orð um það meir.

Eftir skemmtilegan morgun lúllar minn hér úti í fríska loftinu og dreymir örugglega mee, muuu og öll hin dýrin. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband