Færsluflokkur: Bloggar
15.12.2007 | 09:05
Engin rauð, gul og græn terta á borðum í dag.
Ja hérna það eru 33 ár síðan frumburðurinn okkar fæddist. Það segir mér líka að við eldumst sjálf ótrúlega hratt, eiginlega alltof hratt.
Elsku Egill minn til hamingju með daginn, við kíkjum á þig seinna í dag en því miður gafst enginn tími til að baka köku, þessa rauðu, gulu og grænu með hvíta dýsæta kreminu sem þér finnst svo góð. Lofa að redda því í næstu viku þegar jólaboðunum fer að linna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2007 | 20:04
Laufabrauðið ,,næstum" eins og hjá Leifi Breiðfjörð!
Við erum algjörir snillingar í þessari fjölskyldu og listavelgerðar laufabrauðskökur eru nú á borðum á þremur heimilum hér í Prag. Hrein listaverk.
Jafnvel vinur okkar Leifur Breiðfjörð, sem er algjör snillingur í útskurði á laufabrauði hefði gefið okkur alla vega 5 í einkunn. Annars fer nú enginn í sporin hans Leifs því hann sker aðeins út erótískar kökur. Alveg satt, þær eru geymdar frá ári til árs uppá skáp heima hjá honum og sýndar við hátíðleg tækifæri.
Ég hafði nú aldrei komið nálægt laufabrauðsbakstri fyrr en Bríet tengdadóttir kom í fjölskylduna og með henni þessi skemmtilegi norðlenski siður. Síðan er þetta hefð hér að baka saman og skera út kökur fyrir hver jól. Að þessu sinni vorum við heima hjá systur Bríetar, Ingunni sem tók á móti okkur á sínu litla jólalega heimili.Við skárum út ég, Egill, Bríet og Ingunn en minn elskulegi stóð í ströngu við að mynda okkur í bak og fyrir Ekki alveg hans deild, svona dútl. En hann steikti síðan allar kökurnar af sinni einstöku snilld og Egill pressaði síðan af fullum krafti.
Litla prinsessan hún Elma Lind var með tímasetninguna á hreinu og svaf eins og og vaknaði ekki fyrr en allt var yfirstaðið svo þá gátum við gefið henni allan okkar tíma, bráðgáfuð þessi stelpa.
Frábær fjölskyldudagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2007 | 11:03
Nú klikkuðu Svíar aldeilis....
....því jólasveinarnir búa enn á Íslandi og meira að segja svo tugum skiptir. Það vitum við sem fylgjumst með fréttum og þjóðarsálinni. Ekki aðeins jólasveinar heldur líka fullt af jólasveinkum sem afneita bleika litnum bara svo eitthvað sé nefnt.
Leppalúði, Grýla, Leiðindarskjóða og Bóla eru þarna einhvers staðar líka og stjórna öllum þessum skara með harðri hendi. Það hefur ekkert breyst og mun ekki breytast. Við höldum fast í okkar menn og engin von um að þeir finnist í Kirgistan.
Íslenski jólasveinninn verður alltaf á okkar góða landi, bara misjafnlega sjáanlegur.
![]() |
Leita að Sveinka í Kirgistan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2007 | 16:16
Sunnudagur annar í aðventu
Í tilefni afmælis Bríetar tengdadóttur okkar var snætt á Four Season í hádeginu og litla prinsessan okkar hún Elma Lind í fyrsta skipti úti á veitingastað. Ekki seinna vænna að venja barnið við, enda orðin sex vikna gömul.
Afmælisbarnið fékk þetta líka forláta kaffi, heilar tvær matskeiðar neðan í bolla, hnausþykkt, ræktað úr úrgangi katta sem ala aldur sinn á kaffiekrum, að mér skildist og auðvitað verðið eftir því. Datt í hug að spyrja hvort gullmoli leyndist í botninum.
Ég og minn elskulegi ætlum að hafa það huggulegt hér það sem eftir er dagsins og kveikja á Betlehemskerti aðventukransins og njóta þess að vera saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 14:52
Föstudagsþankar hvutta.
Ég er búinn að vera rosalega óþægur í tvær vikur, en það er sko ekki mér að kenna heldur eru það tvær píur hér í nágrenninu sem eru alveg að gera mig brjálaðan. Svo sætar og sexí að ég get bara engan veginn still mig um að heimsækja þær, fóstru minni til armæðu.
Það er búið að kvarta heil ósköp yfir mér. Ég át víst í sundur girðingu hjá einum nágrannanum. Ég kannast nú ekkert við það Í morgun náði fóstra mín í mig alla leið til Sternberg og hugsið ykkur, hún lét mig hlaupa á eftir bílnum alla leiðina heim, þvílík meðferð, ég var alveg búinn á því þegar heim kom og ekki nóg með það, síðan var ég spúlaður í bak og fyrir og ég sem hata vatn! Ætli ég verði bara ekki sendur út á Guð og gaddinn einn daginn ef ég held þessu háttalagi áfram. Verð víst að fara að taka mig á og hundskast til að hætta þessu flakki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 11:33
Ljósin tendruð að Stjörnusteini
Það var jólalegt í gærkvöldi þegar ég renndi í hlaðið. Pavel minn var búinn að setja upp þúsundir ljósa hér um alla eignina svo lýsti langar leiðir. Hann hefur verið mér innanhandar undanfarin ár og sett seríurnar upp en átti stundum mjög erfitt með að skilja að seríum er hent ef þær virka ekki almennilega. Eitt árið var hann í heila viku, án þess að ég vissi, að dunda við að skipta um perur í tugum sería sem voru að mínu áliti gjör ónýtar. Það tók mig langan tíma að útskýra fyrir honum að þetta væri tímasóun og líka það að perurnar kostuðu meira en ný sería. Já stundum reynir á þolinmæðina í þessu landi.
Fyrstu árin hér áttum við í miklu basli með rafmagnið um hátíðarnar. Um leið og ég var búin að tengja eina seríu sló rafmagnið iðulega út. Þetta fór rosalega í mínar fínustu. En þegar árin liðu fóru þeir að skilja að á þessu heimili er rafmagn ekki sparað svo fljótlega komust hlutirnir í lag.
Sveitungar okkar gera sér ferðir hingað á aðventunni til þess að bera dýrðina augum enda skreytir engin hér um slóðir jafn mikið og hún ég. Jóla hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 10:00
Ojbara!
Nú svelgdist mér á kaffinu mínu. Ógeðslegt að fá þetta uppí sig. En þegar talað er um jólabjór eða jólaöl sem alltaf var keypt í kútum hjá Ölgerðinni í gamla daga á æskuheimili mínu langar mig að segja ykkur hvernig við hér sem ekki getum nálgast Malt og Egils appelsín bruggum okkar eigið jólaöl.
Við blöndum saman Fanta og dökkum bjór og útkoman frábært drykkur og engin aukakvikindi.
![]() |
Fann skordýr í jólabjórnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2007 | 13:35
Málið vakti mikinn óhug hér á sínum tíma
Þegar litla sonardóttir okkar fæddist hér í Prag sl. október hafði ég ekki heyrt um þetta mál og það vakti athygli mína, varúðarreglur spítalans. Um leið og hún kom í heiminn var syni mínum rétt rautt sótthreinsandi efni og hann beðinn um að rita nafnið hennar á annað lærið. Einnig var hún með þetta venjulega plastarmband með nafni og fæðingardegi.
Síðan þetta mál kom til sögunnar hafa öryggisreglur spítalanna hér verið stórbættar enda sorglegt að eitthvað þessu líkt geti komið fyrir.
![]() |
Tékknesk stúlkubörn aftur til foreldra sinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 11:46
Síðan á að set´í þetta aðeins bara kíló pipar
Þessar laglínur eru búnar að klingja í höfðinu á mér í morgun á meðan ég flatti piparkökudeigið,, út á fjööööl!" Varð hugsað til áranna þegar krakkarnir og ég skemmtum okkur við piparkökuskreytingar. Þvílíkt sullumsull. Jólaög sungin fullum hálsi um Gunnu á nýju skónum og Jólasveininn sem kyssti mömmu.
Ég erfði þetta líka forláta rúllukefli frá mömmu minni sem auðvelt var að rúlla yfir deigið og útkoman: jólasveinar, jólatré, bjöllur, stjörnur og mánar. (hvað ætli hafi orðið um það kefli?) Allt var þetta síðan skreytt með gulum, rauðum, grænum og hvítum glassúr og allir kepptust við að láta listræna hæfileika sína framkallast sem best á kökunum. Oft var rifist um þegar sagt var: ,, þessa gerði ég" þá heyrðist: ,, nei ég gerði þessa"
Dýrmætar minningar og skemmtilegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 09:22
Heimþráin gerir vart við sig - er eitthvað svo blue
Ég get varla sagt að ég hafi fengið heimþrá öll þessi ár okkar hér fjarri heimalandinu en þar sem ég sat og fletti blaði landsmanna með morgunkaffinu helltist þetta bara yfir mig sí svona.
Ég saknaði þess allt í einu að komast ekki á Jólatónleika, ekki það að hér geti ég ekki hlýtt á fallega tónlist í hundrað turna borginni en það eru svo ótal margir tónleikar í gangi heima sem ég gæti hugsað mér að hlýða á og ég las einhvers staðar að það væru yfir 100 tóleikar í gangi núna á aðventunni.
Ég gæfi mikið fyrir að geta dólað mér í svona klukkutíma inn í góðri bókaverslun og gluggað í jólabækur, rölt niður Laugarveginn og fá mér kaffitár með dóttur minni. Já ætli það sé ekki það sem kemur þessari heimþrá af stað. Undanfarin ár hefur dóttir okkar búið í London en er nú komin aftur heim með fjölskyldu sína og í gær hringdi hún í mig og var að fara að baka smákökur með vinkonum sínum og mikil jólastemmning í gangi.
En það þíðir ekki að súta þetta, ég bara skelli mér núna í að skreyta húsið og panta mér miða á Hnotubrjótinn og málinu er reddað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)