Færsluflokkur: Bloggar

Jólaklukkur hljóma í byrjun lesturs jólakveðja hjá Ríkisútvarpinu

Það var ekki laust við að lítið tár eða tvö læddust í augnkrókana áðan þegar lestur jólakveðja hófst nú fyrir stuttu  í Ríkisútvarpinu. Síðan ég man eftir mér hafa jólakveðjur landsmanna verið órjúfanlegur hluti Þorláksmessu ef frá eru talin þau ár sem við náðum ekki útvarpstengingu hér í Tékklandi. 

Á okkar heimili á Íslandi var Þorláksmessa ávallt mjög skemmtileg.  Minn elskulegi var yfirleitt á kaf í vinnu þar sem við rákum veitingastað í miðborginni en ég naut þess að vera heima með börnunum og klára undirbúning jólanna.  Um kvöldið þegar búið var að loka Matstofunni fengum við hjónin okkur göngutúr niður Laugarveginn og alltaf var stoppað hjá gull- og úrsmiðunum Jóni og Óskari og fengið sér koníakslögg.  Haldið var síðan áfram alla leið niður í miðbæ með smá stoppum hingað og þangað þar sem kunningjum og vinum var óskað Gleðilegra Jóla.  Eftir bæjarrölt var haldið í Hraunbæinn og kíkt aðeins inn hjá góðvinum okkar.  Þegar heim kom var síðan jólatréð skreytt.  Yfirleitt var það nú minn elskulegi sem stóð í því en ég var góð þar sem ég sat í stól og stjórnaði verkinu með harðri hendi.  Stundum laumaðist ég aftur inn í stofu þegar minn elskulegi var sofnaður og ,,lagaði" aðeins skreytinguna eftir mínu höfði.

Já það hefur mikið breyst hér síðan við héldum okkar fyrstu jól hér í borg og ein Þorláksmessa er mér ofarlega í huga núna þegar ég skrúfa til baka.  Ekki man ég nú hvaða ár það var en það er örugglega langt síðan. 

 Allavega var Soffa okkar ekki hér þá með okkur þau jólin því annars hefði ég ekki verið svona alein á Þorláksmessu. Pinch Ætli sonurinn og minn elskulegi hafi ekki verið á kafi í vinnu því ég man bara eftir því að ég var að ganga hér ein um götur Prag í frostkaldri nóttinni og tárin streymdu niður andlitið, mikið fannst mér ég þá vera einmanna. Mikið saknaði ég þá þess að vera ekki heima á rölti niður Laugarveginn. 

 Já stundum var erfitt að vera hér í ókunnu landi en mikið má ég vera þakklát fyrir að þessi tilfinning kemur örsjaldan yfir mig og í dag hef ég næstum alla fjölskylduna hér hjá mér.  Alla nema Soffu mína og hennar fjölskyldu.  Mikið sakna ég þeirra núna.

  


Skata, hangikjöt, rauðkál og jólakveðjur útvarpsins á Þorláksmessu

Hér hefur aldrei fengist leyfi til að elda skötu á heimilinu á Þorláksmessu enda borða ég ekki ónýtan mat!  En minn elskulegi verður að fá þetta ómeti  svo Skatan er komin hingað fljúgandi yfir hafið og staffið okkar og gestir verða bara að láta sig hafa það að þola ammoníaklyktina eina ferðina enn.

Þeir íslendingar sem borða Skötu og eru hér í borginni yfir hátíðarnar koma alltaf saman á Rest. Reykjavík og gæða sér á þessum þjóðlega rétti með tilheyrandi ummi og jammli.  Við hin sem ekki borðum Skötu fáum okkur sjálfsagt í ár af jólahlaðborðinu okkar.  Ef satt skal segja er ekki ýkja mikið um gesti á Reykjavík á Þorláksmessu þeir hrökklast í burtu um leið og lyktin fer að berast inn í salinn og út á götunaFrown

Það er kominn mikill hátíðarblær hér yfir heimilinu.  Rauðkálið soðið, grunnurinn af rjúpusósunni mallar í potti og hangikjötið komið yfir og húsið ylmar af Þorláksmessulykt, alveg eins og það á að vera.  Nú bíð ég bara eftir að jóakveðjurnar byrji í útvarpinu, Guði sé lof fyrir netið, og á meðan ég hlusta á þær sný ég mér að því að laga eftirréttinn.

Núna á eftir rennum við í bæinn og hittum vini og kunningja í hundrað turna borginni okkar og röltum út á Stare Mesto en þar er jólamarkaður og meiri háttar jólalegt.  Man ekki eftir að hafa séð eins smekklegar jólaskreytingar ein og í ár. 

 


Jólaþankar hvutta - allt á hvolfi

Þetta er ekki alveg í lagi!  Nú er búið að planta einhverju heljarins jólatré þar sem ég sef yfirleitt helmings nætur.  Hvað er að þessu fólki, nú spyr ég bara eins og ómálga dýr. Hverslags frekja er þetta!   Ég er búinn að reyna í allt kvöld að finna mér nýjan stað en þetta er ekki alveg að gera sig hér núna á þessu heimili. Þau bara sitja hér við kertaljós og hafa það huggulegt með glymjandi jólalög, sem ég kann nú ekkert að meta og segja mér að fara í körfuna mína.

 Japp, hún er svo sem nógu flott,rosalega jólaleg með rauðu plussi og einhverjum kodda sem ég tek nú alltaf og hendi á gólfið.  Hann er víst rosalega jólajóla en ég kann ekkert að meta þetta dúlludangl.  Vil bara mína körfu eins og hún hefur verið undanfarið ár. Ummm... góð lykt af mér. talandi um lykt þá var ég settur í bað og fóstra mín lét mig fá allsherjar jólakilippingu og ekki bara það, fóstra mín úðaði einhverri ilmlykt á mig sem hún keypti einhverstaðar í útlöndum svo nú lykta ég eins og... , ja ég segi ekki meir.  Þetta jólastand er eiginlega alveg að fara með mig en nú skal ég segja ykkur nokkuð, ég veit að ég á sokk hjá arninum og hann er fullur af nammi, en auðvitað fæ ég ekki að smakka á því fyrr en á aðfangadag.  En þetta skrauttré sem er að þvælast fyrir mér núna úff er ekki alveg að meika það en  OK, það leynast einn ef ekki tveir pakkar undir því handa mér á aðfangadagskvöld því ég hef aldrei verið skilinn útundan.  Svo ég fyrirgef fóstru minni og ætla að reyna að vera þægur næstu daga vegna þess að ég á von á fullt glaðning. 

 

    


Jólaskaup Orkuveitunnar

Allgjör snilld!  Starfsfólk með húmorinn í lagi.  Þeir sem ekki hafa kíkt á myndbandið ættu að gera það hið snarasta.  Lífgar upp á svartasta skammdegið og kemur öllum í gott skap.  Ætli þau verði fengin til að troða upp í Áramótaskaupinu?  Það mætti alveg borga fyrir svona skemmtilegheit!

 


mbl.is „Rei, rei, ekki um jólin"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Jólaballinu" fer nú senn að ljúka

Var aðkoma inn úr frostkaldri nóttinni eftir að hafa verið með mínum elskulega í næst síðasta jólapartýi ársins 2007.  Trallallalla mikið er ég fegin að þessum jólagleðskap fer að ljúka og við getum bara sest niður og ,,chillað" hér heima í kotinu okkar.  Annars var þetta frábær veisla hjá Hollenskum vinum okkar þar sem samankomnir voru allra þjóða listamenn, frægir sem og minna frægir. 

Því miður misstum við af því að hlusta á nokkrar af mínum kunningjakonum, sem komu saman í kvöld og gengu um miðborgina og sungu jólalög. Þær komu við á Restaurant Reykjavík og sungu fyrir gesti og gangandi en við sendum þjónana okkar út á götu sem færðu þeim heitt jólaglögg frá okkur sem var víst vel þegið þar sem frostkuldinn var farinn að herja á beinin.


Vinkonan gat ómögulega munað hvar hún hefði gift sig!

Var þetta jólastress eða hvað?   Í snarvitlausu veðri hittust vinkonur mínar í Langholtskirkju þar sem tónleikar voru haldnir til minnangar Sturlu Erlendssonar sem lést fyrir tæpu ári síðan. Búið var að kaupa miða og fram að síðustu stundu var beðið eftir einni okkar sem, ja ef satt skal segja, er iðulega ansi róleg í tíðinni. Þar sem ekkert bólaði á minni héldu þær að hún hefði bara ekki treyst sér út í veðrið og ákveðið að halda sig heima en svo var nú aldeilis ekki raunin.

Eftir tónleikana var ákveðið að fara á kaffihús og spjalla aðeins saman.  Þegar þær vinkonurnar, sem höfðu notið frábærra tónleika Fóstbræðra, mættu á kaffihúsið situr ekki mín bara þar og er ansi kindarleg á svip.  Hún hafði bara alls ekki munað hvort hún hefði gift sig í Langholtskirkju eða Áskirkju fyrir 36 eða -7 árum!Undecided   Það skal tekið fram að þessi vinkona okkar er fædd og uppalin í Reykjavík.LoL

Þegar hún kom að Langholtskirkju en vinkonurnar voru búnar að segja henni að tónleikarnir væru í kirkjunni sem hún hefði gift sig í, fannst henni ekkert kunnuglegt við umhverfið enda hefur mikið verið lagað í kring um kirkjuna síðan 1969.  Og eins og hún tók til orða: ,, það voru svo margir bílar á bílastæðinu svo hún sá ekki almennilega hvort hún væri á réttum stað".  Hún ákvað með sjálfri sér að þetta gæti ekki verið rétta kirkjan og hélt að Áskirkju en þá kannaðist hún heldur ekkert við að hafa gift sig þarPinch

Þetta held ég að sé hámark jólastressins!  Því við hinar vinkonurnar neitum því alfarið að þetta sé ,,old timer" við erum ekki svo gamla eða kalkaðar að muna ekki hvar við giftum okkur þó árin séu orðin ansi mörg.Whistling

  


Litla jólatréð sem lenti í hrakkningum

Ég er litla jólatréð sem á ættir mínar að rekja til Riga alla daga síðan á 16. öld.  Síðan lágu leiðir ,,fortrjáa" minna til Dresden á 19.öld en það var ekki fyrr en á 19. öldinni að við komum til Íslands með Dönum. Ég hef borið mín börr hér í Tékklandi þar til fyrir stuttu að menn komu með axir og tól og hjuggu mig niður og hentu mér upp á pallbíl og brunuðu með mig til borgarinnar.

Það fór ekkert sérlega vel um mig þarna á leiðinni innan um önnur tré sem örlögin höfðu líka leikið grátt en við því var ekkert að gera við gátum öll hlakkað til að lenda inná góðum heimilum og verða skreytt með ljósum og glingri og notið þess að láta börn sem og fullorðna dáðst af okkur.  Ég var líka viss um að ég yrði flottast af þeim öllum því minn stofn var beinn og greinarnar lögulegar eins og hefðartré sæmir.

Eftir að hafa dúsað þarna á pallbílnum í nokkra klukkustundir var prísundin loks á enda og mér var komið fyrir á einum jólamarkaðinum.  Ekki leið á löngu þar til lítil hnáta með rauða húfu kom auga á mig innan um alla vini mína og sagði: , Mamma þarna er tréð okkar"  Móðirin kom og skoðaði mig í bak og fyrir og síðan heyrði ég að,, jú, þetta gæti gengið, ekki of stórt og yrði fallegt í króknum í stofunni"

Þar með var ég tekið og troðið í gegn um einhverja forláta vél sem vafði mig plastneti, ekki beint þægilegt en ég lét mig hafa það því nú var stundin alveg að renna upp, ég yrði flottasta og dýrasta tréð um hátíðina.

 Fjölskyldan bar mig að bílnum en þar sem ég var í stærra lagi var ómögulegt að koma mér fyrir í Skodanum svo mér var komið fyrir uppá toppi bílsins og beislað kirfilega niður eða svo hélt þessi yndælis fjölskylda.  Við vorum rétt komin út á hraðbrautina og bíllinn brunaði á þó nokkrum hraða fór að hrikta í böndunum og ég fann hvernig losnaði um þau smátt og smátt þar til festingarnar gáfu sig og ég flaug af bílnum og lenti harkalega á malbikinu.  Bíllinn með fjölskyldunni brunaði frá mér því auðvitað tóku þau ekkert eftir þessu þar sem þetta gerðist á einu augnabliki.

Þarna lá ég síðan og gat enga björg mér veitt.  Bílar þutu hjá og var mesta mildi að ekki hlaust stórslys af þar sem ég lá á miðri akreininni. Allt í einu stoppaði ökumaður og vippaði mér upp í bílinn sinn og þar með var mér bjargað frá því að enda ævi mína útí vegkanti hér í Tékklandi.  Ég eignaðist sem sagt nýja fjölskyldu sem fer örugglega vel með mig og gerir mig að fallegasta jólatrénu í þorpinu en mér er nú oft hugsað til litlu stúlkunnar með rauðu húfuna sem valdi mig í byrjun, en vona bara að hún hafi fundið eitt af fjölskyldu minni sem gleður hana um jólin. 

 


Pakkasníkir á ferð

Gott hjá Pakkasníki að kenna manninum lexíu.  Segjum svo að jólasveinarnir okkar séu ekki góðir við mannfólkið.Tounge  Skal bóka að Selfyssingurinn læsir hér eftir húsi sínu.     
mbl.is Jólapakkarnir hurfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðlenska hráa hangikjötið þótti lostæti

Í gær héldum við ,,Opið Jólahús" hér heima í sveitinni fyrir vini og kunningja.  Um förutíu manns komu og dönsuðu inn jólin með okkur.  Það myndast alltaf dálítil stemmning þegar minn elskulegi kemur með hangilærið og sker smá flís handa hverjum og einum að smakka. 

Jólaglöggið, sem við lögum á ,,okkar vísu" með Grandi og koníaki rann ljúflega niður og fólk var farið að taka undir jólalögin sem hljómuðu hér um allt hús.  Hver með sínu nefi að sjálfsögðu.

Möndluleikurinn vekur líka mikla lukku og að þessu sinni var sá heppni frá Englandi og fékk að sjálfsögðu möndlugjöf. 

 Virkileg jólastemmning hér í sveitinni og þúsundir jólaljósa hér í garðinum gerði þetta ævintýralegt fyrir marga sem skilja ekki hvernig við förum að því að setja allar þessar seríur upp fyrir hver jól.  Það var kátt fólk sem  hélt útí stjörnubjarta vetrarnóttina með yl í sálu og sinni eftir skemmtilega samverustund á aðventu. 


Celine Dion versus Bette Midler

Æ,æ ég var búin að ákveða að sjá hana næst þegar ég færi til Las Vegas ,,leikfangaborg fullorðna fólksins" Síðast þegar við vorum þar í heimsókn hjá vinum okkar var ,,black night" kvöldið sem við hefðum getað farið á tónleikana.  En fyrst hún er að fara í heimsreisu þá er ekki útilokað að hún troði upp hér í borg.  En Bette Midler er nú líka frábær listamaður og örugglega þess virði að sjá hana troða upp. Joyful
mbl.is Celine Dion hætt að skemmta í Las Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband