Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
26.4.2010 | 20:16
Sorglegt að almenningur beri ekki meiri virðingu fyrir Guðshúsunum okkar en raun ber vitni.
Þegar ég var krakki, eins einkennilegt og það hljómar þá sótti ég mikið í kirkjugarða og spókaði mig á milli leiða. Ég heimsótti líka í hvert skipti sem gafst gamlar sveitakirkjur ekki endilega til að biðja heldur bara mér leið yfirleitt svo vel innan um gamlan viðinn sem mér fannst lykta svo vel eftir jafnvel aldir. Ég var ekkert sérstaklega trúuð en átti mína barnatrú og það nægði.
Nú er svo komið að það er varla hægt að fara inn í kirkjur í dag nema með sérstöku leyfi eða þá þú sért að vel upplýst að þú vitir hvar lykil er að finna, upp undir rjáfri eða undir lausri fjöl.
Ég er búin að furða mig á þessu lengi og get illa sætt mig við að kirkjan geti ekki opnað dyr sínar fyrir Pétri og Páli vegna hræðslu við að kirkjumunum verði stolið. Sorgleg staðreynd.
En ég var heppin að eiga góða að og á sunnudaginn stóðu kirkjudyr mér opnar en að sjálfsögðu fyrir tilstilli góðs prests sem lét eftir beiðni minni um að fá að eyða hálftíma ein í lítilli sveitakirkju hér rétt við borgarmörkin.
Ég sendi prestinum mínar bestu þakkir og veit að ég er velkomin aftur ef ég finn aftur þessa þörf. Ég þakka þér kæra vinkona.
Eftir hljóðláta stund heimsótti ég leiði skáldsins sem skrifaði um hið ljósa man og þakkaði fyrir allt sem hann gaf okkur í lifanda lífi og var það nú ekki svo lítið.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.12.2008 | 21:07
Silfurskálin sem á sér langa sögu.
Ég sat og velti skálinni fyrir mér. Hvarf eins langt aftur og ég gat munað.
Silfurskál, dálítið snjáð eftir endalaust nudd í tugi ára. Man fyrst eftir henni hjá ömmu minni á Flókagötunni, alltaf á sama stað á eldhúsborðinu. Síðan flutti hún með ömmu og systrum pabba inn á Selvogsgrunn og enn var hún sett á eldhúsborðið.
Dagsdaglega var hún full af tvinnum, skærum, saumnálum og gott ef ekki var sígarettupakka. Sem sagt full af nytsömum hlutum til daglegs brúks. Það var alltaf saumað mikið á því heimili.
En svo komu jólin. Skálin hennar ömmu fékk yfirhalningu með Silvo og var fyllt af rauðum eplum sem pússuð höfðu verið með hreinu ,,viskastykki" svo þau glóðu eins og lifandi ljós. Skjannahvítum útsaumuðum jóladúk, stífuðum eins og pappa, var komið snyrtilega undir skálinni og þannig var það öll jólin. Síðan kom janúar og skálin fór aftur í sitt gamla hlutverk að halda til haga saumadóti frænknanna.
Þessi skál fylgdi mér hingað sem erfðargripur og á sinn sess núna hér í eldhúsinu mínu. Dagsdaglega þjónar hún þeim tilgangi að geima símahleðslur, myndavélahleðslur og fl. drasl sem tilheyrir nútímanum. Endrum og eins er þurrkað úr henni svona til málamynda en venjulega fær hún bara að liggja þarna í neðstu hillunni og safna ryki.
En fyrir hver jól fær hún ærlega yfirhalningu með ,,silvo" og er færð aðeins ofar í hillurnar. Smá jólaskraut er sett til að gleðja hana en engin epli lengur. Önnur nútímalegri hefur tekið við sem eplaskál.
Þegar ég í dag hélt á skálinni var ekki laust við það að ég finndi fyrir ömmu minni og þó sérstaklega einni systur pabba sem alltaf sá um heimilið þeirra þar til yfir lauk.
Oft er sagt: Æ þetta er bara dauður hlutur, en sumir hlutir hafa, ég vil nú ekki kalla það sál, en alla vega kraft.
Svo er ég hætt að fílosofera í bili.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.9.2008 | 16:18
Til hamingju með nýja embættið!
Þau í Mosfellsprestakalli og Kjalarnesprófastsdæmi verða ekki svikin að fá Séra Ragnheiði Jónsdóttur sem sóknarprest.
Ragnheiður er öndvegis kona með hjartað á réttum stað.
Innilega til hamingju Raggý mín! Blessun fylgi þér í starfi sem leik.
Kveðjur héðan frá Stjörnusteini til þín, Sigurgeirs og fjölskyldunnar.
Valin sóknarprestur í Mosfellsprestakalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2008 | 20:03
Þegar sorgin knýr dyra
Síminn hringir, það er æskuvinkona mín. Skipst á ómerkilegum spurningum. Svo kemur skellurinn. Þú situr og hlustar. Þú spyrð spurninga, færð svör. Þú talar eðlilega, að þér finnst. Tíminn líður og þú ert meðvituð um allt sem sagt er og þú reagerar eðlilega, tekur þátt, samhryggist en skilur samt ekki neitt.
Þú kveður með því að segja: Ég hef samband við þig fljótlega.
Þú klikkar á rauða takkann. End.
Þú situr lengi. Ég verð að fara að koma mér upp og segja Þóri þessar hörmunga fréttir. Loksins stendur þú upp og þá er eins og fæturnir gefi sig. En þú verður að komast upp stigann. Hann verður líka að heyra þetta. Þú kemst upp í svefnherbergi þar sem hann liggur og les í bók, þú dettur næstum niður á rúmið.
Ég hef sorgarfréttir að segja þér.
Hjartað bankar eins og það vilji út úr líkamanum, maginn er í hnút, þetta er of mikið.
Hringt heim í okkar bestu vini. Fréttin berst frá Prag heim til vina okkar. Hjartað grætur.
Síðan kemur spurningin. Hvers vegna? Þú sem hafði svo mikið misst en varst alltaf þessi sterka flotta kona. Af hverju þennan dag? Allir héldu að þú hefðir eftir þessi sex ár komist yfir sorgina. Enginn hafði hugmynd um hvernig þér leið vinkona. Þú fallegust, gjöfula kona sem gafst allt en þáðir aldrei neitt í staðin.
Hvar vorum við vinirnir? Er þetta líka okkur að kenna og af hverju núna eftir nákvæmlega sex ár. Blessuð sé minning hans. En það voru veikindi, þetta er allt annað, þetta er ekki réttlátt.
Núna kemur reiðin hjá okkur öllum. Þú lést okkur halda að þú værir hamingjusöm. Þú varst búin að finna góðan förunaut sem þú ferðaðist með út um heim. Þú varst sátt eða það héldum við. Þú áttir börnin þín og fjölskyldu sem elskuðu þig meir en þú nokkurn tíma gerðir þér ljóst.
Hvers vegna? Við fáum aldrei svör við þessari spurningu en það er svo erfitt að skilja og það er svo erfitt að sætta sig við.
Ég bið góðan Guð að blessa þig og ef til vill miskunnar hann sig yfir okkur öll og sameinar ykkur hjónin á betri stað. Guð blessi fjölskylduna og ástvini þína á þessari erfiðu stund.
Ég kveiki á kerti þér til handa.
22.3.2008 | 17:00
Páskasagan heldur áfram...Píslargöngustígurinn
Fátt er skrifað í gömlum ritum um laugardag fyrir páska jú nema það að fólk fór í heimsóknir til ættingja og vina og skiptist á gjöfum. Börnum voru gefin listilega skreytt egg en fullorðna fólkið gaf hvort öðru heimalagaðar pylsur eða annað matarkyns en allt fór þetta eftir efnum og ástæðum heimilanna.
Á páskadagsmorgun klæddist fólk sínu fínasta pússi og sótti kirkju að kristilegum sið.
Nokkru eftir að við fluttum hingað í sveitina og fórum að skoða hér gönguleiðir um nágrennið villtumst við einu sinni af leið og héldum eftir þröngum stíg sem lá frá Sternberg kastalanum sem er í þriggja km fjarlægð frá okkar landareign. Kastali þessi var byggður snemma á 13. öld og hefur fylgt Sternbergunum alla tíð síðan.
Þennan sólríka vordag ákváðum við að fylgja þessum stíg og sjá til hvert hann lægi. Slóðinn liggur frá kastalanum og bugðast niður í frekar djúpt gil. Beggja vegna stígsins vaxa ævaforn grenitré og aðrar skógarjurtir en inn á milli vex blágresi sem gefur umhverfinu ævintýralegan ljóma. Kyrrðin sem ríkir þarna er með ólíkindum, það bærist varla hár á höfði og eina hljóðið sem berst til eyrna er værðarlegt gljáfrið frá bergvatnsánni sem rennur letilega í botni þessa undrareits.
Það sem vakti athygli okkar þegar við fyrst gengum þessa leið, voru mjög gamlir róðukrossar sem höfðu verið settir við stíginn með vissu millibili. Myndirnar sem eru á krossunum eru teikningar eftir börn og þar getur þú fylgt píslarsögunni frá byrjun til enda. Því miður er ekkert ártal á þessum myndum en þær eru örugglega mjög gamlar og hafa varðveist ótrúlega vel þarna undir gleri.
Þegar við fórum síðar að forvitnast um þennan stíg fengum við að vita að hann er nefndur Píslargöngustígur. Sagan segir að hér fyrr á öldum hafi biskupar og prestar gengið í broddi fylkingar þessa leið á páskadagsmorgun til þess að minnast píslargöngu Krists.
Stígurinn er um 10 km langur og liggur héðan til næsta þorps. Þegar Hraðbrautin var lögð var stígurinn vaðveittur eins vel og hægt var og liggur nú undir veginn svo enn í dag er hægt að ganga þessa leið án hindrana. Að sjálfsögðu hefur stígurinn breikkað í tímana rás enda mikið um ferðamenn þarna þó sérstaklega að sumarlagi.
Það liggur mikil og djúp helgi yfir þessu svæði og stundum hefur mér fundist einhver vera með mér á göngunni sem vill fylgja mér áleiðis. Á vissu svæði ríkir svo mikil kyrrð að jafnvel fuglarnir hætta að syngja. Það er eins og allt umhverfið vilji umvefja mann og gefa manni kraft.
Ekki amalegt að hafa svona kraftmikinn stað hér rétt við túnfótinn.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2008 | 15:07
Þetta verður hrikalega langur föstudagur
Man ekki betur en þetta hafi alla tíð verið svona á okkar landi. Ef útivistaveður var ekki skaplegt varð maður bara að hanga inni allan daginn og bíða...... Passían í útvarpinu og allir með helgislepjusvip á andlitinu.
Okkur krökkunum var bannað að spila á spil og stranglega bannað að hlusta á ,,okkar" tónlist en viti menn, við máttum fara á skíði ef veður og færð leifði. Það þótti nefninlega alveg sjálfsagt að skemmta sér á skíðum og þar mátti hlægja og skrækja af hjartans list. En um leið og maður var kominn inn í hús var byrjað að sussa á mann og maður minntur á hvaða dagur væri.
Var þá bara þessi hátíðleiki innanhúss? Ojú ætli það bara ekki. Við, á mínu bernskuheimili vorum ekkert kristnari en hver önnur fjölskylda en einhverra hluta vegna var þessi siður í hávegum hafður og það var alltaf fiskur í matinn, það bara tilheyrði. Ojæja, við vorum þó ekki látin fasta.
Bingó bannað á ákveðnum tímum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2008 | 15:35
Fagurt er rökkrið
Nú þegar húmar að kvöldi fara álfar og annað huldufólk að huga að búflutningum og gott ef ekki heyrist hér úti fyrir klingja í sleðabjöllum og reiðtygjum þessa góða fólks. Lítil von er nú á því að hér verði stjörnubjört nótt og tunglskin og ekki séns að norðurljósin dansi hér um háloftin í miðri Evrópu.
Mikið hvað þjóðtrúin fylgir manni hvert á land sem er. Hér að Stjörnusteini höfum við engan álfahólinn eða álagastein á landareigninni en klettarnir hér í grennd tala sínu máli og engin spurning að þar fyrirfinnst undurfrítt fólk í glitklæðum með kórónur á höfði og veldissprota í hönd.
Mér hefur alltaf fundist Þrettándinn dulúðlegur og held alltaf dálítið uppá hann fremur öðrum dögum dagatalsins. Ef til vill af því að þá finnst mér nýja árið endanlega gengið í garð. Ég reyni að brenna út öllum kertum frá jólum og áramótum sem fyrirfinnast í húsinu og læt ljósin loga þar til nýr dagur rís og geri enga undantekningu á því í kvöld og ekki veitir nú af að lýsa blessuðu fólkinu veginn til nýrra heimkynna þar sem myrkrið kemur til með að verða ansi svart í nótt þar sem hvorki verður tungl- eða stjörnubjört Þrettándanótt.