Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
7.10.2008 | 10:55
Allra augu beinast að okkur Íslendingum
Eftir atburði gærdagsins setur mann hljóðan. Veislunni er lokið sem flestir ef ekki allir tóku þátt í. Sumir sátu við háborðið og fengu að líta alla þessa háu herra eigin augum en aðrir létu sér nægja að sitja í hliðarsölum og fylgjast með ræðuhöldum úr hátölurum.
Timburmennirnir leggjast misjafnlega í menn alveg eftir því hvað sopið var oft úr ausunni.
Núna verðum við að huga að ungu börnunum sem erfa eiga landið. Forðast að tala um erfiðleika í þeirra návist og knúsa þau meir en við höfum gert hingað til. Börnin skilja meir en við höldum og þau finna greinilega ef mamma og pabbi eru pirruð og þreytt. Þetta vitum við öll og stundum er bara ekkert svo auðvelt að leyna ástandinu.
Ég man eftir því að það var oftast keypt í ,,billegu búðinni" handa okkur systkinunum, skór, úlpur og fl. en sú búð var uppá háalofti og okkur fannst það bara eðlilegur hlutur.
Mér blöskraði aðeins þegar ég frétti að ein verslun væri farin að hvetja fólk til að hamstra. Þarna fór sú ágæta verkun aðeins yfir strikið. Ég vona bara að þeir sem keyptu hveitið eigi músheldnar geymslur.
Það fer ekkert á milli mála að allra augu beinast að okkar litlu þjóð og ástandinu heimafyrir. Ég hef þá trú að við komust út úr þessu eins og öllu öðru með okkar seiglu og dugnaði.
Við eigum frábært fólk á Íslandi sem gefst ekki upp þá móti blási.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.10.2008 | 19:10
Prag tók á móti mér í litskrúði haustsins
Þegar ég renndi til Keflavíkur klukkan fimm í morgun með stírur í augum og geispa niður í maga voru tilfinningarnar heldur blendnar. Auðvitað hlakkaði ég til að fara heim en um leið fór um mig óhugur yfir að skilja ykkur öll eftir þarna í volæði og óstjórn.
Þar sem ég sat í vélinni og horfði niður á landið mitt, sem pínulítil snjóföl þakti eftir úrkomu næturinnar, langaði mig helst til að hrópa niður til ykkar allra: Verið sterk og standið saman gegn allri þessari spillingu sem verið hefur og óstjórn! Það birtir til, verið viss!
En hvað veit ég vanmáttug konan sem bý ekki einu sinni þarna uppi.
Sveitin mín tók á móti mér í sínum fegurstu haustklæðum sem glóðu í síðdegissólinni. Mikið var gott að koma heim.
Ég er komin í skotið mitt í eldhúsinu. Minn elskulegi er ekki væntanlegur fyrr en eftir miðnætti þar sem hann varð að fara snemma í morgun til borgarinnar Zlín í embættiserindum.
Ég verð sjálfsagt farin að gæla við koddann þegar hann birtist og komin inn í draumheima.
Lái mér hver sem er, ósofin kona með hroll í hjarta yfir öllu óstandinu á gamla landinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.9.2008 | 22:19
Myrkir dagar hér uppi á ,,Hamingjulandinu"
Eftir myrkan mánudag kom þungbúinn þriðjudagur. Sat best að segja er ekkert sérlega skemmtilegt að heimsækja ,,Hamingjulandið" á þessum erfiðu tímum. Maður ósjálfrátt fer inn í sömu hringiðuna og allir aðrir. Ef það hefði ekki verið fyrir skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu minni og vinum hefði ég verið farin heim fyrir löngu.
En nú fer að líða að því að ég haldi heim og ég veit ekki hvers ég á eftir að sakna héðan fyrir utan litlu fjölskyldunnar minnar.
. Jú verðlaginu sem aldrei hefur verið jafn hagstætt fyrir okkur ,,útlendingana" Ef til vill á ég líka eftir að sakna þess að láta vindinn og regnið lemja mig í bak og fyrir. Veit samt ekki alveg hvort sú verður raunin, ætli ég verði ekki fegin að geta setið úti á veröndinni minni í haustsólinni, held það bara.
Það er margt sem hefur drifið hér á daga mína og e.t.v. segi ég ykkur nokkrar skemmtilegar sögur eftir að ég er sest í hornið mitt í eldhúsinu mínu að Stjörnusteini með mína kaffikrús.
Er að fara heim á fimmtudaginn og hlakka til að knúsa minn elskulega en hann fór heim í síðustu viku vegna anna heima fyrir.
Farið vel með ykkur.
27.9.2008 | 13:10
Í ljósi alls sem er.
Er farin að sjá heiminn í allt öðru ljósi og sumt af því sem ég sé hrellir mig en það er líka annað sem kemur skemmtilega á óvart og gleður augað.
Ég sagði ykkur um daginn að ég lærði alltaf eitt nýyrði þegar ég væri hér á landinu og í gær heyrði ég alveg splunkunýtt orð sem kom mér til að skella upp úr. Nú á maður að segja þegar maður ætlar að gera nákvæmlega ekki neitt, í dag ætla ég bara að Haarda.
Og það er það sem ég ætla að gera í dag, bara Haarda með dóttur minni og fjölskyldu.
Njótið helgarinnar hvar sem þið eruð stödd í heiminum og elskið hvort annað.
25.9.2008 | 12:55
Nú legg ég vonandi öllum þessum fínu lonníettum.
Þá tifar klukkan og nú eru aðeins rétt þrír tímar þar til einhver sæt hjúkka gefur mér eina valíum svona rétt til þess að róa mínar fínu taugar eins og sérfræðingurinn komst að orði í gær.
Síðan á ég að leggjast upp á borð, augnalokin verða spennt upp og dropar settir í augun síðan kemur hvisssss.. og allt búið. Hvað er kerlingin að röfla hugsar nú einhver, jú það skal ég segja ykkur tók nefnilega þá stóru ákvörðun í gær að fara í Laser operation eða sjónlagsaðgerð eins og það heitir víst á okkar máli.
Þar sem ég var orðin svo rosalega pirruð á mínu gleraugnastandi þá ákvað ég bara að drífa í þessu ef hægt væri. Minn elskulegi augnsérfræðingur sagði við mig í gær eftir ítarlega skoðun:
-Aha og ert þú búin að keyra svona án gleraugna lengi?
Já svaraði ég pílu skömmustuleg, því ég vissi auðvitað að ég hef verið stórhættuleg í umferðinni undanfarna mánuði.
Hann benti mér á að horfa á spjaldið á veggnum.
- Jæja hvað sérðu þarna?
- Humm... hvítt spjald með einhverju svörtu
-OK en hér, segir hann og réttir mér blað í svona A4
- Á ég að sjá eitthvað hér spurði ég
- Svona sérðu núna segir hann og um leið smellir hann málmgleraugum á nefið á mér og segir síðan, horfðu nú á spjaldið á veggnum aftur.
Ég sá meira að segja neðstu línuna og gat lesið smáa letrið á blaðinu, vá......
- OK svona kemur þú til með að sjá án gleraugna eftir aðgerðina.
Ég er orðin spennt, ég er orðin ansi mikið spennt, svona eins og hengd upp á þráð þið vitið.
Veit ekkert hvenær þið heyrið í mér aftur. En ef ég er ekki komin inn eftir tvo daga þá getið þið hafið kertafleytingar.
Sko þetta er stórmál, ég hef aldrei á æfi minni tekið inn valium!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.9.2008 | 00:10
Er alveg komin að því að þverbrjóta öll góð fyrirheit.
Áður en ég hélt hingað heim var ég búin að ákveða að ekkert, segi og skrifa ekkert skildi koma mér úr jafnvægi og ég ætlaði heldur ekki að láta eitt eða neitt fara í pirrurnar á mér. Ætlaði að líta fram hjá öllu neikvæðu og vera allan tímann á jákvæðu nótunum sama á hverju gengi.
Þetta gekk eftir svona í byrjun, ja eingöngu vegna þess að ég vogaði mér ekki út fyrir dyr þar sem þessi veðurbeljandi var ekki einu sinni hundi bjóðandi. En ekki er nú hægt að sitja inni allan daginn svo út úr húsi varð ég að fara enda veðrið orðið þokkalegt fyrir svona kuldaskræfu eins og mig.
Ég var ekki fyrr komin út undir bert loft að pirringurinn fór að gera vart við sig. Ég alveg beit saman tönnum og andaði djúpt, taldi upp á tíu eða tuttugu en pirringurinn er enn til staðar. Ég gæti haldið áfram í alla nótt að segja ykkur hvað það er margt sem fer í mínar fínustu hér en af því að ég hafði þennan góðan ásetning áður en ég hélt hingað ætla ég að reyna að halda mig á mottunni, ja alla vega þar til ég spring en ef þessu heldur svona áfram næstu daga er ekki langt í stóru bombuna.
Bara að anda djúpt og þegja er bara andskotakornið ekkert auðvelt skal ég segja ykkur.
Síðan er alveg óþolandi að hlusta á fólk sem er kvartandi í tíma og ótíma og aldrei ánægt.
Og er ég núna að berjast við að vera ekki í þeim hópi.
Svo ég haldi nú ekki áfram hér og blaðri öllu því sem liggur svo þungt á mér eins og mara er ég farin til kojs að sofa í hausinn á mér.
22.9.2008 | 11:58
,,Teggja" ára afmæli er stórhátíð.
Ég var löngu búin að gleyma þessu en rifjaðist allt upp fyrir mér hér í gær. Barnaafmæli, allt frá eins árs aldri og langt fram á fermingaraldurinn eru stórviðburðir í lífi allra barna. Allt umstangið fyrir afmælið er engin smá vinna ég tala nú ekki um þegar gestir eru það margir að hleypa þarf inn í hollum.
Þessi amma sem skrifar hér var fjarri öllum undirbúning því hún og afi fóru út fyrir borgarmörkin á laugardaginn og komu ekki í bæinn fyrr en rétt eftir hádegi í gær. Amman fékk svona vott af samviskubiti yfir að hjálpa ekki dóttur sinni við undirbúninginn en afinn bætti úr betur og pantaði brauðtertur í tilefni dagsins.
Þegar við mættum í Garðabæinn upp úr tvö var allt tilbúið hjá henni dóttur minni. Borðið hlaðið veitingum, skemmtilega skreytt, blöðrur inni og úti, hattar og servíettur í stíl og allt eins og ég hefði verið með puttana í þessu. Eitthvað hefur stelpan lært af mömmu sinni.
Þá vatt ég aðeins til baka og viti menn, ég mundi allt í einu eftir því að þetta hafði ég líka gert án allrar hjálpar í denn og man ekki eftir því að mér hafi þótt þetta neitt stórmál. Svona er maður fljótur að gleyma og vex e.t.v. allt of mikið í augum í dag það sem manni fannst ekkert mál hér áður fyrr.
Tveggja ára stórafmælið hér við Strandveginn stóð langt fram eftir kvöldi eins og hæfir stórveislum.
Ætla að fara að gá til veðurs.
15.9.2008 | 21:16
Þá er Hamingjulandið í sjónmáli.
Hér fyrir framan mig liggur nettur bunki af A-4, nei þetta eru ekki hlutabréf, ekki séns að ég taki þannig áhættu í lífinu. Á maður ekki bara að segja sem betur fer! Þetta eru skal ég segja ykkur flugmiðar til Köben - Keflavík á morgun heitir úr prentaranum, alveg satt, nú á að heimsækja Hamingjulandið og knúsa fjölskyldumeðlimi og vini.
Við erum sem sagt á leiðinn heim í teggja ára afmælið hans Þóris Inga. Mikil tilhlökkun hér á bæ og getum ekki beðið eftir að dekra drenginn upp úr skónum, því eins og ég hef sagt ykkur áður þá hafa afi og amma í útlöndum sértakt leyfi til þess.
Við ætlum líka að fara um helgina að Geysi með góðum vinum og gista þar eina nótt. Annað er nú ekki mikið planað í þetta sinn en ég er nú alveg klár á því að þessar tvær vikur sem ég verð heima koma til með að verða ansi busy.
Búin að pakka næstum öllu og kominn ferðahugur í mína. Bara svo þið vitið það bloggvinkonur mínar í DK þá verð ég galvösk á Strikinu milli klukkan tvö og fjögur á morgun, ef þið verðið þarna á ferðinni.
Þannig að ef þið rekist á konu með Illum poka á þönum með svona brjálæðislegan búðarglampa í augum þá er það hún ég.
Annars kem ég inn þegar ég finn mér tíma og læt vita af mér.
Er farin að lakka á mér neglurnar, ekki séns að ég fari í flug með ólakkaðar neglur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Einhvern vegin þannig komst Anna Frank að orði í dagbókinni sinni. Þessi setning hefur oft komið upp í huga mér þegar ég hugsa til okkar meðbræðra og systra.
Náungakærleikur, traust og vinátta sem varir úr í það óendanlega er ómetanlegt og oftsinnis höfum við hjónin rætt um hversu heppin við í raun og veru erum. Sterk fjölskyldubönd eru í okkar fjölskyldu og áratuga vinátta við æskuvini hefur aldrei rofnað. Að sjálfsögðu hafa komið upp misklíð en aldrei þannig að ekki væri hægt að rétt fram sáttarhönd, sem betur fer.
Öll erum við misjöfn að eðlisfari, ég er t.d. fljóthuga og á það til að láta úr úr mér það sem oft mætti kyrrt liggja en yfirleitt hverfur reiðin eins og dögg fyrir sólu. Langrækin er ég ekki og get auðveldlega rétt fram sáttarhönd og beðist afsökunar.
Þórir minn er með þeim eiginleikum fæddur að hann getur alltaf fundið góðu hliðarnar á fólki. Aldrei hef ég heyrt hann tala illa um nokkurn mann og hans orðatiltæki er frægt á meðal vina: Hvað þarf að vera að velta sér upp úr þessu? Hef oft sagt að aumingjabetri maður er vandfundinn. En ef honum þykir við einhvern, og það þarf ansi mikið til, þá er viðkomandi einfaldlega out.
Um daginn sátum við hér í rökkurbyrjun og ræddum um náungakærleikann og hversu langt væri hægt að ganga til að umbera sumt fólk. Við fórum í framhaldi að velta fyrir okkur hvers vegna sumir væru alltaf óánægðir, gætu aldrei horft á björtu hliðarnar, gengju með hangandi hausa alla daga. Væri þetta áunnið eða meðfætt?
Svo eru það kerlingarnar Öfundin og Hræsnin. Hugsið ykkur þá sem aldrei geta samglaðst öðrum.
- Nei vá varstu að fá nýjan stól, en æðislegur, til hamingju. Öfundin segir aldrei svona nokkuð, nei hún hugsar: Nú það er aldeilis veldi, bara nýr stóll og þá hlær Hræsnin henni til samlætis.
Síðan er það fólkið sem leggur það í vana sinn að tala illa um náungann hvar sem það getur komið því við. Helst líka að sverta mannorðið eins og hægt er. Sem betur fer kemst nú þetta fólk ekki langt á lyginni, það er nefnilega fljótt að fréttast hvaðan sögurnar koma og á endanum hættir fólk að hlusta og umgangast Gróu á Leiti.
Sumir leggja það í vana sinn að yfirfæra alla sína galla á vini eða vandamenn, jafnvel ókunnuga ef út í það er farið. Góð vinkona mín fræddi mig um það fyrir alllöngu að þetta væri því miður ein tegund sálsýkinnar. Fólk réði einfaldlega ekkert við þetta og gerði þetta ómeðvitandi. Sárt til þess að hugsa.
Þetta og margt annað ræddum við hér í rökkurbyrjun fyrir nokkrum dögum. Nú megið þið ekki halda að ég telji okkur vera einhverja englabassa og að sjálfsögðu hef ég tekið þátt í ýmsum óskemmtilegum umræðum um dagana en ómerkilegheit, lygi, meiðandi umtal á ég óskaplega erfitt með að þola.
Ekki vil ég trúa að fólk sé fætt með þessum eiginleikum. Innibyrgð reiði, sársauki og lífsleiði hlýtur að vera orsökin og ég sárlega vorkenni öllum þeim sem verða að bera þessa byrgði og lifa í sálarkreppu allt sitt líf.
Með aldrinum verðum við mýkri og hættum sem betur fer flest okkar að gera okkur óþarfa rellu út af smámunum. Við lærum sem betur fer líka að leiða hjá okkur hluti sem áður hefðu getað ært óstöðugan.
Og ég tek undir orðin hennar Önnu Frank:
Þrátt fyrir allt þá trúi ég því að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.9.2008 | 08:51
Við erum enn hér og ekkert getur haggað því.
Já þetta hafði ég á tilfinningunni hér í gær, það lá eitthvað í loftinu og ekki var það þetta frábæra Indian summer sem við höfum hér núna, nei það var sko eitthvað miklu hrikalegra enda hamaðist ég í allan gærdag að ganga frá öllu hér utan húss sem innan.
Ég spúlaði hundinn, þvoði þvott, straujaði, affrysti frystinn, tók ísskápinn hátt og lágt (báða), þvoði úr eldhússkápum, tók alla fataskápa og sorteraði föt eftir sjetteringu, setti hreint á rúmin, tók alla glugga og gardínur, kom bókaskápnum og skrifborðinu í mannsæmandi horf og endaði síðan á að baka fjórar Hnallþórur.
Get alveg svarið það, endaði seint í gærkvöldi á því að klippa tré og vökva blómin. Maður nefnilega skilur ekki við heimili sitt eins og svínastíu þegar maður skreppur af bæ, ég tala nú ekki um þegar maður veit nú ekki einu sinni hvort maður á afturkvæmt.
Síðan kom mér varla dúr á auga í alla nótt (satt), var með andvara á mér enda ekki alveg viss um hvort ég hefði sett í uppþvottavélina áður en ég lagðist við hliðina á mínum elskulega.
Horfði á eina bíómynd milli tvö og hálf fimm. Rafmagnið var enn á. Hundur og maður hrutu en ég var bara svona á nálum, öll með hugann við heimilið og alla þá hluti sem ég átti eftir að framkvæma á næstu mánuðum og jafnvel árum.
Datt útaf um hálf fimm leitið og vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir átta og viti menn hér var ég enn, minn farinn í vinnuna, hundurinn lá á sínum stað sallarólegur og sólin skein í heiði. Rafmagnið í lagi og nú sit ég hér með kaffið mitt og ekkert getur haggað því, ja nema jú heimsendir!
OK, farin að gera eitthvað að viti, hvað var fyrst á listanum í gær, þvo þvottinn eða var það ísskápurinn sem átti að fá yfirhalningu, nei spúla hundinn alveg rétt.
Lifið lífinu lifandi kæru félagar og vinir hvar sem þið eruð í heiminum.
Er farin út í sólina að hugsa.
Vekja athygli á heimsendi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)