Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
5.9.2008 | 13:15
Baráttukveðjur yfir hafið og smá broslegt í lokin
Það er ekki seinna vænna að senda ljósunum okkar baráttukveðjur með einlægum óskum um að það rætist úr þeirra málum ekki seinna en STRAX!
Ég man hvað ég var þakklát fyrir heimsóknir minna ljósa eftir að ég kom heim af fæðingarheimilinu. Veit eiginlega ekki hvernig ég hefði farið að ef þeirra hefði ekki notið við.
Þessar ljósur mínar voru starfandi þá í Fossvoginum á árunum 1974 og 1977.
Og alltaf sömu elskulegheitin þegar þær kvöddu mig með þessum orðum: Og hringdu bara í mig ef þú hefur einhverjar spurningar. Þetta var ómetanlegt. Þó ég muni nú ekki lengur nöfnin á þessum ágætis konum þá langar mig til að þakka þeim af alhug fyrir alla þá nærgætni og umönnun sem þær sýndu mér.
En að aðeins léttara hjali.
Við, ég og minn elskulegi sátum hér í eldhúsinu um daginn og biðum eftir soðningunni.
-Minn: Heyrðu, þú ert bara léleg!
Ég leit upp stórum augum því annað eins hafði ég aldrei heyrt úr hans munni í minn garð.
- Hvað meinar´ðu, vissi ekki alveg hvort ég ætti að reiðast og ganga út en hætti við því mig dauðlangaði að heyra af hverju ég væri svona LÉLEG.
- Jú elskan hér stendur að kona ein í Frakklandi gangi með þríbura og hún er 59 ára sem sagt jafnaldra þín sagði hann og glotti út í annað.
Ég var ekki alveg klár á því hvort ég ætti að láta fúkyrði fjúka. Hvort hann hefði viljað skipta um hlutverk, fæða börnin okkar og líka það að börnin væru jú ekki eingetin, það þyrfti tvo til og ég man nú ekki lengur hvað annað mér datt í hug að láta út úr mér en það flugu eldingar um höfuð mér smá stund.
En þegar hann sprakk úr hlátri gat ég ekki annað en brosað út í annað og sagði: Veistu þú ert ekki í lagi stundum. Þetta hefði getað endað illa skal ég segja þér og ég vara þig við að vera með einhvern karlrembuskap þegar ég er ekki í stuði til að taka því.
Mér datt að láta þetta samtal okkar hjóna flakka þegar ég heyrði að einhver vitringur á einhverri útvarpsrásinni hefði gloprað út úr sér að konur ættu bara að halda krökkunum í sér þar til verkfallið leystist.
Suma karlmenn ætti bara að stoppa upp!
Fjölmenni á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2008 | 16:18
Til hamingju með nýja embættið!
Þau í Mosfellsprestakalli og Kjalarnesprófastsdæmi verða ekki svikin að fá Séra Ragnheiði Jónsdóttur sem sóknarprest.
Ragnheiður er öndvegis kona með hjartað á réttum stað.
Innilega til hamingju Raggý mín! Blessun fylgi þér í starfi sem leik.
Kveðjur héðan frá Stjörnusteini til þín, Sigurgeirs og fjölskyldunnar.
Valin sóknarprestur í Mosfellsprestakalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2008 | 09:38
Þetta er í bígerð, lofa því.
Viltu koma í göngutúr var sagt við mig hér í ljóskiptunum í gær. Nei, takk var svarið frá mér um leið og ég hugsaði, ég hefði nú ekkert nema gott af því að hreyfa mig örlítið. En þar sem ég var búin að koma mér svo huggulega fyrir undir hitalampanum á veröndinni með bók var eitthvað sem hét göngutúr svo fjarri mér.
Þegar minn elskulegi með Erró á undan sér voru komnir í hvarf fyrir hornið sá ég strax eftir því að hafa ekki skellt mér með þeim og fór að pæla í því hvurslags leti þetta væri í mér og hvaða hreyfingu minn eðalskrokkur hefði fengið þann daginn. Jú ég hafði gengið þessa 100 metra niður að póstkassa og lengri leiðina heim aftur, sem sagt bak við hesthúsin, ca 3mín. ganga. Ég fylltist skelfingu, ég meina það, svo allt í einu mundi ég eftir mínum minnsta kosti 10 ferðum upp og niður stigann hér þar sem ég hafði staðið í þvottum allan daginn.
Úff, hvað ég róaðist niður, hringaði mig betur ofan í sófann, opnaði bókina með góða samvisku og hélt áfram að lesa.
Er ekki lestur góðra bóka líka gott fyrir heilasellurnar, það held ég nú bara.
Annar ætla ég að fara að vinna í þessu, mjög fljótlega.....
Hreyfing bætir minnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2008 | 10:55
Já þeir kunna ,,trikkin
Við höfum alltaf sagt hér að ef eigendur verslana, veitingahúsa eða banka þekkja 20 aðferðir sem þeir nota þá kunna þeir 21 eða fleiri.
Eitt sinn var ég stödd á Íslandi. Ég brá mér inn í Hagkaup til að versla smotterí í poka. Þar sem ég var nýkomin til landsins var ég bæði með tékkneska og íslenska peninga í veskinu. Tékkneski þúsundkallinn lítur nær nákvæmlega eins út og sá íslenski, sami litur, sama stærð svo það er mjög auðvelt að rugla þessum seðlum saman.
Í hugsunarleysi rétti ég konunni við kassann þrjá þúsundkrónu seðla og hún tók við þeim án þess að gera neina athugasemd. Ég varð ekki vör við misskilninginn fyrr en ég kom upp á hótel og fór að taka til í veskinu. Vissi að þar ættu að vera þrír 1000 korun tékkapeningar en fann ekki nema tvo. Vissi um leið að þarna hefði átt sér stað ruglingur.
Ég fór nú ekkert að garfa í þessu enda var tapið mitt en ekki Hagkaups þar sem 1000.- tékkapeningar voru þá 3.000.- ísl. kr.
Svona var nú það.
Starfsfólk verslana og banka beitt blekkingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2008 | 11:25
Mannfagnaðir margfaldir og ég missi af þessu öllu saman. Púhú...
Ég er að missa af hverjum stórviðburðinum þarna uppi á Hamingjulandinu! Svona er að búa erlendis og hafa svo ekki einu sinni rænu á því að kaupa sér miða heim heldur hanga hér hálfvolandi ofan í takkaborðið og vorkenna sjálfri mér þessi líka reiginar ósköp. Nei ég er nú aðeins að ýkja en það hefði ekki verið verra að vera heima núna og mæta í fimmtugsafmælis-Brunch hjá mágkonu minni í hádeginu í dag.
Til hamingju með daginn Bökka mín, heyrði að tónleikarnir hefðu verið dúndur flottir!!!!!
Á morgun á svo bróðursonur minn afmæli, ekki að ég hefði verið boðin í neitt unglingadúndur en hvað veit maður. Síðan er mágur minn hann Helgi Gunn 65 ára á fimmtudaginn! Þar með held ég að afmælisbörn mánaðarinn innan familíunnar séu upptalinn. Þetta er enginn smá hellingur, átta stykki í sama mánuðinum!
Finnst ykkur ekki annars, þið sem þekkið ekki haus né sporð af þessu fólki, skemmtilegt að lesa þetta hehehe.... jú mér datt það svona í hug!!! hehehehhe.....
Annars stendur hér mikið til um helgina, segi ykkur frá því seinna.
25.8.2008 | 10:48
Nú er það spurning um að halda sönsum.
Mér snarbrá þegar ég las þetta, alhvítt á Akureyri og ekki einu sinni kominn september! Sem betur fer ykkar vegna var ekki alhvítt af snjó niður í hálfar hlíðar heldur bara smá gjörningur í gangi. Sniðugt hjá þeim!
Athugasemd við frétt lokið.
- Nú þegar búið er að kjósa í Beijing fegurstu konu vallarins á Olympíuleikunum og flestir farnir til síns heima ætli maður fái þá aðeins hvíld frá íþróttaviðburðum í smá tíma sagði ég við minn elskulega í gær. - Nei svaraði hann nú byrjar enski boltinn og brosið á andlitinu náði hringinn!!!!
Anskotinn, ég bara trúi þessu ekki, veit að sumir eru alveg alsælir en ég sem er ekkert fyrir að fylgjast með íþróttum verð nú að fara að finna mér mitt eigið hobby, ég meina það og það utanhúss því bara hljóðið frá íþróttafréttum sjónvarpsins getur gert mig svo pirraða að það hálfa væri nóg. Golf, OK ég byrja bara aftur í golfinu. Nenni aldrei að horfa á það en mér finnst ekkert leiðinlegt að slá bolta.
Ok farin út að dusta rykið af kylfunum og finna golfskóna.
Ætti ég að fá mér private trainer? Hum hann verður þá að vera flottur með kúlurass.
Hvar ætli ég hafi látið golfsettið í fyrra eða er lengra síðan?
Farin að leita dauðaleit, nú er um sálarheill mína að tefla.
Alhvítt á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.8.2008 | 15:18
Tvöföld hátíðahöld hér í dag.
Hér var fylgst með leiknum í hádeginu og auðvitað fögnuðum við silfrinu sem strákarnir koma með heim í farteskinu. Tökum á móti þeim heima með pomp og pragt og höldum þeim góða veislu!
Eftir að hafa fagnað silfrinu fórum við, ég og minn elskulegi niður í Prag til að fagna fæðingardegi hans. Hann á afmæli minn gamli og af því tilefni bauð hann litlu fjölskyldunni út í hádegismat á Mandarin sem er einn af okkar uppáhaldstöðum.
Elma Lind skemmti okkur öllum með sínu yndislega babli á meðan við röðuðum í okkur kræsingum með Tai og Indversku ívafi. Kvaddi síðan afa og ömmu með gjöfum (þrátt fyrir að ég ætti ekkert afmæli) sniðug, sló tvær flugur í einu höggi svo hún þarf ekkert að pæla í gjöf í handa mér í október. Eitthvað hefur henni fundist afinn og amman vera þreytuleg því hún færði okkur dekurnudd á Mandarin - Spa. Ekki veitir af að reyna að flikka aðeins upp á þau gömlu hehehhe.
Ætli við tökum það bara ekki rólega það sem eftir er dags og komum okkur vel fyrir í sófanum fyrir framan TV- ið enda búinn að vera góður dagur í dag.
Til hamingju Ísland! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2008 | 11:30
Dagurinn byrjar vel og enginn ,,Erill" sjáanlegur enn
Frábær hugmynd Ingibjargar Sólrúnar að opna Utanríksráðuneytið fyrir almenning í dag á örugglega eftir að verða mörgum minnisstætt og nú þegar þetta er skrifað þá stendur yfir maraþonið í Reykjavíkurborg, ekki amalegt að byrja daginn á smá skokki.
Það eru örugglega margir sem halda daginn hátíðlegan í dag af ýmsum tilefnum. Bara í okkar fjölskyldu eru tvö afmæli, fimm ára brúðkaupsafmæli dóttur okkar og tengdasonar og síðan á snillingurinn hann Egill bróðir minn, líka afmæli. Til hamingju krakkar mínir með brúðkaupsafmælið, njótið dagsins vel. Egill minn knús á þig, ekki amalegt að láta borgina halda veislu í tilefni dagsins og færðu svo ekki líka flugeldasýningu í lokin? Frábært!!
Það er ekki laust við það að hugurinn sé á flugi yfir hafið á svona tillidögum og vottur af heimþrá í litla hjartanu. Við hér óskum Borginni okkar svo og öllum íbúum hennar velfarnaðar og megi dagurinn verða ykkur til gleði.
Engan fíflaskap, gangið vel um stræti og torg. Farið svo öll snemma í hátinn, það er stór dagur á morgun!
Opið upp á gátt í utanríkisráðuneytinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2008 | 19:46
Hnallþórur í frysti út um allan bæ
Sló á þráðinn heim til Íslands núna rétt áðan til að kasta kveðju á mág minn hann Richard Briem sem á afmæli í dag. Ég bjóst nú helst við því að það væri fullt hús af fólki í Miðstrætinu þar sem hún systir mín er þekkt fyrir sínar stórveislur.
Nei engin veisla hér sagði Rikki og bætti við: Við erum enn að reyna að klára kræsingarnar frá afmæli Kolbrúnar Evu.
- Jæja sagði ég, bíddu en það var 4 ágúst og barnið var nú bara eins árs. Er þetta ekki orðnar ansi þreyttar kræsingar.
- Ja ég bara veit það ekki, þar sem frystirinn okkar bilaði þá var brugðið á það ráð að skella afgöngum af tertum og öðru fíneríi hingað og þangað í frost til nánustu ættingja. Ég fór líka með byrgðir í vinnuna og það bara sést ekki högg á vatni, þvílík ósköp sem hér var bakað. Þetta var eins og fyrir fermingaveislu.
- Já sagði ég, mín hefur viljað hafa nóg.
- Það er víst, dæs heyrðist á línunni. Nú svo eru allir (þá meinti hann systur mína) í átaki svo það er nú lítið látið ofan í sig af þessu fíneríi.
- Nú hvað er bara vatn og salat alla daga?
- Ja ég segi það nú ekki en....
- Jæja svo engin veisla í dag
- Nei ég verð bara hér í rólegheitum með krakkana, Anna er að fara á átaksfund eða eitthvað svoleiðis.
-OK, annars allir hressir?
-Já við erum þrusuhress!
Samtalið varð aðeins lengra áður en lagt var á og knúskveðjur til allra að sjálfsögðu bárust yfir hafið.
Ég fór að hugsa eru allir í einhverju átaki þarna heima? Þá birti upp í kollinum, jú auðvitað þetta gerist á hverju hausti, allir panta sér tíma í líkamsrækt vegna þess að það á að ná sér niður fyrir haustkræsingarnar, þið vitið nýja lambið, slátrið og rabbabaragrautinn. Nú og ef það tekst ekki alveg er haldið áfram til jóla, síðan páska og síðan fyrir sumarfríin svo maður geti látið sjá sig í stuttbuxum. Úff ég man sko vel eftir þessu hér áður fyrr.
Sagan endalausa.
19.8.2008 | 19:47
Fálkinn minn er floginn til síns heima.
Hvar ertu fallegi fugl? Þú sem varst einn af gestum mínum hér í sumar. Tignalega sveifst þú hér yfir húsunum okkar og hnitaðir hringi með þínum þöndu vængjum. Þú varst ungur, ekki fullvaxinn það sáum við strax og við buðum þig velkominn hingað. Hvert fórstu, hvar ertu?
Fyrst héldum við að þú byggir í trjátoppunum þar sem við áttum svo erfitt með að fylgjast með þér þegar þú stakkst þér niður í fletið þitt. Síðan kom í ljós að þú hafðir fundið þér skjól í einu af húsunum okkar þar sem hleðslan hafði hrunið og gert lítið gat í vegg. Enda konungar eins og þú búa ekki í trjám en okkur fannst skrítið hvað þú varst spakur og leyfðir jafnvel sumum að koma það nærri að þeir gátu fest þig á mynd. Því miður á ég enga mynd af þér vinur.
Stundum fylgdumst við með þér bera björg í bú, músarrindil eða eitthvað annað góðgæti. Þarna sastu í holunni þinni og hélst þína veislu. En nú ertu horfinn og við söknum þín fallegi Fálki.
Vonandi hefur þú ratað heim til vina þinna hér í klettana við Sazava og ert kominn í þeirra hóp.
Tignalegi Fálki svífðu yfir sveitinni
þöndum vængjum
vitjaðu okkar þegar hausta fer.
Velkominn heim.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)