Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
19.8.2008 | 10:36
Hvað á ég að bíða lengi eftir þér!
Jæja já þið haldið það. Hér áður fyrr var maður nú ekki lengi að skvera sig til, tók svona innan við hálftíma, sturta, mace up, hárgreiðsla og alles. Ætli fataskápurinn hafi ekki tekið flestar mínúturnar. Nú ef krakkarnir voru að væla í manni þá var bara maskaranum skellt ofan í tösku og punkturinn settur yfir Iið í bílnum á leiðinni. Hugsið ykkur að masara á sér augnhárin á holóttum götum Reykjavíkur, jafnvel tók ég stundum naglalakkið og fór síðustu umferðina yfir neglurnar í bílnum.
Já þetta var þegar sjónin var í góðu lagi og stækkunarspegill óþarfur krakkar mínir.
Síðan eru liðin ár og öld og nú þarf ég miklu lengri tíma til að sparsla upp í allar misfellur. Stækkunarspegillinn er ómissandi og ekki séns að ég geti maskarað á mér augnhárin í bílnum lengur. Naglalakkið er stundum tekið með en þá verður það að vera litlaust!
Fataskápurinn er líka vandamál enda aðeins meira úrval í honum í dag en í den.
Minn elskulegi sagði oft: Hvað á ég að bíða lengi eftir þér. Núna bara bíður hann rólegur þar til ég geng eins og marmarasleginn túskildingur niður stigann og þá er það ég sem segi: Hvað á ég að bíða eftir þér í allan dag elskan.
Annars held ég að allar þessar snyrtivörur, krem, hyljarar ogskyggnidót sem ég á hér í baðskápnum og skúffum komi að litlu gagni og þó e.t.v. pínu pons.
Af hverju ekki bara að nota gamla góða Nivea, amma mín notaði það eingöngu og hún leit út eins og básúnuengill alla tíð.
Ég tala nú ekki um allan þá aura sem fara í þetta dót.
Farin út ómáluð með stór svört sólgleraugu, jú pínu varalit enda á leiðinni á snyrtistofuna til að láta lappa upp á fésið og þar með að létta budduna ansi mikið.
Það sem maður getur látið blekkjast, alveg ótrúlegt. En erum við ekki flestar svona, jú það held ég.
![]() |
Tímafrekt að hafa sig til: 3.276 stundir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2008 | 20:14
Var nokkur þarna úti fluga á vegg hjá mér í dag?
Ja ef svo var þá er ég búin að kála nokkuð mörgum vinum mínum, réttara sagt búin að fremja fjöldamorð! Hver þolir líka ágengar húsflugur sem suða eins og heill skólakór sem tekur hummm áður en byrjað er að syngja.
Ég fór hamförum hér seinni partinn í dag, æddi eins og vitleysingur um allt eldhúsið og barði frá mér til hægri og vinstri. Ástæðan var sú að hér hafði verið opin hurð í allan dag og þar sem nýbúið er að hirða af akrinum fylltist allt hér að þessum leiðinda kvikindum. Ég vopnaðist blautri rýju og skipaði mínum elskulega að loka hurðum á eftir sér en hann býr ,,í tjaldi" allt sumarið.
Ég kveikti ljós öðrum megin í eldhúsinu til að koma þessum suðandi her á einn stað en það var hægara sagt en gert þar sem enn var bjart úti. Það versta var að þær voru búnar að þekja skjáinn með flugnaskít. Hafið þið tekið eftir því hvað þessi kvikindi bera með sér á löppunum, maður sér það svo greinilega á hvítum skjánum. Ógeðslegt.
Ég stóð í þessum bardaga í allt að hálftíma og engin miskunn hérna megin, ég kálaði þeim öllum með tölu, ekki eitt suðandi kvikindi hér inni núna.
Vonandi eruð þið öll heil á húfi er komin með smá samviskubit, hvað ef þetta voru vinir mínir í heimsókn þá er ég í djúpum.......
Minn heldur sig upp núna og þorir ekki einu sinni út með ruslið, tekur engan sjens, drápseðlið gæti blossað upp í hans annars elskulegu eiginkonu og ein og ein fluga á vegg pirrar hann ekki baun.
Nú er ég farin að slökkva öll ljós og sofa í hausinn á mér enda búin á því eftir hamfarir dagsins.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.8.2008 | 15:43
Litil hjartaknúsarinn fór í úlilli í dag.....
..... og það er allt svo kyrrt og hljótt. Eftir situr amman og reynir að koma einhverju í verk en það gengur frekar erfiðlega. Fyrst þarf maður að ná sér aðeins niður og koma hugarástandinu í réttar skorður síðan er að takast á við þetta daglega sem hefur setið á hakanum undanfarnar vikur.
En allt kemur þetta með kalda vatninu það er víst alveg öruggt mál.
Í gær áttum við góðan dag saman öll fjölskyldan. Borðuðum síðbúinn hádegisverð á Reykjavík og síðan héldum við Soffía mín saman í smá búðarleiðangur þar sem amman missti sig aðeins í innkaupum á litla skriðdrekann, en ömmur sem búa í útlöndum hafa leyfi til að missa sig öðru hvoru og það er bannað að segja: Mamma ertu rugluð veistu hvað þetta kostar. Þá hvæsir amman aðeins á dóttur sína og segir: Þér kemur ekkert við hvað ég geri, þetta er mitt mál og ekki orð um það meir. Dóttirin hristir rauða kollinn sinn og muldrar: Þú er bara ekki í lagi og svo er málið dautt.
Ég sé nú fram á að ég muni hafa í nógu að stússast næstu vikur svo hér verður svo sem engin lognmolla frekar en fyrri daginn. Á morgun koma góðir vinir okkar, Inga og Jói og gista hér hjá okkur nokkrar nætur. Það verður bara gott að fá fólk í húsið þá finnur maður ekki eins fyrir þessum hræðilega tómleika sem umlykur okkur hér í dag.
Hafið það náðugt elskurnar þar til ég kem inn næst.
12.8.2008 | 19:27
Ég er soddan hænumamma
Ef það eru ekki tafir hjá verktökum þá eru það tafir sveitafélags. Eftir hverju er verið að bíða, einu stórslysinu í viðbót? Ég á mjög bágt með að skilja þetta og mig óar við því í hvert sinn sem ég veit af mínum nánustu út á þjóðvegum landsins og ekki bara þarna heima heldur líka hér erlendis þó vegirnir hér séu betur merktir ef um vegavinnu eða umferðaróhöpp er að ræða þá gera slysin ekki boð á undan sér því er nú ver og miður.
Um daginn þegar við vorum að keyra frá Munchen til Prag í samfloti með dóttur okkar, tengdasyni og barnabarni dróust þau dálítið aftur úr. Við vorum búin að vera í símasambandi alla ferðina en þarna sem við hjónin vorum komin langleiðina að ,,landamærunum" höfðum við ekki náð sambandi við þau í nærri heila klukkustund og mér var farið að líða frekar illa, maginn kominn í hnút og heilmið drama í gangi hjá minni.
Ég endurtók í sífellu það er örugglega eitthvað að, þau ansa hvorugum símanum, við verðum að snúa við. Ég var næstum búin að sannfæra minn elskulega um að ég hefði rétt fyrir mér svo hann ákveður að stoppa á næstu resteriu. Ég held áfram að hringja og fæ ekkert svar. Síminn hringir út og vinaleg rödd segir að báðir símar séu utan þjónustusvæðis. Það gat alls ekki staðist vegna þess að símarnir okkar voru inni allan tímann.
Þegar þarna er komið er ég orðin verulega histerisk og segi: Nú keyrum við bara á næstu lögreglustöð og fáum að vita hvort slys hafi orðið á leiðinni.
- Bíðum aðeins segir minn elskulegi en er orðinn ansi þungbúin enda með konuna í rusli í framsætinu.
Einhverra hluta vegna hafði hann parkerað bílnum þannig að hann sá út á hraðbrautina og allt í einu segir hann...- Þarna eru þau!
Ég píri augun og segi þú getur ekki séð svona vel frá þér
- Jú ég sá númerið, þetta eru þau.
Við brennum af stað og náum í skottið á þeim eftir örfá augnablik, og ég gef merki um að þau eigi að hringja í okkur um leið og við rennum fram úr þeim. Ég hugsa að augnatillitið sem dóttir mín og fjölskylda fékk þarna hafi ekki verið neitt sérlega fallegt.
Hún hringir og segir - Varstu að reyna að ná í okkur, æ símarnir voru báðir á silent!
Ég húðskammaði hana fyrir tillitleysið þegar við komum heim og hún lofaði að þetta kæmi aldrei aftur fyrir en ég sá að hún brosti út í annað yfir móðursjúkri móður sinni.
Æ það er bara aldrei of varlega farið í umferðinni og vonandi laga þeir þennan vegarspotta við fyrsta tækifæri.
![]() |
Sveitarfélög tefja vegabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2008 | 20:39
Aquapalace, ævintýraheimur Pragbúa
Í morgun var ákveðið að fara með Juniorinn í sund og fyrir valinu varð auðvitað Aquapalace sem er 30 km héðan frá okkur. Þvílíkt ævintýri að koma í þennan vatnsskemmtigarð, jafnvel okkur fullorðna fólkinu fannst mikið til koma. Endalausar rennibrautir, ormar, heitir pottar og kaldir, fossar, sprænur, ár og laugar, strendur með öldugangi og sjóræningjaskip sem vatnið gusaðist úr héðan og þaðan. Jafnvel litlir hákarlar sem syntu í lokuðum kerjum, (skildi nú ekki alveg hugmyndina á bak við það) en sitt sýnist hverjum.
Auðvelt er að eyða heilum degi þarna þar sem þetta er að hluta til innanhúss og auðsjáanlega hugsað sem fjölskyldustaður. Eitthvað fyrir alla. Líkamsrækt, nudd, gufuböð, snyrting, hárgreiðsla og nokkrar verslanir fyrir þá kaupóðu. Veitingasalir og sundbarir.
Amman var eitthvað hálf slöpp þegar lagt var af stað en lét það nú ekki á sig fá þar sem hana langaði mikið til að fara með litla guttanum í sund. Yfir hádegisverðinum fór heilsan aðeins að versna því auðvitað er hún búin að ná sér í sumarkvef. Situr nú hér skjálfandi, kófsveitt og með Kleenex pakka við hendina. Hnerrar hér ofan í tölvuna og nefið eins og á versta tóbakskarli.
Ætlar samt í bæinn á morgun því það er síðasti dagurinn þeirra Soffu, Steina og Þóris Inga áður en þau halda heim og amman ætlar að nota daginn til að fara með sínum í búðir og versla pínu pons.
Svo nú er bara að pakka sér inn í dúnsængina og koma sér til kojs.
Verð fín á morgun.
6.8.2008 | 10:59
Elsku mamma vertu nú ekki með þetta pjatt...
.....og skiptu við mig um skó! Þetta sagði dóttir mín við mig þar sem ég skakklappaðist um sjóðandi heit stræti Munchen-borgar. Ég leit niður á hennar skófatnað, svona útjaskaða innleggsskó, þið vitið með ól yfir ristina, ég hélt nú ekki sama hvaða fína merki þeir væru, heldur gengi ég berfætt en að láta sjá mig í svona tuðrum. Svo hafði ég líka fjárfest í þessum líka fínu rauðu bandaskóm, rándýrum áður en ég lagði upp í ferðina og þeir áttu að þjóna sínum tilgangi og hana nú.
Ég hafði auðvitað ekki gert mér grein fyrir því að kona sem er með svona aukabein fyrir ofan stórutærnar og hefur ekki þorað að fara í aðgerð vegna þess að hún er svo mikil kveif getur ekki gengið í svona bandaskóm alveg sama hversu mjúkir þeir eru. Ég hafði tekið með mér tvenna aðra sem báðir áttu að þjóna sínum tilgangi þar til ég gæti fjárfest í ítölskum dúlluskóm með fyrirkomulagi eins og ein vinkona mín kallar það. En hver fer að máta skó með gapandi sár á báðum stórutám?
Í 35°hita bólgna viðkvæmir fætur og eftir þrjá daga voru litlu sætu táslurnar mínar eiginlega að detta af, ég get svo sem svarið það. Ég hafði það af að ganga að sundlauginni og aftur heim í hús sem voru ca 20 metrar. Var líka orðin fræg í öllum Apotekum Toscana héraðs þar sem ég keypti daglega eitthvað nýtt við svona meini. Talkúm, gel, innlegg, plástra og eitt sem var eins og útblásin lítil blaðra sem ég smeygði upp á stórutá og blaðran hélt við beinið. Þá gat ég auðvitað ekki komist í neina skó vegna þess að þetta var svo asskoti fyrirferðarmikið.
Ekki batnaði ástandið þegar ákveðið var að fara í skoðunarferðir. Ég, pjattrófan dróst svona 10 metra aftur úr vegna þess að ég gat varla stigið niður og síðan heimsótti ég öll þau Apotek sem ég fann á leiðinni ef ég hugsanlega gæti fundið eitthvert kraftaverkameðal.
Ég þraukaði út ferðina og gekk á þrjóskunni einni saman, skapið var ekki alveg upp á það besta, dálítið pirruð stundum, þið skiljið, svona pínu leiðinleg. Ég er nefnilega með alveg rosalega hátt sársaukastig og þoli ansi mikið en auðvitað eru takmörk fyrir öllu. Þetta er auðvitað bilun að kvelja og pína sig heldur en að ganga í sandölum eins og hinir túrhestarnir.
Ég hefði getað kysst og knúsað útjöskuðu inniskóna mína sem blöstu við mér þegar ég opnaði útidyrnar að Stjörnusteini.
Hef ekki farið úr þeim síðan og ætla ekki í bráð fyrr en ég neyðist til að láta sjá mig innan um ókunnuga.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.8.2008 | 08:23
Eftirminnileg ferð til Toscana
Það var yndislegt að fara þessa ferð saman, litla fjölskyldan. Við gamla settið nutum hverrar mínútu með barnabörnunum þessa daga í fallegu umhverfi Toscana. Litli Juniorinn okkar frá Íslandi lærði ný orð á hverjum degi og litla Prag-prinsessan ný trikk enda á hermialdrinum.
Hvað getur verið meira gefandi en að fá að fylgjast með þessum sólargeislum okkar!
Eftir að hafa keyrt til Milano sameinuðumst við litla fjölskyldan í sveitasælu Toscana þar sem krakkarnir okkar höfðu leigt hús í viku. Egill og Bríet flugu síðan heim til Prag en við hin keyrðum inn í Ítölsku Alpana og dvöldum þar einn dag. Ótrúlega fallegt að sjá þetta svæði í sumarbúningi.
Við keyrðum eins og leið lá til Munchen þar sem við gistum eina nótt og héldum síðan heim til Prag.
Gott var að koma heim og heyra vælið í Erró þegar hann tók á móti okkur hér í kvöldsólinni.
Nú tekur hversdagurinn við með öllu því lífsins amstri sem alltaf er þó gaman að takast á við.
22.7.2008 | 11:24
Þetta er dagsatt eða þannig....
Um daginn benti minn elskulegi mér á ferðabíl, ef bíl skildi kalla, fyrir utan eina bílasöluna hér í borg og tilkynnti mér að hann hefði fjárfest í þessu til að koma allri fjölskyldunni í fyrirhugað ferðalag til Ítalíu. Þetta var örugglega um 10 metra langt glasandi rautt og svart stálhylki á hjólum og minn sagði að innanborðs væru fjögur herbergi með baði, setustofa, borðstofa og eldhús og þegar þú værir búinn að parkera gætir þú fengið 30fm verönd með útigrilli og alles með því að draga eina hliðina út svona eins og skúffu.
Mig hryllti við tilhugsunina eina saman, bara það að sjá lítil hjólhýsi hvað þá ferðabíla á vegunum hér gerir það að verkum að maginn á mér herpist saman og ég fæ klígjuna upp í háls. Sorry, þið sem eigið svona tæki, ekkert persónulegt.
En það er satt við erum að fara í FRÍ og engin smá tilhlökkun í gangi á þessu heimili. Öll litla fjölskyldan okkar saman til Ítalíu í viku. Soffa okkar með húsband og litla gaurinn hann Þóri Inga koma frá Íslandi og Egill, Bríet og Elma Lind fljúga héðan á laugardag.
Í upphafi datt okkur í hug að leigja átta manna bíl hér svo öll fjölskyldan gæti ferðast saman um vínhéruð Ítalíu en þegar málið var skoðað var þetta svo óhagstætt og líka það að við verðum að hafa tvo barnastóla í bílnum plús allt sem fylgir stórri fjölskyldu á ferðalagi. Við tókum þann kostinn að við Þórir keyrum á öðrum bílnum okkar en fengum síðan mann til að lóðsa hinn bílinn niðr´eftir. Keyptum flug fyrir bílstjórann aftur til Prag svo nú verðum við bara á okkar eigin bílum og nóg pláss fyrir alla. Þetta var helmingi ódýrari kostur en að leigja einhverja druslu.
Við Þórir ætlum að leggja í hann á morgun og dóla okkur eitthvað áleiðis. Hittum litlu fjölskylduna frá Íslandi á föstudagskvöld í Milan og síðan sameinast allir á laugardag einhvers staðar upp í hæðum Ítalíu ekki svo langt frá Florens. Þar hafa krakkarnir okkar leigt hús í viku og voru svo elskuleg að bjóða gamla settinu með. Við keyrum síðan með Soffu og Steina aftur áleiðis til hundrað turna borgarinnar þar sem þau ætla að vera hjá okkur hér í nokkra daga.
Þess vegna kæru vinir getur verið að þið heyrið ekkert í mér næstu vikur þar sem ég hef ekki hugmynd hvort ég kemst í netsamband eða nennu til að blogga. En við sjáum bara til.
Kem e.t.v. aftur inn í kvöld svona rétt til að fara bloggvinahringinn og senda knús á ykkur.
![]() |
Stolið hjólhýsi fannst í sandgryfjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.7.2008 | 00:38
Brahms í boði Guðnýjar konsertmeistara hér í borðstofunni okkar í kvöld
Enn bættist við flóru listamanna hér í Listasetrið okkar og í dag tókum við á móti Guðnýju Guðmundsdóttur konsertmeistara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Okkar er heiðurinn að fá þessa frábæru listamenn hingað til dvalar í skamman tíma.
Guðný tók upp fiðluna hér í kvöld og þar sem við sátum undir sextándu aldar gamalli hvelfingu inn í borðstofunni okkar fannst henni ekkert annað koma til greina en spila fyrir okkur verk eftir Brahms. Ég á seint eftir að gleyma þessari kvöldstund hér í borðstofunni minni við kertaljós og undurfagra tóna frá fiðlunni hennar Guðnýjar.
Á eftir settumst við út á verönd og borðuðum kvöldverð sem undrakokkurinn, minn elskulegi framreiddi af sinni einstöku snilld. Það gerði smá skúr svo við fórum inn og gæddum okkur á bláberjum með heitri kampavínssóu sem aldrei bregst á þessu heimili.
Mikið skrafar, mikið rætt um sameiginlega vini og kunningja og nú eru allir komnir til kojs nema hún ég sem sit hér og pikka þetta hér í dagbókina mína.
Á morgun er kominn nýr dagur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
17.7.2008 | 15:16
Barist við Kerfil, stórlaxa og snarvitlausa ferðalanga
Hér vex kerfill meðfram sveitaveginum og finnst mér hann bara til prýði svona snemma sumars þrátt fyrir að ég vildi nú ekki hafa hann hér inn á lóðinni. Nú veit ég ekki hvort ég fer með rétt mál en nota Svíar ekki kerfil til að brugga eðal-líkjör? Alla vega hefur sænsk vinkona mín komið hingað og tínt þetta ,,illgresi" í júní og bruggað drykk sem okkur þykir bara nokkuð góður. Held að hún noti blómin en ekki stöngulinn í seiðinn sem hún hefur síðan gefið okkur að smakka á vetrarmánuðum. Hún notar þetta eins og við notum kirsuberjalíkjör blandað saman við kampavín. Nú verðið þið bara að leiðrétta mig ef ég fer hér með rangt mál en mér finnst endilega að þetta sé hinn illræmdi kerfill sem þeir nota.
Um leið langar mig að smjatta aðeins á fréttinni um stórlaxana sem laxveiðimenn moka upp þessa dagana. Ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina. Glænýr lax út ískaldri bergvatnsá Íslands með nýjum kartöflum og íslensku smjöri. Jammí, jamm....
Hér verðum við að notast við eldislaxinn sem mér finnst algjörlega óætur!
Skelli mér bara heim með næstu vél eða þannig. Vonandi enginn snarvitlaus Breti með í för sem þolir ekki við inní vélinni og ræðst á hurðina og heimtar að fara út.....
Þannig er nú það gott fólk, vandlifað hér í henni veslu okkar.
![]() |
Ráðist til atlögu við kerfil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |