Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
15.7.2008 | 14:51
Engin hafði úthald til að taka næturvaktina eða standa bakvakt.
Hvert flýgur tíminn? Við sitjum eftir með ljúfar minningar en vitum ekkert hvað varð um þessa daga, vikur eða mánuði. Ég er alveg klár á því að næst þegar ég lít upp verða bara komin jól svo hratt líða þessir sumarmánuðir.
Í morgun kvöddum við rithöfundinn okkar hann Halldór og eiginkonu hans Önnu en þau hjónin eru búin að vera ábúendur í Listasetrinu undanfarnar sex vikur. Takk fyrir kæru hjón að leyfa okkur að njóta nærveru ykkar þessar vikur og velkomin aftur hvenær sem er. Vonum að dvölin hafi verið ánægjuleg hér í litla setrinu okkar.
Nei það er ekki hægt að segja að hér að Stjörnusteini ríki einhver lognmolla. Við erum búin að eiga notalega daga hér líka með kærum vinum okkar, Elsu og Kristjáni sem komu hingað fyrir viku og gistu hér síðustu daga ferðarinnar en ég kvaddi þau hér fyrir rétt rúmum hálftíma þar sem leið þeirra lá heim til Íslands. Hér hefur verið mikið spjallað, hlegið og heimsmálin kryfjuð til mergjar undanfarna daga enda æskuvinir þar saman komin.
Við vinkonurnar komumst samt að þeirri niðurstöðu að eitthvað væri nú úthaldið farið að gefa sig þar sem hvorug okkar stóð næturvaktina fyrr en í gærkvöldi og aldrei neinn á bakvakt heldur þessa daga. Við köllum það að vera,, á vaktinni" þegar við gátum setið til morguns og blaðrað um allt og ekkert hér í gamla daga og að vera á ,,bakvakt" var það kallað þegar einhver vaknaði um miðja nótt til að fylgjast með gangi mála. Jamm eitthvað er nú farið að slá í okkur eða eigum við e.t.v. að kalla þetta þroska fullorðinsáranna. Humm... gæti hugsast.
Nú er sem sagt komin ró yfir Stjörnustein í bili. Það eina sem heyrist hér nú er dirrindí úr hreiðrum smáfuglanna og notalegt skrjáfið í laufum trjánna sem bærast hér í andvaranum.
Það er líka stundum gott að vera einn.
10.7.2008 | 10:31
Þögnin safnar kröftunum saman.
Að heilsast og kveðjast það er lífsins saga og hefur mér gengið bara all bærilega undanfarin ár að kveðja án þess að vatna músum. En í morgun gat ég ekki haldið aftur af tárunum þegar ég kvaddi litlu frændsystkinin mín. Enn sit ég hér og á svo rosalega bágt inn í mér. Það er þungbúið bæði úti og inni. Sjálfvorkunnin alveg að drepa mig.
Ég veit svo sem að það er annað og meira sem veldur þessu táraflóði en ætla ekki að fara út í þá sálma hér núna enda engin ástæða til að bera á borð fyrir ykkur eitthvað kerlingavæl. Nú tekur maður bara á honum stóra sínum og drífur sig í verkefni dagsins sem bíða hér ófrágengin.
Ég ætla líka að fara eftir stjörnuspá dagsins, sem ég yfirleitt tek nú ekki mark á en einhvern vegin á hún svo vel við daginn í dag. Hún hljóðar svona:
Þegar maður sinnir stóru verkefni er orkan tvístruð. En það er bara tímabundið ástand. Þú þarft að staldra við og íhuga. Þögnin safnar kröftunum saman.
Og það er einmitt það sem ég ætla að fara að gera núna, staldra við og íhuga og safna kröftum úr þögninni.
Bíð ykkur öllum góðan og bjartan dag í sál og sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það er nú ekki oft sem tækifæri gefst til að halda míní fjölskyldusamkomu hér að Stjörnusteini og hvað ég elska það að hafa fólkið mitt hér þegar færi gefst. Bæjarrotturnar mínar komu aftur hingað í sveitasæluna í gær með börnin og slegið var upp veislu hér í garðinum. Egill okkar og Bríet komu með Elmu Lind, Ingi og Thelma með dúllurnar sínar tvær Elínu Helgu og Kristínu Helgu en þau eru hér í heimsókn núna.
Að fylgjast með þremur litlum dúllum, ein ný orðin eins árs, önnur tíu mánaða og síðan ömmustelpan mín átta mánaða var ekki óskemmtilegt og sjá hvað börnin stækka og þroskast ört á stuttum tíma. Sú elsta hljóp hér um allt í göngugrindinni, sú í miðið rétt gat ýtt sér aftur á bak en mín stutta bara sat og lét fara vel um sig þó litlu tásurnar væru auðsjáanlega að reyna að spyrna í stéttina.
Óli lék við hvern sinn fingur enda tók Egill hann á fótboltaæfingu. Fimm ára guttinn leit ekkert smá upp til stóra frænda sem einu sinni var markmaður í drengjalandsliðinu. Þið hefðuð átt að sjá aðdáunarsvipinn þegar Egill sagði honum að Eiður Smári hefði byrjað að sparka bolta í garðinum okkar í Traðarlandinu þá jafn gamall Óla í dag.
Elín Helga hélt sig aðeins fyrir utan þessa leiki en fékk auðvitað líka tilsögn frá stóra frænda enda hún orðin svo mikil dama, níu ára pæjan.
Grillið brást ekki hjá mínum elskulega og fóru allir saddir og þreyttir áleiðis til Prag þegar líða tók á daginn.
Verð að bæta því hér við að þegar Kolbrún Eva var sett í göngugrindina í morgun liðu ekki nema fimm mínútur þar til mín var komin á fleygiferð hér um veröndina. Maður má varla snúa sér við þá eru þau búin að læra eitthvað nýtt. Bara krúttlegt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.7.2008 | 08:49
Fjölskyldufréttir héðan frá Prag
Bæjarrotturnar, hún Anna systir mín og mágur eru búin að vera niðrí Prag með börnin síðan á mánudag og ætla held ég að vera þar fram á sunnudag eða mánudag. Við sveitalubbarnir höfum haft dálitlar áhyggjur af þeim þarna niðrí íbúðinni okkar í skarkala miðborgarinnar og yfir 30°hita. En hafið engar áhyggjur, við fylgjumst grannt með þeim og þeim virðist líka vel borgarlífið.
Þar sem Þórir komst í fyrsta sæti hjá Ólafi Friðrik (konungi) og Rikki, pabbinn sjálfur datt niður í annað hefur minn elskulegi reynt að halda sætinu eftir fremsta megni. Fyrsta daginn keypti hann derhúfu sem á stóð Óli í Prag 2008 og næsta dag digitalúr, sem sagt er bara að kaupa krakkann fyrir slikk en svínvirkar, heldur enn fyrsta sætinu.
Kolbrún Eva dúlla er bara hress í hitanum enda farin að fá Haagen Dazs ís á hverjum degi, sem sagt minn elskulegi farinn að kaupa sér vinsældir hjá henni líka..
Í dag ætlar Þórir að keyra þau til Dresden og er í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir þeim, þið sem þekkið þau skiljið það...... gæti tekið tíma hehehhe....
Þau verða síðan hér hjá okkur síðustu daga ferðarinnar og hlakka ég til að fá líf aftur í húsið.
Ég ætla að nota daginn í dag til að randa í búðir, vantar svo tilfinnanlega skó með fyrirkomulagi. Jenný veit hvað ég er að tala um.
Lít e.t.v. inn hér þegar kvölda tekur og sól sest.
Eigið góðan dag hvar sem þið eruð stödd í heiminum elskurnar...nú URLAST Hallgerður...
3.7.2008 | 08:31
Ég er komin með nýtt skilningarvit sem ég kalla ,,heilavigt"
Ég er alveg rosalega fastheldin í eðli mínu og þá sérstaklega þegar viðkemur húshaldi og umgjörð. Hef aldrei verið mikið fyrir að breyta til. Ef ég er sátt við fyrirkomulagið þá haggast hlutir ekki nema við stórhreingerningar. Íhaldsemi er líka minn löstur, ekki samt halda að ég hafi nokkurn tíma kosið íhaldið bjánarnir ykkar, fyrr frysi í neðra. Nei ég held mikið í gamla muni þá sérstaklega húsgögn. Eftir því sem árin líða og húsrýmið stækkar bæti ég bara við en held líka fast í allt gamalt og gott. Sem sagt blanda mikið saman gömlu og nýju.
En nú er ég komin í stórvandræði skal ég segja ykkur. Þegar gesti ber að garði veg ég og met þyngd viðkomandi til þess að vera viss hvort ég eigi að bjóða henni/honum í stofuna eða innristofuna sem ég kalla nú Sherry-stofuna mína. Hvernig haldið þið að gestum líði þegar þeir sjá þessi rannsakandi augu mæna þá út svo næstum sést í bert hold. Auðvitað tekur líka smá stund fyrir mig að skella viðkomandi á ,,heilavigtina" og á meðan bíður bara gestur eins og bjáni í forstofunni eftir því hvort húsmóðirin ætli að bjóða honum inn í herlegheitin eða vísa á dyr.
Nú skiljið þið ekkert hvað ég er að fara svo ég skal ekki kvelja ykkur lengur. Sko ástæðan fyrir þessari undarlegu framkomu minni er að 30 ára gamla uppáhalds sófasettið mitt er að syngja sitt síðasta. Þessi forláta gripur frá Belgíu er búinn að þjóna sínum tilgangi en það versta við þetta er að það lítur svo skrambi vel út. Búin að skipta einu sinni um áklæði og setur en nú bara er þetta búið að vera.
Þess vegna verð ég að meta þyngd gesta vegna þess að ef viðkomandi er yfir 80 kg og hlammar sér niður í setgagnið þá bara getur hann ekki staðið upp af sjálfsdáðum. Ég er nefnilega mörgum sinnum búin að þurfa að hífa gesti upp úr sófanum og stólum svo ég tek ekki lengur séns á því að bjóða fólki sæti í þessum þó þægilega húsgagni já því þú sekkur notalega ofaní þetta en eftir smá stund finnst þér þú sitja á gólfinu með hné upp í höku. Haldið að þetta sé huggulegt, ónei......
Guði sé lof fyrir sumarið því á meðan það endist eru stofurnar lítið sem ekkert notaðar svo ég get verið nokkuð róleg fram á haustið. En þá tekur við mikil og löng leit að nýju húsgagni sem verður sko ekki auðveld því ég er búin að vera að leita að ,,hinum rétta tón" í tvö ár!!
Hlakka til þegar ég þarf ekki lengur að nota ,,heilavigtina"
Farin út að vökva..........
2.7.2008 | 08:40
Þannig komst ég að því að ég væri með gróðurofnæmi
Við vorum gestkomandi í innsveitum Frakklands, ég held að þetta hafi verið árið 1997 eða ´98. Ég sat með frænku Þóris, Limmu, og við dunduðum okkur við að setja villt blóm í vasa sem hún hafði tínt á landareigninni sem var gríðar stór mitt inn í skógarrjóðri og ekki hús í mílna fjarlægð nema gamalt nunnuklaustur sem enn var starfrækt.
Þetta var ævintýraheimur, íbúðarhúsið var hlaðið úr grágrýti og byggt í kring um 1700. Hefur örugglega verið í eign hefðarfólks í þá daga. Nú var búið að endurbyggja það að hluta og notað sem sumarhús af eiganda og fjölskyldu.
Þórir og Nikki voru að undirbúa kvöldmatinn og nú skildi gæða sér á ekta franskri nautasteik og drekka eðalvín með. Við settumst til borðs undir stóru tré á veröndinni sem var búið að dúka fallega upp og á miðju borðinu var litskrúðugi blómvöndurinn sem við höfðum nostrað við með óteljandi villtum blómum.
Ég komst aldrei til að smakka steikina eða bragða á víninu. Ég hafði fundið fyrir einhverjum ónotum allan daginn, mér var þungt um andardrátt og þetta ágerðist með kvöldinu. Ég hélt ég væri að fá einhverja flensu og bað þau að afsaka mig og skreið upp í rúm. Alla nóttina dreymdi mig að ég væri að anda í gegn um rör! Þórir sagði mér seinna að hann hefði aldrei heyrt annað eins, það sauð ofaní mér eins og físibelg.
Mér leið skár daginn eftir og við héldum áleiðis heim til Prag. Eftir því sem norðar dró fór að bera minna á þessum andþrengslum og ég auðvitað farin að kenna reykingum um þessi ósköp. Ég ákvað samt að fara til læknis þar sem einkennin voru enn til staðar og þá var ég greind með gróðurofnæmi.
Í dag lifi ég með þessu og bý í sveit! Ég verð að viðurkenna að þetta sumar er búið að vera ansi erfitt. Verst er það að geta ekki sofið.
Annars bara góð og ætla núna út í garð að klippa rósirnar mínar enda ekki með ofnæmi fyrir þeim.
Smellið á nýju myndina þarna voru rósirnar mínar rétt að byrja að blómstra í byrjun júní
![]() |
Aldrei fleiri frjókorn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.6.2008 | 19:34
Hef upplifað hér storma og flóð en ekkert eins og þetta. Við vorum í auga stormguðsins!
Það er ekki laust við að ég hafi verið komin með pínu fráhvarfseinkenni þar sem ég hef verið dálítið fyrir utan alheiminn í nokkra daga. Ekki það að ég hafi saknað ykkar neitt rosalega mikið grey skammirnar ykkar hér á blogginu, og þó.... e.t.v. pínu pons.
Í fyrsta lagi var ég mjög upptekin af því að taka á móti minni elskulegu systur, hennar ektamaka og tveimur börnum. Fimm ára og 10 mánaða. Þið skiljið að þá hefur maður meir en nóg að gera. Cheriosið, kókópuppsið, ávextir og önnur hollusta verður auðvitað að vera til á staðnum og síðan að taka fram öll leikföng og græjur fyrir þennan aldur. Síðan verður maður að vera í stuði til að ræða við fullorðna, leika við börnin og njóta samvista við fjölskylduna eins vel og maður getur. Sko þetta er full time job elskurnar en I love it!
Á miðvikudagskvöldið var ég að fara að leggja hér á borðið úti á verönd og er litið til himins og sé hvar kolsvartur himininn hvelfist yfir sveitina. Ég segi: Jæja folkens hér verður nú ekki snætt úti í kvöld. Ég rétt náði að henda inn af borðinu og taka það mesta lauslega þegar skall á hvirfilvindur eins og þeir gerast verstir. Hér varð myrkur eins og um hánótt og lætin í veðrinu voru ógurleg.
Veðrið gekk niður á hálftíma eða svo. Þegar stytti upp fórum við út að kanna skemmdir og það var ekki fögur sjón sem blasti við okkur. Hér féllu fjögur 25 metra há tré í garðinum okkar svo og þrjú þriggja ára sem ég hafði umhyggjusamlega gróðursett. Við vorum heppin að þau tré sem féllu voru það langt frá húsunum að við sluppum við skrekkinn. Sem sagt maður fór í smá Pollýönnu leik, enda var ekkert annað hægt að gera í stöðunni.
Við vorum rafmagnslaus og vatnslaus hér í tvo sólarhringa þar sem sveitin okkar varð víst verst úti. Það er hræðilegt umhorfs hér í skóginum, trén molnuðu eins og eldspítur og einhver hús urðu undir stórum trjám hér í nágrenninu. Vegir lokuðust víða en sem betur fer höfum við ekki heyrt um neinn mannskaða.
Það var langt í frá auðvelt að vera hér með lítil börn, vatns- og rafmagnslaus. Matur var farinn að skemmast í ískápunum og þetta hefði varla getað gengið lengur. Var farin að búa mig undir að flytja með alla niðrí Prag. En nú er allt komið í gott lag og við hér skötuhjúin ein í kotinu vegna þess að litla systir fór niðrí íbúðina okkar í Prag og ætlar að vera það í nokkra daga og njóta borgarlífsins. Ætli þau hafi bara ekki verið búin að fá nóg, bannað að taka mig alvarlega núna!! Heyriði það !
Sem sagt hér erum við búin að upplifa ævintýri og hamfarir síðustu daga. En nú er lífið komið í samt horf og við erum bara hress að vanda í blankalogni og heiðríkju.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hefði ég átt að vaka lengur og velta mér upp úr dögginni í nótt. Haldið þið að það hefði borið einhvern árangur, neip ætli það, heldur hefði ég átt að vakna hér í morgunsárið og láta steypiregnið dynja á mínum eðal fína skrokk þá hefði etv Jóhannes skírari séð aumur á kellu, en eins og sagan segir þá var Jóhannes skírður þennan dag og sel ég það nú ekki dýrara en ég keypti.
Ég kynntist hátíð Jónsmessunar fyrst árið 1966 en þá var ég í Noregi. Mér fannst alveg stórkostlegt að sjá eldanna sem loguðu um allar eyjar, firði og fjörur. Það var einhver dulmögnun yfir þessu svo um mann fór smá hrollur, e.t.v. var það bara næturkulið sem smaug inn undir peysuna. Nóttin var alla vega kynngimögnuð og sagt var að nornir og seiðkarlar hafi komið saman 24. júní til að fremja sín myrkraverk. Nornir flugu gandreið um himininn á meðan karlarnir göluðu sinn seið.
Sorlegt er að heyra að fólk taki slík æðisköst eins og kemur fram hér í grein Jyllands-Posten, mildi að ekki fór verr. Gæti verið að hann hafi verið hnepptur í álög af einhverju eða einhverjum? Líklega er það þannig.
Annað sem mér datt í hug af því ég er nú að bulla þetta hér. Ég heyrði einhvern tíma um jurt sem kölluð er Jónsmessugras. Mig langar svo til þess að vita hvort einhver veit um undramátt þessara jurtar og hvar eða hvort hún finnst einhvers staðar?
![]() |
Reynt að drekkja konu á Jónsmessuhátíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.6.2008 | 19:34
Á morgun verður fjör hér að Stjörnusteini
Ég sit hér úti og horfi til himins. Bleikir skýjahnoðrar bærast ljúflega með vindinum en þess á milli sést í vatnsbláan himininn. Sólin er að setjast í vestri og ber við sjóndeildarhringinn eins og logandi eldhnöttur. Ótrúlega falleg sýn á þessu milda sumarkvöldi.
Það er Jónsmessan á morgun og þá glaðnar hér aldeilis yfir Stjörnusteini þar sem systir mín og mágur koma með tvö yngstu börnin sín. Ég segi tvö yngstu. Anna Sigga mín á nú bara þau tvö en mágur minn á eldri börn frá fyrra hjónabandi sem teljast auðvitað líka til fjölskyldunnar.
Hér er búið að ræsta út í dag, viðra rúmföt og setja hreint á rúmin. Sundlaugin var gerð klár og nú hossast minn elskulegi á traktornum til að setja punktinn yfir I-ið og slær flatirnar eins og honum sé borgað fyrir það. Það mætti halda að kóngurinn í Krít væri væntanlegur, þvílíkur er hamagangurinn hér á bæ. En þau eru jú auðvitað spes hún Anna mín og hann Rikki og ekki verður leiðinlegt að fá að dúlla aðeins við litlu frændsystkinin næstu tvær vikurnar.
Ég færi ykkur öllum hlýjar kveðjur okkar inn í bjarta sumarnóttina.
23.6.2008 | 09:09
Brynja Benediktsdóttir
Ég rifja upp í huga mér hvað fyrir bar
og leita þín í svipmynd þess, sem eitt sinn var.
Mig setti hljóða í gærkvöldi þegar við fréttum af andláti Brynju Benediktsdóttur. Það var ekki fyrr en við vorum búin að hringja heim og fá þetta staðfest að ég skildi allt í einu að þarna var farin minn góði lærimeistari og vinur. Svo ótímabært og svo snöggt.
Ekki nema nokkrir mánuðir síðan við hittumst heima og töluðum um að nú væri kominn tími til að hittast hér heima hjá okkur í Prag. Stundum er lífið svo óréttlátt og grimmt.
Elsku Erlingur minn, sendum þér og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi ljós fylgja ykkur og lýsa á þessum erfiðu tímum.
![]() |
Andlát: Brynja Benediktsdóttir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |