Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sumir geta ekki sofið fyrir fuglasöng..

 ..og þar á ég við minn elskulega.  Um leið og fuglarnir vakna er minn kominn á ról og kvartar óspart um þennan bölvaða hávaða frá fuglunum.  Annars er þetta nú meira sagt í gríni en alvöru.   

Af hverju er fólk að væla þetta. Það velur þetta sjálft ,að búa í miðborginni. Annars hélt ég nú að fólk sem byggi ,hvort sem það nú er við umferðagötu eða við skemmtistaði vendist því að sofa við hávaða. Ef þetta er svona bagalegt á það bara að flytja í rólegra hverfi.

Við gistum stundum í Lækjargötunni þegar við komum heim og ég verð að viðurkenna að það tók mig yfirleitt tvær til þrjár nætur að venjast hávaðanum frá götunni. Annað sem ég tók eftir var bölvað gargið í Mávunum sem sóttu í afganga næturinnar í húsaportum.  Það fannst mér miklu meira pirrandi en búmm,búmm,búmm frá diskótekunum.  Ætlar enginn að súa mávagreyin?  Þeir fylgja líka borgum og bæjum við sjó.  Einkennilegt að væla svona endalaust.

Hér í sveitinni okkar er svo mikil kyrrð á nóttunni að það mætti heyra saumnál detta og sumir gestir okkar hafa ekki getað sofið fyrstu næturnar vegna kyrrðarinnar enda það fólk vant að sofa við ys og þys stórborgar.

Eitt sinn komu hingað góðar vinkonur mínar og ég ákvað, vegna þess að við ætluðum aðeins út á lífið eitt kvöldið að gista í íbúð sem við eigum og staðsett er fyrir ofan veitingastaðinn okkar.  Sem sagt í hjarta borgarinnar.  

Ætli klukkan hafi ekki verið um eittleitið þegar við kvöddumst og ég hélt upp í íbúð.   Hávaðinn var svo mikill frá götulífinu að mér varð ekki svefnsamt um nóttina.  OK hvað átti ég til bragðs að taka, súa minn eigin veitingastað eða borgina?  Eftir að hafa velt mér fram og til baka í rúminu fór ég fram úr og tók mig til og endurskipulagði íbúðina.  Færði til sófa, stóla, borð og hillur og dundaði í þessu fram undir morgun. Hugsa að ég hafi nú ekki verið beint vinsæl af nágrönnum eftir þetta brambolt mitt og hefði sjálfsagt mátt búast við skömmum og svívyrðingum daginn eftir en ég var fljót að láta mig hverfa úr húsinu strax þegar birta tók.

Hef reyndar ekki lagt í að sofa aftur þarna niðurfrá.  Elska kyrrðina í sveitinni minni..  


mbl.is Hávaðinn óþolandi að sögn íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hahahaha.....

Málið leyst!  Fótsporin reyndust vera eftir HROSS!!

Ja hérna ekkert fútt í þessu lengur!

Allar Karenar geta nú aftur látið sjá sig utandyra og þurfa ekkert að óttast lengur.

Heimavarnaliðið getur farið heim að grilla.

Það ætla ég alla vega að fara að gera núna enda von á góðum gestum í kvöldmat. Weekend BBQ 

 

 


mbl.is Hálendisbjörn trúlega hross
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjössi litli lætur ekki gabba sig

Nú æsast leikar.  Á meðan Bjössi litli spókar sig um á Hveravöllum og nýtur fegurðar landsins fer heimavarnaliðið á stúfana og heldur til fjalla í von um að komast í fótspor Bangsa.

Komið hefur í ljós við rannsókn málsins að nafnið Karen þýðir ,,hin hreina"  nefnd hefur verið sett í málið til að fá botn í  hvernig nafnið tengist Hvítabirninum.  Það eina sem nefndin hefur komið sér saman um er að hvítt tengist jú hreinu og tæru.  Nefndin situr nú og fundar um málið.

Á meðan sprangar heimavarnaliðið um hálendið í von um að verða varir við einhver ummerki Bjössa.

Bjössi er fullkomlega meðvitaður um þá hættu sem stafar af þessum mörgu tvífætlingum og heldur sig til hlés. 

Ferðamennirnir sem töldu sig hafa séð spor eftir Bjössa voru sýnd spor hesta, gæsa og þúfutittlinga en þeir standa enn við framburð sinn og segjast þekkja þessi spor frá heimalandi sínu. 

Kemst heimavarnaliðið á sporið?

Er Bjössi særður eða veikur þarna uppi á reiginfjöllum eða er e.t.v. bara enginn Hvítabjörn þarna á ferð?

Verður leitinni hætt?

Allt getur gerst!  Alltaf eykst spennan!  Backpacker 

 

 


mbl.is Leit að hálendisbirni heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er orðið svo hrikalega spennó

Ætli draumur Sævars bónda á Hrauni sé að koma fram?

Heitir annar ferðamaðurinn Karen?  Það nafn finnst örugglega í Pólskum mannanöfnum.

Maður getur bara ekki sofið dúr í nótt, spenningurinn magnast með hverri klukkustundinni.

Ætli sé búið að láta Dani vita?  Ætli þeir sendi sama gæjann?  Varla,  var hann ekki svo huglaus að hann þorði ekki út úr bílnum þegar hann kom á vettvang.

Kalla bara út heimavarnaliðið strax!  Ekkert hangs núna, Björninn gengur laus og Birnir eru stórhættulegir, já alla vega sumir hverjir.  

  Hvar leynist ófögnuðurinn?  Spor finnast!  Hver fangar Bjössa?  Kemur Karen til hjálpar?

Úff þetta er hið dularfyllsta mál.  Framhald í næsta þætti.  Sherlock Polar Bear 


mbl.is Þriðji björninn á Hveravöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul ísvél og gullhringar á fingur

 Love Forever Fyrir nákvæmlega 34 árum vaknaði ungur maður við hlið kærustu sinnar sem enn svaf vært.  Hann fór varlega fram úr rúminu, klæddi sig hljóðlega, smellti koss á kinn sinnar elskulegu og hvarf út um útidyrnar.  Settist inn í gamlan gulan Volkswagen og keyrði sem leið lá úr Breiðholtinu og niður í bæ. 

Nú skildi fjárfesta í ísvél, ekki nýrri enda fjárhagurinn ekki bæsinn en kæmi sér vel á veitingastaðnum þar sem 17. júni var á næsta leiti og uppgripsdagur fyrir veitingamenn.

Upp í leiguíbúðinni í Dvergabakkanum vaknaði unnustan og brosti framan í heiminn.  Í dag var dagurinn þeirra.  15. júní 1974.  Þetta var mildur sumardagur, smá skýjað en það gerði ekkert til bara að hann færi nú ekki að rigna.  Unga konan klæddi sig og og gjóaði augunum á kjólinn sem hékk á herðatré á fataskápnum.  Fallegur síður kjóll, ekki hvítur heldur í mörgum fallegum pastellitum vegna þess að kona var ekki einsömul og það þótti ekki við hæfi að ganga í það heilaga þó aðeins þrír mánuðir væru liðnir á meðgönguna.  En áður en hún ætlaði að klæðast þessum kjól var haldið til hárgreiðsludömu í næsta nágrenni.  Í þá daga var ekki mikið um að farið væri í handsnyrtingu, ljósabekki eða förðun, nei bara það allra nauðsynlegasta var látið duga.

Um tvö leitið byrtist brúðguminn aftur heima með brúðarvöndinn sem hann hafði náð í á heimleiðinni. Var þá búinn að tengja ísvélina og íshræran komin á sinn stað svo nú færu seðlarnir að halast inn.  Brúðurin var komin í kjólinn og var að maskara á sér augun og setja punktinn yfir Iið. 

Man nú ekki alveg um hvað var rætt en örugglega var það ísvélin góða sem var enn hápunktur dagsins. Brúðguminn skveraði sig í sturtu og klæddi sig í smókinginn og um hálf þrjúleitið héldu brúðhjónin saman til kirkjunnar.  Man eftir að mér var oft litið til himins á leiðinni var svolítið hrædd um að hann færi að rigna og það mátti bara alls ekki.

Þegar við stigum út úr bílnum við litlu Árbæjarkirkjuna tóku á móti okkur fámenn fjölskylda og presturinn Sr. Halldór Gröndal.  Það hvessti skyndilega svo brúðurin var í vandræðum með að halda þunnum siffonkjólnum í skorðum.  En í miðri athöfn fór sólin að skína og geislarnir þrengdu sér inn um litla kirkjugluggana.   

Það er oft sagt að hjónabandið þróist eins og veðurfar brúðkaupsdagsins.  Sumir vilja halda því fram að þetta séu eintómar kerlingabækur en ef ég á að vera hreinskilin þá held ég að okkar hjónaband hafi mótast dálítið eins og veðrið þennan dag.  Það hefur verið ansi vindasamt á stundum en nú í dag skín bara sólin.


Það liggur eitthvað í loftinu

Ef maður tryði því að dagurinn í dag væri bundinn álögum þá færi maður nú ekki langt frá húsi.  Satt best að segja er ég svona hálft í hvoru að spá í að vera bara inni en það hefur ekkert með almanakið að gera heldur er ég bara hræðilega löt. Held það sé einhver lægð hér innra svo þá er ekki að búast við miklum afrekum á þessu heimili.

Enda hvernig á annað að vera þegar hitastigið fellur niður um 10 til 15° og austanvindar blása hressilega.  Já ég veit þetta er auðvitað eintómur aumingjaskapur en hér sit ég og er búin að draga fram lopapeysu og er vafin inn í 66°norður teppi og er skítkalt. Horfi hér út þar sem þungbúin ský hrannast upp eins og óvættir.  Þau gera aðför að mér ég meina það!  

OK, best að hætta að bulla þetta og koma sér út út húsi, en ég fer ekki úr lopanum, það er sko alveg á hreinu!  Svo kemur gollan líka til með að hjálpa til ef ég skildi nú hendast á hausinn, dregur alla vega úr fallinu og áverkum.

Ætli hundurinn viti að það sé föstudagurinn 13.?  Hann hefur heldur ekki farið út fyrir dyr í dag!


mbl.is Óhappadegi fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjörlega á röngum forsendum

Skondinn misskilningur kom upp hjá okkur hjónum um daginn þegar við heimsóttum hafnarborgina Hamborg.  Snemma morguns héldum við á vit ævintýra og byrjuðum á því að fara í skoðunarferð.   Leiðsögumaður bablaði á þýsku í hátalara sem lítið sem ekkert heyrðist úr nema skruðningar en ef eitthvað komst til skila þá var það á óskiljanlegri mállýsku, svo það litla sem við heyrðum fór eiginlega inn um annað og út um hitt.

Þegar bíllinn kom niður að höfninni ákváðum við að fara úr bílnum og ganga úr okkur allt gjammið sem eiginlega var farið að fara í okkar fínu taugar, anda að okkur fersku sjávarloftinu og láta goluna leika við vanga. 

Þar sem minn elskulegi hafði komið oftsinnis til Hamborgar á sínum uppvaxtarárum með fraktskipum barst talið að öllum þessum flota sem lá í höfninni.  Fjöldinn allur af túristafleyjum sigldu fram og til baka í misjafnlegu ásigkomulagi.  Ég gjóa augunum að mínum og sé eitthvað sem glampar svo ég spyr:  Eigum við að fara í siglingu með einhverjum bátnum um höfnina? 

 Hann svarar: Jú við gætum svo sem alveg gert það. 

Síðan koma smá vangaveltur um hvaða bátur yrði fyrir valinu.  Mér leist best á gamlan fljótabát sem ég í fáfræði minni hélt að væri orginal af Missisippy og við kaupum miða og stökkvum um borð rétt áður en landgangurinn var leystur frá.  Við komum okkur fyrir sólarmegin, (ég er svo lítill sjómaður að ég veit aldrei hvað er stjórnborði eða bakborði) og báturinn veltir letilega frá bryggju.

Voða kósí  allt saman.  Eftir svona hálftíma siglingu er mér farið að leiðast þófið.  Andskotinn við sáum varla neitt annað en gámaskip og aftur gámaskip og krana sem tjónuðu þarna eins og risahrammar yfir hræðilegum skrokkum skipanna.  Allt í einu rek ég augun í gám  og æpi upp:  Nei sjáðu SAMSKIP!!!!  Vá.....  einn einmanna gámur innan um öll hin stórveldin og hvað þetta gladdi mig, ég sá allt í einu eitthvað sem ég kannaðist við.  Fyrir mér var ferðinni bjargað, og ég hélt enn í sakleysi mínu að minn væri alsæll þarna innan um gáma og tröllaskip.

Loksins, loksins komum við í land og ég var fyrst frá borði, sver það.  Spyr síðan alveg bláeyg og ljóshærð:  Jæja hvernig fannst þér?

Svarað svona með algjöru áhugaleysi:  Veit ekki, fannst þér gaman?

Ég: Nei það veit hamingjan, næst getur þú farið einn.

Hann: Nú ég hélt að þig langaði svo mikið til að fara í svona siglingu?

Ég:  Ha ertu ekki að grínast, ég var að gera þetta fyrir þig!

Síðan tókumst við í hendur og leiddumst hlægjandi eftir bryggjunni. 

Stundum getur misskilningur orðið til þess að tengja okkur betur saman, og er það vel.  Love Boat 

 


Stundum er maður bara alveg ofan úr afdölum.

Ekki má maður skreppa bæjarleið eina viku þá er eins og gróðurinn taki kipp á meðan svo nú eru allar trjáa, rósa og runnaklippur komnar í hleðslu þannig að ég geti eytt helginni í að snyrta og fegra hér úti. Ekki voru það nú einungis garðplönturnar sem tóku kipp heldur sá ég í morgun að mitt undurfagra hár hafði tekið miklum stakkaskiptum og ég leit út eins og reytt hæna.  Sjálfsagt hefur blessað sjávarloftið haft þessi áhrif svo nú þarf að gera eitthvað róttækt í þeim málum líka.

Annars var ferðin okkar bara hin huggulegasta.  Tekið var á móti okkur sem höfðingjum af General Mills ( Häagen-Dazs) og okkur komið fyrir á Hotel East sem er eitt það mest trend hótel sem við höfum gist á, staðsett í St. Pauli svo auðvitað var kíkt á Reeperbahn eitt kvöldið.  Óskaplega ömurlegt að fylgjast með næturlífinu þar og rusli sem þakti alla götuna hvar sem litið var.  Minn elskulegi fékk létt sjokk og kallar hann nú ekki allt ömmu sína en hann fræddi mig á því að mikla breytingar hefðu orðið þarna í áranna rás og allar til hins verra.  

Ég ætla aðeins að víkja að hótelinu sem við bjuggum á.  Við fengum svokallaði mini suite og vorum að sjálfsögðu voða lukkuleg með það þar sem minn þolir illa þrengsli í hótelherbergjum.  Rúmið var auðvitað king size og var staðsett út á miðju gólfi eins og einhver hefði ekki haft kraft til þess að koma því upp að vegg. 

 Í enda herbergisins var tvöfalt baðkar með nuddi að sjálfsögðu þar fyrir framan var komið fyrir löngu borði og tók það mig dálítinn tíma að fatta að þarna var vaskurinn staðsettur en hann leit út eins og risa kuðungur úr stáli. Ekkert skilrúm bara svona plantað þarna á miðju gólfi.  Ég get svarið fyrir það að mér fannst ég alltaf vera að afgreiða á bar þegar ég stóð þarna og burstaði tennurnar. Datt meir að segja einu sinnu út úr mér:  Hvað má bjóða þér að drekka!

Að sjálfsögðu var allt stýrt með fjarstýringu svo það lá við að ég hringdi í Helga í Lumex til að fá upplýsingar um hvernig ég gæti dregið teppið af rúminu. En það fór ljómandi vel um okkur þessa daga og við skemmtum okkur konunglega enda hvernig var annað hægt þegar gestgjafarnir eru slíkir höfðingjar. 

Næst ætla ég samt að vera búin að afla mér þekkingar á svona smávægilegum hlutum eins og fjarstýrðum gardínum og frussandi vatni í kuðungavaski sem sullaðist út um allt borð þegar maður kom nálægt en ekki vera eins og einhver álfur úr afdölum.  It's All Good 

   

   


Ætti ég að þora?

Ég nenni nú ekki alltaf að fylgja mínum elskulega á hans ferðalögum en vegna eindregnar óskar, og yfirlýsingar hans um ágæti minnar nærveru og hvað ég er skemmtilegur ferðafélagi, ætla ég að láta það eftir honum í þetta sinn. 

Langar bílferðir með mínum eru nú ekki það sem ég vildi kjósa sem dægrastyttingu.  Hann er einn af þeim sem er kominn á leiðarenda löngu áður en ferðin er hafin.  Svona aðeins á undan sjálfum sér.  Þ.a.l. sér maður nú asskotakornið lítið af fegurð fjalla og dala, þar sem brunað er á hraðbrautinni og varla að maður fái pissupásu. 

 Viðkvæðið er oft:  Er ekki bara allt í lagi að stoppa næst?  50 km í næstu resteríu og ég í spreng. 

Ég alltaf svo samvinnuþýð eða þannig:  Ha jú, jú ekkert mál. 

Ferðinni er sem sagt heitið til Hamborgar þar sem minn ætlar að mæta á þriggja daga fund.  Kemur síðan bara í ljós hvað ég dunda mér við á meðan.  Hef nú ekki komið til Hamborgar í mörg ár svo þetta getur orðið spennandi reisa, kannski ætti ég að líta á portkonurnar í Herbertstrasse (heitir hún ekki það fræga gatan) og sjá hvort þær hreyta í mig ónotum eins og seinast þegar við fórum þar um, en þá var ég nú í fylgd með mínum svo ekki skrítið að þær hræktu að mér, fávísri konunni með myndalega manninum. Wink  Spurning um hvort ég þori að taka áhættuna.

Svo nú er að henda ofan í töskur og bara drífa sig á vit ævintýra næstu daga. It's Friday 

 

 

  


Lítið væri gaman hér í henni velsu ef enginn væri bardaginn

Jæja þar kom að því að frekar leiðinlegar umræður spruttu upp á blogginu mínu í gær.  Ég var eiginlega alls ekki viðbúin þessu og hafði dálítið gaman að í fyrstu, en fór að leiðast þófið þegar líða tók á daginn.  En þegar maður tekur sterkt til orða sem ég og gerði, þá má auðvitað búast við því að ekki séu allir sammála og myndast getur misskilningur.  Þannig er það bara í henni veslu. 

En gott fólk nú er runninn upp nýr dagur með nýjum verkefnum og við skulum bjóða hann velkominn með öllu því sem honum tilheyrir.

Í gærdag skruppum við aðeins til litlu fjölskyldunnar í Prag til að knúsa þau aðeins áður en þau halda til Íslands.  Við ætlum líka að leggja land undir fót á morgun en þau í næstu viku.  Litla fjölskyldan frá Laufási/Grenivík var líka að fara heim í dag svo allir voru í svona knússtuði. 

Eigið góðan og bjartan dag og elskið hvort annað.   Kisses 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband