Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jæja strákar!

Þetta er máltæki sem við hér notum aðeins á milli vina og nú bíð ég eftir því að heyra Helga vin minn Gíslason skúlptúrista með meiru koma hingað askvaðandi og skella þessu fram á sinn einstæða máta með tilheyrandi hlátrasköllum. 

 Helgi er hér staddur í hundrað turna borginni til þess að leita uppi steypukalla fyrir málmverkin sín og síðan auðvitað til að heimsækja okkur.  Minn elskulegi er búinn að dandalast með hann hér um sveitir undanfarna daga svo ég hef ekkert séð minn kall. Það verður örugglega slegið á létta strengi hér á eftir.Grin  Meira seinna.Wink 


Að fara sínar eigin leiðir þarf ekki að vera svo slæmt

Mikið dáist ég að fólki sem rífur sig uppúr rúmi klukkan hálf sex til þess að mæta í leikfimi.  Dóttir mín er ein af þessum ofurhetjum.  Ég hef nú varla farið lengra en í póstkassann síðan um áramót enda orðin ansi grámygluleg ásýndar.Sleeping

 En það segir mér engin að æða í heilsurækt bara af því að það sé ,,inn" að mæta fílefldur fyrsta í nýári og sprikla og teygja með fjöldanum, þjást síðan af harðsperrum í margar vikur og bölsótast útí þjálfarann sem er gjörsamlega að drepa allan minn lífsþrótt.

Nú eru fjölmiðlar uppfullir af þessu heilsukjaftæði og auðvitað les maður allar þessar greinar og hugsar með sér ,,Ég ætti nú að fara að hreifa mig og vera með í heilsuátaki þjóðarinnar".  Ég bara nenni því ekki núna og minn tími kemur bara með hækkandi sól eins og alltaf.

Svo pirrar það mig rosalega þegar ég les endalausar klausur um að éta þetta margar appelsínur og háma í mig eitthvert grasfæði en hlakkaði aðeins í mér þar sem ég las um daginn grein þar sem British Medical Journal upplýsti lesendur um að 8 lítrar af vatni á dag gerði engum gagn.  Jamm, ég hef alltaf sagt að vatn væri til þess að þvo sér uppúr, algjör óþarfi að vera að þamba þetta í tíma og ótíma. Þoli ekki fólk sem gengur um götur með vatnsflöskuna eins og vörumerki heilsusamlegs lífernis.  Fusssss! 

En öllu gamni fylgir smá alvara og þar sem ég sit hér og þamba lútsterkt kaffi með mína sígó er ég svona hálft í hvoru að hugsa mér að fá mér göngutúr þó ekki sé lengra en í póstkassann.  Það eru alveg svona 100 metrar. Wink Góð byrjun á heilsuátaki ársins.  Kannski ætti ég að taka vatnflöskuna með?  Woundering

 

 


Fagurt er rökkrið

Nú þegar húmar að kvöldi fara álfar og annað huldufólk að huga að búflutningum og gott ef ekki heyrist hér úti fyrir klingja í sleðabjöllum og reiðtygjum þessa góða fólks. Lítil von er nú á því að hér verði stjörnubjört nótt og tunglskin og ekki séns að norðurljósin dansi hér um háloftin í miðri Evrópu. 

Mikið hvað þjóðtrúin fylgir manni hvert á land sem er.  Hér að Stjörnusteini höfum við engan álfahólinn eða álagastein á landareigninni en klettarnir hér í grennd tala sínu máli og engin spurning að þar fyrirfinnst undurfrítt fólk í glitklæðum með kórónur á höfði og veldissprota í hönd.

Mér hefur alltaf fundist Þrettándinn dulúðlegur og held alltaf dálítið uppá hann fremur öðrum dögum dagatalsins. Ef til vill af því að þá finnst mér nýja árið endanlega gengið í garð. Ég reyni að brenna út öllum kertum frá jólum og áramótum sem fyrirfinnast í húsinu og læt ljósin loga þar til nýr dagur rís og geri enga undantekningu á því í kvöld og ekki veitir nú af að lýsa blessuðu fólkinu veginn til nýrra heimkynna þar sem myrkrið kemur til með að verða ansi svart í nótt þar sem hvorki verður tungl- eða stjörnubjört Þrettándanótt.     

 

     


Tapað en ekki fundið!

Þar sem ég stóð á haus ofaní plastpoka í gær í leit að hring og armbandi sem ég tapaði á nýársnótt vissi ég ekki um hinn heilaga Antoníus sem er víst hinn vænsti dýrlingur og hjálpar auðkýfingum svo og almúganum að finna horfin auðæfi. Wink  Ég hef nú aldrei verið mjög trúuð á áheit svo ég held að ég hefði nú ekki farið að taka upp á því að biðja þann heilaga um að ómaka sig fyrir svona lítilræði enda hefur sá góði maður örugglega nóg á sinni könnu og ef satt skal segja var þessi leit ekkert geðsleg Tounge

Ég var svo óheppin þar sem við vorum að gleðjast með vinum okkar um áramótin á Rest. Reykjavík að tapa bæði forláta hring og armbandi.  Þetta er auðvitað með ólíkindum tvennt á sama klukkutímanum.  Minn elskulegi bað um að allt rusl væri sett í stóra plastpoka eftir lokun og kom með þetta heim til þess fara í gegnum. Ég hafði skreytt óheyrilega mikið fyrir þessi áramót svo þið getið rétt ímyndað ykkur hverskonar óþverri kom úr pokaskjattanum. Frekar óþrifalegt verk og ég var alveg viss að þetta bæri engan árangur sem líka kom á daginn.  

Svo voru þetta jú bara dauðir hlutir, vona bara að einhver hafi notið góðs af og skarti nú þessu einhverstaðar í heiminum.  En ef Antoníus er þarna einhvers staðar úti þá væri nú ekki verra að finna þetta á náttborðinu í morgunsárið. Halo  


Þegar vindur gnauðaði úti og kuldinn herjaði á merg og bein..

..sat ég inni við arineld og las Harðskafa, dálítið kuldalegt heiti á bók og átti vel við aðstæður hér úti fyrir.  Bókin var svo sem ekki slæm og ekki góð.  Arnaldur hefur oft sent frá sér betri bækur, verð ég nú að segja.  Dálítið fannst mér hún langdregin á köflum svo og að ég gat mér fljótlega til um endinn og fannst mér það miður. Sakamálasögur eiga að koma manni að óvörum annars er ekkert fútt í þeim. 

Nú er ég að byrja á bókinni hans Þráins, Englar dauðans.  Finnst hún lofa góðu en segi ekkert fyrr en ég hef lokið við bókina. 


Á nýju ári 2008

Gleðilegt nýtt ár!  Búin að keyra áramótaskaupið hehemm, varð dálítið ,,Lost" yfir því.  Ef til vill ekki nógu vel inn í þjóðarsálinni svo ekki skal dæma hart. Tóm smákökubox, ekkert nema heilsufæði í ísskápnum og fullt af góðum fyrirheitum fylgja okkur nú inn í nýtt og farsælt ár.

Nenni ekki að fylgjast með völvuspámennsku læt bara mína einkaspá reyna að rætast eins vel og hægt er.  Hér eru jólakortin enn að berast í póstkassann frá vinum og ættingjum.  Betra sent en aldrei og takk fyrir að muna eftir okkur útlögunum. 

Lagaði aðeins myndina af mér svo fólk getur nú séð aðeins betur framan í þá ,,gömlu"  Segi nú bara eins og Halla vinkona orðaði það í jólakveðjunni: ,,Einu sinni vorum við bæði ungar og fallegar en nú erum við bara fallegar"  Gott að húmorinn í lagi!


Áramótakveðja héðan frá Stjörnusteini

..GAMLÁRSKVÖLD er sú stund sem minnir okkur best á vanmátt sjálfsins í tímanum.  Þannig kemst   Búi Árland að orði í Atómstöðinni.  Dulítið sem vert er að hugleiða á tímamótum.

Öll skiljum við eftir eitthvað af okkar sjálfi í formi minninga þegar gamla árið kveður  og vonandi horfa flestir björtum augum til komandi árs 2008.  Að lifa fyrir líðandi stund og getað þakkað fyrir hvern dag, hvort sem okkur finnst hann hafa verið okkur gjöfull eða erfiður er mikil kúnst en ætti að takast ef við leggjum okkur fram.  Grasið er heldur ekki alltaf grænna hinum megin girðingar.

Við hér að Stjörnusteini óskum ykkur öllum farsældar á nýju ári hvar sem þið eruð stödd í heiminum.  Þökkum vináttu ykkar á lífsleiðinni og sendum ykkur ljós á nýju ári 2008.       


Áramótin við Moldá

Að stíga á stokk, ekki einu sinni eldspítnastokk og strengja þess heit að gera eða ekki gera hitt eða þetta á nýju ári hefur aldrei hvarflað að mér. Básúna út um borg og bæ sitt áramótaheit og verða síðan að koma með skottið á milli lappanna og biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið við gefið loforð.  Úps, nei askotakornið, held bara ekki.

En það eru örugglega margir sem eiga eftir að gera einhver áramótaheit nú um þessi áramót og ég segi bara good luck you guys!Cool

 Á miðnætti verður sjálfsagt sungið Hin Gömlu kynni gleymast ei, í stað Nú árið er liðið þar sem við höldum uppá nýja árið með góðum erlendum vinum okkar hér í Prag. Átján vinir okkar ætla að koma saman á Reykjavík og fagna með okkur nýju ári.  Hér er það siður að hafa einsetinn veitingastaðinn okkar þetta eina kvöld ársins þannig að gestir hristast vel saman undir lifandi tónlist og kampavíni. 

 Pragbúar eru ansi skotglaðir og er mikil rakettusýning á vegum borgarinnar á miðri Moldá.  Dálítið áhættusamt að vera þarna úti þar sem Tékkar eru ansi skotglaðir. 

Við ég og minn elskulegi förum nú að tygja okkur til og renna í bæinn með fullan bíl af áramótaskrauti, höttum ýlum, stjörnuljósum og borðbombum til að gera veitingastaðinn okkar eins áramótalegan og hægt er.  Held meira að segja að það sé fullbókað fyrir kvöldið.  Góða skemmtun hvar sem þið eruð í heiminum og farið varlega. Wizard 

 

 

  


Nú reynir á athyglina..

..sagði minn elskulegi þar sem ég var að rúlla upp laugardagsmogganum. ,,Ha, hvað meinarðu?" Ekkert svar en var að vappa svona fram og til baka yfir öxlina á mér.  Ég staldraði við mjög svo feminiska grein um hátíðarförðun kvenna.  Ekki veitir nú af að kynna sér nýungar í sparsli og hyljurum þegar maður er kominn á minn aldur.  Hehemm. Wink

Með greininni fylgdu tvær myndir, önnur heljarinnar stór af konu á mínum aldri svo og annarri barnungri.  Eitthvað fannst mér kunnuglegt við eldri skvísuna og varð svona ,tvíbaka", já eða ,,þríbaka" hjá mér. En þar sem greinin vakti næstum óskipta athygli mína var ég svo sem ekkert að pæla í myndunum.  Þá kemur minn elskulegi yfir öxlina á mér, (þoli ekki þegar lesið er yfir öxlina) og segir ,,kannastu ekki við þessa konu"  ,,Ha, hvaða konu" segi ég og rúlla blaðsíðunni upp.  ,,Nei, ég þekki þessa konu ekki"  hann: ,, er ekki allt í lagi með þig, skoðaðu myndina betur, sérðu ekki munnsvipinn"  ég: ,, nei, á ég að gera það?"  Ég er reyndar alveg rosalega ómannglögg en þessa konu átti ég víst að þekkja vel.  Minn elskulegi gefst upp og segir: ,, rúllaðu niður og sjáðu hver er modelið " 

Ég fékk vægt sjokk,  Frown haldið ekki að þessi flotta skvísa hafi verið besta vinkona mín alla tíð síðan við vorum í níu ára bekk.  Hálfsíðumynd af þessari fallegu vinkonu minni og ég þekkti hana ekki!  Mér varð að orði þegar ég var búin að átta mig á þessu:,, Andskoti ég held ég verði að fara á stúfana og kaupa mér hyljara og reyna að sparsla aðeins upp í hrukkufjandana.  Þetta er alveg ótrúlega flott eða heyrðu heldur þú að það sé búið að redúsera myndina, þeir eru nú rosalega góðir í því þessir ljósmyndarar?" Whistling Svar frá mínum elskulega:,, enga öfund, hún er svaka flott á myndinni"

Nei í alvöru Ásta mín þú er rosalega flott og hefur alltaf verið.  Fæ vonandi leiðbeiningar hjá þér næst þegar ég kem í heimsóknHeart Kissing  Ekki veitir af!!!!!!!!!

 

 


Bíbí og konfekt við arineld

Síðastliðna nótt kláraði ég bókina hennar Vigdísar Grímsdóttur um æviferil Bíbíar Ólafsdóttur. Það tók dálítið á að lesa um viðburðaríka ævi þessarar konu og Vigdís kemur frásögn hennar til skila á einlægan og áhrifaríkan hátt.

Ekki veit ég hvort það voru áhrif við lestur bókarinnar eða bara hrein græðgi sem gerði það að verkum að ég úðaði í mig konfekti á meðan ég gleypti í mig síðu eftir síðu. Ég er ekki mikið fyrir sælgæti en ég bara gat ekki hætt að stinga upp í mig mola eftir mola.  Ef til vill var ég að bæla frá mér óæskilegum hugsunum sem leituð á mig öðru hvoru eða einhver var þarna úti sem langaði svo mikið í súkkulaði.  Hef ekki hugmynd en þetta var óneitanlega dálítið einkennileg hegðun af minni hálfu.

Vigdís hafðu þökk fyrir að koma þessu á blað, hefur örugglega ekki verið átakalaust.    

    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband