Færsluflokkur: Vefurinn
10.10.2008 | 10:27
Dallas leiðin - Þetta var bara draumur!
Þetta sagði Dr. Gunni í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun: Alveg eins og í Dallas forðum þegar fólk horfði á marga þætti og síðan kom fram að JR var bara að dreyma. Eins gæti þetta gerst hér, bara vakna í fyrramálið og Steingrímur Hermannsson væri enn forsætisráðherra og allt í gúddí.
Á þessu heimili er það síðasta sem maður gerir áður en lagst er á eyrað er að hlusta á fréttir að heiman og það fyrsta sem gert er er að opna fyrir fréttir að heiman. Síðan taka við allar þær TV stöðvar sem við höfum hér og núna áðan var ég að horfa á Sky fréttastöðina og hlustaði með öðru eyranu en hugsaði um leið: Nú er hvít jörð heima. Það var nú það sem vakti áhuga minn. Segi ekki meir.
Í gær datt minn elskulegi inn á bloggið hans Jónasar Kristjánssonar og við skellihlógum hér yfir skondnum færslum. Mikið var gott að hlæja og í dag bendir Jónas einmitt á að sumir bloggarar geti bjargað sálarheill margra þ.á.m. nefnir hann Dr. Gunna.
Ég er alveg harðákveðin í því að framvegis verða þessi blogg lesin áður en ég les um að allt sé að fara til helvítis. Þá get ég e.t.v. séð fréttirnar í öðru ljósi og hugarástandið ekki í eins miklu svartnætti og hefur verið.
Þetta ætla ég að gera fyrir mína sálarheill.
Hugsið málið.
Farin að tína við í arininn fyrir kvöldið til að gera smá kósi fyrir okkur hjónin.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.10.2008 | 17:04
Kemur okkur alls ekki á óvart.
Í mörg ár erum við búin að vara fólk við að skipta peningum í þessum svo kölluðu ExChange búllum hér í Prag. Þessir skiptibankar ef kalla má svo. hafa aldrei verið neitt betri en ruslaralýðurinn á götunni sem bauðst til að skipta erlendri mynt í tékkapeninga en létu oft á tíðum saklausa túrista fá Pólsk slotsy í staðin, algjörlega verðlaus.
Stundum sá maður þessa þjófa fyrir utan skiptibúllurnar reyna að lokka fólk að og er ég næstum 100& viss um að þessi lýður var á vegum eiganda skiptibúllanna.
Sem betur fer hlustuðu Íslendingar, í flestum tilfellum á okkur, þegar við vöruðum þá við en auðvitað voru sumir sem nenntu ekki að leita að hraðbanka og fannst auðveldara að randa inn í næstu okursjoppu.
Oftar en einu sinni lamdi ræðismaðurinn í borðið hjá skiptibúllunni út á horni hjá okkur og krafðist þess að rétt gengi væri gefið upp. Einu sinni hótaði hann þeim lögreglu og mig minnir að þá hafi gengið verið leiðrétt á staðnum en bara fyrir þann kúnnann, hinir sem á eftir komu voru teknir áfram í nefið.
Þessi frétt er gleðifrétt fyrir okkur sem búum hér því borgin hefur haft á sér óorð vegna margskonar spillingar og þetta var ein af þeim.
Fyrr á árinu tók Borgarstjórinn í Prag 1 sig til og dulbjóst sem ferðamaður og ferðaðist með leigubílum borgarinnar til að sannreyna alla þá spillingu sem þar viðhófst. Hann hafði með sér blaðamann og fréttin var það kræsileg að leigubílar fóru að hegða sér eftir lögum og reglum.
NB takið bara leigubíla sem merktir eru AAA og eru auðþekkjanlegir af sínum heiðgula lit þið sem eruð að koma hingað á næstunni. Þeir eru OK.
Vil ég bara óska lögreglunni í Prag 1 til hamingju með rassíuna og haldið bara áfram stákar því af nógu er að taka.
Skiptibanki í Prag flæktur í glæpastarfsemi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 19:22
In memory - Restaurant Reykjavík - Prag
Adieu, adieu. Þið sem ætlið að leggja leið ykkar í Karlova götuna hér í Prag og heimsækja okkur á Restaurant Reykjavík komið nú að lokuðum dyrum. Að gefnu tilefni langar okkur til að þakka þeim rúmlega 3 milljónum manna sem heimsótt hafa staðinn okkar undanfarin sautján ár.
Til þess að valda engum misskilning þá viljum við líka taka fram að þessi ákvörðun var ekki tekin vegna einhvers kreppuástands í heiminum heldur eru samningar búnir að standa yfir sl. átta mánuði og það bara vildi þannig til að skrifað var undir samninga 30. sept. og við lokuðum fyrirtækinu 1. október.
Þegar horft er til baka þá minnumst við þegar við gengum Liliova 1991 og vorum að ,,njósna" um staðinn sem þá var rekinn á vegum ríkisins. Þar sem við gengum fram hjá færallt í einu minn elskulegi bunu yfir nýju jakkafötin. Við litum upp og sáum mann standa uppi á annarri hæð út á svölum með allt úti og hafði auðsjáanlega orðið mál. Okkur brá auðvitað en um leið litum við á hvort annað og sögðum næstum samtímis: Let´s do it! Þar með var það ákveðið að kaupa staðinn og þurfti ekki nema eina litla pissusprænu til að sannfæra okkur um að þetta yrði okkur í hag.
Við gerðum okkur strax grein fyrir því að staðsetningin var prime location en við yrðum að moka út áður en við gætum opnað nýjan stað eftir okkar höfði. Hafist var strax handa og á mánuði var búið að kaupa innréttingar frá Hollandi, græjur í eldhús, ráða starfsfólk og þann 29. nóvember 1991 opnuðum við Restaurant Reykjavík.
Það var engin lognmolla sem ríkti frekar en fyrri daginn og viku fyrir opnun vorum við tilbúin en ekki með öll leyfi þannig að við byrjuðum á því að bjóða vinum og ýmsum fyrirtækjum í dinner sem var bráðsnjallt vegna þess að þá fékk staffið að æfa sig í þjónustu og matargerðarlist sem engin í eldhúsinu hafði kynnst áður. Við komum með nýjungar og vorum sektuð í tíma og ótíma fyrir að breyta hefðbundnum matseðli frá kommatímanum yfir í Evrópskan standard.
Matseðlar voru þá allir eins hvort sem það hét Hotel Intecontinental (sem þótti flottast í Prag) eða venjulegur bjórpöbb. Það hét Skubina I - II eða III. og það voru landslög að þessu mætti ekki breyta. Við breyttum öllu og þess vegna vorum sektuð í tíma og ótíma sem við kipptum okkur ekkert upp við enda margt af því sem við settum á matseðilinn okkar er orðinn hálfgerður þjóðarréttur í dag.
Man þegar við vorum að ráða starfsfólk og spurðum hvort þau töluðu ensku. Svarið var yfirleitt Yes og við héldum þá áfram að spyrja en fengum engin svör vegna þess að þau skildu ekkert í því máli. Þegar við sögðum síðan að því miður gætum við ekki ráðið viðkomandi kom andsvar: En ég kann matseðilinn.
Kokkarnir okkar voru rosalegur höfuðverkur. Steikur að þeirra mati áttu að vera yfirsteiktar, annað var dýrafóður! Þeir helltu olíu á gasgrillið og síðan vatni svo lá við að gestirnir köfnuðu í salnum fyrstu kvöldin. Þegar við komum með örbylgjuofninn þá gladdist allur mannskapurinn, þeir héldu að þetta væri sjónvarp! Örbylgjuofn höfðu þeir aldrei litið augum. Ojá þetta var ekkert auðvelt í byrjun en við höfðum gott fólk sem vildi læra og sumir voru hjá okkur öll þessi sautján ár.
Já það er margs að minnast og Reykjavík varð strax einn af þekktustu stöðum Prag. Man eftir því vorið eftir að við opnuðum kom ég gangandi að heiman og sá langa biðröð sem náði frá Reykjavík og langt inn í Karlova. Ég spurði einn sem stóð í röðinni eftir hverju fólkið væri að bíða og svarið var að komast inn á Reykjavík. Nú sagði ég, hvers vegna? Jú þetta var eini staðurinn í Prag sem borðandi væri á. Ég spurði síðan, hvað ert´u búinn að bíða hér lengi? Um 45 mínútur og býst ekki við að komast að fyrr en eftir hálf tíma, það er nefnilega ekki hægt að panta þarna borð. First come, fist served. Já er það sagði ég og gekk að veitingastaðnum mínum sem var þá strax orðinn þekktur.
Ég gæti haldið lengi áfram að segja ykkur sögur en ætla að láta þetta nægja að svo stöddu. Það eiga örugglega eftir að spretta upp í minningunum skemmtileg atvik sem ég segi ykkur síðar frá.Það er dálítil blendin tilfinning sem er ríkjandi hér á þessu heimili. Eftirsjá og léttir eru held ég bestu orðin yfir það hvernig okkur líður í dag.
Við hjónin viljum þakka ykkur öllum sem heimsótt hafa Restaurant Reykjavík þessi sautján ár fyrir viðskiptin og nú tekur við nýr og vonandi spennandi kafli í okkar lífi hér í hundrað turna borginni okkar.
Ræðismannsskrifstofan verður áfram opin í Karlova 20 alla vega næstu mánuði.
Þökkum enn og aftur ykkar hlýhug kæru landar í okkar garð og lifið heil.
Heimasíðan okkar er enn lifandi www.reykjavik.cz
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
3.10.2008 | 12:24
Það var þá! Er sagan að fara að endurtaka sig?
Við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld munum vel eftir skömmtunarseðlunum. Þar sem maður stóð í biðröð niðr´í gamla Gúttó og hékk í pilsfaldi mömmu eða ömmu bíðandi eftir að röðin kæmi að manni.
Við munum líka eftir lyktinni fyrir jólin þar sem eplakassinn var vandlega falinn inn í kompu því ekki mátti snerta þessa munaðarvöru fyrr en á Aðfangadag. Sumir voru heppnir og fengu appelsínur líka en þá varð maður að hafa ,,góð sambönd" eins og það var kallað. Stundum slæddist skinkudós með og súkkulaði. Þá voru jólin fullkomin.
Vonandi koma þessir tímar aldrei aftur en þegar fólki er ráðlagt að fara að hamstra þá er útlitið ekki gott.
Ég tók eftir því þegar ég var heima um daginn að verslunarmenn voru svona hálfpartinn að afsaka vöruúrval og fékk ég oft að heyra eitthvað á þessa leið: Nei, því miður við erum að bíða eftir næstu sendingu, kemur í næstu viku. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að varan væri komin til landsins, það væru bara ekki til peningar til að leysa hana út.
Í einni af okkar betri verslunum í Reykjavík var mér sýnd flík sem ég vissi að hefði verið seld þarna síðasta vetur og stúlkan sýndi mér hana sem nýkomna haustvöru. Ég gerðist svo djörf að segja upphátt: Þetta er síðan í fyrra. Aumingja konan fór öll hjá sér og til að bjarga sér fyrir horn greip hún nýjan bækling sem hún sýndi mér af miklum áhuga og allt var þetta væntanlegt innan skamms.
Ég er ansi hrædd um að útsölur byrji snemma í ár.
Eins einkennilega og það hljómar er eins og ég sé komin langt, langt frá ykkur núna. Ég skynjaði það strax í gærkvöldi að ástandið heima skipti mig ekki svo miklu máli lengur og ég fékk hrikalegt samviskubit. Á meðan ég dvaldi á landinu tók ég fullan þátt í daglegu lífi landa minna og skammaðist og argaði ekkert minna en aðrir. Í morgun fletti ég blaði landsmanna og það eina sem kom upp í kolli mínum. Djöfull er þetta ömurlegt! Síðan hætti ég að hugsa um þetta ófremdarástand. Það var eins og það snerti mig ekki lengur.
Ein góð bloggvinkona mín sem býr í DK skrifaði um þetta sama tilfinningaleysi hjá sér í morgun. Held að okkur hafi liðið álíka illa. Erum við svona vondar manneskjur eða er þetta eðlileg reaksjón. Veit ekki!!
Þetta hrellir mig satt best að segja en mér þykir ósköp mikið vænt um ykkur öll og vil ykkur ekkert nema alls hins besta.
Er farin að skoða hug minn.
Verslunarmenn vænta vöruskorts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.9.2008 | 22:19
Myrkir dagar hér uppi á ,,Hamingjulandinu"
Eftir myrkan mánudag kom þungbúinn þriðjudagur. Sat best að segja er ekkert sérlega skemmtilegt að heimsækja ,,Hamingjulandið" á þessum erfiðu tímum. Maður ósjálfrátt fer inn í sömu hringiðuna og allir aðrir. Ef það hefði ekki verið fyrir skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu minni og vinum hefði ég verið farin heim fyrir löngu.
En nú fer að líða að því að ég haldi heim og ég veit ekki hvers ég á eftir að sakna héðan fyrir utan litlu fjölskyldunnar minnar.
. Jú verðlaginu sem aldrei hefur verið jafn hagstætt fyrir okkur ,,útlendingana" Ef til vill á ég líka eftir að sakna þess að láta vindinn og regnið lemja mig í bak og fyrir. Veit samt ekki alveg hvort sú verður raunin, ætli ég verði ekki fegin að geta setið úti á veröndinni minni í haustsólinni, held það bara.
Það er margt sem hefur drifið hér á daga mína og e.t.v. segi ég ykkur nokkrar skemmtilegar sögur eftir að ég er sest í hornið mitt í eldhúsinu mínu að Stjörnusteini með mína kaffikrús.
Er að fara heim á fimmtudaginn og hlakka til að knúsa minn elskulega en hann fór heim í síðustu viku vegna anna heima fyrir.
Farið vel með ykkur.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.9.2008 | 13:10
Í ljósi alls sem er.
Er farin að sjá heiminn í allt öðru ljósi og sumt af því sem ég sé hrellir mig en það er líka annað sem kemur skemmtilega á óvart og gleður augað.
Ég sagði ykkur um daginn að ég lærði alltaf eitt nýyrði þegar ég væri hér á landinu og í gær heyrði ég alveg splunkunýtt orð sem kom mér til að skella upp úr. Nú á maður að segja þegar maður ætlar að gera nákvæmlega ekki neitt, í dag ætla ég bara að Haarda.
Og það er það sem ég ætla að gera í dag, bara Haarda með dóttur minni og fjölskyldu.
Njótið helgarinnar hvar sem þið eruð stödd í heiminum og elskið hvort annað.
20.9.2008 | 01:15
Cavalleria Rusticana og Pagliacci.
Ef einhver á núna heiður skilið þá er það Stefán Baldursson Óperustjóri sem sýndi enn og aftur að hægt er að galdra fram meistaraverk í litlu Óperunni okkar og fá okkar færustu söngvara til að koma fram og gleðja okkur í skammdeginu.
Prúðbúnir frumsýningargestir fögnuðu listamönnunum vel í lokin og satt best að segja hélt ég á tímabili að gólf fjalirnar í Gamla Bíó myndu gefa sig. Held að þetta sé eitthvað sem óperugestir hafa fundið út, að í stað þess að klappa þar til lófarnir eru orðnir eldrauðir og aumir þá stappa gestir af öllu afli í gólfið svo dynur í gömlu fjölunum.
Það var ánægjulegt að fá tækifæri á að hlusta á Kristján Jóhannsson syngja Canio en það hefur hann sungið margoft út í hinum stóra heimi. Ekki fannst mér verra að fá að heyra í henni Sólrúnu Bragadóttur í hlutverki Neddu því ég hef ekki heyrt Sólu syngja í mörg, mörg ár. Langar að geta þess að Elín Ósk Óskarsdóttir var mjög flott í hlutverki Santuzza.
Þar sem ég er aðeins leikmanneskja þá ætla ég ekki að fara að skrifa kritik hér en vil samt láta koma hér fram að allir einsöngvararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekki gat ég heyrt annað en við ættum þarna fólk á heimsmælikvarða. Kórinn var mjög góður líka en pínu staður að mínu mati en sviði býður nú ekki upp á mikinn hreyfanleika.
Til hamingju með kvöldið litla Ópera!
Takk fyrir mig og mína.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.9.2008 | 10:31
Þetta er flugsjórinn ykkar sem talar.
Ég hef aldrei verið flughrædd en annað mál gegnir með bílhræðslu mína sem er oft gert grín að. Einhverra hluta vegna hefur þetta ágerst með aldrinum og núna áður en við héldum hingað heim upp á Hamingjulandið örlaði fyrir má kvíða fyrir fluginu. Ef til vill var það vegna þess að ég var svo mikið á fylgjast með veðurfregnum og las meira að segja pistlana hans Einar veðurfræðings í þaula.
Og ekki bætti úr skák að hann sagði að angi af Ike væri á leið til landsins og ætti að fara yfir landið í gærkvöldi og nótt á sama tíma og við áttum að lenda heima. Stormur í aðsigi! Þessi litli fiðringur í maganum magnaðist og var að hnút!
Við höfum alltaf verið mjög fastheldin og höfum valið að fljúga með sömu flugfélögunum en í gær breyttum við út af vananum og flugum frá Prag til Köben með Sterling í stað SAS eða Cz. Airlines. Þetta voru nú óþarfa áhyggjur. Bara allt í lagi að fljúga með þeim, dálítið þröngt en fyrir eins tíma flug er óþarfi að kvarta.
Eftir nokkra tíma bið í Köben var haldið heim með Icelandair.
Á meðan þeir voru að lóðsa vélina út á brautina kom þessi ljúfa rödd í hátalarann og sagði:
Góðir farþegar þetta er flugstjórinn ykkar sem talar. Ég heiti Linda Gunnarsdóttir.
Úps, mér var litið á minn elskulega hvernig ætli honum líki að hafa konu við stjórnvöldin? Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem við höfum lent í því að fljúga með konu í kokkpittinu sem bar alla ábyrgð á ferðinni yfir hafið.
Minn var bara voða rólegur og lét ekki á neinu bera. Sætt af honum.
Ferðin heim var bara þægileg og af og til kom þessi mjúka rödd sem útskýrði hvar við værum stödd og hvernig veðurhorfur væru heima. Sem gömul flugfreyja bjóst ég nú við smá dýfum og hristing þegar við nálguðumst landið en allt voru það óþarfa áhyggjur. Vélin varla haggaðist og Linda lenti vélinni eins og engill. Bara svona renndi sér niður á fósturjörðina með mjúkri lendingu, afskaplega kvenlega.
Það var ekki fyrr en slökkt hafði verið á hreyflunum að vélin fór að hristast enda brjálað veður þarna á rampinum.
Takk fyrir ferðina Linda og áhöfn FI 213.
Déskoti var veðrið brjálað í nótt.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.9.2008 | 21:16
Þá er Hamingjulandið í sjónmáli.
Hér fyrir framan mig liggur nettur bunki af A-4, nei þetta eru ekki hlutabréf, ekki séns að ég taki þannig áhættu í lífinu. Á maður ekki bara að segja sem betur fer! Þetta eru skal ég segja ykkur flugmiðar til Köben - Keflavík á morgun heitir úr prentaranum, alveg satt, nú á að heimsækja Hamingjulandið og knúsa fjölskyldumeðlimi og vini.
Við erum sem sagt á leiðinn heim í teggja ára afmælið hans Þóris Inga. Mikil tilhlökkun hér á bæ og getum ekki beðið eftir að dekra drenginn upp úr skónum, því eins og ég hef sagt ykkur áður þá hafa afi og amma í útlöndum sértakt leyfi til þess.
Við ætlum líka að fara um helgina að Geysi með góðum vinum og gista þar eina nótt. Annað er nú ekki mikið planað í þetta sinn en ég er nú alveg klár á því að þessar tvær vikur sem ég verð heima koma til með að verða ansi busy.
Búin að pakka næstum öllu og kominn ferðahugur í mína. Bara svo þið vitið það bloggvinkonur mínar í DK þá verð ég galvösk á Strikinu milli klukkan tvö og fjögur á morgun, ef þið verðið þarna á ferðinni.
Þannig að ef þið rekist á konu með Illum poka á þönum með svona brjálæðislegan búðarglampa í augum þá er það hún ég.
Annars kem ég inn þegar ég finn mér tíma og læt vita af mér.
Er farin að lakka á mér neglurnar, ekki séns að ég fari í flug með ólakkaðar neglur.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Einhvern vegin þannig komst Anna Frank að orði í dagbókinni sinni. Þessi setning hefur oft komið upp í huga mér þegar ég hugsa til okkar meðbræðra og systra.
Náungakærleikur, traust og vinátta sem varir úr í það óendanlega er ómetanlegt og oftsinnis höfum við hjónin rætt um hversu heppin við í raun og veru erum. Sterk fjölskyldubönd eru í okkar fjölskyldu og áratuga vinátta við æskuvini hefur aldrei rofnað. Að sjálfsögðu hafa komið upp misklíð en aldrei þannig að ekki væri hægt að rétt fram sáttarhönd, sem betur fer.
Öll erum við misjöfn að eðlisfari, ég er t.d. fljóthuga og á það til að láta úr úr mér það sem oft mætti kyrrt liggja en yfirleitt hverfur reiðin eins og dögg fyrir sólu. Langrækin er ég ekki og get auðveldlega rétt fram sáttarhönd og beðist afsökunar.
Þórir minn er með þeim eiginleikum fæddur að hann getur alltaf fundið góðu hliðarnar á fólki. Aldrei hef ég heyrt hann tala illa um nokkurn mann og hans orðatiltæki er frægt á meðal vina: Hvað þarf að vera að velta sér upp úr þessu? Hef oft sagt að aumingjabetri maður er vandfundinn. En ef honum þykir við einhvern, og það þarf ansi mikið til, þá er viðkomandi einfaldlega out.
Um daginn sátum við hér í rökkurbyrjun og ræddum um náungakærleikann og hversu langt væri hægt að ganga til að umbera sumt fólk. Við fórum í framhaldi að velta fyrir okkur hvers vegna sumir væru alltaf óánægðir, gætu aldrei horft á björtu hliðarnar, gengju með hangandi hausa alla daga. Væri þetta áunnið eða meðfætt?
Svo eru það kerlingarnar Öfundin og Hræsnin. Hugsið ykkur þá sem aldrei geta samglaðst öðrum.
- Nei vá varstu að fá nýjan stól, en æðislegur, til hamingju. Öfundin segir aldrei svona nokkuð, nei hún hugsar: Nú það er aldeilis veldi, bara nýr stóll og þá hlær Hræsnin henni til samlætis.
Síðan er það fólkið sem leggur það í vana sinn að tala illa um náungann hvar sem það getur komið því við. Helst líka að sverta mannorðið eins og hægt er. Sem betur fer kemst nú þetta fólk ekki langt á lyginni, það er nefnilega fljótt að fréttast hvaðan sögurnar koma og á endanum hættir fólk að hlusta og umgangast Gróu á Leiti.
Sumir leggja það í vana sinn að yfirfæra alla sína galla á vini eða vandamenn, jafnvel ókunnuga ef út í það er farið. Góð vinkona mín fræddi mig um það fyrir alllöngu að þetta væri því miður ein tegund sálsýkinnar. Fólk réði einfaldlega ekkert við þetta og gerði þetta ómeðvitandi. Sárt til þess að hugsa.
Þetta og margt annað ræddum við hér í rökkurbyrjun fyrir nokkrum dögum. Nú megið þið ekki halda að ég telji okkur vera einhverja englabassa og að sjálfsögðu hef ég tekið þátt í ýmsum óskemmtilegum umræðum um dagana en ómerkilegheit, lygi, meiðandi umtal á ég óskaplega erfitt með að þola.
Ekki vil ég trúa að fólk sé fætt með þessum eiginleikum. Innibyrgð reiði, sársauki og lífsleiði hlýtur að vera orsökin og ég sárlega vorkenni öllum þeim sem verða að bera þessa byrgði og lifa í sálarkreppu allt sitt líf.
Með aldrinum verðum við mýkri og hættum sem betur fer flest okkar að gera okkur óþarfa rellu út af smámunum. Við lærum sem betur fer líka að leiða hjá okkur hluti sem áður hefðu getað ært óstöðugan.
Og ég tek undir orðin hennar Önnu Frank:
Þrátt fyrir allt þá trúi ég því að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir!
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)