Færsluflokkur: Vefurinn

Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð, Tékklandi

Listasetrið Leifsbúð   Listamaðurinn Örn Þorsteinsson

Í fyrradag lifnaði aftur yfir Listasetrinu okkar þegar þau hjónin Örn Þorsteinsson, listamaður og María kona hans runnu hér í hlað í ljósaskiptunum, en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Mig var farið að lengja eftir því að sjá ljós í gluggum setursins á kvöldin þar sem vika er nú liðin síðan síðasti ábúandi fór héðan frá okkur.

Við bjóðum þau hjón velkomin hingað og vonum að dvölin verði þeim til gagns og gamans.

 

Stjörnusteinn sept.2008 007

 

 

 

 


Má ég þá heldur biðja um Jóhannes Arason, Jón Múla og Ragnheiði Ástu

Sátum hér undir stjörnubjörtum himni og borðuðum kvöldmatinn.  Ósköp notalegt, bara við tvö.  Þá dettur mínum elskulega í hug að tengja tölvuna við græjurnar og hlusta á fréttirnar frá RÚV.  Við erum með hátalara tengda hér út á veröndina svo sex fréttir bárust hér frá ljósvakanum eins og ekkert væri sjálfsagðra.

Á meðan við gæddum okkur á grillsteikinni og nutum þess að sötra á rauðvíni frá Toscana hlustuðum við á fréttafólk flytja okkur fréttir að heiman. Voða svona heimilislegt.

  Helst í fréttum: Þjóðin skuldar þetta marga milljarða, bankarnir þetta mikið o.sv.frv. Ég stein hélt kjafti á meðan á þessari upptalningu stóð.  Síðan kom, kona lamin í höfuðið til óbóta, liggur á gjörgæslu. Þarf ég að halda áfram, held ekki.

En það sem vakti athygli mína var fréttaflutningurinn.  Það var eins og allir fréttaþulir væru í kappræðu, að lýsa sinni eigin skoðun fyrir okkur almenningi.  Ekki tók nú betra við þegar eitthvað sem heitir Spegillinn, að ég held, kom á eftir fréttum.  Þar fóru menn hamförum í lestrinum mér fannst ég vera stödd í sal þar sem ræðumaður vildi láta í sér heyra og nú skuluð þið aumingjarnir hlusta á hvað ég er að segja ykkur.  Þetta var næstum óþolandi að hlusta á.  Einungis þegar þeir höfðu viðtöl urðu þeir manneskjulegir, annars var eins og þeir væru að flytja framboðsræðu eða tala á málþingi.

Ég hélt nú að fréttamenn ættu að vera ópólitískir í sínum fréttaflutningi og flytja okkur fréttir á passívan hátt, en hamagangurinn og lætin í kvöldfréttum RÚV í kvöld var alveg með ólíkindum.

Þegar leið á fréttirnar gat ég ekki orða bundist og sagði við minn elskulega:  Veistu, það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi, heyrir´ðu flutninginn þau eru öll svo hátt stemmd að það er virkilega pirrandi að hlusta á þetta. Hann játti því og fór og lækkaði í tækinu.

Við ræddum síðan um okkar góðu hæglátu, vitru fréttamenn sem höfðu rödd sem seytlaði inn í landsmenn í áraraðir.  Jón Múla Árnason, Jóhannes Arason og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur.

Þau voru aldrei með nein læti, lásu fréttirnar á hlutlausan hátt og allir hlustuðu á þau með andakt.

Ef til vill erum við bara orðin gömul og aftur á kúnni en andskotinn þetta er ekki fréttaflutningur þetta líkist meir áróðri að mínu mati. 

Það skal tekið fram hér að ég hef ekki hlustað á íslenskar fréttir í útvarpi í nokkur ár.

Ég gat bara ekki orða bundist.

 

 

 

 

 


Baráttukveðjur yfir hafið og smá broslegt í lokin

Það er ekki seinna vænna að senda ljósunum okkar baráttukveðjur með einlægum óskum um að það rætist úr þeirra málum ekki seinna en STRAX!

Ég man hvað ég var þakklát fyrir heimsóknir minna ljósa eftir að ég kom heim af fæðingarheimilinu.  Veit eiginlega ekki hvernig ég hefði farið að ef þeirra hefði ekki notið við.

Þessar ljósur mínar voru starfandi þá í Fossvoginum á árunum 1974 og 1977.

Og alltaf sömu elskulegheitin þegar þær kvöddu mig með þessum orðum:  Og hringdu bara í mig ef þú hefur einhverjar spurningar.  Þetta var ómetanlegt.  Þó ég muni nú ekki lengur nöfnin á þessum ágætis konum þá langar mig til að þakka þeim af alhug fyrir alla þá nærgætni og umönnun sem þær sýndu mér.

En að aðeins léttara hjali.

Við, ég og minn elskulegi sátum hér í eldhúsinu um daginn og biðum eftir soðningunni.

-Minn:  Heyrðu, þú ert bara léleg!

Ég leit upp stórum augum því annað eins hafði ég aldrei heyrt úr hans munni í minn garð. 

- Hvað meinar´ðu, vissi ekki alveg hvort ég ætti að reiðast og ganga út en hætti við því mig dauðlangaði að heyra af hverju ég væri svona LÉLEG.

- Jú elskan hér stendur að kona ein í Frakklandi gangi með þríbura og hún er 59 ára sem sagt jafnaldra þín sagði hann og glotti út í annað.

Ég var ekki alveg klár á því hvort ég ætti að láta fúkyrði fjúka.  Hvort hann hefði viljað skipta um hlutverk, fæða börnin okkar og líka það að börnin væru jú ekki eingetin, það þyrfti tvo til og ég man nú ekki lengur hvað annað mér datt í hug að láta út úr mér en það flugu eldingar um höfuð mér smá stund.

En þegar hann sprakk úr hlátri gat ég ekki annað en brosað út í annað og sagði: Veistu þú ert ekki í lagi stundum.  Þetta hefði getað endað illa skal ég segja þér og ég vara þig við að vera með einhvern karlrembuskap þegar ég er ekki í stuði til að taka því.

Mér datt að láta þetta samtal okkar hjóna flakka þegar ég heyrði að einhver vitringur á einhverri útvarpsrásinni hefði gloprað út úr sér að konur ættu bara að halda krökkunum í sér þar til verkfallið leystist.

Suma karlmenn ætti bara að stoppa upp!

 

 

 

 

 


mbl.is Fjölmenni á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir voru hreint út sagt frábærir!!!!!

Blásarakvintett ReykjavíkurUm fimmtíu manns sóttu okkur heim í gær og hlýddu á tónleika Blásarakvintetts Reykjavíkur.  Hér myndaðist svona hálfgerð stofustemmning þar sem ég hafði komið fyrir sófum og hægindastólum hingað og þangað á veröndinni og fólk lét fara vel um sig í síðsumarsólinni og naut þess að hlýða á þessa frábæru listamenn spila hér hvert verkið á fætur öðru. 

Listamönnunum var að sjálfsögðu vel fagnað í lokin og eftir tónleikana buðum við upp á léttar veitingar þar sem öllum gafst tækifæri á að ræða við strákana og fræðast um þeirra feril. 

 Pósthólfið mitt fylltist í dag af kveðjum og átti ég að færa þeim bestu þakkir fyrir frábæran flutning og ánægjulegan eftirmiðdag hér að Stjörnusteini og geri ég það hér með.  

Um kvöldið héldum við Þórir þeim og mökum þeirra auk sendiherrahjónunum okkar sem komu frá Vínarborg smá matarboð hér úti í Leifsbúð.  Mikil og góð stemmning ríkti hér og Listasetrið bauð þessa listamenn velkomna á sinn einstæða hátt með brakandi arineldi og flöktandi kertaljósum sem sendu skugga sína upp í rjáfur þessa sérstaka seturs.

Mig langar að þakka Einari Jóhannessyni fyrir skemmtilega daga hér undanfarnar vikur og góða viðkynningu, en hann hélt heim með félögum sínum í dag. 

Benni, Jo, Hafsteinn og Daði takk fyrir að koma og gleðja okkur og gesti okkar þennan fallega síðsumardag hér í sveitinni.  Ógleymanleg stund sem lengi verður í minni höfð.       


The Reykjavík Wind Quintet í hundrað turna borginni í kvöld.

Þjóðarstoltið var gjörsamlega að fara með mig í kvöld.  Strákarnir okkar úr Blásarakvintett Reykjavíkur þeir Bernharður Wilkinson á flautu, Daði Kolbeinsson á óbó, Einar Jóhannesson á klarinett, Joseph Ognibene á horn og Hafsteinn Guðmundsson á fagott gjörsamlega heilluðu áheyrendur hér í kvöld þar sem þeir héldu tónleika fyrir nær fullu húsi í Gallery Sargsyan í hundrað turna borginni Prag.

Einar Jóhannesson er búinn að dvelja hér hjá okkur í Listasetrinu undanfarnar vikur og var ákveðið að vinir hans úr Blásarakvintettnum kæmu hingað í lok dvalarinnar og héldu konsert í borginni.  Strákarnir hefðu nú átt að vera viku seinna á ferð þar sem við töldum september vænlegri til tónleikahalds.  En þeir fylltu nær húsið og fólk stóð upp í lokin og hylltu þessa frábæru listamenn okkar með húrrahrópum og lófataki. Margir sóttust eftir eiginhandaáritun og þeir voru stjörnurnar okkar sem lýstu hér upp síðsumarnóttina í öngstræti Prag í kvöld.

Efnisskráin fyrir ykkur tónlistaunnendur var Mozart, Ibert, Reicha, Páll. P. Pálsson, Bach og Farkas.

Á morgun ætla þeir að njóta lífsins í borginni með sínum eiginkonum en á laugardaginn koma þeir hingað að Stjörnusteini  þar sem þeir ætla að halda tónleika hér heima í garðinum okkar.

Þá býst ég við að þjóðarstoltið taki sig upp aftur og örugglega í miklu meira mæli þar sem þeir verða hér á næstum Íslenskri grund. 

Takk fyrir frábæra tónleika og ykkar návist kæru félagar! 

 

 

 


Flott framtak hjá Valdísi Óskarsdóttur

Innilega til hamingju Valdís mín með þetta framtak! Mér sýnist líka ,,kastið" ekki vera af verri endanum sem þú hefur valið til að vinna með þér.   Hlakka til að sjá myndina og óska þér alls hins besta í framtíðinni, hvar sem þú kemur til með að stinga niður fæti í heiminum. 

Kveðjur héðan úr sveitinni okkar í Tékklandi.


mbl.is Íslensk brúðkaupsveisla í Toronto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvirðing við listamenn.

Hvimleitt satt er það en þetta er óvirðing við listamenn og fólk á að sýna sóma sinn í því að mæta ekki ef það getur ekki hamið sig eða alla vega að ganga úr salnum.

 Finnst eins og fréttamaður sé að dæma Mr. Schiff fyrir hrokafulla framkomu.   Ég skil listamanninn fullkomlega og sjálfsagt hefur honum fundist komið nóg af því góða og beðið fólk fólk vinsamlegast um að hemja sig rétt á meðan hann spilaði.

Við sem sækjum tónleika vitum að yfirleitt þegar hlé er gert á milli verka byrjar hálfur salurinn að ræskja sig og hósta, leiðindar ávani!  Hitt er annað mál að ef þú ert með kvef og hósta og veist að hóstinn getur brotist fram hvenær sem er og þá sérstaklega þegar þú ert í tónleikasal í gömlum byggingum sem eru uppfullar af ryki  þá bara mætir þú ekki á tónleika, þú sleppir þeim! 

Ég hef oftsinnis orðið að sitja heima vegna þess að ég ber virðingu fyrir listamönnum og kæmi aldrei í hug að mæta á konsert eða óperur vitandi það að ég gæti fengið hóstakast í miðju verki.  Ég hef líka orðið fyrir því að verða að ganga úr salnum vegna þess að ég hélt að ég gæti hamið mig rétt á meðan flutning stæði. 

Annað sem kvefaðir áheyrendur gera líka sem er ekki síður ósmekklegt er að mæta með hálstöflur, í skrjáfandi umbúðum.  Hvers vegna ekki að taka töflurnar úr umbúðunum áður en gengið er í salinn.  Síðan eru það farsímarnir, á ég að halda áfram?

Nei læt hér staðar numið. 

  Bara smá svona pirringsblogg héðan frá Stjörnusteini inn í kvöldsólarlagið. 

 

  


mbl.is Hóstaður út af sviðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir ykkur sem náðuð ekki Rás 2 - Eurovisionsports.tv/olympics

Snilld hjá strákunum!  Ég sem horfi ekki á handbolta datt niður í síðustu mínúturnar af leiknum.  Það var bara ekki hægt annað.  Var nú svo sem búin að gjóa augunum á skjáinn öðru hvoru og fylgdist með mörkunum úr fjarðlægð enda voru hrópin og köllin sem bárust úr barka míns elskulega þannig að hálf sveitin fylgdist örugglega með.

Annars varð uppi hér fótur og fit þegar minn elskulegi kom heim og ætlaði að stilla á Rás 2 og auglýst var um bilun en viðgerð stæði yfir.  Hann gjörsamlega spólaði hér um húsið þar sem ekki var sýnt frá leiknum á enskum eða þýskum stöðum, ja alla vega ekki þeim sem við getum náð.

Eftir bölsót og hótanir um að hringja í útvarpstjóra, ráðherra eða bara eitthvað hringdi sonur okkar og tilkynnti honum að hann gæti séð þetta á Eurovisionsports. tv/olympics  og hér með er þessu komið á framfæri til ykkar sem búið hér í nágrannalöndunum ef útvarpið klikkar aftur á sunndaginn. 

Þessi tenging bjargaði mínum frá því að fá taugaáfall eða eitthvað ennþá verra og nú get ég verið róleg á sunnudaginn ef Rás 2 klikkar aftur sem á auðvitað ekki að gerast þegar svona stórviðburðir eru í aðsigi. 

Flott hjá þér Þorgerður Katrín að halda út og hvetja strákana og ekki verra að boða til þjóðhátíðar.  Svona á að gera það, með stæl og ekkert öðruvísi!   


mbl.is Ráðherra boðar þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælistónleikar Bjarkar Jónsdóttur í kvöld

Mikið hefði verið gaman að geta verið heima núna og glaðst með mágkonu minni Björk Jónsdóttur, söngkonu en hún heldur tónleika í Iðnó í kvöld.  Segir í tilkynningu að þarna ætli hún að sýna á sér nýjar hliðar.  Spennandi þar sem hún er búin að vera með annan fótinn í kóngsins Köben í nokkur ár og er enn.

Elsku Bökka mín innilega til hamingju með þennan áfanga og afmælið 26. ágúst!

Toj, toj, toj !!!!!

 


Fálkinn minn er floginn til síns heima.

Hvar ertu fallegi fugl?  Þú sem varst einn af gestum mínum hér í sumar.  Tignalega sveifst þú hér yfir húsunum okkar og hnitaðir hringi með þínum þöndu vængjum.  Þú varst ungur, ekki fullvaxinn það sáum við strax og við buðum þig velkominn hingað.  Hvert fórstu, hvar ertu?

Fyrst héldum við að þú byggir í trjátoppunum þar sem við áttum svo erfitt með að fylgjast með þér þegar þú stakkst þér niður í fletið þitt.  Síðan kom í ljós að þú hafðir fundið þér skjól í einu af húsunum okkar þar sem hleðslan hafði hrunið og gert lítið gat í vegg.  Enda konungar eins og þú búa ekki í trjám en okkur fannst skrítið hvað þú varst spakur og leyfðir jafnvel sumum að koma það nærri að þeir gátu fest þig á mynd.  Því miður á ég enga mynd af þér vinur.

Stundum fylgdumst við með þér bera björg í bú, músarrindil eða eitthvað annað góðgæti.  Þarna sastu í holunni þinni og hélst þína veislu.  En nú ertu horfinn og við söknum þín fallegi Fálki.

Vonandi hefur þú ratað heim til vina þinna hér í klettana við Sazava og ert kominn í þeirra hóp.

Tignalegi Fálki svífðu yfir sveitinni 

þöndum vængjum

vitjaðu okkar þegar hausta fer.

Velkominn heim. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband