Færsluflokkur: Vefurinn

Spádómskertið tendrað og ljósadýrð um allan heim.

Síðsumar og haust 2008 179Í dag hefur svipuð stemmning verið á öllum torgum stórborga heims þar sem ljós hafa verið tendruð á risatrjám með viðeigandi athöfn.  Prag er þar engin undantekning og hófust hátíðahöldin á Gamla torginu klukkan fimm í dag og standa örugglega enn.

Það er alltaf hátíðlegt að vera viðstödd opnum jólamarkaðar hér og það er ekki bara tréð sem fólk dáist að heldur ótal aðrar skreytingar sem gleðja augað.

Ekkert varð úr þessari bæjarför okkar því fótboltabullur Breta áttu hug og hjarta míns elskulega í allan dag.  Ég var svo sem ekkert að þrasa yfir þessari ,,sófalegu" því ég hafði í nógu að snúast við að skreyta hér innan húss. Fer bara seinna í vikunni til að taka út herlegheitin.

Ekki það að ég hafi heldur haft mikið fyrir því að trítla niður á Austurvöll með ungviðið í gamla daga, ja e.t.v. tvisvar eða þrisvar gerðum við það þó  Ekki alveg ga ga foreldrar.

Nú ætla ég upp og kveikja á Spádómskertinu en svo nefnist kerti fyrsta í aðventu njóta það sem eftir er kvöldsins i friði og ró.

Lofaði að setja inn myndir og nú koma þær smátt og smátt.

 

 

 


mbl.is Ljósin kveikt á Óslóartrénu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustljóð skáldsins færði okkur kyrrð og ró hér í kvöld.

Skáldið, Jóhann Hjálmarsson hallaði sér makindalega aftur í hnausþykkan leðurstólinn með gleraugun á nefinu og las upp úr síðustu bók sinni sem gefin var út 2003. Kertin á borðinu flögruðu í takt við ljóðlínurnar. Við erum stödd í Listasetrinu okkar Leifsbúð.

Nóttin var dimm en inni var bjart og hlýtt.  Við sem nutum þessa upplesturs vorum aðeins þrjú, ég, Þórir og eiginkona skáldsins Ragnheiður. Við hölluðum okkur aftur með rauðvín í glösum og hlustuðum á skáldið fara með ljóðin sín.  Fyrst þau gömlu en síðan ný sem hann hefur samið hér undanfarnar vikur.  Ljóðin hans Jóhanns eru svo myndræn að ég var komin hálfa leið í gönguferð hér um nágrennið á stundum. 

Ekkert þykir mér betra en að hlusta á skáldin fara með sinn eigin kveðskap eða ritverk sama hversu góðir flytjendur eru þá jafnast ekkert á við það að hlusta á meistarana sjálfa.  Merking orðanna verður aldrei sú sama jafnvel þó okkar færustu listamenn fari með ljóð eða lesi úr ritverkum.

Verð að geta þess að Erró okkar sem telst til einstakra hunda, listelskur og næmur settist niður með okkur og góndi upp í skáldið og hlustaði dolfallinn.  Hef alltaf sagt að þessi hundur ber nafn með réttu.

Kvöld sem þetta gleymist seint.  Ég finn það svo vel núna hvað ljóðið gefur okkur mikið ef við hlustum.

Hlakka til að fá í hendurnar næstu ljóðabók sem samin var hér í Bohemiu. 

 

 

 

 


Alveg sérstaklega hjartahlýtt og brjóstgott fólk sem tók á móti mér.

Það er ekkert sjálfgefið fyrir konu að taka upp símann og panta tíma hjá Hjartavernd eða Krabbameinsfélaginu, þá er ég að tala um þessar reglubundnu heimsóknir sem allir ættu að fara í en flestir fresta og sumir næstum fram í rauðan dauðann. Ég er þar engin undantekning og skammast mín fyrir að segja ykkur hvenær ég hundskaðist síðast svo ég læt það liggja á milli hluta.

En fyrst ég var nú á leið heim þá pantaði ég mér tíma hjá báðum þessum stofnunum um daginn og fékk tíma um leið, sem sagt engin biðtími þar eins og hjá flestum læknum. 

Það skal tekið fram að ég er alveg þrusu hress bæði á sál og líkama.  Þarna voru á ferð fyrirbyggjandi aðgerðir af minni hálfu.

Ég byrjaði á því að heimsækja Hjartavernd með tóman maga að sjálfsögðu.  Yndælis kona tók á móti mér og mældi og viktaði og tók línurit.  Eftir að ég hafði fengið að vita að ég hefði hlunkast saman um næstum tvo sentímetra fór ég í blóðprufu hjá lækni, konu, sem var ekkert nema elskulegheitin og af því að hún var svona geðug þá hugsaði ég með mér að best væri nú að létta aðeins á litla hjartanu og segja hvað hefði verið að angra mig í næstum tvö ár. 

Saga mín var skráð í tölvuna og hún segir að þetta geri hún svo hjartalæknirinn sem tæki á móti mér eftir nokkra daga hefði nú þetta allt fyrir framan sig.

Ég þakkaði voða vel fyrir mig og gekk út í rokið og fékk mér sígó.

Næsta dag heimsótti ég góða fólkið hjá Krabbameinsleitarstöðinni.  - Karlar þurfa ekkert endilega að lesa þetta........ Jésús það var svo rosalega langt síðan ég hafði sest í stólinn góða eða það fannst mér alla vega.  Eftir mjúku strokuna og þið vitið...... þá vippaði ég mér niður og hjúkkunni varð á orði , ja þú ert ekki þung á þér.  Held þetta hafi ekkert haft með þyngdina að gera, ég var bara svo rosalega fegin að komast af stólnum. 

Þá tók við tortúrtækið þið vitið stelpur sem kremur litlu sætu dúllurnar okkar út og suður.  Hey það er komin ný vél, ekki næstum eins sárt og síðast. Ég mátti síðan hringja daginn eftir af því ég bý erlendis, sem sagt þarna fór kona með forréttindi, sem ég og gerði og fékk að vita að mínar eðaltúttur voru eins hreinar og hjá hálfstálpuðum ungling. 

Mikið var nú gott að heyra það og ég fékk mér sígó, enda tilefnið frábært.

Tveimur dögum seinna lá leið mín aftur upp á Hjartavernd en þar tók á móti mér kornungur ljóshærður og myndalegur hjartalæknir.  Mín fyrsta hugsun var:  Guð minn góður hann er svo ungur!  Ég´bjóst fastlega við því að mér yrði skipað úr fötunum að ofan og upp á bekk eins og gert var hér áður fyrr og maður þuklaður með köldum lúkum en nei þessi ungi piltur bauð mér kurteysislega sæti og opnaði fælinn minn.  Þá upphófust samræður um fjölskyldu mína og hans þar sem konan hans var sveitungi tengdadóttur minnar.  Þetta stóð yfir í nokkrar mínútur.  Mjög fróðlegt samtal og skemmtilegt.

Síðan setti hann prentarann í gang og út gubbuðust nokkur A-4 blöð. Þar sem ég hafði verið mjög hreinskilin og sagt með réttu að ég væri stórreykingarmanneskja komu niðurstöður mér mjög á óvart.  Ekkert virtist vera athugavert við neitt.  Kólesterólið sem alltaf hefur verið við hættumörk var nú bara eðlilegt og það eins sem hann gerði athugasemd við var að ég auðsjáanlega hreyfði mig allt of lítið, yrði að bæta úr því.  

Ég komst aldrei svo langt að segja honum að ég púlaði hér í garðvinnu átta mánuði á ári og það teldist nú örugglega til hreyfingar.  Jæja skítt með það.  Allt var þetta í stakasta lagi.  Ég impraði líka á því sem ég hafði sagt hinum lækninum um það sem ég hefði áhyggjur af en áður en hann gat svarað mér var ég búin að svara mínum eigin spurningum sjálf, skilgreina allt á góðri Íslensku, orsakir og afleiðingar og hann jánkaði mér bara og sagði að ég hefði sjálfsagt rétt fyrir mér.  Ekkert svona hum eða ha, þú ættir nú að láta athuga þetta eða hitt ef þetta kemur fyrir aftur.  Sem sagt bara kerlingavæll í mér og histería.

Ég er líka bara ansi sátt við þá niðurstöðu.

Þá kom fyrirlestur um reykingar og spurningar um hvort mig langaði til að hætta sem ég jánkaði alveg hreinskilningslega.  Þá opnuðust flóðgáttir og þessi ungi maður tók mig algjörlega á sálfræðinni, talaði um áhættuhópinn sem ég væri í, barnabörnin sem eru augasteinar mínir.  Eftir nokkrar mínútur var ég svo heilaþvegin að ég gekk út með tárin í augunum og lyfseðil upp á fleiri tugi þúsunda sem eiga að hjálpa mér að hætta þessum ósóma.

Sko tárin voru ekki vegna þessara þúsundkalla heldur var ég alveg rosalega snortin. 

Ég var ekkert send í ómskoðun eins og alltaf hér áður fyrr vegna þess að önnur slagæðin í hálsinum á mér er alltaf í feluleik.  Hann kom aldrei við mig nema þegar hann heilsaði og kvaddi. Ef ég hefði ekki lyfin hér fyrir framan mig væri mér næst að halda að þetta hefði verið draumur. 

Ég er í undirbúningsvinnu núna fram yfir áramót og þá á að taka á því.  

Er farin að fá mér eina sígó.   

  

 

 


Skemmtilegur hittingur í Berlin annað kvöld.

Þá skal haldið heim á leið.  Ég komst að því í dag þegar ég var að pakka niður að ég þarf tilfinnanlega að endurnýja fataskápinn og ekki verra að vera fara heim því þá get ég ef til vill slegið tvær flugur í einu höggi, dressað mig upp og um leið lappað aðeins upp á gjaldeyrisskortinn í heimalandinu. 

Ég er alla vega harðákveðin í því að reyna að gera mitt besta.

En talandi um að pakka niður í ferðatösku, mikið óskaplega finnst mér það leiðinlegt verk.  Veit aldrei hvað ég vil hafa með mér, hvað er nauðsyn eða hvað er óþarfi.  Yfirleitt pakka ég óþarfa hlutum og borga svo yfirvigt fyrir allt draslið.

Þetta er bara til þess að búa til leiðindi á milli hjóna skal ég segja ykkur.

Var voða skynsöm núna, enda á ég ekkert til skiptana eins og ég var búin að segja.

Þar sem við vorum búin að ákveða að keyra til Berlinar um helgina þá slógum við bara til og keyptum okkur flugmiða frá Köben.  Þannig að við keyrum þangað og skiljum bílinn eftir og fljúgum þöndum vængjum heim með Icelandair ja svo framalega sem það eðalfélag verður lifandi á mánudaginn.

Annað kvöld verður skemmtilegur hittingur í Berlin en þá ætlum við að knúsa vini okkar Þráinn Bertelsson og frú Sólveigu alveg í klessu, en þau eru stödd þarna í borginni núna. Mikið rosalega hlakka ég til að hitta þau heiðurshjón og kryfja þjóðmálin til mergjar yfir góðum kvöldverði.

Þetta verður nú ekki skemmtiferð til heimalandsins í þetta sinn eins og þið vitið sem hafið lesið síðustu færslu mína en lífið heldur áfram ekki satt?

Kíki inn þegar ég má vera að næstu daga og glamra ef til vill líka á lyklaborðið.

Eigið góða helgi kæru vinir.

BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ !!!!!!!

 

 

 


Séra Siggi sér um sína!

Það er ekki að spyrja að þessum öðlingsmanni nú er hann búinn að fylla sendiráðið okkar í London af fisk og lætur landa okkar njóta góðs af.  Þegar ég las fréttina fann ég alveg fisklyktina og sá fyrir mér fundarherbergið þar sem togaramyndir frá fyrri árum klæða veggina og fundarborðið svignar undan þorskinum. 

Ég var heldur ekkert hissa að heyra að kirkjusókn væri góð og fólk kæmi langar leiðir tll kirkju.  Ég var svo lánsöm að kynnast séra Sigurði og hans starfi þarna úti fyrir nokkrum árum og gleymi aldrei páskamessu sem við sóttum einu sinni.  Hvert mannsbarn tók fullan þátt í messunni eins og ein fjölskylda.  Dóttir okkar var í kórnum í smá tíma og heyrði maður oft hversu frábærlega Siggi hélt utan um allt sitt fólk.   

Haltu þínu góða starfi áfram Siggi minn.  Gerir ekkert til þó sendiráðið ,,ylmi" eins og gúanó í smá tíma þið loftið bara út þegar þetta er gengið yfir.  Bestu kveðjur til ykkar allra.


mbl.is Fiskað í íslenska sendiráðinu í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælendur eru ekki lýður að mínu mati nema til uppreisnar komi.

Hvað er lýður?  Í gamalli orðabók sem ég á hér og fletti upp í segir:  Lýður sbr. menn.  Þannig að við verðum að horfa fram hjá þessu orðalagi í fréttinni.  En lesandi fréttina  þá fannst mér þetta vera sagt í niðrandi merkingu.  Hörður Torfa ávarpaði lýðinn!

Orðið lýður fyrir mér hefur neikvæða merkingu.  Uppreisnarmenn, óaldalýður, þjófar og hyski.  Ekki kemur fram í fréttinni að til uppreisnar hafi komið eða fólk verið handsamað.  Var ekki einfaldlega hægt að segja Hörður Torfa ávarpaði viðstadda, eða ávarpaði mótmælendur fundarins.

Ég ber fulla virðingu fyrir þessu fólki sem hefur kjark og vilja til að standa í þessum mótmælum og svo framalega sem þetta fer fram á skipulagðan og skynsaman hátt finnst mér óþarfi að tala um að,, lýðurinn" hafi safnast saman á Austurvelli.   


mbl.is Um þúsund mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfum til framtíðarinnar og verum jákvæð.

Loksins kom eitthvað jákvætt í fréttum og á rektor Háskóla Íslands hrós skilið fyrir að ætla að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á vegum vísinda og fræða á komandi ári. 

Þetta litla ljóð er búið að sitja fast í mér í nokkra daga svo ég ætla að láta það fylgja hér með.

 

AÐEINS EITT LÍF 

 

Við erum ekki með níu líf

eins og James Bond eða köttur

 

við erum sannast sagna

aðeins með eitt líf

svo vitað sé með vissu

 

því skaltu nú hætta

   að mæla flest í hljóði

 

að sofa kastalasvefni

bíðandi eftir kossinum

sem öllu muni breyta

 

að láta þvottavélar

samvisku þinnar

þeytivinda blóðið

úr lífæðunum

 

já hættu líka að ganga

ávallt troðnar slóðir

 

farðu heldur kattarstígana

ósýnilegu, spolausu

sem liggja hér og þar

gegnum skrifuð og óskrifuð

ævintýri

 

þú munt reyndar ekki eignast

neitt af níu lífum kattarins

 

en lætur þér eflaust nægja

 

ævintýrin.

Úr ljóðabókinni Öskudagar eftir Ara Jóhannesson

 


mbl.is Háskólinn mun svara kalli samtímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð

Í gærkvöldi komu síðustu ábúendurnir að Listasetrinu þetta árið.  Jóhann Hjálmarsson skáld og kona hans Ragnheiður en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Hjartanlega velkomin kæru hjón.

 Það var eins og sveitin biði þau líka velkomin þar sem litaskrúð haustsins var með eindæmum fallegt í dag.  Hér blakti ekki hár á höfði og hitinn fór yfir 19° um miðjan daginn.  

Vonum að dvölin  hér verði ykkur ánægjuleg, sveitin okkar og setrið veiti ykkur innblástur og skjól.


Ég er og verð Íslendingur!

Þegar ég kom heim í dag eftir skemmtilegan morgunfund og hádegismat með góðum vinkonum settist ég við apparatið mitt hér við eldhúsborðið og rúllaði yfir fréttir dagsins og nokkur blogg.

Ekki get ég nú sagt að sú lesning hafi verið par upplífgandi,  frekar að það hafi dregið úr mér alla löngun til að komentera eða skrifa þó voru nokkrir málefnalegir og aðrir sem komu mér til að hlægja og það léttist aðeins brúnin þegar líða tók á lesturinn.

Eins og hjá flestum öðrum var emailið mitt yfirfullt af knúsum, takk fyrir það en satt best að segja finnst mér dálítið hjákátlegt að fá svona knús frá apparatinu sem liggur hér fyrir framan mig en ég sendi skilvíslega knús til baka til þess að vera ekki félagsskítur.  Sem sagt tók þátt í þessum leik Mbl. og reyndi eftir fremsta megni að hugsa hlýtt til viðkomandi á meðan færslan fór út í tómið.

Mér þykir ekkert að því að knúsa fólk sem mér þykir vænt um og hef aldrei fundist það hallærislegt að gefa fólki koss og taka utan um það en þetta kossastand og knúserí er orðið ansi þreytandi hér á milli bloggvina.  Sendum frekar hlýjar hugsanir, held þær virki miklu betur.

Í gær las ég um konu sem rekin var út úr búð á Strikinu.  Ég vona að þarna hafi verið einhver misskilningur i gangi en margir hafa bloggað um þetta atvik og sumir jafnvel sagt að þeir ætli að hætta að kannast við það að vera Íslendingar og hætta að tala sitt móðurmál erlendis svo nokkur heyri.  Hvað gengur að þessu fólki?  Hvar er nú þjóðarstoltið og burgeysishátturinn sem fylgt hefur okkur Íslendingum í aldaraðir.  Að ætla að þykjast vera einhver annar en maður er er þvílíkt bull og ekki orð um það meir!

Ég byrjaði hér að ofan að segja ykkur að ég hefði farið á morgunverðarfund með góðum vinkonum en fór svo út í allt aðra sálma en nú ætla ég að hverfa aftur að þessum fyrstu línum. 

Undanfarna viku hefur síminn vart stoppað hér hjá okkur, blaðasnápar og fréttamenn útvarps og sjónvarps hafa verið að snapa eftir fréttum en við höfum hrist þetta af okkur enda ekki í okkar verkahring að gefa upplýsingar að heiman.

Þetta er eina viðtalið sem Þórir hefur veitt eftir að við seldum.

http://www.praguepost.com/articles/2008/10/15/talking-iceland-over-ice-cream.php

 

Eins og gefur að skilja vakti lokun Rest. Reykjavík mikla athygli hér og það að við skildum loka einmitt sama dag og landið okkar hrundi þótti að sjálfsögðu dálítið grunsamlegt.  Við gerðum okkur strax grein fyrir að fljótlega færu að berast alls konar Gróusögur um borgina því þó við búum hér í milljónaborg erum við þekkt sem athafnafólk til margra ára.

Þegar ég mætti á fundinn í morgun sá ég strax að þarna var komið að því að ég útskýrði málið.  Viðmótið var hlýlegt hjá þeim sem ég hef þekkt til margra ára en aðrar sem ekki hafa verið hér lengi sendu mér svona augngotu og forðuðust að horfa beint framan í mig. 

Í lok fundarins stóð ég upp og útskýrði lauslega hvers vegna við hefðum selt veitingastaðinn og líka að við hefðum gert það fyrir sex mánuðum hefði bara viljað þannig til að lokunin hefði átt sér stað sama dag og Ísland lenti i sínum miklu hremmingum.  Það létti mikið yfir samkundunni og margar spurningar komu í kjölfarið aðalega um fjölskyldu okkar og almennt ástand.  Gordon Brown var satt best að segja rakkaður niður í svaðið og þarna voru margir Bretar sem stóðu með okkur Íslendingum. 

Ég endaði á því að segja að nú hefðu þær þetta frá fyrstu hendi og gætu leiðrétt Gróu á Leiti ef þær mættu henni á götu.  Þetta var léttir fyrir mig og mér leið miklu betur.

Gekk eftir hádegismatinn að bílnum mínum þar sem ég hafði lagt honum beint fyrir framan Danska sendiráðið og það glitti á Íslenska fánann okkar á grilli bílsins og á skottlokinu. Ég var hreykin af því að vera Íslendingur! 

 

 

 


Sæmundur Kristjánsson hafðu þökk fyrir!

  Ef ég tryði á hugsanaflutning þá væri mér næst að halda að Sæmundur og minn elskulegi hefðu verið í góðu sambandi því hér í síðustu viku sagði Þórir svona upp úr eins manns hljóði:  Veistu ef ástandið verður til þess að fólk fer að svelta þá er ég farinn heim og set upp stóran súpupott í Austurstrætinu til að seðja hungur fólksins.

Ég leit á hann og sá strax að hann meinti þetta alveg frá hjartanu svo ég bara sagði:  Við skulum vona að svo illa fari ekki fyrir fólkinu okkar.

Sæmundur minn okkar bestu kveðjur til þín og alls starfsfólks!   Hafðu þökk fyrir þína manngæsku og við hér að Stjörnusteini tökum ofan fyrir þér og öllum sem stóðu að þessu góðverki.   

Stórt knús til ykkar allra. 


mbl.is Súpueldhús í kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband