Færsluflokkur: Vefurinn

Nú er hún alveg búin að missa það hugsa sumir....

Þið sem hafið lesið færsluna mína hér neðar á síðunni þar sem ég talaði um ítarlegar rannsóknir þar sem kaffi getur valdið ofskynjun og maður færi að heyra raddir þá sannprófaði ég þetta hér í morgun á leiðinni til hundrað turna borgarinnar. 

Eftir að hafa hvolft í mig tveimur lútsterkum expresso var ég glaðvöknuð. (Er ekkert svona morgunmanneskja í janúar) Já, nei auðvitað henti ég ekki þessari fínu kaffikönnu út á hlað, það er bannað að taka mig svona alvarlega þegar ég bulla.

OK hvar var ég , já sem sagt klukkan var hálf tíu (hrikalega ókristilegur tími, enn nótt hjá mér) og ég keyrði mig niðr´í borg.  Þar sem ég var komin langleiðina inn í borgina fór að hægjast á umferðinni svo ég renndi rúðunni aðeins niður mín megin.  Þarna eru fjórar akreinar og ég var á þeirri ystu vinstra megin.  Þarna dólaði ég góða stund á eftir hinum bílunum sem allir voru að fara í sömu átt og ég.  Mín orðin aðeins of sein á fundinn og komin svona smá ergelsi í kroppinn.

Þá allt í einu heyri ég blístur.  Ekki beint laglínu en mjög melódíska tóna.  Mér fannst þetta koma úr aftursætinu og leit ósjálfrátt við um leið hugsaði ég:  Ertu að verða vitlaus eða hvað það er enginn þarna aftur í.  Hugsa rökrétt.  Hljóðið hlýtur að koma úr einhverjum bíl hér við hliðina á mér og þar sem ég veit að blístur flyst betur en söngur rúllaði ég rúðunni alveg niður og stakk hausnum út.  Nei þetta kom innan úr bílnum.  Ég rúllaði rúðunni upp og enn hélt blístrið áfram.  Fagrir tónar en engin laglína. 

 Ég hristi hausinn vel og stakk puttanum á kaf í eyrað. Nuddaði vel og vandlega en blístrið hélt áfram úr aftursætinu.  Ég endurtók þetta með rúðuna upp og niður, stakk hausnum út en allt kom fyrir ekki það var einhver að blístra í aftursætinu.

Þá datt mér allt í einu í hug faðir minn heitinn.  Á meðan hann lifði blístraði hann í tíma og ótíma enda mjög músíkalskur.  Ég sneri höfðinu aftur og sagði:  Veistu pabbi minn nú er komið nóg af þessu blístri.  Blobbb.... blístrið hætti eins og við manninn mælt, sko í orðsins fyllstu....

Mér er alveg sama hvort þið trúið mér eða ekki en þeir sem þekkja mig vita vel að ég er stundum pínu öðruvísi á köflum.

 Svo nú er ég alvarlega að hugsa um hvort ég eigi að henda helv... könnufjandanum út á hlað eða sjá til hvað gerist á morgun.

Ætla að bíða til morguns ég hef nefnilega grun um að ástæðan fyrir heimsóknin hans föður míns eigi sér skýringu og segi ykkur frá henni seinna.


Fimbulkuldi hér í Tékklandi. - Ekkert gasleysi eins og er.

Brrrrrr.... þegar ég vaknaði í morgun sýndi mælirinn - 20° hér fyrir utan eldhúsgluggann.  Ég ósjálfrátt færði stólinn minn nær ofninum og pakkaði mér betur inn í hnausþykan morgunsloppinn.

Hér er fallegt út að líta.  Frosthéla á trjám, stilla og vetrarsólin skín á heiðum himni en nær þó ekki að bræða klakabynjuna á jörðu niðri.  Þetta er svona póstkortaveður og hver vill þá ekki vera hluti af myndinni? 

Þess vegna ákvað ég að dúða mig í ,,skepnuna" mína (nú er sko gott að eiga góða ,,skepnu" heheheh) og fá mér göngutúr.  Ég komst ekki lengra en rétt hér að skógarjaðrinum þá varð ég að snúa við þar sem nasirnar límdust óþyrmilega fast saman og mér fannst mitt pena nef vera að detta af. 

 Tók mig langan tíma að fá blóðið til að renna eðlilega þegar heim kom. 

Þegar líða tók á daginn og frostið komið niður í -14° þá vildi ég nú láta reyna aftur á þennan aumingjaskap minn og skellti mér út í annað sinn. Hélt út í hálftíma eða svo.

Dísus hvað það getur orðið kalt hér!

Svo vegna þess að sumir hafa haft áhyggjur af gasleysi hér á landi þá eiga Tékka varaforða og hafa bjargað sér til þessa.  Við hér að Stjörnusteini  kyndum hýbýli okkar með olíu.

Nú er ég farin að hafa áhyggjur af mínum elskulega þar sem hann fór í göngutúr með hundinn.  Vona að hann sé ekki orðinn að  frostnum ísstólpa einhvers staðar hér í nágrenninu.

Spurning hvort ég eigi að fara út að leita eða bara kvekja upp í arninum.

Ætla að kveikja upp í arninum.  Þeir voru rétt í þessu að koma inn úr dyrunum.

 


,,Þar rauður loginn brann" hér að Stjörnusteini. Trúi mér hver sem vill.

Stjörnubjartur himinn hvelfist hér yfir sveitina og tungl veður í skýjum í frostkaldri vetrarnóttinni.  Það er Þrettándinn.

Ég heyri ógreinilega hófaskellina á íshjarninu hér á akrinum. Hljóðið færist nær og nær.  Nú sé ég loga frá blysunum sem bærast vart því enginn er vindurinn. Þau koma út úr kolsvartri nóttinni hvert af öðru ríðandi hvítum fákum.  Það heyrist klingja í reiðtygjum. Tær bjölluhljómur.

Nú sé ég þau greinilega.  Fyrstur fer Álfakóngurinn hvítklæddur í silki og purpura.  Þá næst Álfadrottningin, glæsilegust allra, klædd bláu silki með glitrandi bryddingum og skinni.  Þau ríða hægt yfir, hér er engin að flýta sér.  Á eftir kemur fjöldinn allur af fylgdarliði og þvílík ró sem fylgir þessu fólki.  Enginn mælir orð af vörum. Allir eru fyrir utan tíma og rúm.

Nú stoppar kóngur og réttir upp hendi. Allir hinir hægja á hestunum.  Úr annarri átt kemur önnur ekki síðri glæsileg hersing.  Þegar um það bil einn meter er á milli þessara tveggja höfðingja  þá reisa þeir sig upp í hnökkunum og heilsa hvor öðrum kurteislega. 

Enginn mælir orð frá munni.  Þeir sem komu frá austri halda til vesturs en þeir sem komu frá vestri halda beint hingað að Stjörnusteini.  Þar sem ég stend og fylgist með þessu reyni ég að píra augun og sjá hvert þeir fara en allt í einu skellur á þoka fyrir augum mínum og ég get ekki lengur fylgt þeim eftir.

Það eina sem ég veit með vissu, Huldufólkið hefur tekið búsetu hér hjá okkur og bíð ég þau hjartanlega velkomin. 

Fari þeir sem fara vilja.

Veri þeir sem vera vilja.

Mér og mínum að meinalausu.

 


mbl.is Jólin kvödd með virktum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senn kveðjum við árið 2008

Hér næða engir vindar.  Það er froststilla og sólin skín hér á milli trjátoppa. Síðasti dagur ársins ætlar að kveðja með því að skarta sínu fegursta vetrarveðri hér að Stjörnusteini.

Við tölum um að nú fari daginn að styttast um hænufet.  Árið 2008 fannst mér nú ekki fara hænufetin.  Leið allt of hratt að okkar mati.  Sjálfsagt er þetta aldurinn sem farinn er að segja til sín. 

Árið hefur verið okkur gott og gjöfult og margs að minnast og þakka fyrir.

Þessi áramót verða sjálfsagt aðeins öðru vísi en undanfarin ár þar sem við höfum alltaf haldið áramótin niðri í borginni meðal fjölda vina og stundum ættingja en nú verðum við aðeins fimm hér í sveitinni. Egill og Bríet koma síðan á morgun og gleðjast með okkur.  Þannig að við ákváðum að kveikja ekki í brennunni fyrr en þá svo allir geti notið.

Á tímamótum verð ég alltaf dálítið meir og vatna músum yfirleitt um tólf þegar við syngjum saman Nú árið er liðið í aldanna skaut.  Það er eins og ég eigi alltaf jafn erfitt með að skilja við gamla árið.  Hef nú samt aðeins lagast með árunum sem betur fer.  Kallar maður það ekki að þroskast frá hlutunum. Held það bara dúllurnar mínar. 

 

ÁRAMÓT

Senn kveðjum við árið og höldum á framandi haf

hins hverfula rúms og tíma.

En gætum þess fengs er forsjónin okkur gaf

uns fellur hin hinsta gríma.

Og árin þau hverfa eitt og eitt og aldirnar renna sitt skeið

en minningar lifa og saga er sögð af samfelldum ættarmeið.

 

Hvert mannslíf er hlekkur í mannfélagskeðju

þar megnum við lítls sérhvert.

Af örlögum hent í allskyns hrúg eða beðju

og enginn fær við því gert.

Við vitum ei gjörla hvar markað er spor eða bás

í margslungnu flakki í tímans eilífu rás.

 

En þrátt fyrir óvissu um allt sem er hulið sýn

og enginn getur veitt við spurnum svör.

Þá er og verður óhögguð vissa mín

að áfram sé mörkuð leið og ákvörðuð för

því færi ég þökk fyrir samveru síðustu ár

samferðafólki nýjárssól skíni klár.

S.A.S.

Sendum ykkur öllum bestu óskir um gæfuríkt komandi  ár héðan frá Stjörnusteini.

Megi nýja árið færa ykkur allt það besta sem völ er á.

 

 

 

 

 

 

  


Byrjað að hlaða í brennu hér að Stjörnusteini.

Á meðan við mæðgur áttum svona mömmu og dótturdag í bænum dunduðu strákarnir, Þórir aðal strákurinn, Þórir Ingi skriðdreki og Steini dengdasonur sér við að hlaða brennu hér við túnfótinn. 

Það var orðið of dimmt þegar við komum heim til þess að ég gæti séð hvað sett hafði verið á brennuna en ég vona bara að vel hafi verið tekið til í útihúsunum. 

Kemur í ljós um dagmál.

Það er bítandi kalt hér þrátt fyrir aðeins 5 stiga frost.  Rakinn hér smýgur inn í beinin svo það virkar miklu kaldara en ella.

Við mæðgur settumst inn á veitingastað í borginni og áttum ljúfa stund, hefði satt best að segja getið setið þarna allan daginn með Soffu minni.  Ekki oft sem gefst tími til að spjalla um daginn og veginn.

Góður dagur að kveldi kominn. 

  


Amma é vil ullabagg a dregga.

Hér standa kræsingar út um eyrun á heimilisfólkinu ja alla vega mér!  Ef ég heyri minnst á mat næstu daga hleyp ég á fjöll! 

Í hádeginu, þökk sé þeim speking sem fann upp tartaletturnar, var troðið í þær hangikjöti og restinni af rjúpunum.  Í kvöldmat voru hér útigrillaðar stórsteikur með tilbehör! 

Rauðvínsdreitill handa okkur en sá stutti vildi ullabagg að drekka og amman skildi ekki bops.  Hélt fyrst hann meinti rauðvín en nei, hann vildi malt og appelsín.  Hef aldrei heyrt börn nefna malt og appelsín ullabagg  enda þessi strákur spes.

Ég ætla ekkert að fara að tíunda hér allt það Nóa Siríus og Lindu konfekt svo og annað gúmmelaði sem við erum búin að hesthúsa hér á þessum þremur dögum það væri til þess að æra óstöðugan.

Aðfangadagur 2008 052

 Þessi Jóli heimsótti börnin í gær alla leið frá Íslandi og þarna heldur amma á mínum sem var ekki alveg dús enda Jóli voða rámur eftir tveggja daga stúss í eldhúsinu. En eftir að allir voru búnir að syngja Jólasveinar ganga um gólf þá hýrnaði aðeins yfir þeim stutta svo fengu þau lítinn pakka frá Kertasníki.

Í kvöld þar sem við sátum í borðstofunni og röðuðum í okkur einu sinni enn, horfði sá stutti fast á hurðina í borðstofunni og sagði:  Jólaeinninn koma attur núna?

Nei, sagði amma, nú er hann farin heim í fjöllin sín.

Horft á ömmu og sagt:  Hann koma attur seinna.

Já svaraði amma seinna.

Svo var það búið mál.  Ekki meir rætt um jóseininn.

 

Þetta voru dýrðarinnar jól hér að Stjörnusteini með litlu fjölskyldunni okkar.  Allir sáttir með sitt og friður yfir okkur öllum.

Hugur minn er núna heima með fjölskyldunni minni þar sem þau eru öll samankomin systkini mín og mamma hjá Dadda bróður og Bökku mágkonu. 

 Ég sakna ykkar allra óneitanlega mikið núna dúllurnar mínar.

 

 


Jólakveðja frá Stjörnusteini - Tékklandi

Gamla torgið jólin 2008 019

Hækkar senn á himni sól

hnekkir myrkra valdi svörtu

beri þessi blessuð jól

birtu og frið í ykkar hjörtu.

Nú senn líður að hátíð ljóss og friðar.  Héðan úr sveitinni okkar sendum við öllum ættingjum og vinum, bloggvinum og ykkur öllum sem komið hafa við hér á síðunni minni á árinu hugheilar óskir um gleðileg jól.

Gamla torgið jólin 2008 018

Megi gleði ríkja á hverju heimili og friðarljós lýsa ykkur hvar sem þið eruð í heiminum.

Gamla torgið jólin 2008 001

Vil þakka öllum mínum bloggvinum ánægjuleg kynni á árinu sem er að líða.

Gamla torgið jólin 2008 022

Blessun fylgi ykkur öllum á nýju ári 2009!

Ía og Þórir Gunnarsson

Stjörnusteini - CZ. Sternberg - Tékklandi.

 

 


Borðskreyting fyrir þá sem vilja hvorki blóm eða greni. Auðveld lausn á síðustu stundu.

Ég veit fyrir víst að sumar húsmæður eru alltaf í vandræðum með borðskreytingar.

 Jólin 2008 011 Ég reyni alltaf að finna eitthvað nýtt fyrir hver jól og að þessu sinni vildi ég hvorki greni eða blóm.  Svo mér datt í hug að skella nokkrum rauðum smákúlum í háa vasa og notaði svo seríu með kristal svona til að lýsa upp borðið.  Ef vel er gáð getið þið séð hreindýrin mín sem vakið hafa mikla athygli.  Þessi hreindýr fann ég í fyrra í körfu á gólfi í einum stórmarkaði hér og keypti fyrir slikk.

Auðveld lausn á síðustu stundu.

Borgin okkar skartaði sínu fegursta í kvöld og við nutum þess að ganga um götur hennar og njóta komu jólanna.  Set inn myndir frá Prag á morgun.

Húsverðirnir að Stjörnusteini

Þessir búálfar tóku á móti okkur þegar heim kom.

Góðar stundir gott fólk.


Afi é er a koma till-ín!

Klukkan var að verða hálf sjö í morgun og lítill gutti hringdi í afa sinn til Prag.  Hann var staddur í Leifsstöð með foreldrum sínum á leið til afa og ömmu sín.

Eitthvað hefur hann nú verið lúinn blessaður því eftir þessa setningu var hann farinn úr símanum og þá heyrðist í mömmunni:  Þórir Ingi minn ekki liggja í gólfinu.

Þetta verður langur dagur fyrir lítinn skriðdreka þar sem þau lenda ekki hér fyrr en hálf níu í kvöld. Ég býst nú við því að minn verði nú ekki par hrifinn þegar hann lendir í Köben og enginn afi að taka á móti honum.

En langþráður dagur er runninn upp. 

Nú færist líf og fjör yfir Stjörnustein.

Ætla að fara að hitta jólasveininn og sjá hvort hann á ekki eitthvað í skóinn handa tveggja og hálfs árs ömmustrák.

Njótið nú síðasta sunnudags í aðventu og elskið hvort annað.

 

 


Hugmyndin góð en......

...hefði ekki verið táknrænna að tendra blysið við styttu Jóns Sigurðssonar.  Við erum jú sjálfstæð þjóð ennþá.......

Vona að kallinn hann Kristján hafi ekki brennt sig mikið á hendinni því ef svo er leggst viðgerðarkostnaður á skattgreiðendur.

Farið vel með ykkur í dag kæru landar og farið ykkur hægt og skynsamlega.

 


mbl.is Neyðarkall frá Kristjáni IX
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband